þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Bleyjukaupandinn

Ég byrjaði að kaupa bleyjur á því herrans ári 1999 og hef gert það hlélaust síðan. Auðvitað hafa kaupin verið misör á þessu tímabili en þetta gekk þannig til að byrja með að þegar nr. 1 var að hætta að sofa með bleyju þá mætti nr. 2 á svæðið og þegar hann var að hætta að sofa með svona græju þá mætti nr. 3 og áfram hélt maður að kaupa bleyjur.
Nr. 3 er hættur að nota bleyjur á daginn, hætti núna í sumar, og gengur það bara mjög vel. Svo fórum við að taka eftir því að bleyjurnar sem við settum á hann á kvöldin voru yfirleitt þurrar á morgnana. Það var því bara eitt að gera, prófa að láta hann sofa bleyjulausan og núna er hann búinn að sofa 4-5 nætur, slysalaus. Kannski er ég að storka örlögunum með því að birta þennan pistil.
Ég er ekki farinn að kæla kampavínið ennþá, vitandi það að bakslögin eru líkleg til að mæta á svæðið. En ég væri alveg til í að þetta myndi í framhaldinu ganga eins og í sögu. Lygasögu þess vegna.

1 ummæli:

Jóhanna sagði...

Takk fyrir skutlið áðan bró... og já mér skyldist á Siggu að næturnar séu eitthvað fleiri en 4-5