miðvikudagur, ágúst 31, 2011

Ekki öll skemmtilega vitleysan eins

Stundum fær maður fjarstæðukenndar hugmyndir en er samt það klikkaður að oft þarf lítið til að ýta þeim í framkvæmd. Meistaraflokkur Grundarfjarðar komst í 8-liða úrslit í 3ju deildinni í fótbolta og lentu þar gegn Magna frá Grenivík. Fyrri leikurinn fór fram á Grenivík um helgina, þegar ég var á Egilsstöðum, og náðu Magnamenn að knýja fram 1:0 sigur í uppbótartíma. Seinni leikurinn var svo í gær, kl. 17:30 á Grundarfjarðarvelli. Það eru nú ekki á hverjum degi sem liðið hefur leikið svona alvöru úrslitaleiki, enda bara á öðru ári eftir endurvakningu. Hvað um það, mig drullulangaði til að fara en leiktíminn ekkert sérstakur verður að segjast. Maður fékk líka pepp af netinu:



Eftir að hafa viðrað þessa hugmynd við Ísak Mána og hann var meira en klár í að taka skottúr til Grundó í miðri viku þá var eiginlega ekki aftur snúið. Hálfum sumarfrísdegi fórnað í verkið og Logi Snær einnig spurður hvort hann myndi vilja koma með. Venjulega segist hann vera klár en bakkar svo út úr hlutunum þegar á hólminn er komið, a.m.k. hvað svona vitleysu varðar. Enda eru menn jú bara 7 ára gamlir. Hann sagðist vera klár og þegar á hólminn var komið þá bakkaði hann ekki og var því ekkert annað en að taka hann með. Eftir að skólinn var búinn hjá þeim bræðrum þá var bara gripin með sér ein væn hrúga af utanyfirfötum og haldið af stað. Mig minnti að spáin gæfi til kynna að það gæti verið einhver smá bleyta en þó ekkert til að æsa sig yfir. Eitthvað var það byggt á misskilningi.

Þegar við nálguðumst fjörðinn fagra þá var bara þokudrulla yfir öllu og rúðuþurrkurnar á bílnum í fullri vinnu. Mömmu leist ekkert á þetta brölt allt saman þegar við mættum á Smiðjustíginn og það voru farnar að renna á mig tvær grímur 20 mínútum fyrir leik og veðrið úti ekkert spes skulum við segja. Hitastigið var reyndar fínt, einhverjar 14-15 gráður en annað var ekki eins gott. Drengirnir voru með utanyfirföt, hlífðarbuxur o.þ.h. en ég með minna. Tók ég á það ráð að hendast inn í bílskúr og dró þar fram forláta Kraft-galla af Varða sem ég smellti mér einfaldlega í. Þannig þokkalega græjaðir fórum við gangandi út á völl enda völlurinn í göngufæri.

Allt var þokkalegt til að byrja með en Logi Snær gafst upp líklega um miðjan fyrri hálfleik og tilkynnti mér, þegar hann var búinn að fá nammi og kók, að hann vildi fara til ömmu sinnar sem hann fékk að gera. Áfram létum við Ísak Máni okkur hafa þetta og stóðum þarna hálfflissandi að vitleysunni í okkur í hálfleik þar sem rigningin sem kom með hliðarvindinum barði á okkur, heimamenn 0:1 undir, báðir orðnir hundblautir til fótanna og eitthvað að vatni farið að finna sér leiðir í gegnum utanyfirfötin. Heimamenn hresstust þó í síðari hálfleik og náðu að jafna leikinn en það vantaði herslumuninn til að setja þessi tvö mörk sem þurfti til að komast áfram í undanúrslitin.

Eftir leik skriðum við heim og það var ekkert annað í boði en að rífa af sér fötin inní bílskúr. Logi Snær var í góðu yfirlæti en við Ísak Máni í aðeins verri málum. Það var bara hent í sig smánæringu og síðan þurftu menn að koma sér í eitthvað svo hægt væri að bruna aftur í bæinn. Öllu blauta draslinu var troðið í poka og ég var með gamla gervigrasskó staðsetta á Smiðjustígnum sem ég gat farið í, sokkalaus reyndar, í hálfrökum gallabuxum og flíspeysan bjargaði mér frá því að þurfa að vera á kassanum. Svona útbúinn keyrði maður aftur heim en það gekk samt rosavel, drengirnir lásu bara Syrpurnar sínar og við vorum mættir heim kl rúmlega 22. Allir frekar krumpaðir í morgun en ég get hlegið að þessu núna.

Maður lifir bara einu sinni, um að gera að nota þann tíma sem maður hefur í eitthvað sniðugt.

2 ummæli:

Gulla sagði...

Þið eigið eftir að lifa á þessari ferð lengi - frábært hjá ykkur

Tommi sagði...

Alvöru aðdáendur.... Svona á þetta að vera :D