laugardagur, nóvember 12, 2011

Dublin, Írland

Þurfti að bregða mér til Dublin í vikunni sem er að líða. Samnorrænn sveskjufundur, ekki orð nánar um það.

Aldrei komið til Írlands áður.

Ég held það sé sama hvar þú býrð þá séu væntanlega alltaf ákveðnir kostir en á móti ákveðnir gallar. Mér fannst svolítið fúlt að fyrir einn dag í Dublin þurfti ég vera mættur upp í flugvél klukkan 09:00 daginn fyrir þennan eina dag og lenda svo í Keflavík kl 17:00 daginn eftir þennan eina dag.

3 dagar fyrir 1.

Þegar ég vissi að þetta stæði til þá hafði ég smá von að ég gæti flogið beint með einhverju kvenfólki á leið í "power-shopping-ferð" frá Íslandi en komst svo að því að þetta er víst ekki eins vinsæll viðkomustaður eins og hérna fyrir einhverjum árum. Það þýddi bara Keflavík-London-Dublin fyrir mig og sama leið til baka.

Ferðalagið út eftir gekk svona stórslysalaust fyrir sig. Gleymdi reyndar að láta taka einhverja mynd af mér í London sem kom ekki í ljós fyrr en ég var á leiðinni út að hliðinu. Þurfti þá að taka þennan þvílíka sprett einhverja bakleið og hlaupa svo aftur í gegnum allt öryggisdraslið eftir að búið var að smella mynd af karlinum og mætti svona líka pungsveittur þegar verið var að boarda í vélina. Sem betur fer var frekar raðalítið í þessari seinni umferð minni. Ég fékk ekki nafnið mitt kallað upp í hátalakerfinu sem hefði náttúrulega bara verið kúl. Get brosað að þessu núna en mér var enginn hlátur í huga þegar ég hljóp þarna dimman bakgang og fann hvernig svitaperlurnar fóru að spretta fram úr enninu.

Get ekki sagt að ég hafi séð nokkuð af Dublin svo heitið getur. Fór út að borða fyrra kvöldið, á lítinn stað við sjóinn og það var ekki hægt annað en að taka sjávarréttina á þetta. Hörpuskel í forrétt en ég hef ekki hugmynd hvað ég át í aðalrétt enda fiskienska mín ekki alveg sú besta. Enda kannski aukaatriði, þetta bragaðist nokkuð vel.

Að öðru leyti hef ég ekki úr miklu að moða. Ég veit reyndar ekki alveg með þessa skólabúninga þarna..., ...eða ég veit svo sem alveg hvað mér finnst um þetta en ég held að ég haldi þeirri skoðun bara fyrir mig. Svo tókst mér að bjarga deginum hjá einhverri ungri dömu sem flissaði þessi lifandi ósköp þegar ég, eins og algjör hálfviti, stóð á gatnamótum og beið eftir græna karlinum. "Just go over" lét hún mig heyra þegar hún valhoppaði á milli bílanna. Ég veitti því svo athygli það sem eftir lifði ferðar að það beið ekki kjaftur á gatnamótum, menn létu sig bara hafa það. Ég reyndi bara að muna að líta til vinstri.

Heimferðin í gær gekk ágætlega. Þurfti reyndar að vakna kl 04:15 enda átti vélin að fara 07:05 en þegar á reyndi þurftum við að chilla út í vél í einn og hálfan tíma áður en hægt var að leggja af stað sökum þoku í London. Skipti ekki öllu máli, það stytti bara tímann sem ég þurfti að hanga á flugvellinum í London. En þar var ég sem sagt þann 11.11.11 kl 11:11. Hluti af U-21 fótboltalandsliðinu var svo á leiðinni heim eftir 5:0 tap á móti Englandi. Þeir voru samt hressir.

Nú fer utanlandsferðunum að ljúka í bili.

Ekki alveg strax samt.

1 ummæli:

Villi sagði...

Hmm, bara að benda þér á að bróðir þinn bjó á Írlandi í tvö og hálft ár einu sinni. Ekki var mætt í heimsókn, sei-sei-nei.

En með rauða kallinn. Einhvern tímann sá ég nunnu skokka yfir á rauðu í Dublin. Þá hugsaði ég að þetta hlyti nú að vera í lagi fyrir okkur hin.