laugardagur, mars 10, 2012

Engir útlendingafordómar samt...

Karlinn er búinn að vera þokkalega duglegur að mæta á leiki hjá ÍR í körfunni þennan vetur, enda ársmiðahafi eins og í fyrra.  Ísak Máni hefur svona yfirleitt verið minn fylgarsveinn á þessa leik, við höfum líka látið sjá okkur á eitthvað af útileikjunum, svona þegar það hefur hentað.  Úrslitin hafa ekki verið að detta með okkur og þegar þetta er skrifað eru þrír leikir eftir af deildarkeppninni og ýmislegt þarf að ganga upp til að við skríðum inn í úrslitakeppnina.
Það var útileikur í gær, við Stjörnuna í Ásgarði, en Ísak Máni var forfallaður enda í afmæli hjá félaga sínum.  ÍR nýlega búnir að fá sér nýjan kana, Rodney Alexander, og er sá sannkallaður háloftafugl en ég var búinn að missa af síðustu leikjunum og því ekki búinn að sjá kappann í action.  Logi Snær var til í að kíkja með karlinum svo að við félagarnir kíktum í Garðabæinn.
Okkar menn höfðu 4ra stiga sigur í háspennuleik, Alexanderinn átti a.m.k. tvær flugferðir sem enduðu með suddatroðslum og við erum s.s. enn á lífi í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.  Án þess að ætla að fara eitthvað að ræða þennan leik þá er eitt sem er svolítið að plaga mig varðandi íslenska körfuboltann, það eru þessi blessuðu útlendingamál.  Ég skal alveg viðurkenna að ég man nú ekki nákvæmlega reglurnar um fjölda útlendinga sem hvert lið má tefla fram, veit að tveir kanar eru leyfðir en svo held ég að það séu engar, eða a.m.k. litlar, hömlur á menn sem hafa evrópst vegabréf.  Mér hefur fundist þetta komið út í öfgar hjá mörgum liðu, maður hefur séð 4-5 erlend nöfn á nafnalista hjá liðum.  OK, einhversstaðar eru menn komnir með íslenskan ríkisborgararétt sem teljast þá víst sem innlendir.

Útlendingar eru af því góða fyrir þessa deild, mér dytti ekki að halda nokkru öðru fram, ég er búinn að lýsa því hvernig nýji kaninn hjá ÍR var svona helsti drifkrafturinn í að drösla mér upp í Ásgarð í gær.  En við erum að tala um körfubolta, það eru fimm manns inná í einu í hvoru liði og liðin mega vera með tólf manns á skýrslu.  Mín skoðun, í talsverðan tíma, hefur verið sú að leyfa tvo útlendinga, punktur.  Ég veit að ég er örugglega að tala á móti einhverjum evrópskum lögum um frjálst flæði atvinnulífs en mér er bara alveg sama, það hlýtur að vera hægt að fiffa það eitthvað til.  Ef þú getur ekki hnoðað saman tíu hræðum sem geta dripplað bolta í bland við tvo útlendinga þá þarf bara að fara í einhverja naflaskoðun á starfi klúbbsins.  Í leiknum í gær var einn einstaklingur, af þeim tíu sem hófu leikinn fyrir bæði lið, uppalinn hjá viðkomandi klúbbi.  Aðrir voru erlendir leikmenn eða aðkeyptir íslenskir leikmenn frá öðrum félögum.  Mér finnst einfaldlega skilaboðin sem verið er að senda niður í yngri flokkana vera sú að þú þarft að vera helv... framarlega á þínu sviði til að eiga nokkuð breik í að fá tækifærið á stóra sviðinu hjá þínu félagi.  Enda hefur maður, á þessum ca þremur árum sem ég hef verið nokkuð grimmur í að mæta á leiki og fylgst með starfinu hjá ÍR, heyrt af og séð nokkra efnilega drengina einfaldalega hætta þegar þeir eru komnir á það stig reyna að banka á meistaraflokksdyrnar.  Snýst þetta um aukna kröfur á árangur strax?  Hafa menn ekki tíma til að byggja upp lið?  Svo ég haldi áfram að tala um hverfisklúbbinn, get ekki mikið dæmt önnur félög, þá hafa þeir þessi síðustu ár verið að ströggla við að komast í úrslitakeppnina til þess eins að láta fleygja sér út í fyrstu umferð.  Væri ekki hægt að ná þeim "árangri" með því að leyfa uppöldu kjúklingunum að spila örlítið meira?

Bara pæling.

Engin ummæli: