laugardagur, mars 31, 2012

Reiðhjól á Íslandi þá og nú

Bara til að hafa það á hreinu þá snúast þessar hugrenningar mínar ekki um að ég sé eitthvað að svekkja mig á útlögðum kostnaði sem tengist mínum blessuðu börnum.  Ég hef ekki séð á eftir krónu sem fer í mat, föt, leikföng, skóla- og tómstundarkostnað o.s.frv.  Maður reynir vitaskuld að gera hlutina á hagkvæman hátt sé þess einhver kostur og ef um mikinn kostnað er að ræða þá skoðar maður helstu kosti í stöðunni og tekur ákvörðun byggða á einhverju mati.  Vill meina að þessi pistill snúist frekar um kaupmáttarstöðu landsmanna og eflaust væri hægt að taka einhverja gjaldeyrispælingar í framhaldinu, tengja það við launaþróun og fá út einhverja niðurstöðu en ég held að ég hætti mér nú ekki út á þá braut.

Málið er að Ísaki Mána vantaði nýtt reiðhjól, gamla græjan komin með sætisrörið alveg í toppstöðu og ekki hægt að bjóða upp á þetta á komandi sumri.  Hann býr að því að vera frumburður og fær þá yfirleitt ný hjól sem ganga niður goggunarröðina.  Með því að hann fái nýtt hjól þá fær Logi Snær líka "nýtt" hjól, eða öllu heldur gamla hjólið hans Ísaks.  Greyið Daði Steinn, helsta von hans er að Logi sé þeim mun meiri böðull sem komi til með að ganga frá þeim græjum sem gangi til hans frá Ísaki og þar með verði að kaupa nýtt fyrir Daða.

Ég held að ég sé frekar lélegur neytandi.  Verðvitund mín á flestum hlutum er frekar slæm og ef ég nenni ekki að vinna neina rannsóknarvinnu þá má oft selja mér þá hugmynd að ákveðnir hlutir eigi að kosta eitthvað ákveðið.  Hvað reiðhjól varðar þá bý ég að því að hafa starfað við sölu á þessu og man því, merkilegt nokk, eitt og annað úr bransanum.  Eftir að hafa tekið rúnt í vikunni á þessar helstu sérverslanir, Markið, Örninn og GÁP þá komst ég að því að ódýrasta fjallahjólið í fullorðinsflokki (dugar ekkert minna fyrir Ísak Mána) kostaði á öllum stöðunum 59.900 kr.  Sem er helv... mikið að mér finnst, án þess að taka þá pælingu lengra af hverju þau kosti það sama á öllum stöðum.  Ég tók opna hugann á þetta og kíkti í Hagkaup og Byko til að athuga hvort það leyndist eitthvað þar sem hægt væri að notast við.  Ekki reyndist það svo, úrvalið þar nánast ekkert og vonlaust að hitta á einhvern starfsmann sem vissi hvað snéri fram eða aftur á reiðhjóli eða sýndi manni einhvern vott af áhuga í þessum pælingum.  Til að gera langa sögu stutta þá fundum við grip sem drengurinn var sáttur við og rúmlega 60.000 kr hurfu af reikningnum mínum á örskotsstundu.

Sem kemur þá að því sem mér svíður mest.  Þegar ég var í þessum bransa fyrir 12-14 árum þá voru ódýrustu hjólin í þessum flokki að kosta ca 23.000 kr - 25.000 kr.  Veit ekki hvort menn voru graðari í innkaupum þá en það var alla vega oft hægt að fá afganga frá því sumrinu áður með 20-30% afslætti af þeim verðum á þessum árstíma.  Það var ekkert sem heitið gat á þessum rúnti mínum í þetta skiptið.  Ég hristi bara hausinn þegar ég rak svo augun í verðmiðann á minnstu tvíhjólunum sem kostuðu 8.900 kr back-then, 23.900 kr árið 2012.

Blákaldur raunveruleikinn og ég gat ekki annað en spurt sjálfan mig að því hvar í fjandanum ég væri staddur.

2 ummæli:

Villi sagði...

Grænmetisverðssamráð og olíuverðssamráð ... og núna reiðhjólaverðssamráð. Þessir kallar hittast ábyggilega í hádegismat í ársbyrjun og leggja línurnar.

Í fyrra gekk ég í Fjallahjólaklúbbinn og fékk 15% afslátt hjá GÁP á hjóli fyrir Rúnar Atla. Þótti það ágætt gegn 2.000 kr félagsgjaldi.

Jón Frímann sagði...

Ég hef það eftir áreiðanlegu heimildum úr Erninum að þeir lækkuðu álagniinguna á sínum hjólum til að koma til móts við neytandann. En það skýrir svo sem ekki verðið í öllum búðum. En allaveg mun ég ekki kaupa neitt annað er Trek á þetta heimili, seldi hjólið sem að guttinn á það fór samstundis og leit út eins og nýtt. Hef séð hjól keypt á sama tíma í Hagkaup og Byko og þau voru ekki merkilegur pappír. Tel að maður eigi að kaupa gæðavörur í eþssum efnum, oftast er þetta lengur í ábyrgð, þjónustan betri og oftast reynast þessi hjól betur í endursölu.