laugardagur, febrúar 17, 2007

Lyklabarn

Stundum gera börnin einhverja tóma gloríur sem eru síðan fyndnar... eftir á! Fimmtudagurinn byrjaði eins og flestir aðrir virkir dagar, fjölskyldumeðlimirnir skriðu á fætur og gerðu sig tilbúna fyrir daginn. Breiðholtsskólatvennann fór á undan út úr húsi og við Logi Snær gerðum okkur klára fyrir leikskólann. Þetta var orðið bara spurning um hefðbundnu fernuna áður en við fórum út: Veskið, símann, húslyklana og bíllykilinn. Já, já, já, ...... Hvar var helvítis bíllykillinn? Hann var pottþétt ekki í neinum vasanna af þeim lufsum sem ég stóð í. Ekki í skálinni á kommóðunni og ekki á eldhúsborðinu. Ekki í neinum öðrum flíspeysu- eða jakkavasa inni í útifataskáp.

Hummm.

Ekki inni á borðstofuborðinu og ekki á sófaborðinu. Ekki í sófanum. Ekki inni á klósetti og ekki inni í hjónaleysisherberginu.

Lít á klukkuna. Fer annan hring á alla þessa staði. Ekkert.

Lít aftur á klukkuna. Fæ nettan kvíðahnút. Þetta hefur gerst áður en alltaf hef ég grísað á að finna lykilinn. Af hverju er ekki hægt að hringja í lykilinn? Fer þriðja hringinn á alla þessa staði, núna mun hraðar og með meiri stresstilburðum en áður. Ekkert. Logi stendur kappklæddur inn í forstofu, enda vorum við nánast á leiðinni út um dyrnar. Hann fer að kvarta yfir hita. Mér er líka orðið heitt, öðruvísi heitt.

Tek ákvörðun um framhaldið. Tek Loga undir hendina og skokka með hann út á leikskóla. Tek síðan stefnuna á Breiðholtsskóla þar sem konan fór á fjölskyldubílnum. Finn bílinn á bílastæðinu og fer á honum í vinnuna. Finn aukalykilinn af vinnubílnum niðri í vinnu og fer aftur með fjölskyldubílinn á bílastæði Breiðholtsskóla og hleyp heim til að ná í vinnubílinn.

Dagurinn líður og ég passa bíllykilinn alveg extra vel. Heyrði síðan í konunni sem var fljót að kveikja á perunni. "Var Logi Snær ekki að troða lyklinum inn í stóru gröfuna sína í gær?" Þá kveikti ég á perunni, mín virkar greinilega aðeins seinna en pera konunnar. Ég hafði meira að segja verið að aðstoða hann við þessa iðju kvöldinu áður. Þegar ég kom heim þá fór ég beint að stóru gröfunni hans Loga og dró bíllykilinn góða úr henni.

Lærdómur af þessari sögu: Það er gott að búa í Neðra-Breiðholti þar sem allt er í göngufæri.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hahhahahhaahaaa

Nafnlaus sagði...

Ha - ha - ha - ha, þetta er baaaara fyndið - ég hefði viljað sjá framan í kallinn þarna.

Nafnlaus sagði...

Það er hægt að fá svona sendi á lyklana og vera svo með tæki sem nemur sendinn, en þá er líka að muna hvar maður setur tækið.

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er aldurinn, það verður lengur og lengur að kvikna á perunni eftir sem aldurinn færist yfir, láttu mig vita það.