mánudagur, ágúst 11, 2008

Öllu tjaldað til

Ísak Máni var að keppa núna um helgina með ÍR á Sauðárkróki á svokölluðu Króksmóti eða eins og Logi Snær kallar það, Crocsmótið. Fórum síðast í útilegu árið 2002 og við fengum sama tjald lánað, djásnið hans Villa sem er líklega ´86 módelið, þ.e. tjaldið ekki Villi. Ég fékk mér smá frí og við gátum því rúllað okkur af stað bara snemma á föstudeginum, fundið okkur þægilegan stað fyrir tjaldið o.s.frv. Eftir að hafa tekið smá rúnt um bæinn tók ég Siggu loksins trúanlega og keypti það að við höfðum verið þarna áður, í síðusta tjaldævintýri þarna 2002. Fengum okkur að borða í Ólafshúsi eins og síðast.

Lítið mál að tjalda í sjálfu sér, það hékk a.m.k. uppi þessa helgi. Grundvallaratriðið var þó að það rigndi ekki, ég hefði ekki boðið í það. Það var betra að vera í tjaldi þegar sólin skein, mér skilst hinsvegar að hitinn hafi farið niður í 4 gráður þessar nætur og stemmingin var ekkert ærandi þegar maður skreið framúr þessa morgna. En þegar kakóið var farið að kicka inn og sólin braust fram þá jókst nú stemmingin.

Spilamennskan hjá Ísaki Mána var fín en þarna voru lið sem hann er alla jafna ekki að spila við eins og Þór, KA, Tindastóll, Kormákur o.s.frv. Hann var reyndar færður upp úr C-liðinu yfir í B-liðið strax eftir fyrsta leik því eitthvað voru fáir tilbúnir að standa þar á milli stanganna. Mér leist svona la-la á það því þarna var hann að spila við stráka sem eru árinu eldri en hann og talsvert öflugari en þeir D-liðsmenn sem hann hefur yfirleitt verið að spila með og við. Þetta gekk samt allt í lagi, hann var samt greinilega svolítið stressaður strákurinn enda annt um álitið gagnvart eldri strákunum. Lenti einu sinni illa í því, tók nettan Taibi á þetta en fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það martröð allra markvarða, missa boltann eftir skot fyrst milli handanna á sér, svo í gengum klofið og þaðan í netið. Rosalega var erfitt að standa upp og horfast í augu við samherjana eftir það...

En það sem drepur þig ekki styrkir þig og hann hélt nú hreinu í tveimur leikjum og þeir lentu í 6. sæti af 14 liðum sem verður að teljast alveg fínn árangur.

Er það bara ég eða var tjaldið okkar eins og krækiber í helvíti? Spurning líka hvort aðrir á tjaldsvæðinu séu að forðast okkur?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held að ástæðan sé nú frekar að menn hafa ekki viljað keyra yfir EINA tjaldið á svæðinu á Range Rovernum sínum með hjólhýsið hangandi aftaní.

Allir með skuldahala aftan í bílnum.

Svo gæti ástæðan líka verið að... tjah, svona miðað við útlitið á tjaldinu að fólk hafi búist við einhverjum afdala hippum standandi á brókinni fyrir utan tjaldið... Ég myndi persónulega tjalda í hæfilegri fjarlægð frá svona löguðu.

Nafnlaus sagði...

Ég yfir höfuð læt ekki sjá mig í tjaldi, fellihýsi, húsbíl eða hvað allt sem þetta drasl heitir. ojjja bjakk... þá vill ég heldur uppábúið rúm í hlýju og góðu herbergi og fá morgunmatinn í rúmið

En til að svara innlegginu þá er þetta mega flott tjald