laugardagur, ágúst 23, 2008

Magnaðir hlutir í tengslum við menningarnótt

Við létum okkur hafa það þrátt fyrir misjafnt veður og smelltum okkur á ÍR völlinn í dag til að sjá heimamenn etja kappi við Magna. Vallarþulurinn, sem oft getur verið nokkuð hnyttinn, bauð „alla þessa fjölmörgu áhorfendur“ á völlinn en í þeim töluðu orðum hjá honum voru 7 manns mættir á pallana, þar af við fjögur. Talaði um þessa tegund af stundvísisleysi um daginn. Hvað um það, þarna hékk maður og fékk eitthvað fyrir allan peninginn svo ekki sé meira sagt. 6:2 sigur okkar manna, 16. sigurleikurinn í 17 leikjum í deildinni og 1. deildarsæti að ári gulltryggt. Það sem gerði þetta enn fremur að stórmerkilegum viðburði var að framherji ÍR, Elías Ingi, setti 4 mörk en tókst að misnota þrjár vítaspyrnur! Þær voru allar varðar en honum tókst þó að ná frákastinu í því síðasta og setja síðasta markið. Maður gat nú ekki annað en brosað út í annað þegar maður hélt heim á leið alveg holdvotur.

Man eftir einu svona dæmi að sami leikmaðurinn hafi klúðrað þremur vítaspyrnum í sama leiknum, Martin Palermo, í leik með argentínska landsliðinu í Copa America 1999. Sá leikur var sýndur á gömlu Sýn en þessir leikir voru seint um nætur og maður var ekki mikið að vaka eftir þeim. Hemmi Gunn og Logi Ólafsson voru víst að lýsa þessum leik og fóru alveg á kostum heyrði maður hjá þeim sem urðu vitni af.

Ætluðum bara að taka því rólega í kvöld en Ísak Máni fékk allt í einu áhuga á að fara á Menningarnótt og við drifum okkur því niður í bæ og tókum einn hring. Vorum í seinna fallinu en fengum vott af stemmingunni. Held bara að við höfum aldrei farið niður í bæ þegar þessi viðburður hefur verið en mér sýnist að sögur af unglingadrykkju séu á rökum reistar, ansi margir ungir þarna að ráfa um. Engin orka til að bíða eftir einhverri flugeldasýningu, hérna voru menn nánast sofnaðir við eldhúsborðið þegar boðið var upp á síðbúið kvöldkaffi þegar heim var komið.

Svo þurfa menn líka að vakna snemma í fyrramálið til að hvetja íslenska handboltalandsliðið...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

shit hvað munaði litlu að ég las þennan pistill.. fjúfff maður

Farin að sofa