mánudagur, september 08, 2008

Markakóngur

Það er alltaf gaman þegar manni er komið ánægjulegt á óvart. Tala nú ekki um þegar börnin manns eiga í hlut.

Ísak Máni var að keppa á fótboltamóti í dag, eitthvað haustmót á vegum KSÍ í Egilshöll. Fyrir fyrsta leik tók hann á sig rögg og bað þjálfarann um að setja sig í fremstu víglínu, staða sem hann hefur afar sjaldan fengið að spila en hann hefur meira verið í vörn og marki. Það varð úr, fremsti maður í leik á móti Val. Byrjaði á því að fá þetta líka úrvalsfæri en hitti ekki rammann. Hausinn seig svolítið og pabbinn bað æðri máttarvöld um þó ekki væri nema eitt mark handa stráknum svo þetta yrði nú ekki bara böl. Einhver hefur verið að hlusta og strákurinn náði að setja eitt, úr talsvert erfiðara færi en því sem misfórst og hausinn reis upp. Valur jafnaði áður en Ísak Máni smellti inn sigurmarkinu. Skoraði svo eitt mark í næsta leik líka en var svo í marki í leik nr. 3, í þeim eina sem tapaðist. Fékk að fara fram í síðasta leikunum og sagði við pabba sinn að hann ætlaði að skora þrennu en karlinn reyndi nú að halda sínum niðri á jörðinni. Iss, 4:1 sigur á móti Þrótti og Ísak Máni með öll kvikindin. 7 mörk í þremur leikjum sem útispilari og hann snerti varla jörðina á leiðinni út úr höllinni.

Ég er ekki að sjá að hann fáist til að spila einhverja stöðu á sínum eigin vallarhelming í bráð.

Engin ummæli: