Skellti mér í helgarferð til Englands um síðustu helgi. Fótboltaferð með nokkrum vinnufélögum, svipaður hópur sem hefur farið í nokkrar ferðirnar, bætist heldur í hann en hitt enda gleðin í fyrirrúmi. Ég er reyndar búinn að setja mér það takmark að telja saman þessar ferðir og leiki svona áður en um langt líður. Skemmtilegra að vera með þetta á hreinu. Við skulum bara lofa þeirri bloggfærslu eigi síðar en í janúarlok 2012.
Flugum út á föstudagsmorgni og gistum á hótelinu á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, ekki í fyrsta skipti en hópurinn telur m.a. tvo grjótharða Chelsea aðdáendur sem þekkja þetta eins og handarbakið á sér. Dagskráin var að taka Reading - Cardiff á laugardeginum en Chelsea - Liverpool á sunnudeginum. Menn verða að taka tvo leiki í svona ferð, til að réttlæta kostnaðinn viljum við meina. Við höfðum gælt við það að ná úrvalsdeildarleik á laugardeginum en þegar sú athugun fór í gang kom í ljós að það var ekkert að gerast í London á þeim degi. Reyndar voru uppi hugmyndir að fara á Millwall - Bristol City, bara til að geta sagt hafa farið á leik með Millwall en þeir eru þeir snarvitlausustu á Bretlandseyjum og þótt víðar væri leitað. Sá leikur var svo færður yfir á sunnudaginn, kannski sem betur fer, svo það féll um sjálft sig. Þannig að Reading var fyrir valinu, annað skipti sem við förum þangað enda einn úr hópnum með góða tengingu við Brynjar Björn, leikmann Reading sem reyndar var ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla. Svo var Aron Einar Gunnarsson að spila með Cardiff þannig að þetta hljómaði ágætlega.
Klukkutíma rúntur frá Chelsea yfir til Reading á laugardeginum og við vorum komnir þar í tíma. Fengum okkur eins og einn kaldann og spjölluðum við gesti og gangandi á stuðningsmannabarnum, þægileg fjölskyldustemming þarna og flestum finnst mjög gaman að tala um hvernig standi á því að Ísland eigi svona marga góða fótboltamenn. Svo fengum við að fara til þarna bakatil í players lounge-ið, sem var nú óttarlega dapurt miðað við hvað ég hefði getað ímyndað mér. Fínn leikur, reyndar 1:2 tap heimamanna en stuðningur gestanna sem sátu rétt hjá okkur var með því flottara sem ég hef séð, sungu megnið af leiknum og stuðningsmenn heimamanna áttu ekki roð í þá. Það er hægt að sjá sýnishorn af því -HÉR-. Sáum einhverja leikmenn þarna inn á lounge-inu eftir leikinn. Íslendingarnir tveir voru þarna og svo voru einhverjir karlar þarna, markmaðurinn Adam Federici, fyrirliðinn Jobi McAnuff og Noel Hunt. Ekki stærstu nöfnin í boltanum enda var lítið að kveikja í mér í leikmannalistinn. Sáum reyndar svo skoska framherjann Kenny Miller sem spilar með Cardiff.
Styttra ferðalag á sunnudeginum, nokkur skref frá hótelinu yfir á völlinn. Búið að loka hinum margfræga So Bar sem bullurnar stunduðu þannig að við röltum yfir á Imperial sem er á Kings Rd, þar sem stemmingin er. Ekki alveg eins sveitt eins og gamli So en slapp alveg, maður er farinn að kannast við nokkra Chelsea söngvana. Vorum í fínum sætum á vellinum og leikurinn alveg ágætur, aftur fengum við 1:2 útisigur þannig að stemmingin varð kannski ekki eins og hún hefði geta orðið. Chelsea-menn mega nú eiga það að það er flott að hafa hótel svona á vellinum, skapar líf í kringum þetta eins og eftir leikinn. Það var stemming fyrir því að safna fleiri myndum af okkur með celebs en við náðum að smygla okkur niður í bílakjallarann og sáum á eftir Didier Drogba setjast inn í bílinn sinn en gengum í flasið á Jose Bosingwa og Raul Meireles þannig að það slapp áður en okkur var vinsamlegast bent á að hypja okkur sömu leið til baka af öryggisvörðunum.
Mánudagurinn var svo heimfarardagur þar sem það helsta gerðist að bílstjórinn sem starfsmaður hótelsins pantaði fyrir okkur til að keyra okkur upp á flugvöll hélt að við værum að fara í einhverja skoðunarferð á heimavöll Arsenal. Þetta kom í ljós eftir ða ferðin hófst en einn ferðafélaginn áttaði sig á því að við vorum að fara í vitlausa átt og þá kom þetta í ljós. Það þýddi bara U-beygju á staðnum, blót í sand og ösku frá bílstjóranum en allt hafðist þetta í tíma.
Utanlandsferðalistinn tæmdur í bili, þetta hefur verið ansi hressilegt með 4 ferðir á einhverju 6 vikna tímabili. Ég held að ég hafi sagt þetta síðast en nú segi ég það aftur, næsta fótboltaferð mun innihalda leik á Old Trafford, segi og skrifa það.
þriðjudagur, nóvember 22, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Já ok.... velkomin heim aftur!
Á að skella sér í "Íslendingar með frægum" á .net???
Hmm, menn svolítið með stjörnur í augunum?
Skrifa ummæli