Þá er það skollið á. Hið árvissa 7. flokksmót í fótbolta sem er haldið upp á Skaga. Ísak Máni fór í fyrra með ÍR þrátt fyrir að vera enn í 8. flokki en hópur í hans aldurflokki fékk að fara þrátt fyrir að vera, eins og fyrr segir, enn í 8. flokki. Maður sér alltaf betur og betur í svona ferðum hvað það er flott að vera í stórum klúbbi en samt ekki of stórum. Í liðum sem eru í stórum hverfum í Reykjavík eins og Breiðablik og Fjölnir þá eru oft svo margir strákar að æfa að það er ekki hægt að fara með nema elsta árganginn á svona mót. Talandi um Skagamótið þá á Ísak Máni möguleika á að fara 3svar, ef hann fer á næsta ári, en sumir í margmennaklúbbunum fá bara tækifæri á einu skipti. Nóg um það.
Best að byrja að tala um veðrið. Í fyrra var þvílíkt slagverður að manni stóð ekki á sama. Allir blautir, kaldir og þreyttir eftir volkið en furðulega sáttir samt eftir að hyggja. Núna þorði maður ekki að spá í veðrið fyrr en jákvæðar fréttir fóru að berast í veðurfréttatímum í byrjun vikunnar. Sagt er að myndir segji oft meira en þúsund orð og því ákvað ég að birta bara tvær myndir af þessum atburðum, önnur er tekin 2005, hin í dag. Þið finnið út úr þessu hvor er hvað.
Þrír leikir í dag hjá Ísaki Mána og félögum í ÍR. Þeir unnu HK í fyrsta leik 4:0, tóku svo hálfdofin grey frá Njarðvík 15:0 áður en þeir lögðu FH 3:2 í miklum baráttuleik þar sem orkugeymarnir voru alveg að tæmast. Reyndar eru reglurnar þannig að leikirnir eru aldrei skráðir með meira en 3ja marka mun og því teljast leikirnir við HK og Njarðvík sigraðir 3:0. Snillingurinn minn spilaði í vörninni eins og venjan er, númer 5 eins og meistari Rio Ferdinand og stóð sig vel. Toppurinn í dag var nú samt leikurinn gegn Njarðvík þar sem þjálfarinn setti hann í það hlutverk að taka vítaspyrnur. Þeir fengu tvær slíkar og setti guttinn þær báðar inn, í sitt hvort hornið en í millitíðinni hafði hann sett eitt mark í opnum leik og skoraði því þrennu en markaskorun hefur nú ekki verið hans sterkasta hlið, enda oftast í vörninni. Það var yndislegt að heyra hann lýsa þessu fyrir mér eftir leikinn og hann var að reyna að útskýra einhverja tilfinningu þegar hann stóð fyrir framan vítapunktinn en fann bara ómögulega orð til að lýsa henni. Ég gat ekki skilið annað en að hann hafi bara verið stressaður en hann kláraði þetta með stæl. Sigga lét hafa sig út í það að vera farastjóri og þess vegna gistir hún með liðinu í öðrum grunnskólanum hérna í bænum en við Logi lifum í vellystingum í 3ja hæða einbýlishúsi með nettengingu og afruglaranum að heiman. Hvað um það, áframhald á mótinu á morgun og verður það eflaust eitthvað þyngra þar sem þar mætast þau lið sem unnu riðlana sína í dag en vonandi gengur það bara vel.
Því miður er eitthvað helv... vesen á þessari blessaðri myndasíðu en ég vona að það leysist fljótlega svo ég geti sett inn eitthvað af myndum. Þið getið þó klikkað á þessar myndir sem eru hérna til að fá þær stærri.
föstudagur, júní 23, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli