laugardagur, júní 24, 2006

Skagamótið 2006 - Dagur 2

Ég held að ég sé helsólbrunninn í framan. Sól og svöl gola eru kjöraðstæður fyrir mann að sólbrenna, maður verður ekki var við neitt fyrr en maður fer inn og finnur þá hvernig hitinn magnast í andlitinu og það er sárt að gretta sig. Það var sem sagt ekkert að veðrinu í dag heldur.

D-lið ÍR hóf leik í svonefndri íslensku deild upp úr hádeginu í dag en svo nefndist deild hinna bestu, þ.e. þeirra sem best gekk í gær. Þetta hóf reyndar með einhverjum aukaleik við FH til að öll liðin fengju jafnmarga leiki. Honum lauk með markalausu jafntefli. En svo hófst alvaran. Spiluðu við Breiðablik þar sem 2:1 sigur hafðist. Átti drengurinn flottan leik, bjargaði m.a. á línu og kórónaði síðan leik sinn með því að setja sigurmarkið af vítapunktinum, ískaldur. Hans fjórða mark í keppninni og það þriðja úr víti. Fóru svo tveir erfiðir leikir í hönd, 6:0 tap fyrir Keflavík og 12:2 tap fyrir Fylkir sem eru víst færðir til bókar sem 3:0 og 5:2. Það var greinilegt að þreytan var farinn að segja til sín án þess að það hafi ráðið einhverjum úrslitum. Enn verð ég að vísa í ummæli mín um fjölmenna klúbba, það er nokkuð ljóst að einhverjir leikmenn í Keflavíkurliðinu og Fylkisliðinu hefðu hæglega komist í A-liðið hjá ÍR. Lokaleikurinn á morgun gegn Grindavík, vonum að strákarnir nái að enda þetta vel. Þá enda þessi herlegheit með grilli og mótssliti fljótlega upp úr hádegi. Þá verður þetta líka orðið ágætt bara og ég held að allir verði sáttir í leikslok, í raun aðalatriði helgarinnar.



Margir landsfrægir menn á svæðinu, helstur verður líklega að teljast sjálfur Eiður Smári en ég held að guttinn hans sé að spila með HK. Mögnuð þolinmæði sem kappinn hefur sýnt með krakkahópinn á eftir sér og pabbarnir með myndavélarnar á lofti. Það voru orðnar ansi margar teyjur með áritun frá leikmanni númer 7 hjá Barcelona upp á Akranesi í dag. Ekki hægt annað en að taka ofan fyrir mönnum sem tapa sér ekki þótt þeim gangi vel.

Engin ummæli: