mánudagur, maí 21, 2007

Brauð frá Austur-Evrópu gott í mávana

Ég fór með drengina niður á tjörn í gær, hérna á heimilinu er alltaf minnst á það öðru hvoru að fara að gefa öndunum brauð en oftar enn ekki verður minna úr þesskonar framkvæmdum. Verðurspáin fyrir daginn var góð framan af degi en rigning um eða eftir hádegið og því var ekkert verið að tvínóna við þetta heldur drifu menn sig af stað fyrir hádegi. Eitt sem óhjákvæmilega þarf að gera fyrir þessa athöfn er að redda sér brauði. Ég ákvað að vera ekkert að keyra niður í bæ og finna einhvað bakarí heldur smellt ég mér bara í mitt hverfisbakarí og sjá hvort ég gæti ekki reddað tveimur dagsgömlum brauðhleifum eða svo. Starfsstúlkan í bakaríinu var öll af vilja gerð og sagðist einmitt eiga hérna einn poka bak við sem innihélt einhverja afganga. Einn poki, flott mál hugsaði ég og hún fór baka til. Heyrði ég svo að verið var að draga eitthvað eftir gólfinu og áður en ég vissi af kom stúlkan fram með fullan ruslapoka af brauðmeti. Ég varð eins og froskur í framan og vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta en reyndi samt og koma henni í skilning um að þetta væri kannski fullmikið fyrir mig. Eitthvað gengu þær útskýringar illa, veit ekki hvort það var vegna þess að afgreiðslustúlkan var af erlendu bergi brotin og austantjaldlenskan mín er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég nennti þessu ekki lengur, brosti bara og sagði já takk og dröslaði þessum poka út í bíl, skottið nánar tiltekið því ekkert annað dugði.

Við rúlluðum okkur niður í bæ í góðum gír feðgarnir og allt var í toppstandi. Fundum álitlegt bílastæði og þá var lítið annað að gera en að líta ofan í pokann góða. Úði þar og grúði af allskonar bakkelsi, brauði, kringlum, rúnstykkjum og það sem verra var, snúðum með glassúr. Sem betur fer voru nokkur álitleg brauð efst í pokanum sem ég gat veitt upp úr og hélt af stað með þau niður að tjörn. Alveg var þetta glötuð stemming að mér fannst því mávarnir voru gríðarlega fyrirferðamiklir. Það var alveg sama hvert við færðum okkur alltaf komu þeir aftur. Drengjunum fannst þetta svo sem ekkert verra, rosafjör að sjá hvernig þeir gripu hvern fljúgandi bitann á fætur öðrum en mér fannst rómantíkin eitthvað hverfa við þetta, í minningunni var þetta ekki svona slæmt. Ég lýsi alla vega yfir stuðningi mínum við bæjaryfirvöld að stemma stigum við þetta með öllum tiltækum ráðum, veit reyndar þó ekki alveg með leyniskytturnar en flest annað er ég til í að skoða. Þetta var hálf vonlaust dæmi.Snérum heim eftir stutt stopp í Kolaportinu og hádegismat í 10-11 Austurstræti enda aðeins farið að kólna. Þá var tekin sú ákvörðun að fara ekki á fyrsta heimaleik ÍR í sumar en þeir tóku á móti Sindra. Sú ákvörðun reyndist rétt að því leytinu til að úrhellisrigning var á meðan leiknum stóð en röng að því leytinu til að heimamenn unnu 7:0.

Við keyrðum heim í bílnum sem angaði eins og sendibíll hjá Breiðholtsbakaríi en ég fór með restina af pokanum beint í tunnuna þegar við komum heim.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hefði viljað sjá þig dröslast með stóran svartan ruslapoka fullan af brauðmeti við tjörnina hehe