föstudagur, maí 04, 2007

Ekki þessi helgi heldur næsta

Þessi helgi að hefjast en hugurinn er samt við næstu helgi. Sú verður að teljast stór helgi hvernig sem á það er litið.

Tvöfaldur Eurovision pakki, forkeppnin á fimmtudaginn og úrslitin á laugardaginn. Ég er nú ekkert að tapa mér af spenningi en manni stendur þó engan veginn á sama þegar Ísland er að keppa við aðrar þjóðir. Eiríkur hinn rauði er töffari af náttúrunnar hendi og því ekki annað hægt en að hrífast með. Við Ísak Máni höfum horft á eitthvað af þáttunum þar sem lögin sem keppa eru kynnt en þar fer rauðhærði rokkarinn á kostum. Það er alveg óskiljanlegt hvernig hægt er að safna saman annarri eins tónlistarhörmung á einn stað. Stundum skemmtir maður sér alveg frábærlega yfir því hversu dapurt þetta er en oftar er þetta svo vont að það er sárt. Manni blæðir nánast. Eitt gott (eða vont) dæmi má sjá hér, á lærra plan er ekki hægt að komast, ég fullyrði það. En það verður að fylgjast með þessu, annað er ekki hægt.

Alþingiskosningarnar eru líka næstu helgi. Ég verð ekki á svæðinu á kosningadegi og verð því að kjósa fyrir helgina ef ég ætla að nýta mér þennan rétt. Ef segi ég, en ég held að ég þjáist af kosningaleiða. Það er alveg sorglegt hvað mér finnst þetta óspennandi allt saman. Ég er nánast alveg ráðþrota hvað skuli gera í þessu máli. Á tímabili var ég alvarlega að spá í að gefa bara skít í þetta og sleppa þessu helv... Grínlaust. Ég er nú samt eiginlega kominn á þá skoðun að ég verði að mæta á svæðið og kjósa utankjörstaðar. Annað er ekki hægt.

Svo er spurning hvað skuli kjósa? Úff...

Að lokum er það svo stóra málið, að mínu mati a.m.k. Föstudagskvöldið kl 18:00 á Grundarfjarðarvelli. Bikarkeppni KSÍ þar sem UMFG mun etja kappi við Höfrung frá Þingeyri. Spennandi verkefni og vonandi fer þetta allt vel fram, það myndi nú ekki skemma stemminguna að vinna leikinn en það kemur víst allt í ljós. Við látum allar gagnrýnisraddir sem vind um eyru þjóta ef einhverjar koma upp en vitaskuld má deila um það hversu mikið UMFG þetta er í raun. Enga síður eru 5 leikmenn af þessum 16 manna hóp sem geta haft kallað sig Grundfirðinga á einu eða öðru tímabili í sínu lífi svo það ætti að hafa eitthvað að segja. Það var líka frekar sorglegt að við upphaf búsetu minnar í firðinum sem gutta lauk sömuleiðis sögu meistaraflokks karla í knattspyrnu, við fluttum vorið 1988 en sumarið 1987 var síðasta árið sem UMFG sendi lið í deildarkeppnina. Maður varð því aldrei svo frægur að ná að spila með klúbbnum fyrir utan einhver héraðsmót og þessháttar. Botninum var svo náð þegar ég fór upp í 4. flokk (frekar en 3. flokk) en var eini í þeim árgangi og því ómögulegt að halda út flokki í þeim árgangi og æfði því með flokknum fyrir neðan heilt sumar án þess að spila neitt því ég var jú ólöglegur. Þvílíkt rugl. En þetta stendur allt til bóta sem sagt, um þetta leyti eftir viku ætti maður að vera orðinn kominn með þvílíka reynslu í bikarkeppninni að það hálfa væri nóg.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

1.Eurovision- hef ekkert pælt í því eða heyrt lögin... Megi rauðhærði vikingurinn taka þetta með trompi þó ég leyfi mér að efast um það.
2. Kosningar- ekkert mál setur bara X við D (davíð)
3. Höfrungarnir eiga eftir að massa þetta en ég auðvitað held með ykkur GRUNDFIRÐINGUNUM !!!