laugardagur, maí 12, 2007

Dagurinn í gær var dagurinn

Þá er bikarævintýrið hafið en sem betur fer ekki lokið.

Fjölskyldan úr Eyjabakkanum smellti sér í Grundarfjörðinn á fimmtudeginum og planið var að fara strax eftir vinnu hjá mér en þá yrðum við komin tímanlega fyrir Eurovision. Eitthvað tafðist brottförin og okkur leist ekki alveg á blikuna varðandi það að ná Eika á sviði en hann var fimmti í röðinni. Sigga sá um aksturinn og lítið annað að gera nema sjá hvernig þetta færi. Stilltum á Rás 2 og þegar við vorum að fara upp á Vatnaleiðina þá hófst prógrammið og mikil spurning hvort við myndum ná þessu. Ísak Máni virtist vera nokkuð sáttur með það að heyra þetta en við fórum reyndar ekkert út í þá sálma að við gætum misst af Eika. Sigga stóð bílinn í botni, eða sló minnsta kosti sitt persónulega hraðamet og þegar hún lagði bílnum á bílastæðinu á Smiðjustíg 9 þá var verið að kynna Eika til leiks. Fjölskyldan stökk úr bílnum og inn í stofu og sáu þegar karlinn var að stíga á svið og sáum því flutninginn hjá karlinum. Meira þurfti ég svo sem ekki að sjá.

Reyndar var nú enginn friður til að horfa á mikið meira ef áhugi hefði verið á því, maður var boðaður í marksamsetningu á nýju mörkunum sem höfðu verið að koma í tilefni leiksins mikla. Gömlu mörkin höfðu farið í rokinu hérna í lok síðasta árs og því ekki hægt fyrir bæinn annað en að kaupa ný.

Leikdagurinn rann upp, fullkaldur en að öðru leyti nokkuð fínn. Ég hafði haft smá áhyggjur vegna smávægilegra hnémeiðsla sem ég varð fyrir í æfingaleik um daginn sem gerður það að verkum að ég hvíldi í síðasta æfingaleik og hafði heldur ekki mætt á tvær síðustu æfingarnar vegna þess. Hnéð var í ágætisstandi en til að auka áhyggjurnar þá hafði ég fengið þennan svaðalega hálsríg sem gerði vart við sig á leiðinni vestur, ég veit ekki hvort hann var afleiðing þess að ég hafi verið stífur af hræðslu þegar Sigga keyrði eins og vindurinn. No-way-in-hell að ég ætlaði að standa á hliðarlínunni á leiknum vegna hálsrígs og því var bara makað á sig eitthvað deep relief krem sem mamma útvegaði mér. Enda fann ég ekkert fyrir honum í leiknum. Mæting hjá liðinu kl 14:00 á Kaffi 59 í pasta og almennt hópefli. Ekki var annað að sjá en að stemming væri í mannskapnum en þetta verður að teljast óhefðbundinn undirbúningur hjá liðinu, þetta er ekki svona fyrir utandeildarleikina a.m.k.

Leikurinn flautaður á kl 18:00 og með því flauti má segja að knattspyrnusumarið hafi hafist því þetta var fyrsti leikurinn sem fór af stað í Íslandsmótum KSÍ fyrir sumarið 2007. Þónokkuð af áhorfendum á svæðinu sem verður sömuleiðis að teljast óhefðbundið fyrir liðið og hafði maður nettar áhyggjur að það gæti verið eitthvað sem gæti sett menn út af laginu. Við vorum sterkari aðilinn í fyrri hálfleik með vindinn í bakið en náðum ekki að skora þrátt fyrir líklega tilburði. Andstæðingarnir fengu ekki mikið að moða úr, fengu þó eitt úrvalsfæri seint í hálfleiknum, skot af stuttu færi, sem undirritaður náði að verja. 0:0 í hálfleik og mótvindur í seinni hálfleik. Við komust svo yfir í leiknum með marki frá Atla og allt leit vel út, enn vorum við að fá færi sem við nýttum ekki. Ekki fengu þeir mikið af færum í síðari hálfleiknum, sluppu reyndar einu sinni í gegn en ég náði að verða fyrir því skoti. Mér fannst því helv... fúlt þegar þeir náðu að jafna seint í hálfleiknum þegar fyrirgjöf þeirra rataði af fætinum á Jóni Frímanni og í netið. Lítið við því að gera. Lokastaða 1:1 eftir 90 mínútur og framlenging staðreynd. Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingunni og ljóst var að úrslitin myndu ráðast í vítaspyrnukeppni. Til að fara ekki með báða lesendur þessa pistils úr spenningi þá fóru leikar þannig að við kláruðum okkar 5 spyrnur á meðan Höfrungsmenn skorðu eingöngu úr 4 en ein spyrna þeirra fór yfir markið. Ótrúleg barátta, alveg magnað að liðið hafi náð að klára þessar 120 mínútur plús vító, sérstaklega í ljósi þess að menn eru vanir frjálsum skiptingum eins og í utandeildinni en það var vitaskuld ekki í boði í gær. Enda voru margir komnir með krampa og fór þetta áfram á viljanum einum saman.

Réttlætinu fullnægt að mér fannst, þ.e. betra liðið í leiknum komst áfram og eintóm gleði í gangi. Næsti leikur er derby leikur á móti nágrönnum okkar í Snæfelli núna strax á fimmtudaginn þannig að ævintýrið heldur áfram, við erum 8 sigurleikjum frá bikarmeistartitlinum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Godt gået, það er vonandi að sigurgangan haldi áfram.
Kveðja, Inga

Nafnlaus sagði...

Þessir vestfirðingar geta ekki rassgat hehe.... ég sagði þér það haha :-D