laugardagur, maí 05, 2007

El capitan

Það skyldi þó ekki vera að hér sér á ferðinni enn ein færslan um fótboltamót hjá Ísaki Mána. Ljóst er að það fer drjúgur tími í þetta brölt, stundum finnst manni alveg nóg um. Reyndar hefur maður, sem betur fer, alveg ágætlega gaman af þessu en þessi mót geta þó verið eins mismunandi eins og þau eru mörg. Árangurinn hefur líka svolítið með það að gera, hvernig upplifunin verður, bæði hjá iðkendum og foreldrum þeirra.

Hvað um það, hið árlega KFC-mót þeirra Víkingsmanna var haldið í dag. Ísak Máni fór í fyrra en þá lá Logi Snær veikur heima og ég stóð vaktina heima á meðan Sigga fór, þetta var því frumraun mín á þessu móti. Sigga hafði stungið af um helgina í rollurassana fyrir vestan og mér var því falið að leysa þetta mál sem og önnur sem koma upp á heimilinu. Þessi laugardagur byrjaði nú ekki vel því Logi Snær vaknaði um kl 4:40 um "morguninn" og enduðu samskipti okkar í kjölfarið með því að hann kom uppí til mín. Get ekki sagt að ég muni hvernig stóð á því. Ég vaknaði svo aftur kl 6:30 þegar ég heyrði hann lenda á gólfinu eftir að hafa velt sér ofan af rúminu okkar og niður á gólf. Grátur sem fylgdi því, skiljanlega, en ekkert sem við gátum ekki leyst. Hann sofnaði fljótlega aftur en ég gat ekki annað en sofið með annað augað opið það sem eftir lifði rúmlegunnar því skiljanlega var ég hálftaugaveiklaður með hann þarna í rúminu.

Við tókum því bara rólega fyrri part dagsins enda fannst mér réttast að hafa menn afslappaða fyrir þetta mót. Mæting hjá Ísaki Mána 15:30 og leikslok á síðasta leiknum 18:58 og þ.a. var ein klukkustundarpása á milli leikja. Ég hafði talsverðar áhyggjur af því að vera með Loga Snæ þarna allan þennan tíma, köld gola á svæðinu og örlaði fyrir rigningardropum. Þessar áhyggjur mínar voru óþarfar, Logi Snær var ótrúlega duglegur að dunda sér þarna svo ég gat horft óáreittur á eldri drenginn spila. Þetta er nú ekki fyrst mótið hans Loga, drengurinn er farinn að þekkja þetta nokkuð vel enda stór hluti af uppeldinu að dröslast á knattspyrnuvöllum borgarinnar. Einu áhyggjurnar sem þessu fylgir eru þær að Logi verði lasinn en minn var reyndar vel undirbúinn með stærðarinnar tösku á bakinu með hinum ýmsu aukafötum sem ýmist voru af eða á drengnum.

Ísak Máni var hvergi banginn, gaf aftur yfirlýsingu um að nú ætlaði hann að setja ´ann í netið og ekkert rugl. Rætist vel úr því og hafði eflaust sitt að segja um hans stemmingu á mótinu að það var ekki mikið liðið af fyrsta leik þegar hann fékk boltann úr innkasti, tók tvær snertingar í átt að markinu og lét vaða þannig að söng í netinu og 3:1 sigur á Val varð staðreynd. Reyndar fylgdi síðan eitt jafntefli og tvo töp en það var ekkert til að spilla deginum. Hann var ekkert lítið rogginn þegar þjálfarinn dró upp fyrirliðaband eftir fyrsta leikinn og fól honum það ábyrgðarhlutverk út mótið. Tók síðan markið í síðasta leiknum og stóð sig eins og hetja, átti einhverjar 4-5 magnaðar vörslur sem gerði það að verkum að þeir töpuðu aðeins 2:0 fyrir sterku liði Víkings.


Medalía í boði KFC og kjúklingur með því í lokin, allir sáttir.

Engin ummæli: