sunnudagur, maí 20, 2007

Pistill sem inniheldur ekki orðið fótbolti

Ég rakst á eftirfarandi tilkynningu á Grundarfjarðarvefnum um daginn:


Sumarstörf hjá Grundarfjarðarbæ

Vinnuskóli fyrir unglinga fædda 1992 (9. bekkur) og 1993 (8. bekkur)
Vinnutímabil er 19 dagar, hálfan daginn, unnið mánudaga til fimmtudaga kl. 8.30-12.00.
Fyrri hópurinn byrjar að vinna 4. júní og er að vinna til 4. júlí.
Seinni hópurinn byrjar að vinna 2. júlí og er að vinna til 1. ágúst.


Þetta er sem sagt sumarstörf í boði fyrir 14 og 15 ára unglinga í boði bæjarins. Eitthvað er landslagið að breytast segi ég nú. Sumarið sem ég flutti í Grundarfjörð, sem var sumarið sem ég varð 13 ára þá byrjaði ég að vinna í frystihúsinu. Reyndar ekkert djúpstæð vinna svo sem, pilla rækjur á færibandi en fullgild vinna samt sem áður. Maður þurfti að vera mættur á réttum tíma og standa sína vakt, annars gat maður bara verið heima. Öll sumur vann maður þarna með skólanum og með tímanum vann maður sig upp ef svo er hægt að segja, var eittthvað í saltfisknum og fékk svo að fara á flökunarvélarnar með körlum eins og Sigga Lár, Gísla göngutúr og Mumma. Yfirleitt lét maður sig hafa það að vinna frameftir ef það var í boði því það skilaði sér í feitari útborgun. Síðar fékk maður að fara á sjóinn og réri grimmt á sumrin sem gerði það að verkum að maður gat lifað á því yfir veturinn á meðan skólinn var stundaður. Stundum fékk maður svo túr á milli jóla og nýárs, væn búbót það.

Því miður skilst mér að þetta sé einfaldlega ekki í boði fyrir unglinga í dag, það er víst erfitt að fá svona vinnu. En fyrir 15 ára gamlan ungling að vinna hálfan dag, fjóra daga vikunnar í 19 daga yfir sumarið er algjört grín. Svo finnst sumum skrítið að mikið af fólki sem er að nálgast tvítugsaldurinn kunni ekki að vinna.

Svo finnst mér líka eitthvað hafi breyst í viðhorfi gangvart vinnunni. Eins og ég sagði þá reyndi maður að vinna eins og hægt var til að þéna sem mest fyrir veturinn, þetta var bara vertíð hjá manni. En núna heyrir maður allskonar sögur um unga krakka sem eru að ráða sig í sumarvinnu og taka það fram að þau þurfi að fá frí í þrjár vikur í júlí af því að þau séu að fara til Tenerife! En það er nú líka auðveldara aðgengi að peningum í dag en það var þá, eitthvað er það allavega. Menn hafa eitt og annað upp úr góðæri, virðing fyrir vinnunni er kannski ekki eitt af því.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég vil meina að við séum að ala upp aumingja þjóðfélag, það má ekkert leggja á ungt fólk í dag án þess að þurfa að hlusta á e-ð væl. Hef tekið eftir mikilli hnignun í vinnusiðferði ungra manna á sjónum. Svo má ekkert segja við þeta lið þá fer það í fýlu, maður ætti þá að vera kominn á stofnun miðað við það sem að maður fékk að heyra þegar maður var að byrja á sjónum....

Nafnlaus sagði...

Tímarnir breytast og kærar þakkir fyrir pistill sem fjallar ekki fót......... þetta kann ég vel að meta