Sumir einstaka atburðir dagsins eru mér alveg ljóslifandi en heildarmyndin er ekki alveg skýr. Þetta var sunnudagur. Ég man að ég fór til mömmu og Varða tiltölulega snemma dags þar sem þau voru með íbúð í miðbænum, læknabrölt á Varða. Hvar Sigga og Ísak Máni voru man ég ekki. Ég man að við fórum og fengum okkur að borða á austurlenskum stað á Laugarveginum, á móti þar sem eitt sinn var leikfangabúðin Liverpool en er Dressman í dag. Austurlenski staðurinn er ekki þarna lengur. Við sátum við gluggann og ég var hálfstressaður man ég því ég lagði Cocoa Puffs bílnum þarna í götunni og ég var alveg handviss að nú færu þeir að loka götunni út af hátíðarhöldunum og þá yrði vinnubíllinn fastur á Laugarveginum. Minnir að við höfum keyrt smá hring áður en ég skutlaði þeim aftur á Lokastíginn. Það var náttúrulega ekki möguleiki að fá stæði þar þannig að ég stoppaði bara í götunni og hleypti þeim út og horfði á eftir þeim inn. Karlinn sá ég aldrei aftur á lífi.
Ég fór heim og var einn heima að horfa á Roma vinna Parma 3:1 og tryggja sér Ítalíumeistaratitilinn, hinn þriðja í röðinni og þann síðasta so-far. Man hvernig sófinn snéri í stofunni. Man að ég lét Tomma frænda vita hver framvinda leiksins var með sms-sendingum þar sem hann sat í jakkafötunum í útskrift hjá Rúnu á Akureyri. Held að það sé rétt hjá mér. Meira af deginum man ég ekki.
Sunnudeginum á eftir, daginn fyrir 2ja ára afmælið hans Ísaks Mána, var karlinn allur og það atvikaðist þannig að ég hitti hann ekki þótt hann væri í bænum þessa viku á milli. Ég man að í eitt skipti var ég eitthvað að þvælast út af vinnunni þarna í miðbænum í þessari viku og ákvað að detta inn svona án þess að gera boð á undan mér. Ég dinglaði bjöllunni en mamma og Varði voru ekki heima. Ég man svo vel að það færðist undarleg tilfinning yfir mig þarna á útidyratröppunum án þess að ég hafi mikið pælt í því þá. Heyrði svo í þeim seinna um daginn og þá kom í ljós að þau höfðu verið heima nánast allan daginn, rétt skroppið út til að taka lítinn hring í hverfinu sem var akkúrat þegar ég kom. Svona getur þetta verið skrítið.
10 ár eru á margan hátt rosalega fljót að líða, en svo skrítið hvað sumt er eins og það hafi verið í gær.
föstudagur, júní 17, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli