föstudagur, júní 17, 2011

Skagamótið 2011 - Dagur 1

Ég hef nú minnst á það við einhver tækifæri að maður sé stundum farinn að endurupplifa sig. Það má kannski halda því fram að sú hafi verið raunin í dag, big-time. 1. dagur Skagamótsins, eða Norðurálsmótsins eins og það heitir í dag, hjá Loga Snæ og í raun fyrsta stóra mótið hans. Ísak Máni fór 3svar sinnum á það þannig að það var nett dejavú í gangi. Var nú hálffurðulegur 17. júní, það verður bara að segjast.

Mamman í fararstjórahlutverkinu og stórfjölskyldan lagði af stað rúmlega 9 um morguninn, mæting kl 10:00 upp á Skaga. Nýju ÍR-búningarnir náðust í hús, reyndar 6. flokks búningarnir þannig að þeir voru aðeins vel rúmir en algjört smáatriði þegar um nýja búninga er að ræða. Stráksi fékk fimmuna eftir þrýsting frá elsta drengnum, menn verða víst oft að vera eins og stóri bró.


3 leikir í dag og þeir unnust allir, stórt. Það verður að segjast að ég hafði óttast þetta, ekki það að þessir strákar séu einhver hópur náttúruundra í tuðrusparki en þá fannst mér æðstu stjórnendur klúbbsins flokka þá heldur neðarlega í getustigi og því fór sem fór. Jæja, þeir lenda á morgun í hóp þeirra sem stóðu sig hvað best í dag þannig að vonandi verður þetta eitthvað jafnara, spurning hvort menn fái tóma skelli til baka í andlitið. Logi Snær spilaði aðallega á vinstri kanti eða í vörn og átti fínan dag verður að segjast. Skoraði fyrsta mark liðsins í fyrsta leik gegn Víkingi og bætti öðru við síðar í leiknum ásamt því að setja sitt hvort markið í leikjunum gegn KR og Fram. Fyrir síðasta leikinn á móti Fram bað Ísak Máni hann um að fagna með handahlaupi ef hann næði að skora. Markið kom og ekki stóð á Loga með handahlaupsfagnið í kjölfarið.

Markið á móti KR

Enda þetta á smá seríu úr KR-leiknum, sparkinu fylgja oft byltur og brölt.Engin ummæli: