Thú verdur ad blogga oftar... Þetta var sms sem ég fékk núna um daginn og get ég ekki sagt að ég hafi verið sáttur með það. Hérna er ég, búinn að vera tölvulaus heima hjá mér síðan 19. maí og nógu þunglyndur með það þótt maður fái ekki svona líka í bakið. Ég tók þá ákvörðun snemma í þessu bloggdæmi að blogga ekki í vinnunni og þar sem vinnutölvan er sú eina sem ég hef komið í tæri við þá segir það sig sjálft að ég er ekkert að blogga. Ákvað þó að beygja þessa reglu núna og eyða hádeginu mínu í að koma nokkrum línum á blað.
Hvað tölvuna varðaði þá gaf móðurborðið sig í henni (ekki biðja um nánar útskýringar) og er hún því alveg ónothæf. Kostnaðurinn við að gera við hana er ca. 40 - 50.000 kr og það eyðir víst enginn heilvita maður svoleiðis í rúmlega 3ja ára tölvu. Tókuð þið eftir að ég sagði rúmlega...? Málið var líka svo að það er 3ja ára ábyrgð á móðurborðsuppgjöfum á þessum gripum en þar sem framleiðsludagurinn á minni er 09.04.2003 þá var hún formlega orðin 3ja ára og 40 DAGA gömul = engin ábyrgð! "Góðu" fréttirnar voru reyndar þær að samkvæmt spekingunum þarna þá eru gögnin mín í góðu lagi og lítið mál að færa þær yfir í nýja tölvu. Andvarp. Hvað gera bændur þá? Kaupa sér nýja tölvu, ekkert annað í stöðunni. Ég fór fyrsta rúntinn niður í Apple (er nefnilega svoddan eplakall) og tók stöðuna. Komst að því að týpan mín, þ.e. í talsvert flottari útgáfu en ég á, var ekki væntanleg fyrr en eftir mánuð eða svo. Læddist þá innar í búðina og gaut augunum í Pro græjurnar, þ.e. dýrari týpurnar. Fór heim með verðlista og tæknilegar upplýsingar og horfði á þær í tvo daga. Til að gera langa sögu styttri þá ákvað ég að hætta að hugsa um þetta mál og framkvæma frekar og henti mér þarna niður með visakortið í rassvasanum. Búinn að skrifa undir, búinn að skuldbinda mig djöflinum næstu mánuði. Ef allt gengur upp á ég að vera klár með nýju tölvuna mína með gömlu gögnunum innanborðs í lok næstu viku.
Grundarfjörður í kvöld, aldrei að vita nema maður geti bloggað eitthvað á eplið hennar mömmu.
föstudagur, júní 02, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Til hamingju með tölvuna kæri bróðir minn.
Kv. úr sólinni á Suðureyri
Spurning um að taka við heillaóskum þegar gripurinn verður 100% minn. Á næsta ári það er...
Skrifa ummæli