föstudagur, september 05, 2008

Skilningsleysi

Oft er mér alveg fyrirmunað að skilja Kanann. Sá á netinu að NBA körfuboltaliðið Seattle Supersonics hefur verið flutt til Oklahoma og heitir núna Oklahoma City Thunder. Stutta útgáfan af forsögunni var að kaupsýslumaður, Clay Bennett, kaupir Supersonics liðið árið 2006 og náði ekki samningum við Seattle borg um nýtt svæði fyrir félagið. Hvað gera bændur, eða öllu heldur kaupsýslumenn, þá? Jú, þeir fara bara með liðið eitthvað annað...

Þetta hefur svo sem gerst áður og ég held fast í Vancouver Grizzlies búninginn sem ég á inn í skáp og áskotnaðist þegar Villi bróðir bjó þarna úti og tel mér trú um að búningurinn hafi söfnunarlegt gildi. Ég er líka alltaf að spá í að fara setja til hliðar Vancouver Grizzlies glösin sem ég á upp í skáp, svona í söfnunarlegum tilgangi líka. Fyrir þá sem þekkja ekki Grizzlies-söguna þá var þetta NBA lið stofnað í Kanada 1995 en flutti svo til Memphis 2001 og varð þá Memphis Grizzlies.

Ekki það að þetta hafi eitthvað tilfinningalegt gildi fyrir mig en mér finnst þetta bara alltaf óheyrilega asnalegt þegar þetta gerist. Í tilfelli Sonics fékk Seattle borg greiddar einhverjar bætur fyrir sinn „missi“ en hvað með íbúana og stuðningsmennina? Manni finnst furðulegt að í landinu þar sem það eitt að missa saltstauk á tánna á þér á McDonalds getur tryggt þér fjárhagslegt öryggi það sem eftir er, að einhver sæki ekki einhvern til saka í þessu máli. Menn sitja kannski uppi með fullan fataskáp af merktum liðsfötum af einhverju liði sem ekki er lengur til. Að ég tali nú ekki um þann tilfinningarússibana sem getur fylgt því að það er bara ýtt á „EYÐA“ takkann varðandi liðið þitt.

Eða hvað?

The SuperSonics nickname, logo and color scheme will be made available to any future NBA team in Seattle. According to the team's new owners, the Sonics' franchise history will be "shared" between the Thunder and any future Seattle team.

Afsakið, en ef einhverjum dettur í hug að koma með nýtt lið til Seattle er það þá nýtt lið eða ekki? Hvernig getur saga íþróttafélags verið „shared“ milli tveggja félaga? Eru bæði liðin sama liðið en samt ekki? Hversu fáránlegt er það? Með hvaða liði eiga gömlu stuðningsmennirnar að halda?

Nei, mér er bara fyrirmunað að skilja þetta.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

skill ekki heldur....