laugardagur, maí 19, 2012

Rússíbanareið... og Manchester vann

Ég er að skríða saman eftir síðustu helgi.  Þegar úrslitin í ensku deildinni réðust.  Maður lifandi.  Heilt yfir hefur líf mitt sem Manchester United stuðningsmaður verið fínt.  Smá erfitt í byrjun þarna á níunda áratug síðastu aldar þegar Liverpool var liðið en svona síðan ca 1990 hefur þetta verið nokkuð fínt.

Það versta við þessa síðustu helgi að ég var búinn að afskrifa að United gæti unnið dolluna og að þetta væri komið í hendur City.  Enda liðin jöfn að stigum og City með miklu betri markatölu.  Þrátt fyrir að mínir menn myndu klára útileikinn sinn á móti Sunderland þá var ekki sjens í helvíti að City myndi klúðra heimaleik á móti QPR.  Eða hvað?
Þarna sat maður heima, búinn að vera sjá fyrir sér ljósbláa meistara í heila viku en allt í einu var hálftími eftir af leikjunum og United að vinna og City að tapa.  Og maður var allt í einu farinn að láta sig dreyma en reyndi samt að halda sér á jörðinni.  Gat þetta verið?  20 mínútur eftir og óbreytt staða og Tommi frændi hringdi.  Var þetta í alvöru að fara að gerast?  Tommi bara með United leikinn en ég með báða og tók því City leikinn og við skiptumst á því sem bar fyrir augum.  QPR komst ekki yfir miðju en City þurfti enn tvö mörk að því gefnu að United myndi klára sitt.  10 mínútur eftir.  Koma svo.  Ég hugsaði samt að ef þeir myndi koma einu inn þá yrði allt vitlaust.  Mancini var að missa kúlið, komin á hné og gat ekki haldið aftur af vonbrigðum sínum.  Í stúkunni var fólk í ljósbláum fötum farið að hágráta.  90 mínútur komnar og 5 mínútur í uppbót.  Ég var farinn að velta fyrir mér hvernig þetta virkaði, var einhver gervibikar á Sunderland vellinum?  Einhverju þyrftu mínir menn að lyfta.  Tommi var orðinn verulega stressaður hinumegin á línunni.  City með enn eina hornspyrnuna og þá kom mark.  2:2 og nú þurftu þeir bara eitt mark.  Ég fann hvernig ég þornaði upp í munninum.  "Ertu ekki að grínast?!" heyrðist í Tomma og enn einhverjar 3-4 mínútur eftir.  Ég var enn að átta mig á þessu þegar hitt markið kom.  Ég kom varla upp orði, man bara að ég sagði við Tomma:  "Þeir skoruðu."  Gat ekki sagt neitt meira.  "Ertu ekki að grínast?!" heyrði ég óma í símanum en mér fannst allt vera í þoku, nánast eins og draumur.  Þetta var hrikalega óraunverulegt.  2 mörk í uppbótartíma.  Hver skorar 2 mörk í uppbótartíma?  OK, reyndar meistaradeildartitillinn 1999.  Nú veit ég í raun hvernig Bayern-mönnum leið og tilfinningin er ekki góð.

Ég skal viðurkenna að ég var ekkert mikið að velta mér upp úr miðlunum eftir helgina, nennti ekki að vera velta mér upp úr þessu á meðan svekkelsið var sem mest.  Menn hafa verið að meina að þetta hafi verið með svakalegri endir á ensku deildinni, sem þetta var en ég fór svo að rifja upp síðasta leikinn á tímabilinu 1988-1989.  Það var líka rosalegt, Liverpool-Arsenal í lokaleik á Anfield og Liverpool mátti tapa með einu en samt verða meistari.  Arsenal komst í 0:1 í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn virtust vera að sigla þessu heim þegar Michael Thomas komst í gegn í uppbótartíma og setti markið sem Arsenal þurfti til að "stela" titlinum.  Man að ég horfði á þennan leik í Sæbólinu og hitti svo einhverja Púllara síðar um daginn á vídeóleigunni hjá Stínu Odds þar sem þeir voru frekar svekktir.  Skil það núna.

Jæja, það er alltaf næsta ár.  Verst að mínir menn ætla að fara leika í einhverjum köflóttum viskustykkjum sem ég er ekki alveg að kaupa.  Þeir munu kannski líta betur út með eigin augum en svona af mynd.  En hvort sem er hefur það víst ekki mikil áhrif á ást mína á þessu breska fótboltaliði.

Engin ummæli: