mánudagur, maí 28, 2012

Vakið yfir körfunni

Leikur 7 í undanúrslitaseríunni í Austurdeild NBA á milli Boston Celtics og Philadelphia 76ers.  Mínir menn í Sixers hafa ekkert verið neitt sérstakir síðustu ár og því ekkert annað í boði en að vaka eitthvað eftir þessu en flautað var til leiks á miðnætti í gær.  Þetta hlaut að vera meiri stemming en eftir að hafa lent í 20. sæti í Júróvision.  Ísak Máni fór að sofa eitthvað fyrir 23:00 en stillti klukkuna á 00:00.  Leikurinn byrjaði en ég heyrði ekkert í neinum verkjara úr herberginu hans.  Mínir menn lentu 10:2 undir og ég var að huga að láta strákinn bara sofa, fátt verra en að halda sér vakandi um miðjar nætur yfir óspennandi körfuboltaleikjum.  Fór samt inn og ýtti við honum.  Sixers komu til baka og héngu vel inn í leiknum að hálfleik en Ísak fór aftur upp í rúm en bað mig um að vekja sig ef spennan væri enn þegar eitthvað yrði liðið á 4. leikhluta.  Þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leiknum smellti Andre Iguodala niður þristi og munurinn kominn niður í einhver þrjú stig.  Ég fór inn til Ísaks og dró hann á lappir til að fylgjast með þessum æsispennandi lokamínútum en það var ekki að sökum að spyrja.  Botninn datt úr þessu eftir það og 10 stiga sigur Boston varð niðurstaðan.  Ísak Máni bauð góða nótt í þriðja skiptið á tæplega fjórum klukkutímum og ég skreið í bælið.  Fyrstu klukkutímarnir á afmælisdeginum voru ekki að byrja nógu vel.

Engin ummæli: