mánudagur, desember 26, 2011

Hefðbundin jól

Annar í jólum að morgni til. Frumburðurinn að skófla í sig samblandi af Cheerios og Cocoa Puffs á meðan hinir tveir skipta liði, annar er inn í stofu að horfa á barnatímann en hinn er inn í herbergi að horfa á Grísina þrjá á DVD. Konan í ræktinni. Ég í náttbuxunum, með ómuldar stýrur í augunum.

Síðustu daga búnir að vera frekar hefðbundnir. Ég var að vinna á Þorláksmessu en eftir útstimplun rúllaði ég mér heim og við kíktum svo með barnaskarann niður í bæ. Vorum reyndar í fyrra fallinu þar, engir kórar farnir að syngja og þessháttar en það var samt fínt að taka röltið þarna upp og niður Laugaveginn.

Aðfangadagurinn gekk vel fyrir sig. Skítaveður reyndar þannig að ekki var hægt að bjóða upp á tímastyttingarferðir utanhúss, innanhússaðgerðir í þeim efnum þurftu að duga. Allir fengu einhverja pakka og heilt yfir var ekki hægt að merkja annað en mannskapurinn gengi sáttur frá borði. Hamborgarhryggurinn úr FK var déskoti fínn og eitthvað var maulað af konfekti í kjölfarið.

Jóladagur var hádegismatur í Mosó, hangikjöt og með því. Mannskapurinn nokkuð slakur bara, einhverjir tók spil á meðan aðrir glugguðu í bók. Maður var að velta því fyrir sér í þriðju ferð í eftirréttinn hvað í ósköpunum maður væri að leggja á líkamann. Heim aftur um miðjan dag, beint í náttfötin. Aftur velti maður fyrir sér áhrifunum á líkamann þegar maður gúffaði í sig afgöngum af aðfangadagsmatnum síðar um kvöldið, kaldur hryggur með heitri sósu. Ég held að það eigi að gera lokatilraun til að klára þetta í kvöld, líklega í tartalettuformi. Fyrsti í NBA eftir verkfall og við Ísak Máni skriðum í bælið um kl 01:00 eftir að hafa horft á magnaðar lokamínútur hjá sigri Bulls á Lakers. Það verður eitthvað að rífa sig upp í vinnuna á morgun.

Hefðbundið bara.laugardagur, desember 24, 2011

föstudagur, desember 09, 2011

Læknabrölt

Þetta eru búnir að vera hálfskrítnir dagar eða vikur. Þvílíkur skítakuldi sem hefur verið í gangi að það hálfa hefur verið yfirdrifið nóg. Ég held að ég hafi sjaldan verið jafnoft í náttbuxum og hettupeysum að kvöldi til, það er eitthvað við þessa froststemmingu sem hefur ýtt undir þessa hegðun hjá mér.

Svo hefur líka verið tóm veikindi hérna, aðallega Logi Snær og Daði Steinn. Logi fékk einhverja veirusýkingu sem fylgdu massaútbrot og greyið búinn að vera í tómu tjóni. Hvorki farið í körfubolta eða fimleika og hefur verið voðalega orkulaus. Þurfti að sleppa körfuboltamóti sem ÍR hélt um síðustu helgi en hann er nú á réttri leið. Hann fer örugglega samt ekkert að sprikla neitt fyrr en eftir áramót. Daði Steinn búinn að vera með einhvern endalausan skít í sér og fór svo í ofanálag í nefkirtlatöku í dag. Það gekk nú víst nokkuð vel bara, ætli þeir vilji svo ekki rífa hálskirtlana úr honum á næsta ári, það kemur allt í ljós.

Ég ákvað að taka þátt í þessum læknisheimsóknum fjölskyldunnar og skellti mér til tannlæknis, aðeins verið að kítta í stellið. Eins og maður hafi ekkert annað að gera við á þriðja tug þúsundir króna og í desember í ofanálag. Næsta heimsókn til hans í september en fyrir þann tíma verð ég að vera búinn að láta rífa út úr mér einhverja endajaxla sem hefur verið á to-do-listanum síðan nítjánhundruðnítíuogeitthvað. Búinn að lofa sjálfum mér því að þetta verði framkvæmt eigi síðar en í janúar, tími kominn að klára þetta helv...

Sigga er ekkert í þessu, mætir bara í ræktina um miðjar nætur til að hressa sig við. Maður ætti kannski að fara að dusta rykið af ræktardressinu.

laugardagur, desember 03, 2011

Bakaradrengurinn

Ísak Máni gerði köku fyrir skólann um daginn, einhver bökunardagur sem bekkurinn hans hélt í fyrra þar sem allir bökuðu köku og aftur var þetta haldið í ár. Í fyrra gerði hann og félagi hans eldfjallaköku sem sló í gegn. Núna var drengurinn sóló, reyndar með mömmuna sem sína hægri hönd, en aftur sló hann í gegn: