þriðjudagur, janúar 29, 2008

I push my fingers into my eyes...

Logi Snær hefur mjög ákveðnar skoðanir. Um flest allt. Það er t.d. ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir, hvaða fötum hann er í og hvaða tónlist hann er að hlusta á. Frekja? Kannski. Allavega ákveðin ákveðni.

Sem fyrr segir er tónlistarsviðið ekki undanskilið í þessu. Það er mjög gaman að fylgjast með því hvort hann er að fíla einhver lög eða ekki. Hann virðist fíla allt mögulegt en hefur líka ákveðnar skoðanir varðandi lög sem hann fílar ekki og liggur ekki á þeirri skoðun sinni. Kostulegt var þegar hann benti bróðir sínum á að lagið í sjónvarpinu sem Ísak Máni var augljóslega að fíla, lag með einhverri poppprinsessunni og dönsurum sem dönsuðu í takt, væri sko „stelpulag“ og var sem sagt að ýja að því að það væri fyrir neðan hans virðingu.

Ferlið hérna á heimilinu á morgnana er alla jafna þannig að Ísak Máni og Sigga fara í skólann en ég fer með Loga Snæ í leikskólann. Oftar en ekki er ipodinn með í för og leiðin í leikskólann er svona ca. eitt lag. Menn eru náttúrulega frekar nývaknaðir þarna ca 08:05 og þá er valin einhver íslensk klassík af 100 íslenskir sumarsmellir eða 100 íslensk 80´s lög (jebb, það er allskonar kreisí shit á ipoddaranum hjá mér). Af einskærri tilviljun lentum við hinsvegar einu sinni á nettum rokkara sem við Logi erum að fíla þegar við erum í stuði. Veit ekki með uppeldisleg gildi þessa lags en það er gott að dilla sér við það:

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Priceless

Þar sem maður er meðvitaður um að ferlinum fer að ljúka þá eru svona ákveðnir hlutir, eða draumar öllu heldur, sem ég er er að vinna í að uppfylla einn af öðrum. Svona áður en skórnir fara endanlega á hilluna. Enn á maður eftir að láta drauminn rætast um Adidas Mundial skóna en þeir koma. Hins vegar datt inn með póstinum áðan einn hlutur sem ég get núna strikað af still-to-do-listanum.

Sérpantað og þvílík gargandi snilld.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Nýjar lífsreynslur

Fór til sjúkraþjálfara í dag. Hef aldrei reynt það áður en ákvað að prófa það til að fá nýtt sjónarhorn vegna þessara þrálátu bakeymsla minna. Er alltaf öðru hvoru hjá hnykkjaranum og alveg ágætlega sáttur við hann en ákvað sem sagt að reyna þetta líka. Fékk uppáskrifa frá lækninum mínum og mætti í dag. Sjúkraþjálfarinn reyndist vera ungur maður frá Danmörku og spurði mig í upphafi tímans hvort ég vildi að tíminn færi fram á ensku eða dönsku. Það var einfalt val fyrir mig. Dönsk útvarpsstöð í tölvunni og undir enskum spurningum sjúkraþjálfarns glumdi Foo Fighters og danskt gangster rapp. Bakvandamálið á ekki að vera stórvægilegt og með réttum æfingum og vitsmunalegri líkamsbeitingu á að vera hægt að vinna á þessu. Við tökum nokkra tíma og sjáum hvað gerist.

Hitt nýja málið, fyrsti kúrsadagurinn var í dag. Byrjaði auðvitað að kyngja niður snjó seinni partinn og þessi hálftími sem ég hafði til að komast úr vinnunni niður í skóla dugði ekki alveg. Botnlausar bílaraðir út um allt og skjaldbökuhraði eftir því. Það hafði verið sterkur leikur að digga staðsetninguna í gær, ég var alveg að sjá það. Mætti með þeim seinustu en slapp þó. Fyrsti tíminn var alveg fínn, reyndar voru allir látnir taka stutt stöðupróf í markaðsfræðum þar sem spurt var um hin ýmsu hugtök o.s.frv. Sumir skrifuðu hratt og örugglega, aðrir minna og hægar. Sumir nánast ekki neitt...

Skrítin tilfinning að vera sestur á skólabekk aftur en mér sýnist að það verði alveg nóg að vera í einum kúrs, svona ef maður ætlar að gera þetta eins og maður.

þriðjudagur, janúar 15, 2008

Á morgun

Karlinn fór á fornar slóðir í dag. Stefnan var sett Háskólasvæðið, þ.e. HÍ, Bóksölu stúdenta nánar tiltekið. Margt breyst síðan ég var þarna síðast á röltinu, Bóksalan komin í nýja húsið sem er eins og krækiber í helvíti þarna á milli aðalbyggingarinnar og íþróttahúsins. Það er enginn 1930 stíll á því eins og hinum húsunum í kring. Allt rosa hipp og kúl, glermilliveggir og opið rými. Bókin reyndist vera hinn vænsti hlunkur og kostaði sitt, 7.000 kall og ber líka gáfulegan titil: Advertising and Promotion: An Integrated Marketing Communications Perspective.

Tók svo stefnuna á HR til að sækja einhvern aðgangspassa sem er víst nauðsynlegur ef maður ætlar að komast eitthvað lengra en inn í kústaskápinn. Auðvitað kostaði það pening, eins og allt annað í þessu blessaða ferli. Fannst líka sterkur leikur að kynna mér aðeins aðstæður, komast að því hvar ég ætti að mæta og svona, svo maður sé ekki að því í einhverju stressi á degi 1.

Kúrsinn er sem sagt að byrja á morgun og það er ekki laust við að það sé smá hnútur í karlinum.

Þetta verður eitthvað.

sunnudagur, janúar 13, 2008

Sá stóri og sá litli

Rosalega horfði maður mikið á Tomma og Jenna hérna í gamla daga, á sínum uppvaxtarárum. Enda frábært efni þar á ferð og hefur staðist tímans tönn. Man ekki hvort það var Kattarvinafélagið eða einhver álíka samkoma sem mótmælti þessum þáttum harðlega því alltaf var það Tommi greyið sem lenti illa í því. Skildi aldrei þetta væl, ég held að fyrirlitning mín á kattarkvikindum tengist ekkert minni upplifun á þessum þáttum í æsku.

Drengirnir mínir horfa á þetta og hafa gaman af og stundum slæst maður með og skemmtir sér ekki síður. Logi Snær er reyndar ekki að kaupa þá staðreynd að kötturinn heiti Tommi og músin Jenni. Hann er harður á því að kötturinn heiti Stóri Tommi og Jenni og músin heiti Litli Tommi og Jenni. Sama hvað tautar og raular.

laugardagur, janúar 12, 2008

Hreyfingarleysi í byrjun árs

Ég er að byrja árið alveg á skjön við 90% af þjóðinni held ég. Í staðinn fyrir að reima á mig hlaupaskóna og rifja upp stillingarnar á hlaupabrettinu þá sagði ég upp líkamsræktarkortinu. Eftir að líkamsræktarstöðin mín ákvað að flytja í nýtt húsnæði og gera út á eitthvað spa-dæmi og lúxus þá ákvað ég að segja þetta gott. Mánaðargreiðslur mínar hefðu hækkað um einhver 40% og þar sem ég sá ekki kostina við að fá aðgang að einhverju kremsmyrjandi batteríi þá sagði ég sem sagt takk og bless.

Ekki það, ég hef nú ekki verið sá duglegasti að mæta síðustu mánuði og hef því meira verið í styrktarhlutverki fyrir þessa ágætu stöð og lagt mitt að mörkum fyrir fjarmögnun á þessum flutningum.

Ekki þýðir að leggjast í kör og eitthvað verður kappinn að gera í hreyfingarmálum. Reyndar er vinnan að flytja sínar höfuðstöðvar núna í lok mánaðarins og á nýjum stað mun verða einhver líkamsræktaraðstaða. Hvernig sú aðstaða verður veit ég ekki og hvenær hún verður sett af stað og því er best að tala varlega í þeim efnum og sjá hvað verður. Það verður eflaust efni í pistil á þessum vettfangi.

Það er þá spurning um að kaupa sér 3ja mánaðarkort í einhverri low profile stöð til að koma sér af stað. Eitthvað verður kappinn að gera ef menn ætla að sparka í tuðru í sumar, þ.e. sparka með einhverju viti.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Á lítinn skólabekk

Í allri umræðunni um endurmenntun, símenntun og á-gamals-aldri-menntun þá fór karlinn að hugsa sinn gang, hvort ekki væri óvitlaust að skella sér í eitthvað nám. Ég gerði mér nú reyndar grein fyrir því að ég væri ekki að fara henda mér í allan pakkann, þ.e. minnka við mig vinnu eða jafnvel hætta í vinnunni og skella mér í full-time nám. Maður var líka ekki alveg með á hreinu hvert hugurinn stefndi en eftir að hafa skoðað málið aðeins þá var tekin ákvörðun.

Ég tók ákvörðun um að auka eitthvað við mig í markaðstengdum málum og taka einn kúrs hjá Háskólanum í Reykjavík, Neytendahegðun og markaðssamskipti, varð fyrir valinu. Mér fannst fín hugmynd að prófa að taka svona einn kúrs og sjá hvort maður er eitthvað að fíla þetta og/eða ráða við þetta en það er víst nóg annað að gera því ekki er ég að minnka neitt við mig vinnuna eða önnur verkefni. Þetta er sem sagt kúrs sem er kenndur núna á þessari önn sem er að hefjast. Karlinn sótti um og fékk inn.

Fyrsti skóladagurinn er miðvikudagurinn 16. janúar, eftir vinnu.

þriðjudagur, janúar 01, 2008

Áramótin

Enn eitt nýja árið gengið í garð, hvar endar þetta eiginlega? Jæja, ætli maður viti svo sem ekki svarið við þeirri spurningu.

Logi Snær klæddi sig upp í gær fyrir áramótapartýið, beinagrindapeysa og „rokkaragreiðsla“, hvað þarf meira?Áramótin voru sem sagt haldin í Æsufellinu hjá Villa og fjölskyldu en einnig var Jóhanna og fjölskylda á svæðinu ásamt því að kóróna það þá var mamma líka á svæðinu. Kalkúnn í boðinu ásamt því að ný hefð var sett á laggirnar, nefnilega að hafa saltkjöt og baunir á kantinum. Frönsk súkkulaðikaka a-la-Sigga á eftir og innanmál magans stefndi í óefni.

Skaupið ágætt og flugeldar framundan. Útsýnið var vægast sagt magnað og ég var búinn að ákveða að vera ekki með nefið ofan í einhverjum fjölskyldupakkanum þetta árið. Það hafði reyndar kostað talsverðar samningsumræður við eldri soninn sem gengu í gegn á endanum þrátt fyrir að soninum hafi fundist að hann hafi ekki komið vel út úr þeim samningum. Hann fékk reyndar að fara aðeins út með Ella og Daníel Viðari að sprengja en svo var stjörnuljósið og blysið bara tekið af svölunum á Æsufellinu. Ég verð að vera eftirgefanlegri á næsta ári, minnispunktur handa mér að ári: Kaupa einhvern fjölskyldupakka og láta Ísak Mána vera búinn að sprengja megninu af smádraslinu talsvert fyrir miðnætti þannig að hægt sé að dunda sér við stóru sprengjurnar milli þess að maður horfi á annnarra manna sprengjur.

Fjölskyldan var að skríða heim klukkan að verða 2 en aldursforseti hennar rankaði við sér á slaginu 12:00 á nýársdag en aðrir voru þá búnir að vera talsverðan tíma á fótum. Dagurinn, eða það sem var eftir af honum, fór svo bara í eitthvað chill, fínt að hafa umferð í enska boltanum á svona dögum. Fórum reyndar á brennu hérna í hverfinu í kvöld, brennu sem hafði verið frestað frá því í gær vegna veðurs. Róleg stemming þar en allt í lagi fyrir undirritaðan að komast aðeins út í ferska loftið.

Fiskibollur voru í kvöldmatinn og vinnudagur á morgun. Við bjóðum aftur til leiks gamla gráa hversdagsleikann.