miðvikudagur, ágúst 26, 2009

Komdu með kylfur en enga krakka

Datt niður á þessa mynd á Daily Mail í fréttinni um slagsmálin og lætin í leik West Ham og Millwall í gær. Þegar ég sá myndina þá mundi ég eftir að hafa verið staddur á þessum pöbb í fyrra og þá var rólegheitarstemming á svæðinu, annað en í gær. Fórum hins vegar af þessum bar yfir á The Boleyn og þar voru bullurnar, maður lifandi. Krúnurakaðir gaurar í sveittum West Ham treyjum hellandi bjór yfir hvorn annan og kyrjandi söngva sem ég gat ekki fyrir mitt litla líf fengið nokkurn botn í nema það að þetta voru ekki kurteisisvísur um önnur lið í deildinni. Gat nú ekki fundið neina mynd af þeim stað í fréttinni, reikna með að þær hafi verið eitthvað blóðugri eins og sumar myndanna þarna. Meiru vitleysingarnir, ég er allavega búinn með Upton Park, reyndar bæði kylfu- og krakkalaus, en kom tiltölulega heill heim.

laugardagur, ágúst 22, 2009

V.I.P. meðhöndlun

Ég veit ekki hvort það er að maður á svona mikið af börnum eða hvað en einhvern veginn virðist það vera þessa dagana að það eina merkilega sem gerist er eitthvað í gegnum börnin.

Ísak Máni er hjá sjúkraþjálfara, einu sinni í viku. Ekkert alvarlegt svo sem en Ísak fer til hans til að láta teygja á sínum stuttu vöðvum. Þessi sjúkraþjálfari hefur verið í tengslum við meistaraflokk Fylkis í fótbolta og Ísak Máni hafði notað þessi sambönd sín til að fá íslensku fótboltamyndirnar sem hann er að safna áritaðar, þ.e. myndirnar af Fylkismönnunum. Svo fór það að sjúkraþjálfarinn spurði hvort Ísak vildi ekki koma bara fyrir einhver heimaleikinn og kíkja á þetta, fá restina áritað o.s.frv. Þið getið ímyndað ykkur að drengurinn var alveg að kaupa þessa hugmynd og menn mæltu sér mót í dag, á leik Fylkis og Fjölnis. Ég skilaði drengnum af mér í anddyrinu á Fylkisheimilinu góðum klukkutíma fyrir leik, með bunka af Fylkis- og Fjölnismyndum meðferðis. Þar sem þessi ágæti sjúkraþjálfari ætlaði bara að vera með í undirbúningnum en ekki í leiknum sjálfum þá hafi ég ráðgert að pikka drenginn upp fyrir upphaf leiksins og halda heim á leið, fyrir mér var Fylkir-Fjölnir ekkert rosalega spennandi. Fékk svo upphringingu skömmu fyrir þann tíma þar sem Ísak Máni tilkynnti mér að það vantaði boltastráka á leikinn og honum hefði verið boðin sú staða í leiknum. Ég rúllaði því þarna upp eftir og tók síðasta hálftímann á leiknum og hitti svo drenginn eftir leik, helsáttur með fullan vasa af árituðum Fylkis- og Fjölnismyndum.

Körfuboltanámskeið hjá Val og boltastrákur hjá Fylkir, ÍR-ingurinn fer víða í reynslusöfnun. Sem hlýtur að teljast besta mál.

miðvikudagur, ágúst 19, 2009

Stórtíðindi


Það fór loksins þannig að tönnin sem var búin að hanga nánast á lyginni einni saman gaf sig í kvöld. Þurfti reyndar smá aðstoð frá mömmunni, vopnuð tannbursta, en það hafðist. Fyrsta tönnin því farin og farið að hrikta í einhverjum fleiri stoðum í stellinu. Hverjum er þá ekki sama að Burnley hafi unnið United í kvöld í fyrsta sinn í einhver tugi ára? Síðan George Best var og hét held ég. Bliknar í samanburði.

föstudagur, ágúst 14, 2009

1 - 2 - 3 - Valur

Við höfum ekkert þurft að senda Ísak Mána á nein skipulögð námskeið í sumar. Einhvern tímann fór hann á eitthvað fótboltanámskeið hjá ÍR en þetta sumarið var ekkert sérstaklega bitastætt í boði eða sérstaklega mikil þörf hafi orðið á að „geyma“ hann á einhverju námskeiði hluta úr sumri. Það kom reyndar smá viðsnúningur á þetta núna í byrjun mánaðarins þegar hann tilkynnti okkur að hann vildi fara á körfuboltanámskeið ... hjá Val. Ég hafði reyndar verið með augun opin hvort hverfisklúbburinn okkar byði ekki upp á eitthvað svoleiðis í sumar en körfuboltadeildin þar á bæ lá einfaldlega í dvala hvað þetta varðaði. Handboltinn bauð upp á einhvern pakka en áhugi Ísaks liggur ekki þar.

Hann hafði rekið augun í einhverja auglýsingu á netinu þar sem Valur bauð upp á vikulangt námskeið í drippli og tengdum aðgerðum. Við foreldrarnir vorum aðeins á báðum áttum, þetta kom upp á föstudegi og námskeiðið átti að hefjast á mánudegi. Einnig vorum við feðgar að fara til Sauðárkróks á föstudeginum þar sem Ísak Máni var að keppa alla helgina, heim á sunnudagskvöld og þá mæting á Hlíðarenda á mánudagsmorguninn kl. 09:00, ef af yrði. Nú, þar sem drengurinn var ákveðinn í þessu og setti það ekkert fyrir sig að þekkja ekki kjaft þarna þá var lítið annað að gera en að boða komu hans í þetta. Við nánari grenslan kom í ljós að Breiðablik var með samskonar námskeið á sama tíma en ákveðið var að hnikra ekkert við upprunalegu plani og halda sig við Val.

Vikan var fljót að líða og allt gekk vel og drengurinn bara mjög sáttur. Hann verður vonandi ferskari fyrir vikið þegar körfuboltaæfingarnar hjá ÍR byrja í haust og vonandi ekki minna sáttur við það. Var nú reyndar nokkuð broslegt að flesta dagana endaði kennarinn á því að kalla alla þátttakendurnar í hring og kalla saman í kór: 1 - 2 - 3 - Valur. Ísak Máni sagði mér þetta eftir fyrsta daginn en lét fylgja með: „Pabbi, ég fór í hringinn eins og allir hinir en ég sagði bara ekki neitt.“

mánudagur, ágúst 10, 2009

Króksmótið 2009

Skaust til Sauðárkróks um helgina en Ísak Máni var að keppa þar í fótbolta á Króksmótinu svokallaða. Fórum einmitt í fyrra og vissum því aðeins hvað við vorum að fara út í. Fjölskyldan var mikið búin að spá í hvort hægt væri að gera einhverja fjölskylduferð úr þessu en ákváðum að réttast væri að ég færi með strákinn á meðan frúin tæki því rólega heima með Loga Snæ og Daða Stein. Eftir að hyggja var það líklega rétt ákvörðun, það hefði verið fullerfitt að vera með einn 5 ára og einn 4ra mánaða á kantinum.

Þessi ferð var með sama sniði og í fyrra, þ.e. þjálfarateymi flokksins komst ekki með og foreldarnir sáu því um að stjórna öllum pakkanum. Ég fékk að hola mér niður í skólanum með liðinu og það lá því beinast við að mér yrði falin farastjóra/þjálfara/umsjónarmannsstaðan í liðinu hjá Ísaki Mána. Það vildi reyndar þannig til að í liðinu hjá Ísaki Mána voru bara 7 leikmenn og því engar áhyggjur af því hver ætti að byrja á bekknum og þessháttar. Þetta var rosalega gaman og liðinu gekk nokkuð vel. Misstu 3:1 forystu á móti Fram í 3:3 jafntefli í síðustu sókninni og úrslitaleikurinn hvarf þar nánast. Síðasti möguleikinn á honum var að Fram tapaði síðasta leiknum sínum en þar náðu þeir að jafna undir lokin og fögnuðu eins og heimsmeistarar, úrslitaleikurinn var þeirra. Við þurftum því að láta okkur nægja að spila um 3ja sætið en áttum litla möguleika í sterkt lið Breiðabliks. Sárt fyrir drengina þar sem bikarar voru í boði fyrir þrjú efstu sætin. Reyndar lentu hin tvö ÍR liðin líka í 4. sæti og því smá svekkelsi í gangi þrátt fyrir fína frammistöðu. Svo var lítið annað en að rúlla sér heim á eftir öllum fellihýsunum og tjaldvögnunum á sunnudeginum. Rosalega var ég sybbinn á mánudagsmorgninum, það verður bara að segjast.

Ísak Máni spilaði fyrstu tvö leikina í vörninni en tók síðustu fjóra í markinu

miðvikudagur, ágúst 05, 2009

Chopper hvað?


Jökull frændi á vespu og Loga Snæ finnst það bara töff. Því fylgja líka svona töff aukahlutir.

þriðjudagur, ágúst 04, 2009

Með vindinn um vangann

Eftir að karlinn fékk sér ljósleiðaratenginguna og fékk í kaupbæti nokkrar sjónvarpstöðvar dett ég stundum inn í þáttinn á Discovery um feðgana sem handsmíða mótorhjól og vini þeirra. Hafði heyrt um þessa þætti einhversstaðar og sá feðgana m.a. í Jay Leno hérna um árið. Magnaðir þættir. Fyrirfram hefði ég aldrei trúað því að ég myndi nenna að horfa á þetta en það er eitthvað við þetta. Kannski leynda þráin að eignast mótorhjól?

Ég hef aldrei gerst svo frægur að aka mótorhjóli. A.m.k. ekki svona alvörugrip. Ég held að þetta sé svolítið eins og með golfíþróttina, ef ég myndi prófa þá yrði ég líklega alveg „húkkt“. Fyrir utan skiptin í garðinum hjá Vigga á æskuárunum í Grundarfirði þá get ég ekki sagt að ég hafi prófað golf. Nema fyrir utan minigolf sem ég ætla klárlega að stunda af krafti á elliheimilinu. Ég er búinn að digga, þrátt fyrir að hafa aldrei testað mótorhjólin, að ég væri klárlega hippatýpan en ég sé voða lítið spennandi við þessi racerhjól. Að geta setið nokkuð uppréttur í góðum fíling með vindinn í andlitið held ég að sé málið. Maður er kannski orðinn svona mikil gunga með árunum (eða hef kannski alltaf verið það) að maður leggur ekki í þetta. Tilhugsunun um að fljúga með fullum þunga á malbikið á rúntinum á fallegum sumardegi hljómar ekkert rosalega sexý. Líka það að það er ekki nóg að þú keyrir eins og engill heldur gætir þú fengið Toyota Landcruiser yfir andlitið á þér af því að ökumaðurinn á honum var að tala í gemsann og sá þig ekki. Sorry félagi. Skemmtu þér vel í hjólastólnum það sem eftir er, þ.e. ef þú ert heppinn.

Á meðan skrúfa ég bara gluggann niður á bílnum, læt vindinn þjóta um vangann og ímynda mér að ég sé á svarta chopperhjólinu mínu. Það dugar mér eitthvað áfram.

laugardagur, ágúst 01, 2009

Forngripir frá ýmsum tímum

Menn eru bara heima að skottast um þessa verslunarmannahelgi. Fjölskyldan tók röltið í dag upp í Árbæjarsafn sem getur varla talist meira en þægilegur göngutúr frá heimilinu. Enga síður held ég að þetta hafi verið einungis mín önnur heimsókn þangað, alla vega hin síðari ár. Fínt að dunda sér þarna í blíðunni. Drengirnir skemmtu sér vel og þóttu m.a. gaman að fá að leika sér með gamalt dót frá ýmsum tímum, einmitt í gamla ÍR húsinu sem stóð vestur í bæ þegar ég var að alast þar upp en var flutt upp í Árbæjarsafnið fyrir nokkrum árum. Eitt af því sem kíkt var á var ca. 20+ ára gömul Nintendo leikjatölva sem var vel nothæf og meira að segja hægt að prufa nokkra mismunandi leiki. Ég átti nú ekki svona tölvu á mínum yngri árum en man eftir því að eitthvað af félögunum í Grundarfirði áttu svona græju þannig að ég upplifði þarna afturhvarf til bernskunnar. Ítölsku píparabræðurnir voru vitaskuld þarna og Duck Hunt, ég man hvað manni þótti þetta geðveikt að geta notað byssu til að skjóta á skjáinn. Svo var einhver fótboltaleikur sem bar þess merki að vera ca. 20 ára gamall, a.m.k. var Ísak Máni ekki alveg að kaupa grafíkina í honum.

Mér var svo lítið á gömlu konurnar tvær sem voru greinilega að rifja upp sín bernskuár í básnum þar sem hægt var að leika sér með kindabein og útskornar dúkkur. Klóraði mér bara í hausnum og fannst þetta allt eitthvað svo magnað.