fimmtudagur, mars 31, 2011

Vikan í boði Joe Boxer

Dagur 7 á náttbuxunum í gangi og miðað við stöðuna verður það klárlega dagur 8 á morgun. Ferskt súrefni er aðeins dauf minning og ef ætti að lýsa fyrir mér hvernig veðrið úti sé milt og gott þá er það líklega svipað og ætla að lýsa fyrir einhverjum, sem hefur verið blindur allt sitt líf, hvering liturinn gulur er.

Ísak Máni hefur þó gert það að verkum að ég er ekki eins-manns-náttbuxnateymi. Drengurinn búinn að vera hálfslappur og það verður að segjast að þetta er ekkert að gera neitt sérstakt fyrir geðheilsuna.

Náttbuxnateymið fékk svo frekari liðstyrk í gær þegar dagmamman hringdi í þá um morguninn og tilkynnti okkur að heimili þeirra hefði verið sett í sóttkví sökum uppkasta þannig að Daði Steinn fékk að halda uppi fjörinu hjá sjúklingunum tveimur hérna heima. Hann fékk að halda áfram heimahjúkruninni í dag og verður væntanlega sömuleiðis heima á morgun. Húsmóðirin hugsar með hryllingi ef sá stutti færi nú að leggjast í einhverja pest, tala nú ekki um ef það á að koma afmælisveislunni hans í gegn þessa helgina.

föstudagur, mars 25, 2011

Skrambans

Menn eru algjörlega í ruglinu hérna. Var lasinn um síðustu helgi eins og ég hef minnst á hérna en drattaðist nú í vinnuna þessa vikuna. Gekk ekki alveg á öllum en var þó skárri með hverjum deginum. Var svo búinn að bóka mig í frídag í dag þar sem dagforeldrarnir hans Daða Steins voru í fríi. Ég endaði því vinnuvikuna í gær og fór beint eftir vinnu að horfa á Ísak Mána keppa í fótbolta. Það hefur líklega verið mistök því ég vaknaði í morgun, á frídeginum mínum, alveg handónýtur. Fullar nasir af grjóthörðum horþykkildum, aumur í hálsinum og með vel úldið bragð í munninum. Spurning hvort maður verður ekki orðinn nógu þokkalegur til að mæta í vinnuna á mánudaginn, það væri þó aldrei.

Jæja, best að halda áfram að dæla grænblönduðu slímdrasli, with chunks, út úr nefinu á sér.

Seinna.

fimmtudagur, mars 24, 2011

Tvöfaldur súrleiki í Keflavík

Ég á enn eftir að taka viðskiptabankann minn fullkomlega í sátt eftir síðasta útspil þeirra sem hafði einhver áhrif á mig. Var staddur í íþróttahúsi í Keflavík í gærkvöldi, Toyota-höll þeirra Reykjanesbúa, en þangað held ég að ég hafi ekki komið áður. Þegar ég sest niður sé ég þessa risastóru auglýsingu þar sem þessi fyrrverandi þjónusta hjá viðskiptabankanum mínum er auglýst. Þetta er ekki lítið dæmi, einhverjir tugir fermetra af þessari einu auglýsingu. Mér var skapi næst að hringja í þjónustuverið hjá bankanum og láta einhvern heyra það, illilega. Fannst það reyndar svo til lítils, enda væntanlega enginn yfir-meðallagi-stjóri að svara í símann á þessum tíma, líklegra að ég lenti á einhverri stelpuhnátu sem væri að vinna með skólanum og gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins. Þegar ég fór að reyna að finna einhverja gáfulega útskýringu á því hvers vegna þetta héngi þarna enn, einhverjum mánuðum eftir að klippt var á þessa þjónustu, þá komst ég að niðurstöðu. Ekki gáfuleg en þetta hlýtur að hanga þarna uppi bara af því að þetta er flott mynd með körfuboltaþema og á myndinni er leikmaður Keflavíkur. Samt, flott mynd eða ekki, markaðsdeild bankans er með allt niðrum sig segi ég.

Eða kannski var ég svona pirraður af því ÍR missti niður unninn leik í körfunni og töpuðu í framlengingu, oddaleikur hvorki meira né minna. Keflavík komst í undanúrslit en ÍR komið í sumarfrí. Það var hálffúl rútuferðin hjá mér og Ísak Mána heim þetta kvöld.

mánudagur, mars 21, 2011

Þetta helst

Allir þokkalegir hérna, undirritaður reyndar undir meðallagi og Daði Steinn svona la-la. Ísak Máni var að ljúka keppnistímabilinu í körfunni núna um helgina. Keppti í Keflavík laugardag og sunnudag og mamma hans tók það að sér að fylgjast með honum en ég var kominn með einhverja hálsbólgudruslu og því hálftuskulegur þessa helgina. Maður er rosalega atvinnurekandavænn, að vera veikur um helgar. Þeim gekk ágætlega í körfunni, unnu m.a. röndótt lið vestan úr bæ og það þykir víst ekki slæmt. Við Daði Steinn vorum því með hálfgert náttfatapartý hérna heima og fengum stuðning frá Loga Snæ á laugardeginum en hann tók Keflavíkurhraðlestina á sunnudeginum.

Annars er stefnt að því að halda afmælisveislu um næstu helgi og þar verða allir sem eru eitthvað og kofinn mun án efa sprengja utanaf sér. Myndir af viðburðinum munu klárlega birtast í dálknum „hverjir voru hvar“ á helstu slúðurtímaritum landsins í kjölfarið. Nánar um það síðar.

laugardagur, mars 12, 2011

List?


Ekki þurfti ég að hafa miklar áhyggjur með þetta hjá fyrstu tveimur skömmtunum en nú virðist sá þriðji vera graffari.

Hver þremillinn.