miðvikudagur, september 27, 2006

Clifford Lee Burton (10. febrúar 1962 – 27. september 1986)

Í dag eru 20 ár síðan Cliff Burton, einn mesti bassaleikari rokksögunnar, lést.

Hann fæddist þann 10. febrúar 1962 í Eden spítalanum í San Francisco. Foreldrar hans voru Jan og Ray Burton og áttu þau tvö börn fyrir, Scott og Connie.

Cliff byrjaði að spila á píanó þegar hann var sex ára gamall. Þegar hann var fjórtán ára byrjaði hann að spila á bassa og hóf svo að læra á hljóðfærið í september 1978 og stundaði það nám til janúar 1980. Samkvæmt foreldrum Cliffs þá eyddi hann fjórum til sex tímum á dag að æfa sig, jafnvel eftir að hann gekk til liðs við Metallica. Hann útskrifaðist frá Castro Valley High School árið 1980 og gekk þá til liðs við hljómsveitan Trauma eftir að hafa verið í hljómsveitinni Easy Street. Easy Street spilaði aðallega lög eftir aðrar hljómsveitir og kom að mestu leyti fram á litlum börum. Einn besti vinur Cliffs á þessum árum var Jim Martin sem síðar spilaði á gítar með Faith No More.

Það var síðan árið 1982 sem Lars Ulrich og James Hetfield, meðlimir í Metallica sáu til Cliffs og hrifust mjög af. Þá þegar voru komnir brestir í samstarf þeirra við þáverandi bassaleikara Metallica, Ron McGovney. Fannst Lars og James hann ekki vera að standa sig og í raun gaf James það einu sinni út að það væri í raun hann sem hefði kennt Ron allt sem hann kunni á bassa. Cliff vildi fyrst ekki ganga til liðs við Metallica og það var ekki fyrr en Lars og James samþykktu að færa höfuðstöðvar bandsins frá L.A. til San Francisco að Cliff sannfærðist. Þann 5. mars 1983 spilaði Cliff í fyrsta sinn með Metallica á stað sem hét The Stone í San Francisco.



Það er ekkert vafamál að með Cliff innanborðs urðu Metallica mun heilsteyptara band. Hann varð fljótlega þekktur fyrir mikil og þétt bassasóló ásamt kröftugri framkomu á sviði. Cliff var bassaleikari Metallica á fyrstu þremur plötum bandsins, Kill ´em all (1983), Ride the lightning (1984) og Master of puppets (1986).



Það var einmitt þegar þeir voru á tónleikaferðalagi að kynna Master of puppets plötuna að Cliff lést.

Það var snemma á laugardagsmorgni þann 27. september 1986 nálægt bænum Ljungby í Svíþjóð að rútan sem þeir voru í fór útaf sökum ísingar á veginum og hvolfdi ofan í skurði. Cliff, sem var aftur í koju hægra megin í rútunni, kastaðist út um gluggann áður en rútan lenti ofan á honum. Enginn annar lést í þessu slysi, Lars fótbrotnaði en aðrir sluppu með minni meiðsli. Þeir sem voru í rútunni minnast þess að hafa séð fæturnar á Cliff standa út undan rútinni strax eftir slysið, sjón sem þeir gleyma ekki. Til að bæta gráu ofan á svart féll rútan ofan á líkið af Cliff þegar kapall sem var notaður til að lyfta rútunni slitnaði.

Eins og oft þegar svona harmleikir gerast þá hugsa menn aftur til atburðanna fyrir slysið og spyrja sig af hverju hlutirnir hafi farið eins og þeir fóru. Þegar hljómsveitarmeðlimirnir voru á þessu ferðalagi drógu þeir Cliff og Kirk spil um hver fengi þessa koju sem Cliff var í þegar hann lést. Cliff dró spaðaás og fékk kojuna. James svaf vanalega í koju næst þeirri sem Cliff var í en hann átti yfirleitt í vandræðum með að sofa í þeim. Þessa nótt gat hann ekki sofið vegna þess að honum fannst of mikill gegnumtrekkur þar og hafði áhyggjur af því að verða lasinn.

Farið var með lík Cliffs til Bandaríkjanna og var það brennt, 7. október 1986 í heimabæ hans, Castro Valley. Ösku hans var dreift yfir einn eftirlætisstað Cliffs, Maxwell Ranch. Við útförina var lagið Orion af plötunni Master of Puppets spila. Eftir það spilaði Metallica aldrei Orion í heild sinni á tónleikum fyrr en 3. júní 2006 þrátt fyrir að hlutar af laginu hafi verið oft notaðir.



Við bassanum hjá Metallica tók Jason Newsted, aðeins rúmum mánuði eftir fráfall Cliffs, en hann var þá meðlimur í Flotsam And Jetsam. Aðalástæðan fyrir þessum hraða var að hinir þrír eftirlifandi meðlimir Metallica ákváðu að fresta ekki tónleikaferð sinni í Japan þrátt fyrir brottfall Cliffs. Jason vildi meina að hann hafi aldrei verið að fullu samþykktur sem fullgildur meðlimur Metallica, þrátt fyrir að vera hafa verið í hljómsveitinni í 15 ár. Jason hætti í janúar 2001 og Robert Trujillo tók við í febrúar 2003.

Réttast að enda þetta á texta eftir Cliff sem kemur fram í laginu To live is to die sem kom út á fyrstu stóru plötu Metallica eftir að Cliff féll frá, ...And justice for all (1988).

"When a man lies he murders some part of the world.
These are the pale deaths which men miscall their lives.
All this i cannot bear to witness any longer.
Cannot the kingdom of salvation take me home."



Heimildir:
Kerrang! Legends. Issue 3, 2003
http://www.nunnie.com/cliff-burton.html
http://www.metallicaworld.co.uk/Cliff%20Burton.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Cliff_Burton
http://web.telia.com/~u90102963/tribute.htm

mánudagur, september 25, 2006

Gamlar og nýjar hugdettur

Ég fæ stundum hugdettur. Misgóðar eins og gerist og gengur og misvel gengur að hrinda þeim í framkvæmd. Jafnvel spurning hvort maður vill eitthvað framkvæma allar hugmyndir sem maður fær, en það er önnur saga.

Hef alltaf séð svolítið eftir því að hafa aldrei lært á hljóðfæri. Ég hafði nú engan sérstakan áhuga held ég svona snemma í bernskunni og þegar ég kom á unglingsárin var áhuginn aldrei nógu mikill til að ég gerði eitthvað í málunum. Það er helst svona núna á síðari árum að ég hef séð þetta í hillingum, að læra á eitthvað hljóðfæri. Aðgerðarleysið hefur nú sennilega stafað meðal annars af því að ég er ekki að sjá mann á mínum aldri stauta mig í gegnum Litlu andarungarnir á eitthvað hljóðfæri. Ég er samt kominn að þeirri niðurstöðu að ef ég ætla að læra á eitthvað úr þessu þá verður gítar fyrir valinu, alltaf öfundað þá sem geta glamrað nokkur grip á gítarinn. Á tímabili þegar ég var ekki sjá þennan draum rætast þá var ég kominn á það að kaupa mér einhvern alvöru rafmagnsgítar, Gibson eða eitthvað annað flott merki og hafa bara sem stofuskraut og læra aldrei á hann. Hann yrði að sjálfsögðu fyrir örvhenta og því ekki hætta á að margir vitleysingar færu að fikta í honum.

Svo kom önnur, að ég tel, snilldarhugmynd upp í kollinn á mér ekki alls fyrir löngu varðandi þetta málefni. Ég tek stöðuna á Ísaki Mána og athuga hvort honum langi ekki að læra á gítar. Hann byrjaði aðeins að læra á hljóðfæri síðasta vetur, er að fikta bæði á blokkflautu og píanó og kemur til með að halda því áfram í vetur. Ég sá þetta fyrir mér að ef hann, á einhverjum tímapunkti, myndi vilja skipta yfir í gítarinn þá myndi ég láta slag standa og læra með honum. Sá þetta svo vel fyrir mér að ég ímyndaði mér að ef við sætum hvor á móti öðrum (annar rétthentur, hinn örvhentur) þá væri þetta bara eins og að horfa í spegill og kannski þægilegt að læra hvor af öðrum þannig. Bara hugdetta.

Eitthvað sem gerist í framtíðinni? Tíminn verður að leiða það í ljós.

sunnudagur, september 24, 2006

Réttardagurinn

Þá er réttunum lokið, eða a.m.k. þessum aðalréttum. Það er víst eitthvað sem heitir seinni réttir eða þessháttar, menn ná víst ekki að hreinsa fjöllin í einni hrinu. Ég hef nú ekki mikla reynslu af þessu dæmi, hef t.a.m. aldrei farið að smala svo heitið geti en maður hefur núna farið með börnin í þessar réttir undanfarin 2-3 ár. Get ekki sagt að ég sé búinn að finna rolluna í mér en það er greinilega viss stemming í þessu og greinilega margir sem ekki geta verið án þessa atburðar.

Reyndar held ég að eitt og annað hafi breyst í þessu viðburði í gegnum árin, nema að mín tilfinning sé byggð á einhverri þjóðsögu. Núna í þessum réttum sá ég t.d. ekki nema einn áfengispela ganga á milli manna og einhverja tvo bjóra. Það skal þó tekið fram að þetta er ekki vísindaleg könnun. Engan heyrði ég vera kveða vísur eða taka lagið. Ég fékk á tilfinninguna að þetta voru meira svona borgarbörn og brottfluttir sveitungar sem héldu þessu uppi innan um þessa fáu bændur sem enn standa í þessari iðju. Fékk líka á tilfinninguna að fyrir einhverjum árum, eflaust ekki svo mörgum, hafi verið talsvert meira fé í þessari rétt. Líklega bara eitt dæmi um breytt þjóðfélagsmynstur á landinu.

föstudagur, september 22, 2006

"Ég heiti afi"

Logi Snær er á einhverju furðulegu skeiði núna. Aðalmálið í fataskápnum hjá honum eru gallabuxur og Batman peysur og Batman sokkar. Hvað buxurnar varðar þá gengur hann ekki í neinu nema að hann geti með réttu kallað þær "afabuxur". Til að byrja með voru það aðallega flauelsbuxur, ekki ósvipaðar og þær sem Halli afi hans gengur í en svo fór afinn að láta sjá sig í gallabuxum öðru hvoru og þá snérist minn maður. Núna vill hann bara ganga í gallabuxum og ekki hvaða gallabuxum sem er heldur einum sérstökum sem hann á. Sem getur verið vandamál þegar við erum að gera okkur klára í leikskólann að morgni dags og þessar einu sönnu buxur eru með kvöldmatinn frá deginum áður út um sig allar. Ekki nóg með það að hann heimti þessar einu buxur heldur treður hann svo ótrúlegustu hlutum í vasana og gengur svo um og segir: "Ég heiti afi".

Þessi blessuðu börn...

fimmtudagur, september 21, 2006

Pistill nr. 100

Kominn í Grundarfjörðinn. Konan að fara í sinn árlega rollurassaeltingarleik sem berst víst út um fjöll og fyrnindi þarna hinu megin á nesinu. Drengirnir með mér enda hafa þeir enn ekki þá líkamsburði sem til þarf í svona ævintýramennsku. Hún verður víst í þessu á morgun og svo verða réttirnar þarna á laugardaginn og þangað mætum við borgarbörnin og gerum allt vitlaust eins og venjan er þegar borgarbörn komast í tengsl við náttúruna. Það er nokkuð ljóst að við erum að ala upp borgarbörn, Logi Snær horfði út um gluggann í Baulumýri í kvöld þegar við skiluðum konunni af okkur, virti fyrir sér myrkrið og sagði: "Það er búið að slökkva öll ljósin". Minn maður er ekki alveg að átta sig á ljósastauraleysinu í sveitinni enda alinn upp í blokk í Breiðholti.

Fór í dag niður í Úrval-Útsýn og náði í miðana fyrir mig og Tomma. Eftir rétt rúma viku erum við að fara til Manchester og kíkja á leik þarna úti, Man Utd - Newcastle. Maður er ekki búinn að vera mikið að spá í þetta eftir að við pöntuðum pakkann og gengum frá þessu en þegar ég sá miðana þá varð þetta allt raunverulegra. Sýnist á öllu að við séum í flottum sætum og hef enga trú á öðru en að þetta verði flott ferð. 3ja skiptið sem við förum á Old Trafford og spennan magnast.

fimmtudagur, september 14, 2006

Á víkingaslóð

Fór út að borða í gærkvöldi, vinnutengt. Útlendingur á vegum General Mills var á svæðinu og við fórum nokkrir frá Nathan til að stytta honum stundir. Forstjórinn ákvað að fara eitthvað annað en á Nordica eða þetta hefðbundna og beindi hópnum á Fjörukránna í Hafnarfirði. Ég hafði aldrei farið þarna og vissi svo sem ekki alveg á hverju ég átti von á. Við mættum á svæðið og þá voru aðaltopparnir mættir og voru að festa á sig skikkjurnar og setja pappakórónu á hausinn...
Þá vissi ég að ég var kominn í einhvern pakka. Þegar maður var búinn að sitja þarna í nokkrar mínútur og farið var að bera hákarlsbita á borðið og hella hreinu íslensku brennivíni í staupin sem voru á borðinu, þá var mér hætt að lítast á blikuna. Við erum að tala um miðvikudagskvöld og vinna daginn eftir. Maður gat samt ekki skorast undan, fyrst útlendingurinn lét sig hafa það þá gat ég ekki verið minni maður. Hann skemmti sér vel en mikið var ég feginn að fjórða staupið kom aldrei. Þvílíkur viðbjóður maður... Annars var maturinn fínn og stemming þokkaleg, kom mér á óvart hversu staðurinn var þéttsetinn svona í miðri viku. Sem betur fer var nú ekki setið að drykkju langt fram eftir morgni, maður kom heim tímanlega í úrslitaþáttinn af Rockstar Supernova til að sjá Magna lenda í 4. sæti. En ógeðslega var ég þreyttur í morgun.

þriðjudagur, september 12, 2006

Einn pottur af mjólk

Fyrsta frétt á Stöð 2 í kvöld var sú að lágvöruverslanirnar á matvörumarkaðinum væru búnar að hækka matvöruverðið hjá sér eitthvað óeðlilega mikið að mati fréttamannanna. Ég ætla nú ekki að hætta mér mikið út í þessa umræðu um virðisaukaskatt á matvæli, ofurtolla eða styrki til bænda en um eitt í þessu máli verð ég samt að tjá mig um.

Fyrir ca. einu og hálfu ári síðan fór mikið verðstríð af stað á þessum markaði eins og kannski menn muna. Voru margir stórir vöruliðir eins og mjólkurvörur, kjöt, bleyjur, morgunkorn o.s.frv. sem voru seldar út með tapi, nokkuð sem getur ekki talist vera góð kaupmennska, a.m.k. ekki til lengdar. Þessi ágæta fréttakona á Stöð 2 talaði sérstaklega um mjólkurlíterinn sem er víst kominn í tæpar 80 kr. út úr búð sem er talsverð hækkun frá því sem mest (eða minnst) var þegar verðstríðið stóð sem hæst. Ég man einmitt eftir þessari umræðu um mjólkina því það er þekkt að MS er ekki mikið að mismuna sínum viðskiptavinum sínum með misundandi afsláttur, einhver ríkislykt af því. Alla vega, það var sömuleiðis þekkt að til að standa sléttur á mjólkinni þarf kaupmaðurinn að selja líterinn út á einhverjar 74-77 krónur. Til að fríska upp á minnið hjá fólki kostaði mjólkin lengi vel 50-60 krónur út úr lágvöruverslun. Það væri gaman að vita hvað margir mjólkurlítrar rata í innkaupakerrur hjá fólki í einni meðalstórri Bónusverslun á degi hverjum. Tapið á þessum eina vörulið yfir nokkra mánaðartímabil var gríðarlegt, fyrir utan allt annað sem menn voru að tapa á.

Það sem ég er að reyna að segja að menn þreytast á að selja hluti með tapi. Nú er komið að skuldardögum, á endanum þurfum við neytendur að borga brúsann. Ef menn hrynja í það með látum verða menn þunnir. Núna erum við í mjólkurþynnku á matvörumarkaðnum.

laugardagur, september 09, 2006

Helgin sem var

Það var tekið aðeins á því um helgina. Fjörið byrjaði fljótlega eftir vinna á föstudeginum en þá var tekin stefnan í Reykjanesbæ með vinnunni í smávegis gleðiferð. Byrjuðum í Go-kart kappakstri en það er eitthvað sem ég hafði ekki prófað að neinu viti. Minnir samt að einhverntíman hafi ég farið í eitthvað svona niðri í Skeifu, það hljóta að vera einhver 15 ár síðan eða eitthvað álíka. Þetta var bara þrælgaman, get ekki sagt að ég hafi verið sérstaklega öflugur en maður var nú líka smátíma að komast inn í þetta og maður var orðinn töluvert frambærilegri síðari hlutann. Að því loknu fórum við og fengum okkur í gogginn á Kaffi Duus, fínn staður þar sem maður fékk vel útilátið á diskana. Þá var stefnan tekin aftur í borgina og maður fór út fyrir utan Players í Kópavogi. Veit ekki hvort það er aldurinn eða léleg ástundun á svona staði en þá fannst mér ég vera kominn einhver ár aftur í tímann, hangandi í biðröð fyrir utan skemmtistað innan um lið í misjöfn ástandi. Hvað um það, Sálin var að spila og staðurinn troðinn eftir því. Ég endist nú ekkert sérstaklega lengi, en nógu lengi.

Skellti mér á ÍR-völlinn á laugardeginum með drengina, lokaleikur tímabilsins á móti Selfossi. 2:0 sigur heimaliðsins í leiðindarveðri. Ísak Máni var búinn að bíta það í sig að fara strax eftir leikinn á úrslitaleikinn í bikarnum í kvennaboltanum, Valur - Breiðablik. Veit ekki alveg af hverju hann var svona æstur í það, ekki var ég neitt sérstaklega áhugasamur. Var eiginlega áhugasamari um að komast heim og fá eitthvað heitt í kroppinn. Ég fékk því mömmu hans með mér í lið og eftir stuttar samningaviðræður þá sættist hann á að vera bara heima. Enda var bara betra held ég að horfa á leikinn í kassanum, að því undanskyldu að RÚV gerði í buxurnar og smellti fréttum á þegar vítaspyrnukeppnin var að fara af stað. Ísak Máni var ekki sáttur enda elskar hann vítaspyrnukeppnir og mamma hans var ekki minna æstari í sófanum, skutlaði sér á símann og hringdi með það sama upp í sjónvarp, ein af 300 samkvæmt Fréttablaðinu. Ég get ekki annað en sett þetta í samhengi við úrslitaleik í karlaboltanum, hefði þetta gerst ef þeir hefðu verið að sýna karlana? Ekki sjéns! En Valur vann.

Lokaleikurinn í utandeildinni í gær hjá okkur á móti FC Dragon. Best að hafa sem fæst orð um hann, fór 5:5 og eins og staðan lítur út erum við einu marki frá því að hafa komist í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Bara sorglegt...

fimmtudagur, september 07, 2006

Innkaupaleiðangurinn

Drullaðist loksins og fór að versla í ríkinu, sjá pistil neðar á síðunni. Eftir að hafa spáð svolítið í því hvað ég ætti að gera þá tók ég þá ákvörðun um að versla mér eitthvað eðalvín sem fer vel í hillu, aðallega vegna þess að ég á yfirdrifið af bjór. Þannig að ég fór í ríkið (kalla menn þetta ekki enn ríkið?), nældi mér í innkaupakörfu og hélt af stað. Ég hlýt að hafa litið furðulega út röltandi þarna um með gemsann í annarri en með honum sló ég inn jafnóðum upphæð á flöskunum sem fóru í körfuna enda ákveðin upphæð sem þurfti að stemma. Ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram þá hef ég ekki hundsvit á borðvínum, ekki nokkra. Ég var sem sagt þarna inni og valdi mér flöskur aðallega eftir tveimur atriðum: Hvernig flaskan leit út, þ.e. var hún eitthvað fyrir augað og hvað kostaði hún, valdi bara flöskur sem kostuðu meira en minna og taldi mér trú um að þetta snérist um gæði en ekki magn. Mér var nokk sama hvort stóð á hillumiðanum að vínið væri dökkrautt eða með ávaxtaeftirbragði. Alla vega, núna lítur vínskápurinn minn talsvert betur út en hann gerði. Fyrir utan þá staðreynd að ég á ekkert sem ég get kallað eiginlegan vínskáp. Hvað um það, þessi eina einmanna rauðvínsflaska sem ég er búinn að eiga í einhver 5-6 ár er búin að eignast níu nýja vini sem innihalda rauðvín og hvítvín frá ýmsum heimshornum og einni rándýrri kampavínsflösku. Djö... er ég klikkaður...

Annars er nú eitt sem ég skil ekki varðandi vínbúðir. Hver fer og kaupir sér t.d. 3 dósir af bjór? Ég hélt að kippan væri svona lágmarkið ef maður á annað borð væri kominn á staðinn til að versla sér bjór. Á meðan þetta er ekki leyft í matvörubúðum þá kostar þetta mann alltaf sérrúnt í þessar vínbúðir. Hlýtur að vera eitthvað langt leitt lið sem getur ekki átt bjór heima í ísskápnum án þess að drekka hann á stundinni. En ertu þá ekki með vandamál? Skiptir mig engu svo sem, það er annarra manna vandamál, ég er bara í rauðvíni og hvítvíni og einstaka kampavíni.

mánudagur, september 04, 2006

Frú Jóhanna


Þá er Jóhanna orðin Frú Jóhanna og ég er síðasta barnið hennar mömmu sem lifi í synd. Tókum stefnuna á Grundarfjörðinn á föstudeginum með mikilvægan farangur, sjálfan brúðarkjólinn. Þar var þokkalegasta fjör, mamma búin að panta hjólhýsi til að smella því út í garð svo Villi og fjölskylda þyrftu ekki að gista í stofunni enda hefur honum löngum verið úthýst að eigin sögn. Þetta gekk allt stórslysalaust á brúðkaupsdeginum, svolítið stress í gangi þarna rétt fyrir athöfnina en allt samt hafðist þetta og allir sögðu já. Athöfnin var stutt, talsvert styttri en ég hafði búist við en það var svo sem fínt bara, algjör óþarfi að vera með einhverjar málalengingar. Veislan var svo haldin á Kaffi 59 þar sem allir fengu nóg að éta og drekka. Meistari Óli Siggi klikkaði ekki í matseldinni frekar en fyrri daginn. Eins og oft vill verða þá endust menn mislengi í djamminu og voru því að skila sér heim á mismunadi tíma sólarhringsins. Svo mismunandi að mamma sagði bara hingað og ekki lengra og skellti bara í lás þegar henni fannst nóg um með þeim afleiðingum að hún læsti eina tengdadóttir og eitt barnabarn úti. Sem betur fer hafði þeim verið úthlutað koju í fyrrnefndu hjólhýsi og allt fór þetta vel að lokum. Ef þetta var ekki nægilegt aðhlátursefni daginn eftir þá sáu brúðhjónin um að viðhalda hlátrinum þegar símtalið kom frá Hótel Búðum þarna um morguninn en þar höfðu þau eytt brúðkaupsnóttinni. Kom þá í ljós að þau höfðu fengið far með öðrum bíl þangað út eftir en stóð um í upprunarlega handritinu. Var taskan með aukafötunum eftir í bílnum á bílastæðinu við Kaffi 59 en þau fór allslaus út að Búðum. Nei, ekki alveg allslaus því þau tóku bíllykilinn að bílnum sem hafði töskuna að geyma með sér. Kostaði þetta smásnatt nokkra manna á milli Grundarfjarðar og Búða, en það verður nú að vera smá fjör í þessu.

Nei, ég veit ekki hvenær ég ætla að gifta mig.