fimmtudagur, febrúar 24, 2011

Frídagurinn í dag

07:09 Rumska við það að Daði Steinn er vaknaður. Vippa honum upp í rúm til mín og fæ smá kúr og eyrnastrokur. Ómetanlegt.

07:19 Drengurinn kominn fram til mömmu sinnar en ég heyri að hann harðneitar að leyfa henni að gefa sér hafragraut, pabbi verður að græja. Svo framúr fer karlinn.

08:00 Mamman fer með Daða Stein til dagmömmunnar, starfsdagur í Breiðholtsskóla þannig að Ísak Máni og Logi Snær eru í frí og ég ákvað að taka mér frídag líka. Skríð aftur upp í rúm.

08:25 Hendi mér í sturtu.

08:50 Ísak vaknaður en ég þarf að ýta við Loga.

09:15 Menn búnir að borða, Ísak farinn að læra og Logi fær að kíkja í tölvuna. Ég kíki yfir blöðin og reyni svo að laga aðeins til á heimilinu.

10:48 Komum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, okkur langaði til að skoða nýju sýninguna þar sem boðið er upp á skriðdýr og froskdýr til skoðunar. Nokkuð flott bara.

11:31 Rigningarsuddi og lítið annað spennandi í garðinum þannig að eftir lítinn hring yfirgefum við svæðið.

11:46 Komnir upp á Stjörnutorg í Kringlunni, Ísak með Subway og Logi með Dominos margaritu, ég með valkvíða og fæ mér ekki neitt. Við í algjörum minnihlutahóp, þ.e. ekki nemendur í Versló. Jökull hennar Guðrúnar á næsta borði.

11:57 Tommi frændi hringir í mig og tilkynnir mér að hann sé að koma í bæinn til að fara á útgáfutónleika hjá Skálmöld um kvöldið. Vegna forfalla er hann með aukamiða og spyr hvort ég vilji koma með. Ég er mjög klár í það en var búinn að lofa mér í tökur á einhverju grínefni vegna árshátíðarinnar í vinnunni. Segi honum að ég ætli að finna eitthvað út úr þessu.

13:03 Leggjum af stað heim, búnir að versla fyrir Ísak Mána út á inneignarnótuna sem hann fékk í Outfitters Nation og Logi Snær fékk einhvern bol í Hagkaup sem ég verð klárlega að skipta aftur. Stundum er erfitt að vera misskilda miðjubarnið og mjög oft er erfitt að skilja misskilda miðjubarnið.

13:11 Komnir heim og ég, þessi með valkvíðann, fæ mér eitthvað að borða. Ísak Máni hendir einhverju smotterí í sig líka svona svo hann fari ekki svangur á körfuboltaæfingu.

14:06 Skúli mættur á svæðið og ætlar að fá far á upp í Seljaskóla á körfuboltaæfingu. Ég kem öllu liðinu út í bíl og skutla Ísaki og Skúla uppeftir og svo förum við Logi Snær beint að sækja Daða Stein til dagforeldranna.

14:37 Kominn aftur heim, reyni að koma einhverju ofaní Daða og Loga, gengur ekkert sérstaklega. Tommi hringir aftur og spyr hvort ég sé ekki örugglega klár fyrir kvöldið. Ég segist mæta.

14:42 Sendi póst á yfirmann skemmtiefna í söludeildinni og segi hvernig málin eru stödd, ég sé off í þessar kvikmyndatökur. Var í svo litlu hlutverki að ég held að það hafa verið hægur leikur að skrifa karlinn út.

15:11 Búinn að græja Loga Snæ fyrir fótboltaæfingu og fer með hann og Daði Steinn fylgir vitaskuld með. Aftur er ferðinni heitið upp í Seljaskóla.

15:30 Æfingin byrjar og við Daði Steinn erum bara að dunda okkur á meðan.

15:35 Gemsinn hringir, gjaldkeri húsfélagsins á línunni og hún er að fara yfir með mér, formanninum, uppgjörsmál vegna framkvæmdanna sem við höfum verið að standa í.

15:58 Varla búinn að skella á þegar Sigga hringir. Hún er enn í vinnunni en minnir mig á að það þurfi eitthvað að græja varðandi kvöldmatinn, hakkið klárt í ísskápnum en annað ekki.

16:09 Ísak Máni kemur til okkar úr píanótímanum sem hann er í upp í Seljaskóla, strax á eftir körfuboltaæfingunni sinni.

16:30 Fótboltaæfingin búin hjá Loga, við fjórir komum við hjá Braga í Leiksport og sækjum nýja ÍR æfingargallann hans Loga sem var í merkingu. Ísak Máni sér drögin að nýju ÍR fótboltatreyjunni fyrir sumarið, hann er greinilega ekki jafnhrifinn af bláu ermunum og ég. Tökum hraðferð í Bónus í leiðinni, ákveðið að píta verði í matinn.

17:06 Komum heim. Logi Snær vill fara út að hjóla og Ísak Máni ákveður þá að hann ætli að fara á fótboltaæfinguna sína, sem byrjar klukkan sex, hjólandi.

17:17 Ég fer niður í kjallara og yfirfer dekkin á hjólinu þeirra, þarf aðeins að pumpa í dekkin hjá Ísaki Mána.

17:22 Sigga kemur heim.

18:21 Ég fer í það að elda kvöldmatinn.

18:37 Kvöldmatur hjá okkkur mínus Ísak Máni sem verður að borða þegar hann kemur heim.

19:12 Geng frá flestu af eldhúsborðinu, annað verður á bíða og við Logi og Daði tökum smá Star Wars geislasverðaleik.

19:29 Legg af stað niður í Tónabíó þar sem tónleikarnir verða.

20:16 Sestur niður ásamt Tomma og co og bíð slakur eftir því sem verða vill.

21:52 Kem út eftir alveg magnað gigg og er með gæsahúð alla leiðina heim.

22:07 Næ restinni af 10-fréttum í sjónvarpinu áður en tekið er úr þvottavélinni sem konan hafði sett í og svo var uppþvottavélin líka búin þannig að það var lítið annað en að taka úr henni líka.

23:57 Finn að suðið var ansi hressilegt eftir tónleikana er að minnka í eyrunum, búinn að henda upp þessu bloggi og fer þá að tannbursta mig og skríð svo upp í bælið.

þriðjudagur, febrúar 22, 2011

Litlu-jólin í febrúar


Ég fékk snilldarhugmynd, að mér fannst, síðla árs í fyrra þegar ég var í jólagjafapælingum fyrir drengina. Sá mér leik á borði þegar ég frétti að Tinna Rut kæmi frá Kanada yfir á skerið og tæki með sér eins og eina ferðatösku sem mögulega væri hægt að troða einhverju meira í. Ég var búinn að vera að sveima eftir NBA körfuboltabúningum en svoleiðis munaður hefur verið ófáanlegur hérna, a.m.k. í barnastærðum. Ég tók mig því til og pantaði þrjú stykki og lét senda þetta til Tinnu. Lenti reyndar í smáveseni þar sem ein treyjan var ekki til á lager og fór því seinna af stað en hinar og til að gera langa sögu stutta þá náði hún ekki til Tinnu fyrir brottför hennar til Íslands. Ég sat því bara með 2/3 af jólagjöfum drengjanna og ljóst að ekki gæti ég sagt við þann óheppna, sem í þessu tilviki var Logi Snær: „Þín gjöf kemur bara seinna.“ Maður þurfti því að redda einhverju öðru, bíða eftir að Tinna, sem by-the-way er að skora feitt á bestufrænkulistanum, færi aftur til Kanada og sendi mér þá það sem upp á vantaði. Þetta skilaði sér loksins í síðustu viku og allir mjög sáttir.

mánudagur, febrúar 21, 2011

Veisluhelgi

Logi Snær fékk sannarlega afmælishelgi núna um helgina.

Laugardagur: Hann og bekkjarbróðir hans héldu saman veislu í Krakkahöllinni í Krepputorgi þar sem hinum drengjunum í bekknum var boðið.
Sunnudagur: Fjölskyldukaffið/afmælisveislan.

Næsta partý eftir rúman mánuð.sunnudagur, febrúar 20, 2011

sunnudagur, febrúar 13, 2011

Man Utd - Man City 2:1


Ég er búinn að fara þrisvar á Old Trafford og hef séð heimamenn mæta Derby, Portsmouth og Newcastle. Ég var búinn að lofa mér því að næst færi ég að sjá þá mæta einhverju af stærri liðunum og var ég kominn á það, fyrir einhverjum árum, að næsti leikur hjá mér yrði pottþétt United - City. Held að það sé líka dýrari týpa af stemmingu á þeim leik heldur en á mörgum öðrum.

Það minnkaði ekki áhuginn þegar maður sat heima í sófanum fyrir tveimur árum og horfði á Michael Owen setja sigurmarkið á móti City í 4:3 thrillernum, á 96. mínútu eða hvað það nú var. Maður hélt að þá dramantík væri ekki hægt að toppa. Tja, dramantíkin í gær var kannski ekki sú sama en þetta mark í gær frá Rooney var náttúrulega lyginni líkast. Þekki einn gaur í gegnum vinnuna sem fékk síðasta miðann sem íslenski klúbburinn á, þvílíkur lukkunnar pamfíll. Ég verð klárlega að fá ferðasöguna hjá honum eftir helgi.

Aldrei neitt öruggt um þetta, maður gæti svo lent í grútleiðinlegu tapi eða einhverju álíka en það er bara þannig.

En City verður það næst. Einhverntímann.

laugardagur, febrúar 12, 2011

Cavs vs. Clippers og önnur undirmálslið

Ég hef alltaf haft smá auga með lélegustu liðunum í NBA. Aðalástæða þess er að liðið mitt, Sixers, á þann „heiður“ að eiga lélegasta sigurhlutfall á einu tímabili en 1972-1973 unnu þeir bara 9 leiki af 82. LA Clippers eru helst þeir sem hafa stundum kveikt í mér vonir síðustu ár að eitthvert annað lið taki þetta met en til þess þurfa menn að vera ansi hreint daprir og hingað til hafa öll lið, sama hversu léleg þau hafa verið, klórað sig í tveggja stafa tölu í fjölda sigurleikja.

Einnig fylgdist maður með stutta lífshlaupi Vancouver Grizzlies (liðið fluttist reyndar síðar til Memphis) á þeim árum þegar Villi og co bjuggu þar og á ég m.a. liðsbúning frá þeim sem mamma og Varði gáfu mér eftir einhverja heimsóknina þangað. Ekki voru sigurleikirnir mikið að þvælast fyrir því ágæta liði.

Cleveland er annað lið sem hefur ekki þótt merkilegur pappír í gegnum tíðina, nema kannski ef frá er talinn sá tími sem LeBron spilaði með þeim. Þeir unnu leik í nótt og enduðu þar með taphrinu sína sem hljóðaði upp á 26 tapleiki í röð, sem er met í NBA en gamla metið sem var 24 leikir sem áttu þeir sjálfir. Þeir eru þá komnir í 9 sigurleiki og hafa einhverja tæplega 30 leiki til að ná þeim tíunda og forða sér þá frá því að komast á stall með Philly. Það fór vel á því að loksins þegar þeir unnu leik þá varð Clippers fyrir valinu. Kannski ágætt að Cavs séu ekkert að hirða þetta met, hefur verið ágætisstemming fyrir þessu liði á þessu heimili, en fer reyndar aðeins minna fyrir því eftir að #23 lét sig hverfa og skildi félagana eftir í skítnum. Það er hálfbroslegt að menn eru farnir að gjóa augunum aðeins á litla liðið í LA, en þar er háloftafuglinn Blake Griffin að vekja eftirtekt á þessu heimili.

Cleveland og Clippers, þetta var álíka spennandi tvenna og gyllinæð og harðlífi þegar ég fór að fylgjast með þessu og flestallir héldu með Boston eða Lakers. En allt tekur þetta breytingum, kannski sem betur fer.

miðvikudagur, febrúar 09, 2011

Flökkusaga úr fjármálageiranum

Ungur maður fer inn í viðskiptabankann sinn og fær sér sæti hjá þjónustufulltrúa. Það fylgir nú ekki sögunni almenn staða hjá þessum manni, fjölskyldu- eða fjárhagsaðstæður nema það sem snýr beint að sögunni. Þessi maður tilkynnir þjónustufulltrúanum að hann eigi nokkra þúsundkalla inn á hefðbundnum reikningi og er að forvitnast hvort ekki sé hægt að ávaxta þetta á aðeins betri veg án þess að binda þetta eitthvað lengi, þetta er jú ekki há upphæð og svo gæti alltaf komið upp sú staða að maðurinn þyrfti að nota þessa peninga með stuttum fyrirvara. Hann segist gera sér grein fyrir því að aðstæðurnar eru ekki „2007“ en eitthvað skárra hlýtur að vera hægt að gera.

Þjónustufulltrúinn sýnir ekki nein svipbrigði þegar hann horfir á tölvuskjáinn. Unga manninum fannst þetta frekar þrúgandi og reynir að slaka á andrúmsloftinu og spyr hvort það sé kannski bara best að millifæra þetta beint á Steingrím og Jóhönnu og vera ekki í þessum blekkingarleik. Engin svipbrigði.

Tveir möguleikar eru slengdir framan í unga manninn. Einhver vaxtareikningur sem ber einhverja vexti. Hve mikla? 1.65%...
Hinn möguleikinn var ríkisskuldabréf. Ávöxtunin á því? Það sem af er ári er hún neikvæð um einhver tæp 2%.

Ísland? Allt í góðu hérna.

mánudagur, febrúar 07, 2011

Kominn í A-klassa

Helgin var boltahelgi, aftur. Aðallega körfubolti. Ísak Máni var að keppa á Íslandsmótinu í minnibolta en keppt var í Njarðvík, bæði á laugar- og sunnudeginum. ÍR kom sér í A-riðilinn, meðal þeirra bestu, eftir að hafa sigrað B-riðilinn á síðasta móti. Þetta var það langerfiðasta sem þessir strákar hafa lent í á þessum vetri en þeir stóðu sig samt vel. Unnu Njarðvík og töpuðu fyrir Stjörnunni með einu stigi þar sem úrslitin réðust á vítalínunni þegar tæpar tvær sekúndur voru eftir af leiknum, það er háspenna-lífshætta líka í þessum bolta. En reglurnar á Íslandsmótinu í þessum flokki segja til um að lið verða að vera skipuð 10 strákum hið minnsta og hver þeirra verður að spila ákveðið mikið. Mér fannst þetta svolítið skrítið fyrst en þegar ég sé þetta í framkvæmd þá finnst mér þetta sniðug regla. Þessari reglu náði Stjarnan ekki að framfylgja og því fær ÍR sigur þar. Það voru hinsvegar engar reglur brotnar þegar þeir töpuðu fyrir Keflavík og KR, klassalið þar á ferð. En það hafðist allavega að halda sér í þessum A-riðli og munu keppa þar í síðasta móti vetrarins seinnipartinn í mars þar sem sigurvegarinn verður krýndur Íslandsmeistari.
Strákurinn stóð sig nokkuð vel, tók sig m.a. til og raðaði niður 4 körfum í 4 sóknum í röð í einum leiknum. Hann er að fíla þetta, sem er gott og ég hef helv... gaman af þessu. Sem er gott.

laugardagur, febrúar 05, 2011

Sjúklingurinn

Þetta getur verið svolítið þreytt, að vera meira og minna lasinn. Sem er svolítið sagan hans Daða þennan veturinn, og sérstaklega núna frá því í desember finnst mér. Drengurinn virðist standa sig vel í því að mergsjúga í sig allar helstu pestir og kvilla sem sveima um andrúmsloftið. T.a.m. fór drengurinn ekkert til dagmömmunnar í þessari viku sem er að ljúka og það er ekki fyrsta vikan sem fer þannig.

Ég get ekki sagt að ég fái einhver verðlaun fyrir skilvirkt langtímaminni og get því illa sagt til hvort þetta sé betra, svipað eða verra með þann yngsta miðað við þá tvo fyrri. Held ég hafi einhverntímann sagt það að líklega muni maður frekar eftir því skemmtilega heldur en hinu.


En svona var ástandið um daginn þegar Daði Steinn var ekkert spes, með háan hita og einhverja flensuútgáfuna, slæmur af astma og svona til að uppfylla tékklistann þá bættist við þetta eyrnabólga frá helvíti. Allur svefn var því vel þeginn til að hvíla litla kroppa (og reyndar hina líka), hvort sem það var seinnipart dagsins á hörðu stofuparketinu eða við önnur tækifæri.

Hér sé stemming.