mánudagur, desember 31, 2012

Plankaárinu lokið!

Ótrúlegt en satt þá hafðist þetta hjá mér og Ísaki Mána.  Plankaæfing á hverjum degi allt almanaksárið 2012 sem voru víst heilir 366 dagar.  Á hótelherbergi út í löndum, útilegu á Suðurlandinu, í Grundarfirði, í Baulumýri, á Suðureyri svo eitthvað sé nefnt, alltaf drullaðist maður til að klára þetta.  Svo til upprifjunar á þessu þá má sjá lýsingu á þessari æfingu hérna:


Það verður að segjast að það kom mér á óvart að mér fannst ég ekki mikið auka "plankaþolið" hjá mér, þetta var einhvern megin alltaf jafn erfitt.  Kannski það segi mér um líkamsþyngdina hjá mér en eitthvað annað.
Hvað næst?  Það verður a.m.k. ekki nein ein æfing sem verður gerð dagleg á næsta ári, þetta var orðið meiri kvöl en hitt undir lokin.  Og það verður enginn planki gerður á morgun, það er alveg á tæru.

miðvikudagur, desember 26, 2012

Jólin 2012

Jólastússið gekk heilt yfir á bærilegastan hátt þetta árið.  Hefðbundin aðfangadagur á þessum bænum, ég byrjaði á því að fara í vinnuna til rétt rúmlega 11:00.  Hef val um að mæta á aðfangadag eða gamlársdag og hef haft það að venju að velja aðfangadaginn og finnst það bara fínt.  Geri svo sem ekki margt djúpstætt, en tek aðeins til í tölvupóstinum og þessháttar.  Ég þurfti aðeins að koma við í Elko áður en ég myndi renna heim og hélt að það yrði easy-peacy verkefni.  Ekki alveg svo, eftir stutt stopp við hillurekkana til að finna það sem ég var að leita að tóku rúmlega 15 mínútur í biðröð á kassa við.  Magnað, en ég get víst ekki fussað yfir því þar sem ég var þátttakandi í vitleysunni.

Skytturnar þrjár voru mjög slakir og fínir, auðvitað nettur spenningur en allt innan skynsemismarka.  Hamborgarahryggurinn úr Fjarðarkaup rann ljúflega niður og svo þurfti víst að ganga frá eftir matinn áður en farið var í aðalatriðið.  Ekki verður sagt annað en að allir hafi verið sáttir með sinn hlut, sem er alltaf kostur.  Miðað við það sem kom undan jólapappírnum hefði eitthvað annað líka verið hálfskakkt.

Yfirmaður pakkaúthlutunarnefndar
Daði Steinn og mamman
Spennan að bera menn ofurliði

"Díses, þið eruð ekki í lagi"
Bæði betra?


Fórum svo í hangikjötið í Bröttuhlíð á jóladag.  Þar var rúllað um á meltunni í einhverja tíma á milli þess sem maður kyngdi hangikjötinu, jólaísnum og döðlukökunni.  Líkaminn hélt nú áfram störfum þrátt fyrir þetta allt, sem kemur manni alltaf hálfpartinn á óvart á þessum árstíma.

Verð að viðurkenna almenna leti í dag, börnin náðu u.þ.b. 30 mínútum úti í kuldanum í dag, sú súrefnisinntaka, þ.e. af fersku hráefni, varð að duga.  Ég straumaði Man Utd - Newcastle og sá ekki eftir því, Litla baunin með sigurmark þegar klukkan sló í 90 mínútur og 4:3 sigur staðreynd.  Sannaðist hið fornkveðna - Football, bloody hell...
Var svo rétt með meðvitund þegar hin árlega frétt um alla þá sem fóru í ræktina, annan í jólum, kom á skjáinn.  Mér finnst hún orðin svolítið lúin ef ég á að vera alveg heiðarlegur.  Ég hristi þó af mér slenið og tók létta hreyfingu inn í eldhús til að athuga hvort ég gæti ekki æft kjálkana enn betur.

Það er hægt að tala um Quality street-ið sem var keypt fyrir jólin í þátíð núna.

mánudagur, desember 24, 2012

Gleðileg jól


Þar sem nýjasta eintakið var algjörlega ófáanlegur til að taka þátt í myndatökunni í jólateitinu hjá Nathan þetta árið, eitthvað sem tókst svona glimrandi vel í fyrra, þá er víst ekki annað hægt en að henda inn annarri mynd líka sem náðist þegar beðið var eftir því að klukkan yrði sex.

föstudagur, desember 21, 2012

Skottúr á Snæfellsnes og tónleikar

Tók bíltúr í Stykkishólm á föstudaginn fyrir viku.  Körfubolti hjá börnunum, hvað annað?  Ísak Máni að spila í bikarkeppni KKÍ í Stykkishólmi með 9. flokknum hjá ÍR.  Í fyrsta skipti að spila í Stykkishólmi og einnig að spila í bikarkeppni KKÍ í fyrsta sinn.  Skemmtilegt að það hafi hitt á fæðingardaginn hjá afa hans.  Leikurinn sjálfur gekk nú ekki alveg nógu vel en það er bara svoleiðis stundum.
Man ekki hvort ég hef minnst á það á þessum miðli en ég held ég geti sagt að keppnisþátttaka mín í körfubolta hafi hafist og lokið í þessu húsi, þ.e. með einum leik.  Það hlýtur að hafa verið eitthvað skóladæmi því það eina sem ég man að ég skoraði ekki körfu en fékk samt tvö vítaskot, það fyrra var air-ball en hið síðara rataði ekki niður þrátt fyrir einhvern dans ofaná hringnum.  Meira varðandi þetta man ég ekki.
Við höfðum nú ekki tök á því að stoppa í firðinum fagra í þessari ferð þar sem þetta var bara farið fram-og-til-baka, plús að við Ísak Máni vorum með þjálfarann og tvo aðra leikmenn með okkur í bílnum, veit ekki hvernig þeir hefðu tekið í heimsókn til Eygló ömmu.  Það verður að vera bara næst.

Jólatónleikar svo hjá Ísaki Mána á laugardeginum en að öðru leyti rólegt bara.

Endað svo sunnudaginn á jólatónleikum Baggalúts í Háskólabíói, þar lék ég hlutverk Tinnu Rutar sem sá sér ekki fært að mæta á skerið þessi jólin frá Kanada en Villi og co höfðu verslað miða fyrir hana.  Ég veit ekki í hve mörg ár þeir hafa haldið jólatónleika en þetta var alla vega í fyrsta sinn sem ég fer.  Skemmti mér vel, enda drengirnir alveg með þetta og stemmingin fín.  Aldrei að vita að maður skelli sér að ári verði það í boði, gæti alveg séð Loga Snæ í góðum gír svona aðeins eldri.  Prógrammið var þétt hjá þeim, jafnvel einhverjir slagarar sem hljómuðu ekki.  Ég saknaði mest þessara tóna:

sunnudagur, desember 09, 2012

Íþrótt án snertingar

Jólahlaðborð með vinnunni minni fyrir rúmri viku, föstudagskvöld nánar tiltekið.  Mæting kl 19:00 og planið var svona:  Ísak Máni á körfuboltaæfingu til kl 19:00 í Breiðholtsskóla og átti að bruna heim strax eftir hana, þar átti að vera pizza klár fyrir gríslingana þrjá svo undirritaður og frú gætu þá hent sér út á meðan Ísak Máni hefði yfirumsjón yfir restinni af kvöldinu heima fyrir.

Allt hófst samkvæmt áætlun, ég og Logi Snær fóru og sóttum pizzuna á meðan Sigga var að græja sig.  Ég sá fram á að þetta myndi allt saman smella, yrði komin tímalega heim með pizzuna og gæti skellt mér í betri fötin, allt á flottum tíma.  Þegar ég er að leggja bílnum í stæðið heima með rjúkandi pizzuna fæ ég símtal.  Körfuboltaþjálfarinn hans Ísaks.  Drengurinn kominn með skurð á höfuðið og ég þarf að gera svo vel að sækja hann asap.  Logi Snær stökk inn með pizzuna á meðan ég skutlaðist eftir Ísaki.  Þegar upp í íþróttahús var komið beið blóðugur Ísak eftir mér.  Ég fékk þær útskýringar á málinu að þetta gæti gerst þegar vörn mætti sókn, í þessu tilfelli voru tveir aðilar með ólíka sýn á það í hvaða átt boltinn ætti að fara og þetta varð útkoman.  Eftir stutt mat á stöðunni var drengnum skrölt heim og inn á klósett fyrir frekara mat.  Ég sá fyrir mér föstudagskvöld á slysó með tilheyrandi stemmingu.  Matið leiddi hinsvegar af sér að meira um skeinu en skurð væri að ræða og ekki væri lengur að blæða, tilgangur vettfangsferðar upp á slysó væri því lítill.

Rót vandans
Það var því tekin sú ákvörðun um að halda upprunarlegu plani, foreldrarnir færu á jólahlaðborðið og Ísak Máni sæi um bræður sína í einhverja klukkutíma.

Það væri hægt að orða það þannig að áfengis- og skemmtanasjúkir foreldrarnir hefðu tekið ákvörðun um að láta ekkert stoppa sig, skítmixað höfuðumbúðir um sárið á drengnum örfáum mínútum áður en hann var settur yfir sem ábyrgðaraðili heimilisins.  Hann hafi síðan fengið sú fyrirmæli að hringja eftir aðstoð ef blóðið færi að frussast aftur úr hausnum á honum eða ef honum fyndist hann vera að missa meðvitund vegna höfðuáverkanna.  Ég vill meina að það væru stórlegar ýkjur.  Enda fór þetta allt vel og allir komu heilir út úr þessu.

Skál.

Barnapían klár

fimmtudagur, nóvember 29, 2012

Börn Loka

Reif mig loksins upp á rassgatinu í síðustu viku og smellti Börnum Loka í spilarann, eða tölvuna öllu heldur.  Var búinn að forðast að heyra einstök lög og var í raun ekki búinn að heyra einn einasta tón áður en ég ýtti á play.  Þannig var ég búinn að setja þetta upp, eitthvað rólegt kvöld ætlaði ég að setja upp heyrnatól og rúlla í gegnum þetta frá fyrsta tón til hins síðasta, svo sagan myndi nú njóta sín til fullnustu.  Einhver bið varð á þessu rólega kvöldi og diskurinn í plastinu á meðan.  En það hafðist s.s. að innbyrða söguna í þokkalegu næði.
Flottur diskur, annað verður ekki sagt en það verður samt að segjast að hann náði negldi mig ekki eins og raketta í rassinn eins og frumburðurinn.  Kannski var uppbyggð eftirvænting of mikil, veit ekki en ég er að vinna í því að mjatla honum betur inn.

Sjáum hvernig það þróast.

Ljúkum þessu lélegasta bloggmánuði síðan skriftir hófust á þessu lítilræði.

sunnudagur, október 28, 2012

Nýreynsluþrenna

Karlinn búinn að vera nokkuð þéttsetinn síðustu rúmu vikuna og nýjar lífsreynslur að detta inn í bankann.

Skrapp í Bláa Lónið með nokkrum vinnufélögum undir lok þarsíðustu viku.  Í fyrsta sinn í Bláa Lónið.  Kom mér á óvart að það var allt stappað af útlendingum, um miðjan október.  Annars var ég nú ekkert frá mér numinn, missti mig ekkert í hvíta skítinn og get ekki sagt að ég hafi séð stórmun á húðinni á eftir.

Skrapp svo á sunnudaginn fyrir viku til Parísar í vinnuferð.  Í fyrsta sinn í París.  Frá túristasjónarhorninu var leiðinlegast að þetta voru 3 dagar inní einhverri sýningarhöll og því á ég enn eftir að bera Eiffelturninn og Sigurbogann augun.  Hótelið var reyndar nálægt Notra Dame kirkjunni þannig að það var hægt að horfa á þá byggingu en ekki náði ég að kíkja inn.  Maður verður bara að taka þetta síðar þegar betur liggur við.  Snéri heim á miðvikudagskvöldi, frekar lúinn.

Þurfti svo að taka að mér annað bílstjórahlutverkið fyrir körfuboltaliðið hjá Ísaki Mána og félögum í gær, til Hvammstanga.  Í fyrsta sinn á Hvammstanga.  Þeir unnu alla sína leiki, lítið annað um það að segja en held ég sé ekkert á leiðinni aftur á Hvammstanga á næstunni svona ef ég kemst hjá því.  Mikið var gott að komast heim í dag, tímanlega til að horfa á United vinna Chelsea en það verður að viðurkennast að ég var hálfdottandi fyrir framan kassann þrátt fyrir mikla dramantík.

Drengurinn að reyna að nota máttinn til að ná boltanum?

laugardagur, október 20, 2012

Tunguliprir

Engin pressa svo sem en ég sé svipaða takta hjá þessum tveimur.  Það er ljóst frá mínum bæjardyrum séð að þeir eiga eitthvað sameiginlegt.

miðvikudagur, október 17, 2012

3ja ára, hálskirtlalaus og á læknadópi

Ég fór með Daða Stein í hálskirtlatöku fyrir tæpri viku, síðasta föstudag.  Ég var nokkuð rólegur yfir þessu og þetta gekk þokkalega til að byrja með, fyrir utan að hann var ekki að fíla fötin sem honum voru úthlutuð og lét þá skoðun hávært í ljós.  Hann vaknaði fljótlega eftir aðgerðina og var ekkert spes en náði að sofna aftur í ca 2 tíma og var þokkalegur eftir þann lúr.  Hann var það þokkalegur, þrátt fyrir að vera alveg glær í framan, að við náðum að stoppa í búð á leiðinni heim og versla okkur íspinna og helstu nauðsynjar.  Mér fannst hann alveg ótrúlega sprækur þegar heim var komið, datt meðal annars í einhverjar íþróttaálfaæfingar og ég hugsaði með mér að hann kæmi til með að verða alveg geðveikur á að hanga heima í rúma viku.  En síðan hefur þetta nú verið meiri lasleiki en hitt, verkjalyf í bossann með reglulegu millibili hefur reynst lífsnauðsynlegt til að halda honum gangandi og greyið er alveg í móki hérna á köflum.  Það var ekki til að rífa stemminguna upp á aðrar hæðir þegar hann vaknaði síðastliðna nótt, skreið upp í til okkar og eftir nokkrar mínútur kom í ljós, þegar ljós voru kveikt að það var farið að blæða talsvert úr honum og allir og allt orðið blóði drifið.  Það var gekk nú yfir á skömmu tíma sem betur fer.  Það þarf ekkert að koma á óvart að heimilishaldið er frekar mikið úr skorðum og ofan á allt þetta er svona rúmlega að gera í vinnunni hjá vinnandi aðilum hérna á heimilinu.

sunnudagur, september 30, 2012

Helgin

Karlinn í einstæða hlutverkinu þessa helgina, me-me á kantinum hjá kerlu og það verður að segjast að það var þokkalegasta keyrsla þessa helgina.  Byrjaði á því að taka smátíma á föstudagskvöldinu niðri í vinnu og kjósa nýtt fólk í okkar flotta starfsmannafélag, með indverskum mat á boðstólnum. 
Körfuboltaæfing hjá Loga Snæ kl 09:00 á laugardagsmorgninum en ég hafði víst stillt klukkuna á 07:45.  Það reyndist óþarfi þar sem minnsta verkjaraklukkan skreið upp í til mín 06:45 og var eitthvað að spá í lífið og tilveruna.  Eftir körfuboltaæfinguna réðst ég í það verkefni að losa eldhúsofninn úr innréttingunni hjá okkur.  Hann hefur átt það til að vera hálfdularfullur og þegar hann tók upp á því að senda stóran hluta framhliðarinnar beint í gólfið þegar heimilsfaðirinn var að möndla pizzur fyrir einhverjum dögum ákváðum við að segja stopp.  Sú framhlið fór í trilljón parta og eftir ítarlegt sóp og fjórar umferðir með rygsugunni var orðið gangfært aftur í eldhúsinu.  YouTube kom mér í gegnum ofnalosunina án mikilla vandkvæða og ég kláraði málið með því að horfa á eftir honum ofaní gáminn á Sorpu.  Ég vona að við verðum búin að leysa þetta fyrir jól en þessi hluti innréttingarinnar er ekki alveg hefðbundin varðandi hlutföll, eins og við komumst að þegar við versluðum okkur uppþvottavél hérna um árið.  Ég finn lykt af skítamixi allan daginn þar sem eflaust mun ganga illa að finna græju sem passar í gatið.  Það kemur í ljós, kannski efni í nýjan pistill.  Við verðum bara að grilla á meðan.
Ísak Máni á körfuboltaæfingu líka þarna á laugardeginum og við hinir fórum að kaupa í matinn ásamt því að stoppa í Elko svo ég gæti rölt í gegnum ofnadeildina.  Verð að segja að ég stoppaði lengur í flatskjádeildinni...

Ísak og Eldar
Sunnudagurinn hófst á Hausthátíð í Breiðholtskirkju þar sem fermingarbörnin léku rullur.  Fjölskyldustund í kirkjunni og svo var boðið upp á grillaðar pylsur og einhverja leiki og þrautir á eftir.  Ísak Máni var í einhverjum ægilegum búningi ásamt félaga sínum og bauð alla velkomna við innganginn.  Eftir þetta var skotist heim í smástund áður en farið var upp í íþróttahúsið í Seljaskóla, sem heitir víst í dag Hertz-Hellirinn, en þar ætlaði Ísak Máni að taka þátt í Íslandsmótinu í Stinger.  Annað árið í röð sem Körfuknattleiksdeild ÍR og Karfan.is halda þetta mót.  Þeim hefur nú enn ekki tekist að laða að mikið af nafntoguðum fallbyssum en það hefst vonandi.  Ca 30 manns sem tóku þátt og Ísak Máni datt út þegar hópurinn var kominn niður í 8 manns, nokkuð gott hjá guttanum.  Eftir það var brunað heim með Ísak en við hinir þrír vorum að fara í Borgarleikhúsið til að sjá Gulleyjuna.  Það var alveg ágætt og Daði Steinn var þokkalegur í sinni fyrstu leikhúsferð.  Ég hafði smá áhyggjur af því að hann yrði eitthvað smeykur við sjóræningjana en svo var ekki og hann hélt athyglinni allan tíma sem hlýtur að túlkast sem að takmarkinu hafi verið náð.

Þangað til næst.

laugardagur, september 29, 2012

Áramótaheitið hangir, eða plankar, enn...

Plankaæfing dagsins í dag búin, tvöhundruð-sjötugasta-og-þriðja daginn í röð.
Aðeins, innan gæsalappa, níutíu-og-þrír dagar eftir. 

30+ boltinn: Season III

Lét plata mig í bumbubolta með Fylki þriðja árið í röð.  Tók þetta eins og í fyrra, mætti ekki á nokkra einustu æfingu en alla þá leiki sem ég komst í.  Eitthvað róleg stemming yfir þessu á landsvísu, sjaldan eða aldrei færri lið í þessum 30+ flokki.  Við erum að tala um að ég missti bara af einum leik, sem þurfti auðvitað að vera sigurleikur og svo skilst mér að við höfum gefið síðasta leikinn.  Maður er ekki alveg að massa neina champion-tölfræði hérna, leikir sem undirritaður tók þátt í þetta sumarið:

4 leikir: 1-0-3

22. maí Fylkisvöllur 
Fylkir - Breiðablik/Augnablik 1:7

29. maí Kaplakrikavöllur 
FH - Fylkir 6:2

12. júní Fylkisvöllur
Fylkir - Fjölnir 13:1

4. september Fylkisvöllur
Fylkir - Afturelding 2:7


Heildarferillinn:
18 leikir: 5-0-13

Og enn ekki búinn að halda hreinu á ferlinum, þetta er hálfdapurt eitthvað.

fimmtudagur, september 13, 2012

Körfuboltalandsleikir

Man ekki eftir því að hafa farið á landsleik í körfubolta fyrr en núna síðla sumars, það gæti svo sem verið misminni.  Landsliðið hefur jú nánast legið í dvala síðustu ár sem skýrir þetta að einhverju leyti, leiðir mínar á körfuboltaleiki hafa fyrst og fremst náð einhverjum hæðum síðustu 3-4 árin.
En KKÍ menn spýttu í lófa og dustuðu rykið af þessu ásamt því að nýtt fyrirkomulag, a.m.k. á undankeppni EM var kynnt til sögunnar.  Það þýddi 10 landsleikjahrina með 5 heimaleikjum fór fram á rétt tæpum mánuði.  Menn geta haft sínar skoðanir á þessu formi en það voru a.m.k. alvöru körfuboltamenn að kíkja á svæðið, svo mikið varð ljóst.  Ég verslaði mér passa á alla leikina og var yfirleitt í hlutverki andarpabba einhverja drengja hérna úr hverfinu.  5 leikir og 5 töp, það gengur bara betur næst.

14. ágúst  Ísland - Serbía  78:91
Fyrsti leikur liðsins í keppninni og það var þokkalega þétt setið í Laugardalshöllinni.  Massasterkir andstæðingar en með mikilli baráttu náði íslenska liðið flottum leik.

21. ágúst  Ísland - Ísrael  83:110
Áttum aldrei möguleika í öfuga Ísraela.  Hérna var eitt af aðalmálunum að fá áritun hjá Omri Casspi, leikmanni Cleveland Cavaliars.  Ísak Máni mætti í Cleveland peysunni sinni og hann og Logi Snær voru mættir með mynd af kappanum og penna.  Það hafðist og er komið í safnið.

27. ágúst  Ísland - Eistland  67:86
Eitthvað andleysi í gangi og þetta varð aldrei neinn leikur.

2. september  Ísland - Slóvakía 84:86
Unnum þá á útivelli og menn voru að gæla við að hérna væru menn að verða vitni af sigurleik.  Spennan var mikil en boltinn rúllaði af körfuhringnum við síðasta skot Íslands þegar bjallan gall og sárt tap staðreynd.  Menn loksins búnir að átta sig á því að mæta með trommu í kofann.

8. september  Ísland - Svartfjallaland  92:101
Ekki áttu menn von á nokkrum sköpuðum hlut hérna enda gestirnir á toppnum og búnir að vinna alla leikina.  Eitt af markmiðunum var að bæta annarri NBA áritun í safnið en því miður lét leikmaður Minnesota Timberwolves, Nikola Pekovic, ekki sjá sig á klakanum.  Hvort það hvar hlutur af einhverju vanmati skal ekki segja en Ísland fór hamförum og var með 22ja stiga forystu í hálfleik.  Svartfellingar söxuðu hinsvegar á forystuna og náðu að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.  Menn voru frekar súrir eftir þetta.

sunnudagur, september 09, 2012

Listamaður

Svona fyrst ég hélt ekki lista yfir fótboltaleiki sumarsins þá þurfti ég að búa til einhvern annarskonar lista.  Sundlaugar sumarsins urðu fyrir valinu.  Helklikkaður, ég veit en lífið væri bara svo miklu leiðinlegra ef ekki væri fyrir klikkið.

Álftaneslaug:  Fórum 2-3x þangað í sumar, en höfðum aldrei farið þarna áður.  Menn þurftu að prufa öldulaugina og þessháttar í þessu bákni sem mér finnst alltaf vera holdgervingur daprar fjárhagsstöðu þessa annars ágæta bæjarfélags.

Árbæjarlaug:  Aldrei þótt hún neitt spes, alltaf skítköld og eitthvað unsexy við hana.  Innilaugin er reyndar fín en núna er ég bara ekki með nein ungabörn á mínum snærum, ég er meira að hugsa í rennibrautum.

Breiðholtslaug:  Laugin okkar, finnst hún bara flott eins og hún er.  Fínir klefar og skipulagið á lauginni alveg til fyrirmyndar.

Grafarvogslaug:  Smelltum okkur í hana á einum blíðviðrisdegi og félagi hans Ísaks fékk mömmu sína til að skutla sér svo hann kæmist með okkur.  Sá þurfti svo að taka strætó heim, enn ein röksemdarfærsla sem segir að ég þurfi að eiga 7 manna bíl.

Lágafellslaug:  Laugin í Mosó.  2 heimsóknir í hana síðla sumars á 2ja daga tímabili og Daði Steinn fór einn í allar rennibrautirnar.  Þetta er ekki flókið.

Laugardalslaug:  Ekki mitt uppáhald en allt í lagi að fara stökum sinnum þarna.

Seltjarnarneslaug:  Hafði ekki komið þarna áður og hún kom bara skemmtilega á óvart, ágætis tilbreytingarlaug.

Sundlaugin Hvolsvelli:  Þokkalegasta sveitalaug.  Einhverjar frekari heitapottsframkvæmdir þegar við vorum þarna þannig að þetta verður kannski enn betra næst.

Sundlaugin Vík:  Fínasta laug miðað við stærð plássins, ég myndi t.d. velja þessa framyfir þá grundfisku hvaða dag vikunnar.

Sundlaugin Borgarnesi:  Einhver þrengsta og furðulegasta búnings/sturtuaðstaða sem ég hef séð á ferlinum en ekkert út á sundlaugina eða rennibrautirnar að setja.  Þarna tók Daði Steinn að-fara-einn-í-stóru-rennibrautirnar upp á næsta stig, efsta stig.

Sundlaugin Grundarfirði:  Skiljanlega talsvert notuð á brölti okkar í firðinum enda þægileg leið til að skola skítinn af liðinu.  Vaðlaugarleysið gerir þetta hinsvegar hálfleiðinlegt ef maður er með börn undir ca 5 ára aldri.  Fær þó plús fyrir ágætlega skemmtilegt dót.

Sundlaugin Stykkishólmi:  Sleppur alveg en vantaði einhvern þokka yfir þetta.  Fóru mest í mig helv... útlendingarnir sem mættu ofaní án þess að fara í sturtu.  Þjóðverjar...

Minnir að aðrir en ég hafi farið í Kópavogslaug og svo voru nú nokkrar sem voru á óskalistanum hjá fjölskyldumeðlimum þetta sumarið en komust ekki á listann.  Vestmannaeyjar voru þar líklega efst, og við vorum nálægt því að taka rúntinn þangað en tímasetning og góð veðurspá fóru ekki saman.  Logi Snær hefur sótt það stíft að fá að fara í Sundhöllina, held að það tengist eitthvað stökkpallinum, en það var sjaldan stemming fyrir því að skella sér í hundgamla innilaug þegar sólin skein.  Við þurfum að fylgja honum þangað við tækifæri.

laugardagur, september 08, 2012

Fall - Staðfest

Það sannaðist það fornkveðna að yfirleitt er bara best að kippa plástrinum af hratt og örugglega frekar en að draga þetta eitthvað á langinn.
ÍR fór niður í 2. deild, eða C-deildina, í dag með 1:0 tapi í Ólafsvík en samt tvær umferðir eftir.  Eftir þokkalega ásætanlega fyrri umferð þá hafa komið 9 tapleikir í röð með markatöluna 3:26 og þá á staðan ekkert að koma á óvart.  Síðasti leikurinn sem var ekki tap var sigurleikur gegn hinu Breiðholtsliðinu þann 17. júlí.  Sem er ömurlega lélegt, skrifandi þetta í fyrrihluta september.
Við erum að tala um líklega leiki næsta sumar, við KV (varalið KR), HK, Aftureldingu, Dalvík/Reynir, Njarðvík, Reynir S., Hamar, Gróttu, Sindra og Ægir, a.m.k. eins og staðan er núna.  Með fullri virðingu fyrir allt og öllum þá drýpur nú ekki kynþokkinn af þessari upptalningu.  Bara eins gott að liðið í póstnúmeri 111 verði þarna líka, aðra möguleika vil ég ekki hugsa út í.

Við erum að tala um að næsta sumar mun muna einni deild á ÍR og Grundarfirði.  Hver hefði trúað því fyrir 2-3 árum?

miðvikudagur, ágúst 29, 2012

Á botninum

Ég skrapp á völlinn síðastliðinn föstudag, Valbjarnarvöll nánar tiltekið, þar sem Þróttur tóku á móti ÍR.  Fyrsti leikur nýja þjálfarans eftir að sá gamli var látinn fara en það dugði ekki til, mínir menn með 0:1 tap og miðað við önnur úrslit sem voru í gangi eru menn allt í einu komnir kyrfilega í botnsætið.  Ískaldur raunveruleiki og ég er varla að trúa þessu en 6 tapleikir í röð eru víst ekki vænlegir til árangurs.  Held að þeir séu búnir að skora heil 2 mörk í þessum síðustu 6 leikjum og þar af var annað í boði andstæðinganna í formi sjálfsmarks.  Skil ekkert í mönnum að hafa ekki fengið gamla ÍR-inginn, Eið Smára, til að taka nokkra leiki fyrir gamla klúbbinn sinn, svona fyrst hann er að leita sér að liði.
4 leikir eftir og það fer að styttast í að menn þurfa að leggja inn feita pöntun hjá kraftaverkalínunni, fjandinn sjálfur.  Ég geri mér grein fyrir því að ÍR er ekki stærsta nafnið í boltanum en að ætla að spila í 2. deild á næsta ári, fjárinn...  Menn mokuðu sér upp úr þeirri deild hérna um árið með herkjum þegar fjölgað var í 1. deildinni ef ég man rétt, andsk... niðurgangur.
Ég hugsa svo með hryllingi að litli smáklúbburinn í póstnúmeri 111 er þarna í kjallarabaráttunni líka, það gæti farið svo að Breiðholtið eins og það leggur sig færi niður um deild, hönd í hönd.  Við erum að ræða um það að í lokaumferðinni er Leiknir - ÍR, leikur sem gæti skipt öllu máli.  Það næstversta sem gæti gerst í stöðunni væri að ÍR væri fallið fyrir þennan leik en Leiknir ekki og að þeir myndu svo bjarga sér.  Það allra versta, by-far, væri að lenda í einhverju úrslitaleik í efra-Breiðholti og tapa honum og falla.  Að falla niður í 2.deild í póstnúmeri 111 af öllum stöðum.  Shit, mér verður hreinlega óglatt af tilhugsunni.En núna er ég farinn að mála framtíðina í kolsvörtum lit, við verðum bara að taka klisjuna á þetta og taka næsta leik.  Haukar á heimavelli á föstudaginn og þar verða menn að gjöra svo vel að bretta upp ermar.

Sem betur fer styttist í upphafið á körfuboltatímabilinu.  Ég ber trú til þess að þar muni geðheilsu minni verða bjargað.

þriðjudagur, ágúst 28, 2012

Endalok snuddunnar - lokakafli

Ég held að síðastu snuddunni sé allri lokið, vona að Daði Steinn sé búinn að leggja hana á hilluna eða hornið öllu heldur.  Af einhverjum ástæðum hefur þetta ekki orðið auðveldara með hverju eintakinu en ég fjallaði -HÉR- um endalok þessa fylgihlutar hjá Ísaki og Loga og svo nánar um endalokin hjá Loga -HÉR-.
Daði Steinn hefur notað snudduna lengst og það var smá vesen að losa hann við þetta.  Við tókum snudduna sem hann notaði í leikskólanum heim þegar hann fór í sumarfrí og stefndum á að koma ekki með hana aftur eftir frí.  Það gekk upp.  Við reyndum að skera á naflastrenginn þegar við vorum í Baulumýri í sumar en það var ekki alveg að virka.  Við ákváðum þó á "gleyma" þeim í Baulumýri en þegar heim var komið var Daði Steinn ekki sáttur og sem betur fer fyrir hann voru til varabirgðir heima sem hann var þó ásáttur við að nota bara þegar hann færi að sofa.
Sigga tók svo upp á því að ræða það að skila þeim sem eftir væru, í Húsdýragarðinum, við tækifæri.  Daði var alveg til umræðu um það og svo var látið reyna á það núna um helgina.  Hann tók sig til og hengdi þær á þar-til-gert horn án þess að vera mikið að velta því fyrir sér, mér fannst það ganga næstu því fullvel fyrir sig.  Hann er því búinn að fara að sofa núna í nokkrar nætur snuddulaus og án þess að vera nokkuð að biðja um gömlu vinkonuna.

Menn eru líklega bara tilbúnir þegar þeir eru tilbúnir.

Síðust tvær komnar á hornið

mánudagur, ágúst 20, 2012

Hver gerir hvað?

Daði Steinn:  "Pabbi, hver byggði húsið okkar?"
Pabbinn:  "Það voru einhverjir karla ... og konur."
Daði Steinn:  "Konur!"
Pabbinn:  "Já, konur.  Geta þær ekki byggt hús?"
Daði Steinn:  "Þær eru bara að elda kjöt."

Maður er greinilega ekki alveg með þetta uppeldi á hreinu.  Það væri kannski hægt að fyrirgefa manni ef þetta væri frumburðurinn en þetta er víst 3ja eintakið.  Ekki gott.

sunnudagur, ágúst 19, 2012

Að einhverju leyti menningarlegt

Maraþon og menningarnótt að baki.  Ekki það að ég hafi reimað á mig hlaupaskóna en Sigga tæklaði þetta, tók 10 km eins og í fyrra og bætti tímann sinn frá því þá um einhverja 1-2 mínútur held ég og náði þessu á ca 55 mínútum.  Ég varð fyrir svipuðum áhrifum og í fyrra, skemmtileg stemming og sjálfsagt gaman að taka þátt í þessu en ekki enn kveikt það mikið í mér að ég sé farinn að æfa fyrir þetta.  Maður er svo klikkað að ég þyrfti að gera eitthvað aðeins meira og öðruvísi en það sem telst normið.  Tæki þetta aldrei nema að fara hálft maraþon, það er bara þannig.  Spurning hvað maður gerir árið 2015, þegar maður verður kominn með fjóra tugi undir beltið og kominn í 40-49 ára flokkinn.
Sigga rétt fór heim til að skola af sér mesta svitann eftir hlaupið áður en hún hélt með Daða Stein ásamt Ingu og Heklu í Baulumýri til að sækja Loga Snæ sem hefur síðan á mánudag verið í sveitasælunni í brakandi blíðu, en þau komu svo öll heim í dag.  Við frumburðurinn voru því allt í einu einir og yfirgefnir í kotinu á menningardaginn sjálfan.  Ákváðum að kíkja aftur á miðbæinn um miðjan daginn, fórum eftir öllum helstu tilmælum og tókum smekkfullan strætisvagn niður í bæ.  Röltum aðeins um í blíðunni og tókum púls á stemmingunni án þess að vera búnir að gera eitthvað plan.  Við gengum bara á þá tóna sem okkur leist á og létum þetta ráðast.  Ís og Hlölli var sett á tankinn.  Skelltum okkur aftur heim fyrir kvöldmatarleytið í álíka þéttsettnum strætó og fyrr um daginn.  Vorum bara slakir heima um kvöldið, gengnir upp að hnjám nánast.
Skelltum okkur í sund í dag og reyndum að hafa ekki of mikið fyrir hlutunum, sem er stundum déskoti fínt.

laugardagur, ágúst 18, 2012

Boltafréttir

Svartur dagur í boltanum í gær.  Við Ísak Máni skelltum okkur til Voga við Vatnsleysuströnd til að sjá Grundarfjörð etja kappi við heimamenn í 3ju deildinni í tuðrusparki.  Sveitaliðið okkar er í bullandi toppbaráttu í sínum riðli og eigir von um að komast í úrslitakeppnina og tryggja sér með því sæti í 3ju deildinni hinni nýju, í stað þess að verða staðsettir í hinni nýju 4. deild næsta sumar. 
Ansi hreint hressandi að vera svona klikkaður í hausnum og nenna að taka einhverja bíltúra til að horfa á íslenskan 3ju deildar fótbolta en það skemmtilega við það, fyrir utan að horfa á hágæðabolta, er að maður er að koma á nýja staði.  Hafði aldrei komið til Voga, tók smá rúnt eftir leik og einhver bæjarhátíð að hefjast með gula, rauða og græna hverfinu, þeir eru líklega ekki nógu stórt bæjarfélag til að bæta því bláa við.  Fórum líka um daginn í Garðinn þannig að maður er alveg að taka landið og miðin á þetta.  Eða a.m.k. Suðurnesin.  Hvað um það, leikurinn tapaðist fyrir mína menn og baráttan heldur því áfram þegar tvær umferðir eru eftir.
Ég hef hins vegar verið mjög lítið á ferðinni á ÍR leikjum þetta sumarið.  Þeir voru að spila í gær austur á Egilsstöðum og gerði sér lítið fyrir og létu drulla yfir sig fyrir allan peninginn, 5:1 urðu víst lokatölur.  Hverfisklúbburinn því kominn í botnsætið og tveir síðustu leikir sem voru settir upp sem 6-stiga leikir í ljósi þessa að þeir voru við liðin í neðstu sætunum töpuðust samanlagt 1:9!  Ég hef verið talsmaður þess að menn fari hægt í gagnrýni, skítkast og leiðindi á veraldarvefnum en ég verð að halda því fram að núverandi skipstjóri sé á góðri leið með að sökkva dallinum og líklega væri best að fyrrverandi leikmaðurinn úr ensku úrvalsdeildinni sem á einhvern ótrúlegan hátt var fenginn til liðsins fyrir þetta sumar taki við stýrinu.  Ég nenni ekki að fara aftur í þennan 2. deildarpakka, með fullri virðingu, það yrði frekar vandræðalegt.

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Súkkulaðigæinn

Draumurinn um smá bling hjá Loga Snæ rættist í dag.  Einhverjir af félögunum með svona og hann var eitthvað búinn að óska eftir einu svona stykki.  Hann var ekkert að bakka með þetta og því var bara látið reyna á þetta og sjá hvernig þetta færi.  Drengurinn var alveg rólegur með þetta framan af en varð greinilega smá smeykur þegar hann var kominn í stólinn, búið að merkja skotmarkið og verkfærið komið á loft.  „Byssuskyttan“ gerði reyndar vel í að vera ekkert að flagga græjunni of mikið enda greinilega gert þetta áður.  Ég held að óttinn hafi eitthvað magnað upp sársaukann en töffarinn missti aðeins kúlið eftir þetta og bara sig illa, „ég ætla aldrei að gera þetta aftur“ kom uppúr honum hálfsnöktandi. En menn komust nú fljótlega yfir þetta versta, það er eins og þeir segja:  Beauty is pain...

Í bústað

Stoppuðum ekki lengi heima eftir Grundótúrinn, aftur var haldið vestur en núna hinumegin á nesið.  Fengum bústaðinn í Baulumýri lánaðan, eins og um þessa helgi verslunarmanna í fyrra líka.  Vorum lengur núna, fórum á miðvikudegi og vorum fram á sunnudag.  Þessi rjómablíða þegar við lögðum af stað, stoppuðum í sundi í Borgarnesi þar sem Daði Steinn tók eiginlega rennibrautarleiknina upp á næsta stig.  Hljóp hann sjálfur upp tröppurnar og lét sig flakka niður í hana sem telst líklega vera í miðju af styrkleika af þeim þremur möguleikum sem eru þar.  Niðri við brautarendann beið fulltrúi fjölskyldunnar og passaði að hann kæmist upp á bakkann aftur svo hann gæti farið aftur... og aftur... og aftur... og aftur. 
Ekki ský á himni á miðvikudegi og fimmtudegi.  Það var því léttklætt fólk sem spókaði sig á pallinum, hoppaði á trampolíninu, var í körfubolta, fór niður að strönd, kíkti í berjamó og sumir fóru í Hamraendalækinn eins og í fyrra nema núna var tekið aðeins dýpra í árina:


Fórum m.a. út að Hellnum og þaðan löbbuðu Sigga, Ísak Máni og Logi Snær yfir í Arnarstapa en við Daði Steinn fórnðum okkur í það að vera á bílnum.  Þess á milli var spilað Yatsy og horft á Ólympíuleikana, fínasti túr.  En eins og á þessum tímapunkti í fyrra þá er alvaran að detta aftur í gang.  Sem betur fer að einhverju leyti, það er víst ekki hægt að leika sér alla daga.

Logi Snær á leiðinni í gegnum gatið upp á toppinn á Hellnum
4/5 komnir upp
Ég bara góður niðri, það verður einhver að vera á myndavélinni

þriðjudagur, júlí 31, 2012

Á góðri stund í Grundarfirði 2012

Við skelltum okkur í fjörðinn um helgina, maður getur ekki látið sig vanta á bæjarhátíðina.  Fullt hús af fólki hjá mömmu, við öll fimm + Jóhanna og co + Gulla og Rúnar Atli.  Það er hægt að segja með réttu að mönnum hafi verið staflað en allt hafðist þetta.  Frábært veður og stemmingin flott.
Við erum að tala um sundlaugina, sólpallurinn á Smiðjustígnum, víkingaspilið kubb í garðinum og grillið fullt að funheitum kolum.
Svo voru hefðbundin hátíðarhöld, stemmingin niður við höfn og öll sú skemmtidagskrá sem henni fylgdi.  Menn buðu að meira að segja upp á heilt varðskip svona til að poppa þetta upp.  Bættu við í jöfnuna einum fótboltaleik sem fór vel, pylsuvagn með framandi útfærslum á matseðli og berjamó, bara svona til að taka þetta alla leið og þá er erfitt að sjá hvernig eigi að toppa þetta.

Ísak Máni og Logi Snær í blíðunni
Daði Steinn orðinn efnilegur „kubbari“
Grundarfjörður - Víðir 4:1
Íþróttaálfurinn gagntekinn af Mikka ref

mánudagur, júlí 23, 2012

Draumurinn rættist


Það var loksins að menn fengu viðeigandi galla:

fimmtudagur, júlí 19, 2012

Útilega á Suðurlandi

Kominn heim eftir smá útilegutúr.  Komum heim úr Grundarfirðinum á laugardeginum og héldum í túrinn á sunnudeginum.  Redduðum okkur fellihýsi hjá góðu fólki og eftir hraðnámskeið í meðferð á svona græju var ekkert annað að gera en að drífa sig bara af stað, á meðan við höfðum veðrið enn með okkur í liði.
Haldið var í austurátt eftir suðurlandinu með mjög grófa ferðaáætlun, þetta átti svolítið að ráðast bara.  Karlinn var með smá hnút enda ekki á hverjum degi með eitt stykki tonn í eftirdragi.  Þetta gekk nú allt saman vel, ég fann alveg fyrir þessu en V6 vélin var samt alveg í góðum gír.  Alla vega þá enduðum við á tjaldsvæðinu í Vík og komust að því á bílastæðinu þar að Sprunguvinir með Ingu og Gunna innanborðs voru á svæðinu.  Komum okkur fyrir á álitlegum stað og tókum því bara rólega þann daginn.

Daði og Hekla í Vík
 Á mánudeginum fór við rúnt og kíktum upp í Þakgil, hefði nú ekki lagt í það með fellihýsið í eftirdragi.  Svo var bara farið í sund í Vík, grillað og chillað.
Á þriðjudeginum var pakkað saman í Vík.  Áður en við létum okkur hverfa þaðan var skroppið í Reynisfjöru og kíktum á Hálsnefshellir og Reynisdranga.

Daði Steinn, Logi Snær og Ísak Máni í Reynisfjöru
Þaðan var ferðinni heitið að Seljalandsfossi, á tjaldsvæðið að Hamragörðum.  Á leiðinni þangað stoppuðum við hjá Skógarfossi og tókum allar 384 tröppurnar upp.  Þegar við vorum búin að finna okkur stað fyrir "kerruna" eins og Daði kallaði græjuna á Hamragörðum þá lentum við í smá tæknilegum vandamálum.  Ákveðið var þá að skottast á Hvolsvöll og redda okkur nánari verkfærum en nota tækifærið og skella okkur í sund og taka sveitta máltíð á vegasjoppu í leiðinni.  Þegar aftur var komið voru tæknilegu vandamálin leyst og græjunni smellt í rafmagn.  Þá var kvöldsólin notuð til að kíkja fyrst inn í Gljúfrabúa sem var nokkuð magnað.  Sáum svo að lítið var um bíla á stæðinu hjá Seljalandsfossi og drifum við okkur því bara að taka röltið þarna bak við.  Sigga og Daði Steinn tóku þetta reyndar bara að utan en við hinir tókum þetta alla leið.  Varla kjaftur á sveimi en á nánast öllum öðrum tímum á meðan við vorum þarna var bílastæðið nánast alltaf kjaftfullt og 2-3 rútur staðalbúnaður.

Ísak Máni og Logi Snær bak við Seljalandsfoss
Daði Steinn og Seljalandsfoss séð að framan
Þegar þarna var komið við sögu var farið að þyngjast yfir veðurspánni.  Hugmyndir höfðu komið upp að fara yfir til Vestmannaeyjar þarna á miðvikudeginum en við ákváðum að eiga það bara inni.  Á miðvikudeginum var dótinu pakkað saman í takt við rigningardropana og haldið heim á leið.  Stoppað á Selfossi til að fá sér í gogginn en þar var algjört úrhelli.  Það var nú léttara yfir Reykjavík þegar við skiluðum fellihýsinu af okkur.
Allir bara þokkalega sáttir, flestir hefðu nú líklega getið haldið lengur út en það var samt engin stemming fyrir rigningunni.

laugardagur, júlí 14, 2012

Aðeins meira af 19:0 leiknum

Sem sérstakur áhugamaður um 3. deildina í knattspyrnu, sérstaklega þá sem snýr að minni gömlu heimabyggð þá er ekki leiðinlegt að hafa orðið vitni af stærsta sigri liðsins í sögunni, þeim stærsta svo um munar.  Eftir smá sagnfræðigrúsk þá kom í ljós að stórsigrarnir hafa nú ekki verið gríðarlega miklir í gegnum tíðina.  Lengi vel var 5:0 sigur gegn USVH í gömlu 3. deildinni (C-deild) árið 1976 stærsti sigurinn.  Eftir sumarið 1987 varð hlé á þátttöku liðsins þangað til sumarið 2010 en 2011 vannst 8:1 sigur á Afríku og var ég á svæðinu þá en ég held svei mér að menn hafi ekki gert sér grein fyrir að það væri stærsti sigurinn í sögunni þá.  Þessi 19:0 sigur gegn Snæfelli fer sem sagt í sögubækurnar sem sá stærsti.  Bara svona til fróðleiks þá er stærsta tap klúbbsins 0:9 gegn HV í 3. deild (C-deild) 1981.

Nokkrir punktar um metleikinn:
  • Markvörður Grundfirðinga, Ingólfur Örn Kristjánsson, sem var m.a. annars kosinn efnilegasti leikmaður Grundfirðinga síðasta sumar og hefur verið á mála hjá Víkingi Ólafsvík, hefur verið að glíma við axlarmeiðsli.  Axlarmeiðslin hafa gert það að verkum að hann hefur ekki getað spilað í marki en var settur í framlínuna í síðasta leik fyrir leikinn gegn Snæfell, 3:0 tap gegn Kára.  Aftur fékk hann tækifæri og setti 7 mörk í þessum leik, sem verður að teljast gott hjá formlegum markverði.  Reyndar er ég harður á því að hann hafi sett 8 kvikindi en að það hafi eitthvað skolast til í bókhaldi hjá ágætum dómara leiksins og kunninga mínum, Halldóri Breiðfjörð.  En 7 eru skráð á hann síðast þegar ég vissi, það verður að duga honum.
  •  Í hálfleik þegar staðan var 11:0 notaði Snæfell annan af tveimur varamönnum sínum og skipti um markvörð.  Sá sem kom inná stóð sig bara nokkuð vel þrátt fyrir að mitt nef segi mér að hann sé ekki mikið menntaður í fræðunum.  Hann var 15 ára, tveimur árum eldri en Ísak Máni.
  • Ásgeir Ragnarsson kom inná á 78. mínútu leiksins fyrir Grundfirðinga.  Hann er 48 ára og var að spila sinn fyrsta deildarleik síðan þarna á 9. áratug síðustu aldar.  Sonur hans var líka inná.
Annars er nú þátttaka Snæfells í þessu móti alveg efni í nýjan pistil.  Ég skal hundur heita ef í næsta riti af Íslenskri knattspyrna verði ekki bróðurpartur liðanna úr C-riðli 3.deildar með skráðan stærstan deildarsigur í sögunni gegn Snæfelli árið 2012.  Liðið er svo langt frá því að vera samkeppnishæft, tel meira að segja að það myndi varla gera mikla lukku í utandeildinni.  Þessi frétt á Vísir sem kom í dag finnst mér koma kjánalega út fyrir Snæfellsmenn, fyrir mitt leyti er þetta hætt að vera fyndið og ég get ekki séð til hvers góðs þessi þátttaka á að vera.  9 leikir búnir og allir tapaðir með markatöluna 0:124!  Menn hljóta að gera tilkall til þess að vera mögulega lélegasta lið í sögu deildarkeppninnar á Íslandi.
Nei, þá er nú betur heima setið.

fimmtudagur, júlí 12, 2012

Fyrsti í sumarfríi

Við Daði Steinn vorum að detta í frí í dag, hinir 3/5 eru búin að vera að chilla í einhvern tíma.  Bongóblíða þennan fyrsta frídag eins og hefur verið nánast í allt sumar og ég vona að þetta haldi eitthvað áfram.
Öllu liðinu sópað út í bíl í morgun og haldið upp á Akranes.  Tókum Langasand á þetta með tilheyrandi baðstrandarfílíng og fórum svo upp í skógræktina á svæðinu í nestisát, strandblak og almenna sólarsleikingu.  Héldum áfram í Grundarfjörð, skelltum lambakjöti og hamborgurum á kolagrillið í Smiðjustígnum um kvöldið, örugglega 40 gráður á pallinum í sólinni.  Röltum svo út á Grundarfjörð Stadium til að horfa á heimamenn flengja nágrannana úr Stykkishólmi 19:0.  Furðulegt en maður var með nettan kjánahroll megnið af leiknum og var svo eiginlega hálffúll að þeir hafi ekki náð 20 mörkunum.  En athyglistvert var þetta.
Hvað gerum við á morgun?  Ekki hugmynd.

Lífið er ljúft.

mánudagur, júlí 02, 2012

Betra liðið vann

Það var fljótlega ljóst að þetta var ekki að fara gerast en mér fannst 4:0 kannski fullmikið af því góða.  Spánverjar voru svaðalega góðir en tek samt ofan af fyrir mínum mönnum fyrir að halda áfram að reyna.  En það var lítið að detta með þeim bláu og þegar 3ji varamaðurinn tognaði á læri fimm mínútum eftir að hann kom inná þá slokknaði sú litla von sem kannski, hugsanlega, mögulega var eftir og síðasti hálftíminn var ekki að gera mikið fyrir mig.

Ég get þó huggað mig við það að spænskur sigur þýddi að ég vann ekki EM pottinn niðri í vinnu, en ítalskur sigur hefði þýtt að ég hefði fengið 114 bjóra heim með mér.  Það hefði verið bölvað vesen að koma þeim fyrir hérna heima, endurraða í eldhússkápunum og svoleiðis.  Bara vesen.

Bitur?  Neibb, ekki þegar betra liðið vann.

sunnudagur, júlí 01, 2012

Hálfnaður planki

Planki 1. júlí búinn og enn hefur ekki dottið út dagur hjá mér og Ísaki Mána á árinu 2012, 183 dagar búnir og 183 dagar eftir.  Við höfum haldið okkur við að planka í 2:05 mínútur en núna er þetta yfirleitt gert í einni lotu.  Ég get samt ekki sagt að þetta verði eitthvað léttara eða að manni finnist að maður sé að byggja upp eitthvað "plankaþol", þetta er alltaf jafn mikið helvíti.  Við höfum líka reynt að poppa þetta með einhverjum útfærslum, svipað eins og þessum -hérna-.  Það verður að segjast að þetta er ekki brjáluð fjölbreytni en það þýðir lítið annað en að reyna að klára þetta verkefni.  Spurning hvernig manni gengur að klára einn á dag í sumarfríinu, það verður bara að koma í ljós.

fimmtudagur, júní 28, 2012

miðvikudagur, júní 27, 2012

Afmælisveisla

Ísak Máni dottinn í 13 árin og því var ákveðið að blása til smáveislu.  Ákváðum að taka annan pól á þetta en áður með því að skeyta saman fjölskylduafmælisveislunni og svo vinaafmælisveislunni.  Ekki býður íbúðin okkar upp á svoleiðis þannig að við ákváðum að hugsa út fyrir kassann.  Fundum bara stað í næsta bæjarfélagi, Guðmundarlund í Kópavogi, þar sem grillaðstaða er til staðar og skemmtilegt útivistarsvæði sem var tilvalið fyrir leiki og þessháttar.  Bongóblíða búin að vera og þokkalegt útlit í kortunum þannig að við ákváðum að henda okkur bara í þetta.  Valkostur nr 1 var þriðjudagurinn, daginn eftir afmælisdaginn sjálfan og hlé á EM í fótbolta.  Ekki gekk það þar sem einhver annar var búinn að bóka staðinn.  Við tókum þá bara daginn í dag í staðinn, þrátt fyrir að Portúgal - Spánn væru að spila í undanúrslitum EM og veðurspáin væri ekki alveg eins góð eins og hafði verið. 

Útsýnið undan þakinu
 Ca 30 manna hópur, að okkur 5 meðtöldum, komst á gestalistann.  Veðrið var hlýtt eins og hafði verið síðustu daga, líka milt eins og hafði verið.  En eitthvað urðu þessir síðdegisskúrir sem minnst var á einhversstaðar heldur ýktari en maður hafði reiknað með og það að grillaðstaðan var yfirbyggð var gulls ígildi.  Ég hefði þegið sólina en það var samt ákveðin stemming yfir þessu.  Vinagestirnir létu rigninguna ekkert á sig fá og léku sér meðal trjánna á meðan aðrir tóku því rólega undir þakinu.  Hamborgarar á grillinu og kaka og kex á eftir.  Sumir orðnir frekar kaldir þarna í lokin og þá var bara farið í að selflytja mannskapinn heim fljótlega eftir matinn.  Ég held það sé spáð fínu veðri á morgun...

mánudagur, júní 25, 2012

sunnudagur, júní 24, 2012

Túristaferð

Flott veður í kortunum, sem varð raunin og við ákváðum að taka smá Suðurlandsrúnt í gær.  Ekkert alltof skipulagt, vildum bara sjá hvernig þetta þróaðist.  Byrjuðum á því að stoppa á Þingvöllum.  Ekki fastagestir þar og það verður að segjast okkur til hálfgerðar skammar að þetta var í fyrsta sinn sem við förum með börnin þangað.  Ísak Máni að detta í 13 árin og var að mæta í fyrsta sinn, hinir nýliðarnir eru því með aðeins betri tölfræði á bakinu varðandi aldur þeirra á sinni fyrstu Þingvallarferð.

Logi Snær, Daði Steinn og Ísak Máni á Þingvöllum
Daði Steinn og Sigga
Eigum við að stökkva?
Næst var haldið áfram og fyrir hálfgerða tilviljun var næsta stopp tekið á Laugarvatni þar sem Ísak og Logi fóru að vaða í sjálfu vatninu á meðan Daði tók smá fegrunarblund í bílnum.  Ég dýfði tánum þarna ofaní og minntist þess þegar ég var busaður þarna úti í vatninu fyrir einhverjum árum síðan af Sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni og fleiri mönnum.
Logi Snær og Ísak Máni í Laugarvatni
Stoppuðum næst í Úthlíð hjá Ingu og Gunna þar sem verið var að heyja og klippa tré og þessháttar bústörf.  Kaldur drykkur á pallinum gerði helmikið fyrir mig þrátt fyrir að stemmingin hjá sumum kom og fór í bylgjum.  Samt ákveðið að halda áfram og henda sér og skoða Geysir, svona rétt til að sjá eins og eitt gos.  Það hafðist en við nenntum ekki að fara á Gullfoss, kannski það verði gert síðar í sumar en tilhugsunin að eltast á eftir Daða í svoleiðis pakka var ekkert sérstök.
Ákváðum að taka ekki sömu leiðina heim og enduðum því í Hveragerði á Blómstrandi dögum þar sem menn fengu sér ís og þessháttar á meðan mannskapurinn lék sér í einum af almenningsgörðum Hvergerðinga og naut sólarinnar.  Með það veganesti var síðasti spölurinn heim tekinn og held að allir hafi verið heilt yfir sáttir.

fimmtudagur, júní 14, 2012

Skagamótið 2012... en ég verð fjarverandi

Skagamótið í fótbolta verður sett á morgun og í fyrsta sinn sem ég á dreng á því aldursbili sit ég heima.  Ísak Máni fór 3x sinnum og Logi Snær fór í fyrra.  Hann er á eldra ári núna í þessum flokki en dró sig úr fótboltanum að mestu leyti eftir síðasta sumar og hefur ekki fundið hvatann til að byrja aftur.  Sem er í góðu lagi, ef áhuginn fyrir þessu er ekki til staðar þá nær það ekki lengra, svo einfalt er það. 
Það bærist samt í mér svona blendnar tilfinningar.  Trúið mér, ég er alveg að þiggja eitt sumar þar sem planið þarf ekki að fara eftir fótboltamótum/leikjum.  En á hinn bóginn er ekki hægt að neita því að þrátt fyrir að þessi mót hafi gengið upp og ofan, innan vallar sem utan, þá situr nú yfirleitt það skemmtilega eftir í minningunni og maður tengist betur á margan hátt félögum drengjanna og foreldrum þeirra.
En það er sem sagt heima setið í ár, við verðum bara að sjá hvernig næstu ár þróast hjá Miðjumolanum.  Svo er náttúrulega einn enn á leiðinni upp aldursstigann.

þriðjudagur, júní 12, 2012

Ísak Máni í Háskólanum

Ísak Máni tók sig til og skráði sig í Háskóla unga fólksins núna í vor.  Þetta er svona ákveðinn kynning á háskólastarfinu en krakkar 12-16 ára geta sótt þarna námskeið og fengið smá innsýn inn í þennan heim.  Gott mál.  Hann er sem sagt þessa viku í þessu og er m.a. að taka kúrsa eins og eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, fornleifafræði, líffræði, lögfræði og spænsku.  Það kom eitthvað smá myndbrot á mbl.is þar sem fréttamenn kíktu við akkúrat í tíma sem hann var að sækja.  Hann varð ekki svo heppinn að vera tekinn í viðtal en það glittir í kappann 2-3 í bláu adidaspeysunni sinni í þessum myndbroti sem hægt er að sjá -HÉR-.

þriðjudagur, júní 05, 2012

Bongóhelgin sem var

Bongóblíða um síðustu helgi og nokkuð þétt dagskrá.  Föstudagskvöldið fór í aldarafmæli vinnunnar, nokkuð vel heppnað bara.  Enginn tími til að slaka á þarna á laugardagsmorgni því framundan var sveitaferð með leikskólanum hans Daða.  Við gerðum fjölskylduferð úr þessu eins og svo margir, stefnan tekin á Grjóteyri í Kjós, við Meðalfellsvatn.  Helstu húsdýrin á kantinum og grillað gott veður þannig að það var ekki hægt annað en að henda pylsum á grillið áður en lagt var af stað aftur í bæinn.  Ísak Máni átti að mæta í úrvalsbúðir KKÍ, þriðja árið sem hann er valinn í það.  Það verður víst ekki aftur, þ.e. ekki nema að hann verði valinn í U-15 ára landsliðið, enginn pressa...

Logi Snær og Daði Steinn í góðum gír

Ísak Máni með unga
Á sunnudagsmorgni voru menn greinilega ekki enn komnir með nóg af húsdýrum og því var farið í húsdýragarðinn, en kannski var líka stemming fyrir fallturninum og fleiri tækjum.  Enn lét maður framhandleggina í marineringu í sólinni og á sunnudagskvöldinu fór maður úr að ofan áður en skriði var upp í rúm en var samt í hvítum bol.  Skrítið.

mánudagur, júní 04, 2012

Logi Snær á netinu

Alltaf gaman þegar maður rekst á „verk“ eftir sig á opinberum vettvangi, tala nú ekki um ef það tengist börnunum manns líka.  Þau er líka hægt að flokka sem verk manns en þó í þessu tilfelli sé ég að tala um ljósmynd.  Ekkert djúpstætt svo sem en mynd sem ég tók af Loga Snæ var notuð í einhvern auglýsingapésa um sumarnámskeið í körfunni hjá ÍR og þaðan rataði hún inn á netið.  Hann hefur s.s. afrekað það að komast á forsíðuna á karfan.is.


Fann hann svo líka inn á körfubolti.net þannig að hann er búinn að því líka.  Ekki slæmt það, allt fer þetta á ferilskránna.


mánudagur, maí 28, 2012

Vakið yfir körfunni

Leikur 7 í undanúrslitaseríunni í Austurdeild NBA á milli Boston Celtics og Philadelphia 76ers.  Mínir menn í Sixers hafa ekkert verið neitt sérstakir síðustu ár og því ekkert annað í boði en að vaka eitthvað eftir þessu en flautað var til leiks á miðnætti í gær.  Þetta hlaut að vera meiri stemming en eftir að hafa lent í 20. sæti í Júróvision.  Ísak Máni fór að sofa eitthvað fyrir 23:00 en stillti klukkuna á 00:00.  Leikurinn byrjaði en ég heyrði ekkert í neinum verkjara úr herberginu hans.  Mínir menn lentu 10:2 undir og ég var að huga að láta strákinn bara sofa, fátt verra en að halda sér vakandi um miðjar nætur yfir óspennandi körfuboltaleikjum.  Fór samt inn og ýtti við honum.  Sixers komu til baka og héngu vel inn í leiknum að hálfleik en Ísak fór aftur upp í rúm en bað mig um að vekja sig ef spennan væri enn þegar eitthvað yrði liðið á 4. leikhluta.  Þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leiknum smellti Andre Iguodala niður þristi og munurinn kominn niður í einhver þrjú stig.  Ég fór inn til Ísaks og dró hann á lappir til að fylgjast með þessum æsispennandi lokamínútum en það var ekki að sökum að spyrja.  Botninn datt úr þessu eftir það og 10 stiga sigur Boston varð niðurstaðan.  Ísak Máni bauð góða nótt í þriðja skiptið á tæplega fjórum klukkutímum og ég skreið í bælið.  Fyrstu klukkutímarnir á afmælisdeginum voru ekki að byrja nógu vel.

sunnudagur, maí 27, 2012

Gamlir karlar

Lee Sharpe fyrrverandi leikmaður m.a. Manchester United og Grindavíkur á 41 árs afmæli í dag.
Paul Gascoigne fyrrverandi leikmaður m.a. Newcastle og Tottenham á 45 ára afmæli í dag.

Það er ljóst að þeir, sem og aðrir, eru ekki að verða neitt yngri.

laugardagur, maí 19, 2012

Úti að aka

Það telst líklega seint gáfulegt að pósta lýsingar á lögbrotum og láta svo myndir fylgja með til að taka af allan vafa, en við látum samt flakka.

Núna er sæmilega uppfærð bloggsíða kostur, því ekki man ég nokkurn skapaðan hlut.  Ísak Máni fékk að taka í stýrið á bílnum okkar í júlí 2006, rétt orðin 7 ára gamall og var það fært til bókar -hér-.  Það þurfti því að fara að gera eitthvað með miðjudrenginn svo ekki væri brotið á hans hlut, en sá orðinn 8 ára gamall og ekkert farið að gerast í þessum efnum.  Nú skiptist fólk væntanlega í tvo hópa, annars vegar finnst mönnum þetta frekar lélegt af minni hálfu en svo aðrir sem súpa hveljur og benda mér á að hægt sé að nálgast æfingaleyfið við 16 ára aldur, fyrr sé þetta ólöglegt með öllu.

 Jæja, Logi Snær fékk sem sagt að taka í stýrið í dag, staðsetning brotsins var á svipuðum stað og með Ísak Mána á sínum tíma, eitthvað smá afdrep í Kolgrafarfirði en karlpeningur fjölskyldunnar skaut í Grundarfjörð um helgina á meðan mamman var að endurhlaða rollurafhlöðuna sína handan fjallgarðsins.  Honum fannst þetta spennandi, en eins og oft áður, fannst á sér brotið hvað varðar tíma og lengd rúntsins miðað við aðra sem fengu að keyra.

Ísak Máni fékk sem sagt að keyra líka.  Núna bara einn í sætinu og þurfti þar af leiðandi að sjá um bremsu og bensíngjöf sjálfur.  Sjálfskiptingin reddaði honum hvað kúplinguna varðaði, veit ekki hvort ég hefði boðið í að fara líka yfir það með honum.

Svo fór ég eiginlega alveg með kerfið þegar ég gaf eftir þeim yngsta sem sat aftur í með þvílíka skeifu enda fannst honum að hér væri verið að svína big-time á sér.  Hann fékk því að taka einn hring að nafni til og færist því til bókar sem sá yngsti ökuþórinn af þeim bræðrum, rúmlega 3ja ára gamall.

Ábyrgur fjölskyldufaðir einn með börnin kveður í bili.

Rússíbanareið... og Manchester vann

Ég er að skríða saman eftir síðustu helgi.  Þegar úrslitin í ensku deildinni réðust.  Maður lifandi.  Heilt yfir hefur líf mitt sem Manchester United stuðningsmaður verið fínt.  Smá erfitt í byrjun þarna á níunda áratug síðastu aldar þegar Liverpool var liðið en svona síðan ca 1990 hefur þetta verið nokkuð fínt.

Það versta við þessa síðustu helgi að ég var búinn að afskrifa að United gæti unnið dolluna og að þetta væri komið í hendur City.  Enda liðin jöfn að stigum og City með miklu betri markatölu.  Þrátt fyrir að mínir menn myndu klára útileikinn sinn á móti Sunderland þá var ekki sjens í helvíti að City myndi klúðra heimaleik á móti QPR.  Eða hvað?
Þarna sat maður heima, búinn að vera sjá fyrir sér ljósbláa meistara í heila viku en allt í einu var hálftími eftir af leikjunum og United að vinna og City að tapa.  Og maður var allt í einu farinn að láta sig dreyma en reyndi samt að halda sér á jörðinni.  Gat þetta verið?  20 mínútur eftir og óbreytt staða og Tommi frændi hringdi.  Var þetta í alvöru að fara að gerast?  Tommi bara með United leikinn en ég með báða og tók því City leikinn og við skiptumst á því sem bar fyrir augum.  QPR komst ekki yfir miðju en City þurfti enn tvö mörk að því gefnu að United myndi klára sitt.  10 mínútur eftir.  Koma svo.  Ég hugsaði samt að ef þeir myndi koma einu inn þá yrði allt vitlaust.  Mancini var að missa kúlið, komin á hné og gat ekki haldið aftur af vonbrigðum sínum.  Í stúkunni var fólk í ljósbláum fötum farið að hágráta.  90 mínútur komnar og 5 mínútur í uppbót.  Ég var farinn að velta fyrir mér hvernig þetta virkaði, var einhver gervibikar á Sunderland vellinum?  Einhverju þyrftu mínir menn að lyfta.  Tommi var orðinn verulega stressaður hinumegin á línunni.  City með enn eina hornspyrnuna og þá kom mark.  2:2 og nú þurftu þeir bara eitt mark.  Ég fann hvernig ég þornaði upp í munninum.  "Ertu ekki að grínast?!" heyrðist í Tomma og enn einhverjar 3-4 mínútur eftir.  Ég var enn að átta mig á þessu þegar hitt markið kom.  Ég kom varla upp orði, man bara að ég sagði við Tomma:  "Þeir skoruðu."  Gat ekki sagt neitt meira.  "Ertu ekki að grínast?!" heyrði ég óma í símanum en mér fannst allt vera í þoku, nánast eins og draumur.  Þetta var hrikalega óraunverulegt.  2 mörk í uppbótartíma.  Hver skorar 2 mörk í uppbótartíma?  OK, reyndar meistaradeildartitillinn 1999.  Nú veit ég í raun hvernig Bayern-mönnum leið og tilfinningin er ekki góð.

Ég skal viðurkenna að ég var ekkert mikið að velta mér upp úr miðlunum eftir helgina, nennti ekki að vera velta mér upp úr þessu á meðan svekkelsið var sem mest.  Menn hafa verið að meina að þetta hafi verið með svakalegri endir á ensku deildinni, sem þetta var en ég fór svo að rifja upp síðasta leikinn á tímabilinu 1988-1989.  Það var líka rosalegt, Liverpool-Arsenal í lokaleik á Anfield og Liverpool mátti tapa með einu en samt verða meistari.  Arsenal komst í 0:1 í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn virtust vera að sigla þessu heim þegar Michael Thomas komst í gegn í uppbótartíma og setti markið sem Arsenal þurfti til að "stela" titlinum.  Man að ég horfði á þennan leik í Sæbólinu og hitti svo einhverja Púllara síðar um daginn á vídeóleigunni hjá Stínu Odds þar sem þeir voru frekar svekktir.  Skil það núna.

Jæja, það er alltaf næsta ár.  Verst að mínir menn ætla að fara leika í einhverjum köflóttum viskustykkjum sem ég er ekki alveg að kaupa.  Þeir munu kannski líta betur út með eigin augum en svona af mynd.  En hvort sem er hefur það víst ekki mikil áhrif á ást mína á þessu breska fótboltaliði.

fimmtudagur, maí 17, 2012

Fimleikadrengurinn

Logi Snær er búinn að vera í fimleikum hjá Ármanni síðan í haust.  Svona það litla sem maður hefur séð glitta í á æfingum þá virðist hann vera nokkuð öflugur í þessu og hefur yfirleitt gaman af þessu.  Svo var það í dag að það var sýning fyrir forelda og aðstandendur.  Ég var nokkuð spenntur bara en vissi nú ekki alveg hvað ég væri að fara út í, ef við hefðum verið að tala um eitthvað boltamót þá væri ég meira á heimavelli.  Það var búinn að vera talsverður undirbúningur hjá drengnum fyrir þetta, æfingar fyrir luktum dyrum og generalprufa, sömuleiðis sem enginn aðstandandi mátti verða vitni af.  Við þurftum að kaupa miða og alles, þannig að allt í kringum þetta var frekar svona alvöru.
Ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið flott sýning.  Þarna voru margir hópar af öllum stærðum og gerðum.  Á öllum aldri, í allskonar búningum og mislangt komin í fimleikalegri færni.  En atriðin voru flott, ljósashow og tónlist í takt, mikið lagt í þetta.  Tæpur einn og hálfur tími var svona í það lengsta, sérstaklega þegar atriðið hjá mínu barni rann í gegn á nokkrum mínútum.  En ég skemmti mér a.m.k. nokkuð vel, þótt þetta væri boltalaus skemmtun með öllu.