laugardagur, mars 31, 2012

Reiðhjól á Íslandi þá og nú

Bara til að hafa það á hreinu þá snúast þessar hugrenningar mínar ekki um að ég sé eitthvað að svekkja mig á útlögðum kostnaði sem tengist mínum blessuðu börnum.  Ég hef ekki séð á eftir krónu sem fer í mat, föt, leikföng, skóla- og tómstundarkostnað o.s.frv.  Maður reynir vitaskuld að gera hlutina á hagkvæman hátt sé þess einhver kostur og ef um mikinn kostnað er að ræða þá skoðar maður helstu kosti í stöðunni og tekur ákvörðun byggða á einhverju mati.  Vill meina að þessi pistill snúist frekar um kaupmáttarstöðu landsmanna og eflaust væri hægt að taka einhverja gjaldeyrispælingar í framhaldinu, tengja það við launaþróun og fá út einhverja niðurstöðu en ég held að ég hætti mér nú ekki út á þá braut.

Málið er að Ísaki Mána vantaði nýtt reiðhjól, gamla græjan komin með sætisrörið alveg í toppstöðu og ekki hægt að bjóða upp á þetta á komandi sumri.  Hann býr að því að vera frumburður og fær þá yfirleitt ný hjól sem ganga niður goggunarröðina.  Með því að hann fái nýtt hjól þá fær Logi Snær líka "nýtt" hjól, eða öllu heldur gamla hjólið hans Ísaks.  Greyið Daði Steinn, helsta von hans er að Logi sé þeim mun meiri böðull sem komi til með að ganga frá þeim græjum sem gangi til hans frá Ísaki og þar með verði að kaupa nýtt fyrir Daða.

Ég held að ég sé frekar lélegur neytandi.  Verðvitund mín á flestum hlutum er frekar slæm og ef ég nenni ekki að vinna neina rannsóknarvinnu þá má oft selja mér þá hugmynd að ákveðnir hlutir eigi að kosta eitthvað ákveðið.  Hvað reiðhjól varðar þá bý ég að því að hafa starfað við sölu á þessu og man því, merkilegt nokk, eitt og annað úr bransanum.  Eftir að hafa tekið rúnt í vikunni á þessar helstu sérverslanir, Markið, Örninn og GÁP þá komst ég að því að ódýrasta fjallahjólið í fullorðinsflokki (dugar ekkert minna fyrir Ísak Mána) kostaði á öllum stöðunum 59.900 kr.  Sem er helv... mikið að mér finnst, án þess að taka þá pælingu lengra af hverju þau kosti það sama á öllum stöðum.  Ég tók opna hugann á þetta og kíkti í Hagkaup og Byko til að athuga hvort það leyndist eitthvað þar sem hægt væri að notast við.  Ekki reyndist það svo, úrvalið þar nánast ekkert og vonlaust að hitta á einhvern starfsmann sem vissi hvað snéri fram eða aftur á reiðhjóli eða sýndi manni einhvern vott af áhuga í þessum pælingum.  Til að gera langa sögu stutta þá fundum við grip sem drengurinn var sáttur við og rúmlega 60.000 kr hurfu af reikningnum mínum á örskotsstundu.

Sem kemur þá að því sem mér svíður mest.  Þegar ég var í þessum bransa fyrir 12-14 árum þá voru ódýrustu hjólin í þessum flokki að kosta ca 23.000 kr - 25.000 kr.  Veit ekki hvort menn voru graðari í innkaupum þá en það var alla vega oft hægt að fá afganga frá því sumrinu áður með 20-30% afslætti af þeim verðum á þessum árstíma.  Það var ekkert sem heitið gat á þessum rúnti mínum í þetta skiptið.  Ég hristi bara hausinn þegar ég rak svo augun í verðmiðann á minnstu tvíhjólunum sem kostuðu 8.900 kr back-then, 23.900 kr árið 2012.

Blákaldur raunveruleikinn og ég gat ekki annað en spurt sjálfan mig að því hvar í fjandanum ég væri staddur.

Af plankanum

Plankaverkefnið hangir enn, planki framkvæmdur á hverjum degi frá áramótum og enn hefur ekki dagur dottið út.  Við héldum sama tíma í mars og í febrúar, 1:55 mín, yfirleitt með einni pásu en tókum þetta nokkrum sinnum í einni lotu.  Eitthvað verður bætt í núna í apríl en ég leyfi Ísaki að stjórna tímanum.
Það virðist ekki vera einfalt að auka þolið í þessu, mér finnst þetta alltaf jafn djö... erfitt.  Tók þátt í smá keppni niðri í vinnu í tengslum við eitthvað Crossfit átak þar sem plankinn var tekinn og menn reyndu að hanga sem lengst.  Ég tórði í 3:04 mínútur sem mér fannst frekar slappt miðað við að þetta er eitthvað sem ég hef gert á hverjum degi síðan 01.01.2012.  Ég var farinn að titra og nötra þarna í lokin og réð ekki neitt við neitt.  Ísak Máni tók í framhaldinu einn svona úthaldsplanka og náði 3:01 mínútur en ég var ekki búinn að segja honum minn tíma þannig að ég held að hann hefði pínt sig extra þarna til að ná tímanum hans pápa ef hann hefði vitað hann.
Við tökum örugglega aftur svona keppni aftur í apríl og þá verður mönnum stillt upp hlið við hlið, sem ætti að vera hvetjandi fyrir báða aðila.

sunnudagur, mars 25, 2012

Jakkafatahelgi

Nokkuð þéttri helgi að ljúka.  Sigga náði sér í einhvern skít og var heima lasin á föstudaginn en þurfti að skríða saman á methraða.  Árshátíð hjá vinnunni minni á laugardeginum, haldin í Silfursalnum, held ég hann heiti, þarna á Hótel Borg.  Matur og skemmtiatriði með nettu Bollywood þema sem var allt í lagi, toppaði reyndar ekki Hollywood pakkann frá því árinu áður.  Maður var nú bara rólegur, kominn á þennan aldur, og kominn í bælið tiltöllega snemma.  Partýgírinn orðinn alveg handónýtur, veit ekki hvað þetta er.  Maður þarf kannski bara að panta tíma einhversstaðar og láta athuga skiptinguna.
Nánast óþarfi að fara úr fötunum því það var mæting upp í Bröttuhlíð daginn eftir í skírnarveislu.  Guðrún að skíra nýja drenginn, hann Steinar Inga.  Ekki skortur á veitingum sem fyrri daginn á þeim bænum en ég viðurkenni það fúslega að fyrsta verk við heimkomuna í dag var að skella mér í náttbuxurnar og leggjast á meltuna.

laugardagur, mars 24, 2012

Skemmtilegar hefðir en meiri árangur óskast

Henti mér á síðasta leik ÍR í körfunni þennan veturinn, sem var núna á fimmtudaginn.  Heimaleikur við KR og ekkert að keppa að og tap niðurstaða kvöldsins.  Vonbrigðartímabili að ljúka þar sem 9. sæti varð niðurstaðan og menn komnir í sumarfrí því ekki gekk að tryggja sér inn í úrslitakeppnina.  Ekki það að það hefði verið endilega einhver stemming í því að skríða þangað inn, til þess eins að láta sópa sér út í einhverri stemmingsleysi.  Æi, voðalega væri nú gaman að ef menn næðu nú að rífa þetta upp getulega séð og sett smá trukk í þetta, frekar andlaust eitthvað.

Annars tek ég nú ofan fyrir þeim sem standa í þessarri vinnu því fyrir leikinn var treyja hins síunga Eiríks Önundarsonar hengd upp, þekkt hefð m.a. úr hinni amerísku NBA deild þar sem leikmenn sem skarað hafa fram úr hjá viðkomandi félagi fá treyjur sínar hengdar upp í rjáfur leikhallanna um aldur og ævi.  Þar reyndar eru númer viðkomandi leikmanna tekin úr umferð og ekki notað aftur en það er víst ekki alveg í boði hérna, held að reglur KKÍ segi að leikmenn á leikskrá skuli vera númeraðir frá 4-15.    Svo er víst ekki alveg víst hvort kappinn er endanlega hættur að spila, hefur víst reynt að hætta en af einhverjum ástæðum gengur það illa.  Það kemur víst væntanlega í ljós í haust hvort karlinn skokki inn á völlinn eins og ca síðustu 20 tímabil.  En þetta kom vel út, veit af einni treyju sem Njarðvík hengdi upp, annars hef ég ekki heyrt af þessu áður.  En karlinn á þetta skilið, það er nokkuð ljóst.

Var svo næstum því búinn að fara á handboltaleik hjá ÍR daginn eftir, sem hefði verið sá fyrsti í örugglega 2-3 ár.  Þeir sigruðu Víkinga og náðu með því að tryggja sér úrvalsdeildarsæti að ári en ég var víst bundinn í önnur verkefni.  Handboltinn er víst að ná að skapa ágætis umgjörð og mig langaði svona að bera þetta saman við körfuna.  Það er alltaf gaman að upplifa góða stemmingu þótt ég taki nú körfuna framyfir handboltann flesta daga.

föstudagur, mars 16, 2012

Á hótelherbergi í Þýskalandi í vikunni


Alltaf sér maður eitthvað nýtt.  Hvað átti ég að gera við gúmmíönd í sturtunni?  Skil tenginguna ef við værum að tala um baðkar.  Voða krúttlega og allt það en mér fannst eitthvað bogið við þetta.  Var ekki viss hvort það var ætlast til að ég tæki hana með mér heim en fannst það ekki við hæfi fyrst hún var þrælmerkt hótelinu.  Hefði örugglega fengið bakreikning á kortinu fyrir henni.

laugardagur, mars 10, 2012

Engir útlendingafordómar samt...

Karlinn er búinn að vera þokkalega duglegur að mæta á leiki hjá ÍR í körfunni þennan vetur, enda ársmiðahafi eins og í fyrra.  Ísak Máni hefur svona yfirleitt verið minn fylgarsveinn á þessa leik, við höfum líka látið sjá okkur á eitthvað af útileikjunum, svona þegar það hefur hentað.  Úrslitin hafa ekki verið að detta með okkur og þegar þetta er skrifað eru þrír leikir eftir af deildarkeppninni og ýmislegt þarf að ganga upp til að við skríðum inn í úrslitakeppnina.
Það var útileikur í gær, við Stjörnuna í Ásgarði, en Ísak Máni var forfallaður enda í afmæli hjá félaga sínum.  ÍR nýlega búnir að fá sér nýjan kana, Rodney Alexander, og er sá sannkallaður háloftafugl en ég var búinn að missa af síðustu leikjunum og því ekki búinn að sjá kappann í action.  Logi Snær var til í að kíkja með karlinum svo að við félagarnir kíktum í Garðabæinn.
Okkar menn höfðu 4ra stiga sigur í háspennuleik, Alexanderinn átti a.m.k. tvær flugferðir sem enduðu með suddatroðslum og við erum s.s. enn á lífi í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.  Án þess að ætla að fara eitthvað að ræða þennan leik þá er eitt sem er svolítið að plaga mig varðandi íslenska körfuboltann, það eru þessi blessuðu útlendingamál.  Ég skal alveg viðurkenna að ég man nú ekki nákvæmlega reglurnar um fjölda útlendinga sem hvert lið má tefla fram, veit að tveir kanar eru leyfðir en svo held ég að það séu engar, eða a.m.k. litlar, hömlur á menn sem hafa evrópst vegabréf.  Mér hefur fundist þetta komið út í öfgar hjá mörgum liðu, maður hefur séð 4-5 erlend nöfn á nafnalista hjá liðum.  OK, einhversstaðar eru menn komnir með íslenskan ríkisborgararétt sem teljast þá víst sem innlendir.

Útlendingar eru af því góða fyrir þessa deild, mér dytti ekki að halda nokkru öðru fram, ég er búinn að lýsa því hvernig nýji kaninn hjá ÍR var svona helsti drifkrafturinn í að drösla mér upp í Ásgarð í gær.  En við erum að tala um körfubolta, það eru fimm manns inná í einu í hvoru liði og liðin mega vera með tólf manns á skýrslu.  Mín skoðun, í talsverðan tíma, hefur verið sú að leyfa tvo útlendinga, punktur.  Ég veit að ég er örugglega að tala á móti einhverjum evrópskum lögum um frjálst flæði atvinnulífs en mér er bara alveg sama, það hlýtur að vera hægt að fiffa það eitthvað til.  Ef þú getur ekki hnoðað saman tíu hræðum sem geta dripplað bolta í bland við tvo útlendinga þá þarf bara að fara í einhverja naflaskoðun á starfi klúbbsins.  Í leiknum í gær var einn einstaklingur, af þeim tíu sem hófu leikinn fyrir bæði lið, uppalinn hjá viðkomandi klúbbi.  Aðrir voru erlendir leikmenn eða aðkeyptir íslenskir leikmenn frá öðrum félögum.  Mér finnst einfaldlega skilaboðin sem verið er að senda niður í yngri flokkana vera sú að þú þarft að vera helv... framarlega á þínu sviði til að eiga nokkuð breik í að fá tækifærið á stóra sviðinu hjá þínu félagi.  Enda hefur maður, á þessum ca þremur árum sem ég hef verið nokkuð grimmur í að mæta á leiki og fylgst með starfinu hjá ÍR, heyrt af og séð nokkra efnilega drengina einfaldalega hætta þegar þeir eru komnir á það stig reyna að banka á meistaraflokksdyrnar.  Snýst þetta um aukna kröfur á árangur strax?  Hafa menn ekki tíma til að byggja upp lið?  Svo ég haldi áfram að tala um hverfisklúbbinn, get ekki mikið dæmt önnur félög, þá hafa þeir þessi síðustu ár verið að ströggla við að komast í úrslitakeppnina til þess eins að láta fleygja sér út í fyrstu umferð.  Væri ekki hægt að ná þeim "árangri" með því að leyfa uppöldu kjúklingunum að spila örlítið meira?

Bara pæling.

miðvikudagur, mars 07, 2012

Loksins fækkun í stellinu

Er að margmassa áramótaheitinu frá því í fyrra, eða árinu þar áður.  Nógu mikið hefur þetta a.m.k. legið á mér síðustu ár.  Ég var sem sagt hjá tannsa í endajaxlatökum í dag, sem var náttúrulega alveg frábært.  Fyrir einhverjum árum reif þáverandi tannlæknirnn minn einn jaxl úr stellinu þannig að hinir þrír hafa fengið að lifa áfram, þangað til í dag.  Ákveðið var að taka þeim megin sem tveir voru eftir, hreinsa þá hlið en taka svo þann síðasta síðar.
Ég vissi ekki hvort ég var með meiri hnút yfir aðgerðinni sjálfri eða tilfinningunni þegar ég fengi að heyra hvað þetta myndi kosta.  Athöfnin sjálf gekk nú nokkuð vel, eiginlega betur en ég þorði að vona, þrátt fyrir að neðri jaxlinn hafi reynst hinn mesti harðjaxl og kostaði þeim mun meira ef ég skil þetta rétt.  Rúmur hálftími og svo var allt afstaðið.  Þá var bara að punga út fyrir herlegheitunum, 58.200 kr.  Núna veit ég a.m.k. að taxtinn á stofunni sem ég fór á, fyrir "tönn fjarlægð með skurðaðgerð - beinlæg að hluta" er 42.500 kr og "úrdráttur tannar með fulla beinfestu" er 15.700 kr.  Ekki skal svo gleyma að ég var búinn að mæta í einhverja forheimsókn með myndatöku o.s.frv. sem kostaði mig einhvern rúman 10.000 kall.
Búinn að panta tíma fyrir síðasta jaxlinn, eftir tæpa tvo mánuði.  Það verður að koma í ljós hvort það verður hefðbundinn úrdráttur eða skurðaðgerðarfjarlægðing, þetta verður alltaf 80.000 - 100.000 kall.  Ég reyni að hugsa ekki mikið um hvað ég hefði getað notað þessa peninga í annað skemmtilegt en menn hérna á heimilinu voru fljótir að tengja þetta við PlayStation 3.