fimmtudagur, júní 28, 2012

miðvikudagur, júní 27, 2012

Afmælisveisla

Ísak Máni dottinn í 13 árin og því var ákveðið að blása til smáveislu.  Ákváðum að taka annan pól á þetta en áður með því að skeyta saman fjölskylduafmælisveislunni og svo vinaafmælisveislunni.  Ekki býður íbúðin okkar upp á svoleiðis þannig að við ákváðum að hugsa út fyrir kassann.  Fundum bara stað í næsta bæjarfélagi, Guðmundarlund í Kópavogi, þar sem grillaðstaða er til staðar og skemmtilegt útivistarsvæði sem var tilvalið fyrir leiki og þessháttar.  Bongóblíða búin að vera og þokkalegt útlit í kortunum þannig að við ákváðum að henda okkur bara í þetta.  Valkostur nr 1 var þriðjudagurinn, daginn eftir afmælisdaginn sjálfan og hlé á EM í fótbolta.  Ekki gekk það þar sem einhver annar var búinn að bóka staðinn.  Við tókum þá bara daginn í dag í staðinn, þrátt fyrir að Portúgal - Spánn væru að spila í undanúrslitum EM og veðurspáin væri ekki alveg eins góð eins og hafði verið. 

Útsýnið undan þakinu
 Ca 30 manna hópur, að okkur 5 meðtöldum, komst á gestalistann.  Veðrið var hlýtt eins og hafði verið síðustu daga, líka milt eins og hafði verið.  En eitthvað urðu þessir síðdegisskúrir sem minnst var á einhversstaðar heldur ýktari en maður hafði reiknað með og það að grillaðstaðan var yfirbyggð var gulls ígildi.  Ég hefði þegið sólina en það var samt ákveðin stemming yfir þessu.  Vinagestirnir létu rigninguna ekkert á sig fá og léku sér meðal trjánna á meðan aðrir tóku því rólega undir þakinu.  Hamborgarar á grillinu og kaka og kex á eftir.  Sumir orðnir frekar kaldir þarna í lokin og þá var bara farið í að selflytja mannskapinn heim fljótlega eftir matinn.  Ég held það sé spáð fínu veðri á morgun...

mánudagur, júní 25, 2012

sunnudagur, júní 24, 2012

Túristaferð

Flott veður í kortunum, sem varð raunin og við ákváðum að taka smá Suðurlandsrúnt í gær.  Ekkert alltof skipulagt, vildum bara sjá hvernig þetta þróaðist.  Byrjuðum á því að stoppa á Þingvöllum.  Ekki fastagestir þar og það verður að segjast okkur til hálfgerðar skammar að þetta var í fyrsta sinn sem við förum með börnin þangað.  Ísak Máni að detta í 13 árin og var að mæta í fyrsta sinn, hinir nýliðarnir eru því með aðeins betri tölfræði á bakinu varðandi aldur þeirra á sinni fyrstu Þingvallarferð.

Logi Snær, Daði Steinn og Ísak Máni á Þingvöllum
Daði Steinn og Sigga
Eigum við að stökkva?
Næst var haldið áfram og fyrir hálfgerða tilviljun var næsta stopp tekið á Laugarvatni þar sem Ísak og Logi fóru að vaða í sjálfu vatninu á meðan Daði tók smá fegrunarblund í bílnum.  Ég dýfði tánum þarna ofaní og minntist þess þegar ég var busaður þarna úti í vatninu fyrir einhverjum árum síðan af Sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni og fleiri mönnum.
Logi Snær og Ísak Máni í Laugarvatni
Stoppuðum næst í Úthlíð hjá Ingu og Gunna þar sem verið var að heyja og klippa tré og þessháttar bústörf.  Kaldur drykkur á pallinum gerði helmikið fyrir mig þrátt fyrir að stemmingin hjá sumum kom og fór í bylgjum.  Samt ákveðið að halda áfram og henda sér og skoða Geysir, svona rétt til að sjá eins og eitt gos.  Það hafðist en við nenntum ekki að fara á Gullfoss, kannski það verði gert síðar í sumar en tilhugsunin að eltast á eftir Daða í svoleiðis pakka var ekkert sérstök.
Ákváðum að taka ekki sömu leiðina heim og enduðum því í Hveragerði á Blómstrandi dögum þar sem menn fengu sér ís og þessháttar á meðan mannskapurinn lék sér í einum af almenningsgörðum Hvergerðinga og naut sólarinnar.  Með það veganesti var síðasti spölurinn heim tekinn og held að allir hafi verið heilt yfir sáttir.

fimmtudagur, júní 14, 2012

Skagamótið 2012... en ég verð fjarverandi

Skagamótið í fótbolta verður sett á morgun og í fyrsta sinn sem ég á dreng á því aldursbili sit ég heima.  Ísak Máni fór 3x sinnum og Logi Snær fór í fyrra.  Hann er á eldra ári núna í þessum flokki en dró sig úr fótboltanum að mestu leyti eftir síðasta sumar og hefur ekki fundið hvatann til að byrja aftur.  Sem er í góðu lagi, ef áhuginn fyrir þessu er ekki til staðar þá nær það ekki lengra, svo einfalt er það. 
Það bærist samt í mér svona blendnar tilfinningar.  Trúið mér, ég er alveg að þiggja eitt sumar þar sem planið þarf ekki að fara eftir fótboltamótum/leikjum.  En á hinn bóginn er ekki hægt að neita því að þrátt fyrir að þessi mót hafi gengið upp og ofan, innan vallar sem utan, þá situr nú yfirleitt það skemmtilega eftir í minningunni og maður tengist betur á margan hátt félögum drengjanna og foreldrum þeirra.
En það er sem sagt heima setið í ár, við verðum bara að sjá hvernig næstu ár þróast hjá Miðjumolanum.  Svo er náttúrulega einn enn á leiðinni upp aldursstigann.

þriðjudagur, júní 12, 2012

Ísak Máni í Háskólanum

Ísak Máni tók sig til og skráði sig í Háskóla unga fólksins núna í vor.  Þetta er svona ákveðinn kynning á háskólastarfinu en krakkar 12-16 ára geta sótt þarna námskeið og fengið smá innsýn inn í þennan heim.  Gott mál.  Hann er sem sagt þessa viku í þessu og er m.a. að taka kúrsa eins og eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, fornleifafræði, líffræði, lögfræði og spænsku.  Það kom eitthvað smá myndbrot á mbl.is þar sem fréttamenn kíktu við akkúrat í tíma sem hann var að sækja.  Hann varð ekki svo heppinn að vera tekinn í viðtal en það glittir í kappann 2-3 í bláu adidaspeysunni sinni í þessum myndbroti sem hægt er að sjá -HÉR-.

þriðjudagur, júní 05, 2012

Bongóhelgin sem var

Bongóblíða um síðustu helgi og nokkuð þétt dagskrá.  Föstudagskvöldið fór í aldarafmæli vinnunnar, nokkuð vel heppnað bara.  Enginn tími til að slaka á þarna á laugardagsmorgni því framundan var sveitaferð með leikskólanum hans Daða.  Við gerðum fjölskylduferð úr þessu eins og svo margir, stefnan tekin á Grjóteyri í Kjós, við Meðalfellsvatn.  Helstu húsdýrin á kantinum og grillað gott veður þannig að það var ekki hægt annað en að henda pylsum á grillið áður en lagt var af stað aftur í bæinn.  Ísak Máni átti að mæta í úrvalsbúðir KKÍ, þriðja árið sem hann er valinn í það.  Það verður víst ekki aftur, þ.e. ekki nema að hann verði valinn í U-15 ára landsliðið, enginn pressa...

Logi Snær og Daði Steinn í góðum gír

Ísak Máni með unga
Á sunnudagsmorgni voru menn greinilega ekki enn komnir með nóg af húsdýrum og því var farið í húsdýragarðinn, en kannski var líka stemming fyrir fallturninum og fleiri tækjum.  Enn lét maður framhandleggina í marineringu í sólinni og á sunnudagskvöldinu fór maður úr að ofan áður en skriði var upp í rúm en var samt í hvítum bol.  Skrítið.

mánudagur, júní 04, 2012

Logi Snær á netinu

Alltaf gaman þegar maður rekst á „verk“ eftir sig á opinberum vettvangi, tala nú ekki um ef það tengist börnunum manns líka.  Þau er líka hægt að flokka sem verk manns en þó í þessu tilfelli sé ég að tala um ljósmynd.  Ekkert djúpstætt svo sem en mynd sem ég tók af Loga Snæ var notuð í einhvern auglýsingapésa um sumarnámskeið í körfunni hjá ÍR og þaðan rataði hún inn á netið.  Hann hefur s.s. afrekað það að komast á forsíðuna á karfan.is.


Fann hann svo líka inn á körfubolti.net þannig að hann er búinn að því líka.  Ekki slæmt það, allt fer þetta á ferilskránna.