mánudagur, júlí 26, 2010

Á góðri stund 2010

Við fórum til Grundarfjarðar og það varð ljóst að einhver sá að sér því fyrir utan þennan rigningarúða sem stóð yfir í 20 mínútur á laugardeginum þá var þetta bara meira sól og sumarylur. Jóhanna og co létu sjá sig líka og því var þetta smá púsluspil að koma einni 5 manna fjölskyldu og annarri 4ra manna (ég tel Búbba ekki með) fyrir á Smiðjustíg 9. Það gekk hins vegar vel upp og allir sáttir og gleðin við völd á öllum vígstöðum:fimmtudagur, júlí 22, 2010

Opið bréf til æðri máttarvalda

Til þín sem öllu ræður.

Ertu ekki að grínast með þetta? Þú vissir vel að stefnan var sett á Grundarfjörð þessa helgi, við förum ALLTAF til Grundarfjarðar þessa helgi. Ég er meira að segja í fríi á föstudaginn, ég er nánast ALLTAF í fríi á föstudegi þessa helgi.

Það er búið að vera þvílíkt sólarveður hérna síðustu daga að það hálfa hefði verið nóg en svo dettur þér í hug að fara láta þykkna yfir öllu núna og droparnir á veðurspánum hafa lítið sem ekkert breyst alla vikuna en reyndar var þetta aðeins farið að skána í kvöld. Ég er ekki að fara fram á 20°C + en rigning...

Rigning eða sól, það breytir svo sem engu þannig, það er ekki eins og við ætluðum að hætta við að fara.

En rigningarspáin var ekki nógu mikil niðurbrotsstarfsemi. Byrjaðir á þeim yngsta sem fékk bullandi hita og eyrnabólgu takk fyrir. Logi Snær fylgdi svo á eftir með hita. Ísak Máni var ekki líklegur að fá hita en hann þurfti samt að fá einhvern pakka. Og þvílíkur pakki, hvernig er hægt að láta sér þetta detta til hugar? Að 11 ára gamall drengur geti fengið málingarflís á bólakaf, þá meina ég bólakaf, í stóru tánna á sér þegar hann er að renna sér í vatnsrennibraut hlýtur að vera eitthvað met. Eins súrrealískt og þetta hljómar þá er okkur ekki beint hlátur í hug, ég meina mamman var kölluð út og upp á heilsugæslu í Mjódd með drenginn þar sem þurfti að taka nöglina af og núna er hann á annarri löppinni og ber sig aumlega. Þetta er allt að gerast 5 tímum fyrir hina eiginlegu brottför.


Ég segi nú bara eins og Skrámur hérna um árið þegar hann skrifaði Jóla: „Hvað ertu að reyna að gera okkur eiginlega?“

En bara þér að segja, þá ætlum við samt að fara, ekki í kvöld þó eins og ráðgert var, heldur á morgun og ætlum að hafa það fínt, takk fyrir.

Kveðja,
Davíð.

þriðjudagur, júlí 20, 2010

Bullandi hiti í bullandi hita

Helgin var nokkuð góð. Ákváðum, reyndar ekki fyrr en á föstudeginum, að fara ekki neitt og taka bara blíðuna í borginni frekar en að skottast eitthvert á bílnum. Við vorum greinilega í minnihlutahóp því það fór svo að hvert sem við fórum um helgina til að sleikja sólina þá var þar minna af fólki en venjan er, sem var bara mjög þægilegt. Ísaki Mána var reyndar boðið í tjaldvagnaútilegu með félaga sínum og fjölskyldu hans sem hann þáði en við hin fundum okkur eitthvað annað til dundurs. Við Logi Snær fórum á ÍR völlinn á föstudeginum og svo var tekið snemmt sund á laugardeginum áður en Húsdýragarðinum voru gerð góð skil. Áður en við fórum svo heim að grilla vildi Logi endilega taka einn snöggan útsýnishring upp í Hallgrímskirkju og tók mömmu sína með sér. Eitthvað var Daði Steinn orðinn tuskulegur eftir allt þetta saman og við nánari mælingar var ljóst að kappinn var kominn með vænan skammt af rúmlega hita.

Aftur var mælt á sunnudagsmorgninum og staðan á drengnum verri ef eitthvað var. Það var því ljóst að hjólreiðatúrinn í Nauthólsvíkina sem hefði átt að vera að veruleika varð að bíða betri tíma. Plan B var að fara með Loga Snæ í sund og fórnaði ég mér í það verkefni á meðan Sigga og Daði Steinn voru heima. Ekki var samt hægt að hanga allan daginn inni með sjúklinginn og því var tölt niður í Elliðaárdal þegar hann tók lúrinn í vagninum sínum, það var hægt að vaða og þessháttar. Það hittist svo á að þegar við vorum að nálgast útidyrnar hjá okkur eftir þá ferð var Ísak Máni að renna í hlað eftir útileguna sína.

Í gær var farið með Daða Stein til læknis. Eyrnabólga og lyfjaskammtur í takt við það.

Ekki það að sögunni sé lokið því Logi Snær var orðinn eitthvað skrítinn líka. Samt var keyrt á prógrammi dagsins. Hjólaði upp í skólagarða með Ísaki en þaðan var labbað niður í Mjódd til að fara í bíó með skólagarðakrökkunum. Labbaði aftur upp í skólagarða til að ná í hjólið sitt og hjólaði heim. Labbað með mömmu sinni niður í Mjódd og heim aftur áður en hann fór hjólandi á fótboltaæfingu. Var víst frekar „afslappaður“ á æfingunni en þurfti samt að hjóla heim aftur að henni lokinni. Mældur áðan og niðurstaðan var svipuð og hjá yngri bróðir hans, fullmikið hitastig.

Og svo er bara spáð rigningu um næstu helgi í Grundarfirði ofan á allt. Það eru víst skin og skúrir í þessu öllu.

miðvikudagur, júlí 14, 2010

Erfiðri fæðingu lokið

Það er spurning hvort maður geti ekki sagt löngu og stöngu fæðingarferli hafi formlega lokið í dag. Ég talaði nefnilega um það -HÉR- fyrir tæpum tveimur árum hvort knattspyrnuferill Loga Snæs væri að fæðast. Eitthvað gekk þetta illa og eftir nokkrar æfingar þar sem drengurinn tók ekki í mál að taka þátt ákváðum við að setja málið á ís. Málið var rætt svona lauslega öðru hvoru en drengurinn var einfaldlega ekki að taka það í mál að fara á formlegar æfingar þrátt fyrir að dunda sér mikið með boltann og vera jafnvel virkur þátttakandi með Ísaki Mána og félögum úti á sparkvelli.


Svo fór drengurinn að biðja um nýja takkaskó, n.b. ekki nýja gervigrasskó heldur skó með alvöru tökkum. Foreldarnir voru ekki alveg að sjá notagildið í þeim kaupum en féllust á það að ef hann færi að æfa þá fengi hann nýja takkaskó. 8. júní sl. mætti hann á fótboltaæfingu hjá 8. flokk ÍR og tók fullan þátt eins og að drekka vatn. 11. júní var svo mætt niður í Jóa Útherja, nánast á sama tíma og nýja adidas-sendingin með HM skónum sem var viðeigandi því á meðan við vorum þarna að máta skó komst S-Afríka yfir á móti Mexíkó í opnunarleik HM.

Hann er búinn að mæta á þessar vikulegar æfingar síðan, svona þegar við höfum verið á svæðinu. Svo kom að því. Á æfingu í gær var tilkynnt að það yrði vinaleikur, eins og það var kallað, á móti Breiðablik í dag. Menn urðu nokkuð spenntir enda var tilkynnt að þeir ættu að koma í öllum græjum en fengju keppnistreyjur á staðnum. Við yfirferð á græjunum þóttu Lotto-stuttbuxurnar sem komu víst upprunarlega frá Jökli frænda engan vegin nógu góðar þannig að splæast var í nýjar stuttbuxur. Reyndar kom svo í ljós að búningastjórinn var erlendis þannig að menn þurftu að láta sér vesti duga, sem var smá skúffelsi hjá mínum.

En gleðin var við völd í blíðvirðinu í Kópavoginum og það var víst fyrir öllu.

Drengurinn í þann mund að skora fyrra markið sitt í dag

laugardagur, júlí 10, 2010

Úrvalsbúðir 2010

Ísak Máni fékk skemmtilegt bréf í pósti núna á vordögum en það var frá KKÍ, þ.e. Körfuknattleikssambandi Íslands ef menn eru ekki sterkir á svellinu í þessum skammstöfunum öllum. Kom þá í ljós að hann hafði verið tilnefndur af ÍR til að taka þátt í æfingabúðum fyrir úrvalshópa KKÍ eins og það heitir víst en er nokkurskonar undanfari yngri landsliða. Ekki samt alveg eins og sé búið að velja hann í eitthvað landslið enda góður slatti af strákum úr liðum frá öllu landinu tilnefndir í þetta. En þetta þykir talsverð upphefð og flott enda unglingalandsliðsþjálfarar og fleiri reyndar kempur sem stjórna þessum æfingum. Þetta eru æfingar yfir tvær helgar, sú fyrri var í byrjun júní en sú seinni verður um miðjan ágúst. Við rákumst svo á þetta myndband á netinu eftir þessa fyrri helgi og þar glittir nokkrum sinnum í guttann á fyrstu hálfu mínútunni, reyndar ekki í „action“ en honum fannst þetta ekki slæmt.

Gaman að þessu.

föstudagur, júlí 09, 2010

Decision drama

Voðalega er þetta orðið mikið drama í kringum þessa karla, ekki skrítið að þeir séu meira og minna hálf veruleikafirrtir. Ég verð nú að vera sammála gömlu hetjunni minni, Sir Charles Barkley, auðvitað átti karlinn að halda sig í Cleveland og reyna að landa titlinum þar. Að taka þetta með Miami er ekki sami sjarminn og svo er þetta líka liðið hans Dwayne Wade. Ef þú ert 25 ára, ungur og graður, þá áttu bara að reyna að kýla á þetta með liðinu þar sem þú ert maðurinn. Þegar árin fara að færast yfir og hnéin og bakið fara að gefa sig þá er alltaf hægt að fá sig treidaðann yfir í eitthvað líklegt meistaralið og reyna taka þetta á lokametrunum sbr. Gary Payton, Karl Malone og vitaskuld Sir Charles þótt það hafi nú ekki gengið hjá þeim öllum.

En svo er kannski meira stuð í Miami heldur en Cleveland þegar þú ert bara 25 ára.

miðvikudagur, júlí 07, 2010

Aðgerðin á Akureyri

Saumarnir voru teknir úr hausnum á Loga Snæ á sunnudeginum, áður en við lögðum af stað heim. Jóhanna var öll hin sprækasta og réðst á verkefnið í náttbuxum og flíspeysu (man ekki hvort hún var í rauðu Crocs-urunum sínum), vopnuð „saumakitinu“ sínu. Engin vídeóvél var á svæðinu svo myndavélin varð að duga og var skotið í gríð og erg, svona til að auka pressuna á kellunni.

„Davíð, þú gerir mig stressaða með myndavélinni“


Tími fyrir reykpásu?


Kannski best að fá aðstoðarmann á ljósið


2/3 af afrakstrinum, 1/3 týndist í sófanum


Gríðarlega sátt með græjurnar sínar

laugardagur, júlí 03, 2010

N1 mótið á Akureyri - dagur 4


Þá er þessu móti lokið. Lið Fram gersigrað í dag en tap fyrir FH með minnsta mun í kjölfarið skilaði liðinu hjá Ísaki Mána 10. sæti af 28 liðum. Heilt yfir bara fínt, ég var alla vega rosalega sáttur með mitt eintak en mér finnst kappinn vera að taka miklum framförum. Annars fengum við allskonar veður í dag, rigningin sem skall á okkur innihélt dropa á stærð við golfkúlur. Alltaf gott veður á Akureyri, bara mismunandi gott.

Kveðjum Jóhönnu og Aron Kára á morgun og höldum heim á leið. Vinna á þriðjudag, úff.

föstudagur, júlí 02, 2010

N1 mótið á Akureyri - dagur 3


KR-leikurinn í dag fór ekki nógu vel. Rosalega finnst okkur leiðinlegt að tapa fyrir KR. 3 sigurleikir og 3 tapleikir duga bara í úrslitakeppni um sæti 9-12 sem verða á morgun. Gæti verið verra en fyrirfram voru menn búnir að gæla við meiri toppbaráttu.

Svona er þetta stundum. Það er kannski fegurðin við boltann, hlutirnir fara ekki alltaf eins og ráð var gert fyrir.

Plásturinn farinn


Mér skilst að lækninum á Akureyri hafi fundist það frábær hugmynd að hjúkrunarfræðineminn í fjölskyldunni fengi það hlutverk að pikka alla saumana þrjá úr hausnum á Loga áður en við förum heim. Svona til að spara okkur ferðina upp á Sjúkró.

Þetta verður spennandi.

Vá hvað þetta er skrítin kerling...

fimmtudagur, júlí 01, 2010

N1 mótið á Akureyri - dagur 1 og 2

Ísak Máni er að keppa á N1-mótinu í fótbolta á Akureyri eins og stendur og vitaskuld er öll fjölskyldan á svæðinu, svona quality time. Allir í góðum gír hjá Jóhönnu en hvorki ég né Sigga erum í fararstjórahlutverki í þetta skiptið. Enda nóg að hugsa um hina maurana tvo.

Mótið byrjaði í gær það var ekki laust við að maður fyndi fyrir smá spennu. Liðið hans Ísaks þykir nokkuð sterkt á pappírunum og er, þegar þetta er skrifað, á toppnum í riðlinum sínum á Íslandsmótinu. Þetta byrjaði vel, tveir leikir sem báðir unnust og þetta líka flotta veður. Dagurinn í dag var ekki alveg jafngóður, hvorki úrslitslega eða veðurlega séð, 2 töp og 1 sigur og dass af rigningardrullu ekkert úrhelli þó. Ljósi einstaklingspunkturinn hjá eintakinu mínu hvað daginn í dag varðar var að kappinn setti eitt stykki mark. Það gerist ekki á hverjum degi enda oftar en ekki niðurnegldur í vörninni. Núna hefur hann verið spila á vinstri kanti á milli þess sem hann er í vörninni og er þá vitanlega framar á vellinum. Markið bætti líka upp bylmingsskotið sem hann átti í leiknum á undan sem small í þverslánni. Það er leikur á móti KR á morgun sem verður einfaldlega að vinnast ef sæti í undanúrslitum á að nást, annars erum við að tala um neðrisætaúrslit.

Nokkrar myndir, Logi Snær æfir sig svona bara á meðan á hliðarlínunni: