sunnudagur, október 28, 2012

Nýreynsluþrenna

Karlinn búinn að vera nokkuð þéttsetinn síðustu rúmu vikuna og nýjar lífsreynslur að detta inn í bankann.

Skrapp í Bláa Lónið með nokkrum vinnufélögum undir lok þarsíðustu viku.  Í fyrsta sinn í Bláa Lónið.  Kom mér á óvart að það var allt stappað af útlendingum, um miðjan október.  Annars var ég nú ekkert frá mér numinn, missti mig ekkert í hvíta skítinn og get ekki sagt að ég hafi séð stórmun á húðinni á eftir.

Skrapp svo á sunnudaginn fyrir viku til Parísar í vinnuferð.  Í fyrsta sinn í París.  Frá túristasjónarhorninu var leiðinlegast að þetta voru 3 dagar inní einhverri sýningarhöll og því á ég enn eftir að bera Eiffelturninn og Sigurbogann augun.  Hótelið var reyndar nálægt Notra Dame kirkjunni þannig að það var hægt að horfa á þá byggingu en ekki náði ég að kíkja inn.  Maður verður bara að taka þetta síðar þegar betur liggur við.  Snéri heim á miðvikudagskvöldi, frekar lúinn.

Þurfti svo að taka að mér annað bílstjórahlutverkið fyrir körfuboltaliðið hjá Ísaki Mána og félögum í gær, til Hvammstanga.  Í fyrsta sinn á Hvammstanga.  Þeir unnu alla sína leiki, lítið annað um það að segja en held ég sé ekkert á leiðinni aftur á Hvammstanga á næstunni svona ef ég kemst hjá því.  Mikið var gott að komast heim í dag, tímanlega til að horfa á United vinna Chelsea en það verður að viðurkennast að ég var hálfdottandi fyrir framan kassann þrátt fyrir mikla dramantík.

Drengurinn að reyna að nota máttinn til að ná boltanum?

laugardagur, október 20, 2012

Tunguliprir

Engin pressa svo sem en ég sé svipaða takta hjá þessum tveimur.  Það er ljóst frá mínum bæjardyrum séð að þeir eiga eitthvað sameiginlegt.

miðvikudagur, október 17, 2012

3ja ára, hálskirtlalaus og á læknadópi

Ég fór með Daða Stein í hálskirtlatöku fyrir tæpri viku, síðasta föstudag.  Ég var nokkuð rólegur yfir þessu og þetta gekk þokkalega til að byrja með, fyrir utan að hann var ekki að fíla fötin sem honum voru úthlutuð og lét þá skoðun hávært í ljós.  Hann vaknaði fljótlega eftir aðgerðina og var ekkert spes en náði að sofna aftur í ca 2 tíma og var þokkalegur eftir þann lúr.  Hann var það þokkalegur, þrátt fyrir að vera alveg glær í framan, að við náðum að stoppa í búð á leiðinni heim og versla okkur íspinna og helstu nauðsynjar.  Mér fannst hann alveg ótrúlega sprækur þegar heim var komið, datt meðal annars í einhverjar íþróttaálfaæfingar og ég hugsaði með mér að hann kæmi til með að verða alveg geðveikur á að hanga heima í rúma viku.  En síðan hefur þetta nú verið meiri lasleiki en hitt, verkjalyf í bossann með reglulegu millibili hefur reynst lífsnauðsynlegt til að halda honum gangandi og greyið er alveg í móki hérna á köflum.  Það var ekki til að rífa stemminguna upp á aðrar hæðir þegar hann vaknaði síðastliðna nótt, skreið upp í til okkar og eftir nokkrar mínútur kom í ljós, þegar ljós voru kveikt að það var farið að blæða talsvert úr honum og allir og allt orðið blóði drifið.  Það var gekk nú yfir á skömmu tíma sem betur fer.  Það þarf ekkert að koma á óvart að heimilishaldið er frekar mikið úr skorðum og ofan á allt þetta er svona rúmlega að gera í vinnunni hjá vinnandi aðilum hérna á heimilinu.