fimmtudagur, apríl 27, 2006

Íslensk - amerískur kvöldverður

“Það er me-me haus að borða.” Sigga var að tilkynna Loga Snæ hvað væri í kvöldmatinn. Verð að viðurkenna að það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði þetta var að þetta væri náttúrulega nett klikkað uppeldi. Barnið tók þessu með jafnaðargeði en virtist ekki alveg vera að kaupa þessa hugmynd þegar hann virti fyrir sér þessum þjóðlega íslenska rétt.

Hann lýsti því samt yfir fljótlega, hátt og snjallt, að hann vildi komast frá borðinu án þess svo mikið að sem að hafa smakkað einn bita af Grákollu. Ísak Máni var alveg sáttur enda eldri og hefur meiri hugmynd um gang lífsins. Með herkjum tókst að fá Loga til að innbyrða 4 bita með kartöflumúsívafi. Hafði kannski sitt að segja að í eftirrétt var þjóðlegur amerískur réttur.

laugardagur, apríl 22, 2006

Giftingaleti

Var einhverntímann að velta því fyrir mér á þessum miðli hvort ég væri örlítið letiblóð og vísaði þá í samtal mitt við núverandi umhverfisráðherra. Það er nefnilega í einu atriði sem ég velti stundum fyrir mér hvort ég sé bara hreinræktaður letingi.

“Hvenær ætlar þú að gifta þig?” Spurning sem er stundum beint að mér af ýmsu fólki, þó aðallega nánustu fjölskyldumeðlimum og vinum. Svarið er bara það að ég veit það ekki. Við Sigga erum búin að vera saman í 12 ár, í dag nánar tiltekið. Magnað. Sem er talsverður tími svona þegar ég fer að spá í það.

Það stefnir í allt að ég verði síðastur af systkinunum að láta verða af því að gifta mig. Kannski ekki að marka með Villa, hann hefur einhver tíu ár í forskot á mig og þrettán á Jóhönnu. Hann gifti sig árið 1986, nokkrum dögum fyrir 22ja ára afmælið sitt og Gulla, konan hans, var 19 ára. Þau eiga sem sagt 20 ára brúðkaupsafmæli í lok ársins og þá getur Gulla sagt með réttu að hún hafi verið gift Villa meira en helming ævinnar. 22ja ára, ef ég uppfæri þetta á mig þá var maður algjör kjúklingur í minningunni þegar ég var 22ja ára, að ekki sé talað um 19 ára. Svo er Jóhanna að fara gifta sig næsta haust... held ég. Ég held að hún haldi það líka. Vona að mannsefnið hennar haldi það líka.

Okay, ég hef sem sagt smátíma til að ná öðru sætinu, ef maður myndi setja allt í gang. Nei, ég veit ekki, veit ekki hvort maður hafi verið að bíða eftir því að á einhverjum tímapunkti í lífinu myndi maður detta í einhvern brúðkaupsgír. Ég man eftir 2000 bylgjunni, það var ekkert smá kúl að gifta sig árið 2000, allar kirkjur landsins voru uppbókaðar allar helgar þá um sumarið með 2ja ára fyrirvara eða eitthvað álíka. Ekki kom brúðkaupsgírinn þá yfir mann.

Ég nenni bara ómögulega þessum krúsidúllum sem þessu virðast eiga að fylgja, allt frá einsöngvurum niður í servíettur. Er það eitthvað óeðlilegt? Á ég að skammast mín eitthvað fyrir það? Verður maður að leigja sal og kirkju, fá Jón Sig til að syngja, láta sérsauma á mig og drengina föt eins og Beckham gifti sig í, bjóða öllum sem maður svo mikið sem yrt á í gegnum ævina, leigja hestvagn fyrir mig og frúnna, dreifa rósarblöðum út um allt og fljúga svo til einhverrar eyju í Kyrrahafinu morguninn eftir?

Svei, ég veit ekki. Kannski er ég bara að gera úlfalda úr mýflugu. Andskotinn sjálfur, maður þarf varla að hafa þetta svona copy – paste úr Brúðkaupsþættinum Já. Ég er samt ekki að tala um einhverja öfga í hina áttina, að gifta sig neðansjávar eða í fallhlíf.

Ef það er eitthvað sem get sagt að ég sjái hreinlega eftir í þessu ferli er að hafa ekki bara drifið í þessu árið 2004. Þá vorum við búin að vera saman í 10 ára og það hefði verið fín ástæða til að drífa í þessu. Kannski ætti maður að setja stefnuna á 2014.

Uss, nú er ég kominn með þetta í tóma hringi, spurning hvort maður sé búinn að tapa sér. Ætli séu til einhverjar töflur við þessu? Ég held að þetta sé komið á það stig að réttast að drífa í þessu og láta ekki nokkurn kjaft vita. Það er spurning hvort maður kemur bara með fréttirnar hérna á blogginu EFTIR að þessu er lokið...

mánudagur, apríl 17, 2006

Gubbandi stemming

Komum heim í Eyjabakkann núna um miðjan dag í dag. Var svona heldur tíðindalítil ferð, allt heldur hefðbundið þangað til að við áttum u.þ.b. 2 mínútur ófarnar. Við vorum stödd á rauðum ljósum ekki skammt frá Fálkabakka þegar fjörið byrjaði. Logi Snær tekur upp á því að æla þessi ósköp, gusast alveg upp úr greyinu. Við þarna föst í umferðinni, rétt hjá bílastæðinu heima og annað barnið hálffreðið í bílstólnum með ómelta hamborgarahryggsbita yfir sig allan. Sá eldri er rosalega viðkvæmur fyrir öllu svona og þegar lyktin berst um bílinn eins og eldur í sinu fór hann að kúgast líka sem endaði með einhverri smáspýju. Sigga gaf skipun um að opna alla rúður í bílnum á meðan við biðum eftir græna ljósinu. Ljósið kom loksins eftir heila eilíf og við reyndum að komast á bílastæðið heima hratt en örugglega. Þar var öllu draslað út úr bílnum og inn, börnunum, yfirhöfnunum, bílstólunum og öðru sem varð fyrir grundfirska hádegismatnum. Öllu sem möguleika var hægt að koma í þvottavélina fór þangað. Eftir að hyggja var þetta kannski besta tímasetning á svona atburði, fyrst þetta þurfti að gerast. Hefði ekki boðið í það ef Logi hefði tekið ákvörðun um að létta af sér á þennan hátt t.d. í miðjum Hvalfjarðargöngum.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Borðað út í eitt á stórafmælisdögum sem öðrum dögum í Grundarfirði

Páskafrí í Grundarfirði. Ávísun á útkýlda vömb og legusár. Nei, reyndar ekki nema að hálfu leyti rétt. Nóg er étið hérna, það er á hreinu, en með tilkomu sparkvallarins og það að eldri syninum finnst gaman að vera þar þá lendir maður stundum í því að dröslast þangað út eftir. Sem er hið besta mál eftir allt átið. Það hjálpar ekki til að mamma átti afmæli núna 13. og Sigga átti afmæli í gær. Hér eru því kaffiboð ofan í allt saman. Ef það er eitthvað sem lýsir þessu best þá sagði mamma eitt hérna í gær þegar hún var að ganga frá kökunum og öðru bakkelsi eftir að einhverjir gestanna voru farnir: ”Það gengur ekkert á brauðið núna” Kemur á óvart? Neibb, ekki vitund því menn seilast frekar í tertusneiðar, pönnukökur og fleira í þeim dúr. Ristað brauð með osti má bíða þangað til eftir páska.

Sigga átti afmæli í gær eins og fram kom hérna áðan, stór pakki, heil 30 kvikindi komin í hús. Eitthvað um gesti hérna en mér skilst að það verði einhver smá kaffiboð heima á fimmtudaginn nk. þar sem tekið verður á móti pökkum eitthvað fram eftir deginum.

Páskaeggjadagur í dag. Menn mættu snemma í morgunmat en búið var að semja um að það yrði annað hvort hafragrautur eða Cheerios svo ekki yrði byrjað á eggjunum á tómum maga sem yrði bara ávísun á tómt rugl. Ég átti, strangt til tekið, ekkert egg en hafði gert mér vonir um að fá kannski eina væna flís hjá drengjunum. Ég tók mér því snemma hrægammsstöðu fyrir aftan þá og beið færis. Annars finnst mér allir voða rólegir yfir þessum páskaeggjum, svona miðað við allt umtalið og lætin. Kannski eru bara allir búnir að borða yfir sig að öðrum kræsingum.

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Páskafrí framundan

Krump... Síðasti dagurinn í vinnunni fyrir páskafrí, kallinn reddaði sér fríi á morgun, er enn að smygla út fæðingarorlofsdögum en stefnan er að vera búinn að klára þetta áður en Logi Snær fær hár á bringuna. Geispa hérna út í eitt, tók þá ákvörðun um að horfa á CSI áður en ég hellti mér út í þennan pistil fyrir Þeyr, alltaf á síðustu stundu með allt svona. Það var komið einhvern góðan slatta yfir miðnætti þegar ég skrölti í bælið og það var ekki til að bæta stemminguna á heimilinu í morgun að ég var sá eini sem þurfti að vakna. Enda var bara náttfatastemming á öðrum meðlimum í fjölskyldunni þegar ég fór í vinnuna.

Stefnan sett á Grundó á morgun, það verður gott að komast í sveitina og anda að sér fersku fjallalofti í bland við ilminn af páskaeggjunum. Heillangt síðan kappinn fór þarna vestur en það hefur allt sínar skýringa, aðallega þær að mútta hefur ekki verið á landinu. Ísak Máni er farinn að þrá að komast í kjötbollur hjá ömmu, sem mér finnst mjög skiljanlegt.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Mér hefur borist penni

Þá er búið að færa manni þetta þvílíka verkefnið. Það er ljóst að það verður ekki sofið næstu dagana. Mér hefur verið réttur penni áskorandans í hinu ástsæla riti Þeyr, sem er fyrir þá sem ekki vita grundfirskur frétta- og auglýsingamiðill. Áskorandinn hefur þann tilgang, eftir því sem ég kemst næst, að skrifa um eitthvað málefni sem stendur honum næst (s.s. hvað sem er) og varpa að því loknu pennanum áfram á einhvern annan aðila. Þetta er vitaskuld gert til að ýta undir það að í blaðinu sé eitthvað athyglisvert lesefni og er það vel. Það að ég fékk “pennann” á ég Tómasi stórfrænda mínum að þakka. Nú verður lagst undir feld, án þess þó að maður tapi sér í þessu en það er nú skemmtilegra að hafa eitthvað smá vitrænt að segja. Mér skilst að penninn hafi gengið núna á milli brottfluttna Grundfirðinga og hvað get ég sagt, ég er búinn að ákveða hverjum ég afhendi pennann góða. MMMUUUUHHHHAAAAAA………