sunnudagur, febrúar 28, 2010

Fullgildur kjúklingur

Alltaf lætur maður plata sig í einhverja vitleysu. Eins og ég fór yfir á þessum vettvangi þá lét maður troða dómaraflautu upp í trantinn á sér um daginn. Ég vissi það þegar ég bauð mig fram í þetta hlutverkið að ég væri að grafa mig ofan í einhverja holu sem gæti orðið erfitt að komast upp úr.

Það fór líka svo að mér var bent á að það væri kannski ekki vitlaust að taka bara svokallað unglingadómarapróf en það gefur réttindi til að dæma eitthvað upp eftir unglingaflokkunum. Helstu fríðindi, ekki voru það launin sem öskruðu á mann, eru að með löglegt skírteini kemst maður inn á knattspyrnuleiki sumarsins án þess að greiða fyrir það. "Þetta er ekkert mál, rúmlega 2ja klst fyrirlestur eina kvöldstund og svo próf viku seinna" var mér tjáð. Ég lét til leiðast, mætti á fyrirlesturinn ásamt 3 öðrum feðrum á mínu reiki og öllum kjúklingum sem æfa með 3ja flokki ÍR. Stemmingin var ansi sérstök, svolítið eins og ég væri kominn í fyrsta bekk í menntó. Fyrirlesturinn sjálfur var nú ekkert stórmál en ég fékk reyndar nett sjokk þegar ég kom heim eftir fyrirlesturinn og fór að kíkja á lesefnið á netinu. Fleiri tugir blaðsíðna sem innihéldu skraufþurrar reglugerðir, greinagerðir og túlkunaratriði. Vissi að ég hefði aldrei meikað að fara í lögfræðina eins og Varði var að meina að ég hefði átt að gera hérna í den.

Mætti í prófið og komst þá að því að þetta var krossapróf, sem mér fannst að einfaldaði málið aðeins þótt það sé ekki algilt um krossapróf. Hvað um það, karlinn klóraði sig í gegnum það og telst nú fullgildur kjúklingur í dómarastéttinni. Get ekki sagt að þetta sé eitthvað heillandi, 5. flokkur á hálfum velli sleppur kannski alveg en ég ætla ekki að taka 11 manna boltann á þetta, þar hef ég ákveðið að draga mörkin.

laugardagur, febrúar 27, 2010

Snjór!

Það var loksins að menn fengu einhvern vetur hérna megin. Tveir elstu drengirnir ákváðu að kíkja betur á þetta og skemmtu sér konunglega hérna úti í garði í dag. Mér skilst að sumir á Akureyri séu alveg komnir með upp í kok af hvíta stöffinu enda verið úthlutað víst talsvert fleiri þannig dögum en Reykjavík og nágrenni.


laugardagur, febrúar 20, 2010

mánudagur, febrúar 15, 2010

Smá mont

Ég verð aðeins að monta mig. Vissi ekki alveg hvað ég var að fara út í með þessu skólabrölti en það gekk svona déskoti vel. Átti ekki alveg von á þessu en er helsáttur.

Tekið af vef Háskólans í Reykjavík, fréttina má sjá með því að smella -HÉR-:

Útskrift úr diplómanámi Opna háskólans

15.2.2010

Föstudaginn 12. febrúar s.l. voru 17 nemendur útskrifaðir úr diplómanámi Opna háskólans. Flestir þessara nemenda hófu nám vorið 2009. Sjö nemendur útskrifuðust úr diplómanámi í markaðsfræði og tíu nemendur úr diplómanámi í verkefnastjórnun sem kennd var í fjarnámi í samstarfi við Þekkingarnet Austurlands.

Tveir útskriftarnemar fengu bókina Perlur Laxness í verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur,

Davíð Hansson Wíum, diplómanám í markaðsfræði

Einar Jóhannesson, diplómanám í verkefnastjórnun

Guðrún Högnadóttir framkvæmdastjóri Opna háskólans útskrifaði nemendurna og hvatti þá til að líta á þennan áfanga sem nýtt upphaf.

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Halló...


Menn eru farnir að pikka upp ýmsar athafnir

sunnudagur, febrúar 07, 2010

WÍUM #23

Ísak Máni var að keppa í körfubolta á laugardaginn í Hveragerði. 3ja mótið af 4rum á þessu tímabili á vegum KKÍ í þessum svonefnda minniboltaflokki. Drengurinn var reyndar búinn að vera hálfslappur, sleppti skólanum á föstudeginum en þrátt fyrir það kom aldrei annað til greina en að taka þátt í þessu móti að hans hálfu. Það átti m.a. að vígja nýja búninginn sem hann fékk í jólagjöf.
Undirritaður var búinn að leigja sér sérstaka linsu á nýju myndavélina sem átti að henta betur við þessi erfiðu birtuskilyrði sem alltaf eru í svona íþróttahúsum. Canon 50mm EF 1.4 fyrir þá sem vilja vita það nánar. Enda kom í ljós að þessi linsa réð miklu betur við þessar aðstæður en þessi hefðbundna kit-linsa. Auðvitað hefði maður kosið að hafa zoom möguleikann en þá var þetta bara spurning um staðsetningarnar hjá karlinum. Óljóst hvaða græjuútfærslu menn fara út í fyrir næsta mót, ég kalla þetta að fikta sig áfram.

Til upplýsingar þá eru þesi mót þannig að liðunum eru skipt upp í 4ra liða riðla sem virka eins og deildir, þ.e. efsta liðið fer upp um riðil á meðan það neðsta fer niður í þann næsta fyrir neðan eftir hvert mót. Hin tvö mótin fyrir þetta mót höfðu gengið svona upp og ofan en núna um helgina small þetta næstum því. Sigur á móti Hamri og Þór Akureyri kom sterkt inn en tap í framlengingu gegn Njarðvík var nóg til að missa þá grænklæddu í efsta sæti riðilsins. Svaðalegt hvað svona spennuleikir geta gert manni. 10-11 ára gamlir strákar að spila körfubolta og ég þurfti nánast á sprengjutöflum að halda. Gaman að þessu.

-Klikka á myndirnar til að stækka-

Til þeirra sem fóru með allt til helv...

Rak augun í nýjan lið á launaseðlinum mínum um daginn: Hátekjuskattur.

Hljómar bara nokkuð töff, ég hlýt klárlega að vera gera eitthvað rétt og væntalega í góðum málum. Ég meina, HÁTEKJUskattur.

Bara eitt sem ég er ekki alveg að skilja. Ég bý í 90 fm blokkaríbúð og á 11 ára gamlan bílskrjóð sem gengur bara af gömlum vana, bara rétt svo. Túbusjónvarpið er á sínum stað í stofunni og fellihýsið var aldrei í myndinni.

Ég hef engin tengsl við penthouseíbúðir í Notting Hill og gæti ekki bent á Tortolaeyjar á korti til að bjarga lífinu.

Frábært.

Takk.

laugardagur, febrúar 06, 2010

FC Grundarfjörður

Tekið af Fótbolti.net:

Æfingaleikur: KFK sigraði Grundafjörð

KFK 5 - 3 Grundarfjörður
1-0 Guðmundur Atli Steinþórsson
1-1 Hermann Geir Þórsson
2-1 Hafþór Jóhannsson
2-2 Almar Björn Viðarsson
3-2 Guðjón Ólafsson
3-3 Heimir Ásgeirsson (Víti)
4-3 Guðmundur Atli Steinþórsson
5-3 Guðmundur Atli Steinþórsson

KFK (HK 3) sigraði Grundarfjörð 5-3 í æfingaleik í Akraneshöllinni í gærkvöldi.

Bæði þessi lið munu spila í 3.deildinni í sumar en Grundfirðingar eru með að nýju eftir langt hlé.

Guðmundur Atli Steinþórsson skoraði þrennu fyrir KFK í gær en hann misnotaði einnig vítaspyrnu í leiknum.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?action=viewStory&id=86920#ixzz0fQu2qUcj


Maður varð þeim heiðri aðnjótandi að fá að taka þátt í þessum æfingaleik í gær sem markaði í raun upphaf þátttöku Grundarfjarðar í 3. deildinni í sumar. Smá hnútur í karlinum enda fyrsti 11 manna leikurinn hjá undirrituðum í einhverja 6 mánuði og að auki voru þeir ekki margir leikirnir sem ég spilaði síðasta sumar. Einnig var maður nú ekki alveg að þekkja öll þessi andlit sem voru í búningsklefanum.
Tap í fyrsta leik og þokkalega sáttur við frammistöðuna en svo sem aldrei sáttur við að fá á sig 5 mörk. En karlinn náði að verja víti, annars frekar slakt víti en það þarf víst að verja þau líka. Maður hafði því alveg mátt fá nafnið sitt í fréttina góðu.


Byrjunarliðið: Elinbergur Sveinsson, Hermann Geir Þórsson, Jón Frímann Eiríksson, Axel Freyr Eiríksson, Hrannar Már Ásgeirsson og undirritaður.
Heimir Þór Ásgeirsson, Ragnar Smári Guðmundsson, Ingi Björn Ingason, Tryggvi Hafsteinsson og Przemyslaw Andri Þórðarson.