þriðjudagur, janúar 31, 2012

PAD verkefni

Ég dáist að mönnum sem hafa farið í svokölluð PAD verkefni á netinu hvað ljósmyndir varðar. Takmarkið er þá taka eina mynd á dag (Picture-a-day) og oftar en ekki á þetta að vara í eitt ár og telst þá flott að byrja 1. janúar og enda 31. desember. Þetta hlýtur að taka svolítið á, hugmyndaflugið þarf að vera í góðum gír og auðvitað vilja menn vanda til verks en ekki birta bara eitthvað.
Við Ísak Máni eru í okkar eigin PAD verkefni, sem reyndar hefur ekkert með myndavélar að gera. Við erum að gera æfingu, svokallaðan planka, og höfum gert það á hverjum degi frá 1. janúar. Plank-a-day. Við höfum tekið þetta tvískipt á hverjum degi, tökum fyrst 1 mínútu og svo 45 sekúndur. Einn mánður búinn og ekki dagur fallið úr, spurning hvort við poppum eitthvað upp tímatökuútfærslunni við þessi tímamót. Strákurinn er harður á því að taka þetta í heilt ár, samkvæmt því er 1/12 búinn, veit ekki hvort það hefst en manni finnst líklegra en hitt að eitthvað klikki á leiðinni. Kemur í ljós.

mánudagur, janúar 30, 2012

100 ár og körfubolti

Best að henda inn fréttum af nýliðinni helgi svona til að update-a þetta eitthvað. Laugardaginn fór nú í vinnuna hjá mér, ekki algengt svona um helgar. Það var byrjað með svokölluðum starfsdegi þar sem starfsmennirnir voru að fara ofan í saumana á fyrirtækinu, einhver gildavinna o.s.frv. Svo um kvöldið kíkti mannskapurinn, ásamt mökum, í heljarinnar teiti enda ekki á hverjum degi sem vinnustaðurinn heldur upp á 100 ára afmæli. Stofnað 1. janúar 1912 en sá dagur þykir víst ekkert sérstakur fyrir mikil hátíðarhöld. Teitið var haldið á skemmtistaðnum Esjunni Austurstræti 16, þar sem Reykjavíkurapótek var lengi, en Nathan & Olsen byggði þetta hús á sínum tíma og þótti viðeigandi að fagna þessu þarna. Mikil gleði enda örugglega ekki rosaleg mörg fyrirtæki á Íslandi sem hafa náð þessum áfanga.

Ísak Máni var að keppa í körfu á Flúðum á laugardeginum með 8. flokknum sem gekk víst bara fínt, hann fór reyndar fjölskyldulaus í það verkefni. Það hittist betur á hjá Loga Snæ en hann var að keppa á Póstmóti Breiðabliks á sunnudeginum, eftir hádegi meira að segja. Við kíktum á það, strákurinn stóð sig vel þótt ég segi sjálfur frá. Daði Steinn var þarna með í för og dundaði sér í búningunum sínum. Stemmingin var slík að strákarnir sem voru að keppa vildu endilega fá að hafa hann með í verðlaunaafhendingunni. Fór það svo að hann fékk líka medalíu og er því formlega (eða meira svona óformlega) farinn að safna þeim. Flottir gaurar.sunnudagur, janúar 15, 2012

Lottóvinningur

Einhver margfaldur lottópottur í boði um þessa helgi og karlinn splæsti í nokkrar raðir á netinu en rúmlega 40 kúlur í boði, það væri hægt að eyða því í einhverja vitleysu. Heyrði svo seinna í gærkvöldi að einn heppinn aðili hafi unnið þetta og sá hafi keypt raðirnar sínar einmitt á netinu. Maður lét hugann reika, hvað ef...

Tékkaði svo á tölvupóstinum seinnipartinn í dag og þar var póstur frá Getspá með subjectið: Vinningur frá Getspá-Getraunum. Ég dró andann djúpt og sagði við sjálfan mig: „Hafðu engar áhyggjur Davíð, þetta er ekki sá stóri“. Enda kom það í ljós, þrír réttir og 820 krónur beint í vasann, sem gerði reyndar þessa lottóviku bara neikvæða um 180 krónur.

Það er alltaf næst. Eða ekki.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Gamlárspartý

Þessi áramót komin og farin. Villi, Gulla og co í öðrum verkefnum í Malaví þannig að ekki var kalkúnn ásamt salkjöti og baunum með Æsufellsútsýni þetta árið, eftir síðastliðin fjögur áramót þar. Fyndið hvað hægt er að búa til hefðir, Ísaki Mána og Loga Snæ finnst að fá saltkjöt og baunir orðið hluti af áramótum. En þar sem við höfum aldrei verið heima hjá okkur á áramótunum frá því að við fluttum hérna inn fyrrihluta árs 1999, að undanskyldu áramótunum 2009/2010 þegar Sigga fór snemma heim með Daða Stein lasinn fyrir miðnætti, þá var ekkert annað að gera en að finna nýtt partý og fannst þetta fína fjölskyldupartý upp í Mosó hjá Ingu og Gunna. Halli og Jenný og Guðrún og Jökull einnig á svæðinu. Eðallamb og með því, ís og kaka, snakk og gos, samkvæmisleikir og flugeldar, ekki hægt að biðja um mikið meira.


Við tókum flugeldakaupin yfir á næsta stig, höfum látið þann næst minnsta duga okkur en ég lét vaða í pakkann fyrir ofan, hann Trausta. Note-to-self, sem kostaði 16.400 kr þetta árið en sá sem við höfum alltaf keypt, Troðni, var á 13.100. Við Ísak og Logi fórum út og sprengdum hann með þokkalegum tilþrifum, ekki nema einn flugeldur sem tók stefnuna á næsta hús og sprakk með látum á svölunum á efstu hæðinni, þar sem enginn var heima sem betur fer. Daði Steinn lét sér stjörnuljósin af svölunum duga.


Þessi jól og áramót sem sagt að ljúka, hittist þannig á að þetta voru nú bara í raun tvær helgar, rosalega atvinnurekendavæn eins og einhver sagði. Ég tók mér reyndar tvo daga í frí þarna fyrir gamlársdag, svona til að fá aðeins meira frí út úr þessu. Jól og áramót þessa árs, þ.e. 2012, verða víst meira frívænni. En núna hinsvegar er vinnudagur hjá mér á morgun og svo er það skemmilegasta verkefnið, að pakka niður jólaskrauti einhvern næstu daga.