þriðjudagur, maí 23, 2006

Tölvuandvarp

15 hundruð fljúgandi flyðrur frá Fáskrúðsfirði. Ef líf mitt væri Tinnabók þá væri stemmingin svona. Skjárinn á fartölvunni hrundi og gripurinn er í viðgerð eins og staðan er í dag, óvíst hvað kemur út úr því. Maður er sem sagt kominn aftur á fornöld, engin tölva og þ.a.l. ekkert netlíf heima hjá mér, árið gæti þess vegna verið 1627. Síðastliðin helgi var bara slæm hjá mér, engin kona og engin tölva. Vona að þetta verði ekki langvarandi ástand, bið til æðri máttarvalda að þetta þýði ekki útgjöld upp á visa rað. Spurning hvenær næsti vitræni pistill komi hingað inn, ef þeir hafa verið vitrænir hingað til.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Aðallega magakveisa

Æi, þetta hafa verið skrítnir dagar. Logi Snær náttúrulega búinn að vera í tómu rugli en er allur að koma til. Hann fór í leikskólann á mánudaginn, var reyndar voðalega tuskulegur en kom svo fljótlega til. Núna er hann líkari sjálfum sér, skammar okkur og lætur okkur heyra það ef hann er ekki sáttur við lífið og tilveruna. Það ber helst til tíðinda að hann er farinn að fara allra sinna ferða um á þríhjóli. Við fengum þetta forláta notaða þríhjól sem við borguðum alveg heilar 1.000 kr fyrir. Logi Snær var fljótur að komast upp á lagið með þetta, byrjaði hérna á stofugólfinu en brunar núna hérna úti í U-inu alveg á fullu. Stundum þannig að manni finnst alveg nóg um, hann vill helst láta sig vaða upp og niður allar brekkur og hóla.

Ekki veit ég hvort Logi Snær hefur smitað karl föður sinn af einhverjum óþverra en ljóst er að magastarfsemin á þeim bænum er ekki eins og best verður á kosið. Hefur nú ekki haldið mér frá vinnu en við skulum orða það þannig að mér líður betur vitandi af klósetti innan seilingar eftir að ég hef innbyrt einhverjar máltíðir, ekki verður farið út í nánari lýsingar á þessu hérna á þessum miðli.

Vona að ég verði orðinn góður um helgina, hin margrómaða utandeild að fara af stað en við eigum fyrsta leik á sunnudaginn. Má ég þá biðja um einhver karlmannlegri meiðsli, einhver sem tengjast ekki óhóflegri klósettsetu, takk.

föstudagur, maí 12, 2006

Ölóði formaðurinn

Alltaf gaman að gera eitthvað sem maður er ekki vanur að gera. Fór í ríkið í dag, seinnipartinn á föstudegi. Bullandi stemming, kappinn var vígalegur þarna, ekkert annað en innkaupakerra sem dugaði fyrir innkaup helgarinnar. Fór að rekkanum en sá að það var ekki nóg í hillunni fyrir mig. Þurfti að fá aðstoð frá einni starfsdömunni til að fá það sem ég þurfti. Kostaði ferð fyrir þessa dömu inn á lager og svo kom hún þaðan með það sem ég þurfti á stærðarinnar kerru. Fór svo á kassann, alltaf jafn fyndið að fara á kassann í ríkinu því mér finnst alltaf eins og ég eigi að sýna skilríki. Líklega fer ég ekki nógu oft í ríkið. Líklega er ég lít ég út fyrir að vera eldri en tvítugt.

Til að skýra þetta nánar þá var ég að kaupa öl fyrir hreinsunardaginn hérna í blokkinni, gengur víst ekkert að fá þetta lið til að týna rusl og sópa nema að lofa því öli og grilluðum pylsum. Þar sem maður er búinn að fá stöðuhækkun í stjórn húsfélagsins, úr ritaranum og upp í formanninn þá verða menn að sýna meiri ábyrgð. Ef það er hægt að kalla það að útvega áfenga drykki ábyrgðarfullt starf.

fimmtudagur, maí 11, 2006

Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði

Stærsta knattspyrnufélag Íslands á 95 ára afmæli í dag.

Til hamingju Ísland.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Ísak Máni #22

Ísak Máni var að spila á KFC mótinu sem Víkingur hélt núna um síðastliðnu helgi. Þeim gekk mjög vel, 3 sigurleikir og eitt jafntefli var afraksturinn gegn ekki ómerkari liðum en KR, Fylki, Grindavík og Þrótti.



Strákurinn stóð sig vel samkvæmt lýsingum frá mömmu hans og ekki lýgur hún. Hann spilaði í marki í fyrsta leiknum og síðan í vörninni eftir það.



Svo er mót um næstu helgi, á sunnudaginn, en þá er vormót KRR í Egilshöllinni. Aldrei frí í þessum bransa en á meðan hann hefur gaman að þessu þá er um að gera að hvetja hann áfram, við hjónaleysin höfum trú á að þetta geri honum bara gott.

Enn liggur Logi Snær

Ástandið hérna heima er frekar bagalegt. Logi Snær enn lasinn, heldur litlu niðri. Rúmið hans, rúmið okkar, stofugólfið, hornsófinn (báðir endar), eldhúsgólfið, sófaborðið eru meðal þeirra staða sem hann hefur skilað því sem hann hefur borðað. Hann liggur fyrir megnið af deginum, enda lítið inni á orkureikningnum til að gera nokkuð annað. Hérna gengur líka þvottavélin nánast allan sólarhringinn enda lenda fötin hans og nánasta umhverfi í einhverju tjóni þegar á þessu stendur. Ótrúlega óspennandi. Ég er varla að sjá hann fara mikið á leikskólann í vikunni en vonandi fer guttinn að hressast. Agalegt að hanga svona inni í svona góðu veðri, samt merkilegt hvað geðheilsan hjá honum er geðgóð. Kannski hefur hann bara ekki orku til að vera pirraður.

laugardagur, maí 06, 2006

Ekki á allt kosið

Er búinn að hanga hérna heima á þessum laugardegi, bara á stuttbuxum og bol. Það var ekki alveg planið. Er búinn að horfa hérna út í garðinn á krakkana leika sér og fólk dúlla sér á stuttermabolum á sólpöllunum sínum. En ég er bara inni. Ástæðan fyrir því er að Logi Snær er með einhverja skaðræðismagapest og er í tómu rugli greyið. Hann var búinn að vera örlítið furðulegur í maganum fyrir helgi en sökk svo í allan pakkann í gær. Var varla með meðvitund þegar hann var sóttur í leikskólann og ældi síðan allt rúmið sitt út seint í gærkvöldi. Í dag er hann búinn að sofa meira og minna í allan dag og það lita sem hefur farið inn um hans varir hefur komið aftur sömu leið.

Enn leiðinlegra fyrir vikið að Ísak Máni er að keppa í þessum pikkuðu orðum með ÍR á KFC mótinu sem Víkingur heldur og planið var auðvitað að öll fjölskyldan myndi mæta á svæðið en núna verður mamman að duga. Ísak Máni var búinn að peppa sig upp í að spila jafnvel eitthvað í marki (án alls þrýstings frá föðurnum – grínlaust) þótt að mótið sé spilað á malarvelli. Við verðum að vona að þetta fari allt vel og að menn komi heilir heim, bæði á sál og líkama.

Til að kóróna allt saman urðum við að afboða okkur í grillveislu upp á Skaga sem búið var að bjóða okkur í kvöld.

Svei þér pest…

þriðjudagur, maí 02, 2006

Að vera nörd eður ei

Ég elska þennan þátt um Sænsku nördana, finnst hann algjör snilld. Hann heitir náttúrulega ekki Sænsku nördarnir í Svíþjóð heldur ber hann nafn liðsins sem stofnað var um þetta dæmi, FC Z. En ég meina kommon, þetta eru algjörir nördar og ekkert annað. Sá svo í blöðunum að Sýn ætlar að koma með íslenska útgáfu af þessum þáttum og ef ég náði þessu rétt á liðið þar að heita FC Nörd, ekkert hálfkák þar. Þar ætla þeir að safna saman strákum sem hafa litla sem enga reynslu af íþróttaiðkun en sem eru vel gefnir einstaklingar. Veit ekki alveg hvað það þýðir, kannski verða menn að sýna fram á einhverja frammúrskarnadi færni í eðlisfræði eða vera með háskólapróf í bókmenntum. Sem leiðir að einu í þessu máli. Ég hef nefnilega tekið eftir því að margir hinna sænskættuðu nörda lýsa yfir talsverðum sagnfræðiáhuga, af einhverjum orsökum. Ég verð að viðurkenna, svona þegar ég fer að leiða hugann að því, að þegar ég var að nema þessi fræði í Háskólanum þá voru ekki margir með mér sem voru liðtækir á vellinum. Við skulum alla vega orða það svoleiðis að ég held að Knattspyrnulið Sagnfræðiskors Háskóla Íslands hefði ekki verið líklegt til árangurs á knattspyrnumótum innan Háskólans og enn síður á stærri mótum. En kannski var ég bara í “slæmum” árgangi hvað þetta varðar. Kannski ekki. Kannski er ég bara algjört viðundur í þessu máli, að taka stúdent frá íþróttabraut og fara svo í sagnfræði í Háskólanum. Líklega gerir þetta stúdentspróf mitt það að verkum að ég verð ekki gjaldgengur í FC Nörd, án þess að ég teljist einhver yfirburðaríþróttamaður. Er líklega ekki heldur með nógu góðar einkunnir frá Háskólanum til að komast í klúbbinn.

Ég held að það verði ekki spurning um hvort heldur hve margir sagnfræðiáhugamenn verða liðsmenn FC Nörd. Þeir verða mínir menn.

mánudagur, maí 01, 2006

25% maður í snókerhugleiðingum

Karlinn búinn að vera einn heima núna um helgina. 75% af fjölskyldunni fannst meira spennandi að fara vestur og skoða me-me hausa í lifanda lífi en að chilla hérna í höfuðborginni. Þar sem genin sem kveikja áhuga þegar rollur eru annars vegar vantar í mig og hins vegar voru Vatnsberarnir að spila æfingaleik í gær, gerði það að verkum að ég sat eftir heima. Get ekki sagt að maður hafi verið djúpstæður á meðan maður var bara 25%, en það var reynt að dunda sér eitthvað.

Hef verið að fylgjast með Heimsmeistarmótinu í snóker á Eurosport, svona með öðru. Það er eiginlega Ísaki Mána að “kenna”, hann datt inn í þetta núna fyrir helgi og honum finnst þetta alveg æðislegt. Ég sogaðist með honum inn í þetta og það er alveg merkilegt hvað þetta getur verið ávanabindandi. Okkar maður, Ronnie O´Sullivan, datt út í undanúrslitunum í gær og því eru úrslitin ekki eins spennandi fyrir vikið, en spennandi þó. Hugsaði með mér hvað væri gaman að eiga svona borð en geri mér grein fyrir að ég þyrfti að eiga stærra hús fyrir svona græju, það er ekki eins og séu mörg ónotuð herbergi hérna í íbúðinni. Man samt eftir því að þegar ég var lítill patti þá var til svona lítil útgáfa af einhverju svona borði, ætli það hafi ekki tilheyrt Villa. Það var þannig útbúið að það var á mjög stuttum fótum og því þurfti maður að hafa það uppi á einhverju borði þegar verið var að spila. Það hafði einhvern tímann lent í einhverju tjóni því það þurfti að vera þvinga á einu horninu til að borðið væri rétt, þekki þá sögu ekki. Það skipti engu máli, í minningunni var þetta borð algjört gull. Þetta er kannski einhver fortíðarhyggja, bara svo gaman að dunda sér í einhverju svona en ekki alltaf þessir helv… tölvuleikir og þessháttar. Spurning hvort maður fari á stúfana og leiti að svona borði? Ætli það. Kannski þegar ég verð búinn að kaupa mér stærra hús.