mánudagur, maí 28, 2012

Vakið yfir körfunni

Leikur 7 í undanúrslitaseríunni í Austurdeild NBA á milli Boston Celtics og Philadelphia 76ers.  Mínir menn í Sixers hafa ekkert verið neitt sérstakir síðustu ár og því ekkert annað í boði en að vaka eitthvað eftir þessu en flautað var til leiks á miðnætti í gær.  Þetta hlaut að vera meiri stemming en eftir að hafa lent í 20. sæti í Júróvision.  Ísak Máni fór að sofa eitthvað fyrir 23:00 en stillti klukkuna á 00:00.  Leikurinn byrjaði en ég heyrði ekkert í neinum verkjara úr herberginu hans.  Mínir menn lentu 10:2 undir og ég var að huga að láta strákinn bara sofa, fátt verra en að halda sér vakandi um miðjar nætur yfir óspennandi körfuboltaleikjum.  Fór samt inn og ýtti við honum.  Sixers komu til baka og héngu vel inn í leiknum að hálfleik en Ísak fór aftur upp í rúm en bað mig um að vekja sig ef spennan væri enn þegar eitthvað yrði liðið á 4. leikhluta.  Þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leiknum smellti Andre Iguodala niður þristi og munurinn kominn niður í einhver þrjú stig.  Ég fór inn til Ísaks og dró hann á lappir til að fylgjast með þessum æsispennandi lokamínútum en það var ekki að sökum að spyrja.  Botninn datt úr þessu eftir það og 10 stiga sigur Boston varð niðurstaðan.  Ísak Máni bauð góða nótt í þriðja skiptið á tæplega fjórum klukkutímum og ég skreið í bælið.  Fyrstu klukkutímarnir á afmælisdeginum voru ekki að byrja nógu vel.

sunnudagur, maí 27, 2012

Gamlir karlar

Lee Sharpe fyrrverandi leikmaður m.a. Manchester United og Grindavíkur á 41 árs afmæli í dag.
Paul Gascoigne fyrrverandi leikmaður m.a. Newcastle og Tottenham á 45 ára afmæli í dag.

Það er ljóst að þeir, sem og aðrir, eru ekki að verða neitt yngri.

laugardagur, maí 19, 2012

Úti að aka

Það telst líklega seint gáfulegt að pósta lýsingar á lögbrotum og láta svo myndir fylgja með til að taka af allan vafa, en við látum samt flakka.

Núna er sæmilega uppfærð bloggsíða kostur, því ekki man ég nokkurn skapaðan hlut.  Ísak Máni fékk að taka í stýrið á bílnum okkar í júlí 2006, rétt orðin 7 ára gamall og var það fært til bókar -hér-.  Það þurfti því að fara að gera eitthvað með miðjudrenginn svo ekki væri brotið á hans hlut, en sá orðinn 8 ára gamall og ekkert farið að gerast í þessum efnum.  Nú skiptist fólk væntanlega í tvo hópa, annars vegar finnst mönnum þetta frekar lélegt af minni hálfu en svo aðrir sem súpa hveljur og benda mér á að hægt sé að nálgast æfingaleyfið við 16 ára aldur, fyrr sé þetta ólöglegt með öllu.

 Jæja, Logi Snær fékk sem sagt að taka í stýrið í dag, staðsetning brotsins var á svipuðum stað og með Ísak Mána á sínum tíma, eitthvað smá afdrep í Kolgrafarfirði en karlpeningur fjölskyldunnar skaut í Grundarfjörð um helgina á meðan mamman var að endurhlaða rollurafhlöðuna sína handan fjallgarðsins.  Honum fannst þetta spennandi, en eins og oft áður, fannst á sér brotið hvað varðar tíma og lengd rúntsins miðað við aðra sem fengu að keyra.

Ísak Máni fékk sem sagt að keyra líka.  Núna bara einn í sætinu og þurfti þar af leiðandi að sjá um bremsu og bensíngjöf sjálfur.  Sjálfskiptingin reddaði honum hvað kúplinguna varðaði, veit ekki hvort ég hefði boðið í að fara líka yfir það með honum.

Svo fór ég eiginlega alveg með kerfið þegar ég gaf eftir þeim yngsta sem sat aftur í með þvílíka skeifu enda fannst honum að hér væri verið að svína big-time á sér.  Hann fékk því að taka einn hring að nafni til og færist því til bókar sem sá yngsti ökuþórinn af þeim bræðrum, rúmlega 3ja ára gamall.

Ábyrgur fjölskyldufaðir einn með börnin kveður í bili.

Rússíbanareið... og Manchester vann

Ég er að skríða saman eftir síðustu helgi.  Þegar úrslitin í ensku deildinni réðust.  Maður lifandi.  Heilt yfir hefur líf mitt sem Manchester United stuðningsmaður verið fínt.  Smá erfitt í byrjun þarna á níunda áratug síðastu aldar þegar Liverpool var liðið en svona síðan ca 1990 hefur þetta verið nokkuð fínt.

Það versta við þessa síðustu helgi að ég var búinn að afskrifa að United gæti unnið dolluna og að þetta væri komið í hendur City.  Enda liðin jöfn að stigum og City með miklu betri markatölu.  Þrátt fyrir að mínir menn myndu klára útileikinn sinn á móti Sunderland þá var ekki sjens í helvíti að City myndi klúðra heimaleik á móti QPR.  Eða hvað?
Þarna sat maður heima, búinn að vera sjá fyrir sér ljósbláa meistara í heila viku en allt í einu var hálftími eftir af leikjunum og United að vinna og City að tapa.  Og maður var allt í einu farinn að láta sig dreyma en reyndi samt að halda sér á jörðinni.  Gat þetta verið?  20 mínútur eftir og óbreytt staða og Tommi frændi hringdi.  Var þetta í alvöru að fara að gerast?  Tommi bara með United leikinn en ég með báða og tók því City leikinn og við skiptumst á því sem bar fyrir augum.  QPR komst ekki yfir miðju en City þurfti enn tvö mörk að því gefnu að United myndi klára sitt.  10 mínútur eftir.  Koma svo.  Ég hugsaði samt að ef þeir myndi koma einu inn þá yrði allt vitlaust.  Mancini var að missa kúlið, komin á hné og gat ekki haldið aftur af vonbrigðum sínum.  Í stúkunni var fólk í ljósbláum fötum farið að hágráta.  90 mínútur komnar og 5 mínútur í uppbót.  Ég var farinn að velta fyrir mér hvernig þetta virkaði, var einhver gervibikar á Sunderland vellinum?  Einhverju þyrftu mínir menn að lyfta.  Tommi var orðinn verulega stressaður hinumegin á línunni.  City með enn eina hornspyrnuna og þá kom mark.  2:2 og nú þurftu þeir bara eitt mark.  Ég fann hvernig ég þornaði upp í munninum.  "Ertu ekki að grínast?!" heyrðist í Tomma og enn einhverjar 3-4 mínútur eftir.  Ég var enn að átta mig á þessu þegar hitt markið kom.  Ég kom varla upp orði, man bara að ég sagði við Tomma:  "Þeir skoruðu."  Gat ekki sagt neitt meira.  "Ertu ekki að grínast?!" heyrði ég óma í símanum en mér fannst allt vera í þoku, nánast eins og draumur.  Þetta var hrikalega óraunverulegt.  2 mörk í uppbótartíma.  Hver skorar 2 mörk í uppbótartíma?  OK, reyndar meistaradeildartitillinn 1999.  Nú veit ég í raun hvernig Bayern-mönnum leið og tilfinningin er ekki góð.

Ég skal viðurkenna að ég var ekkert mikið að velta mér upp úr miðlunum eftir helgina, nennti ekki að vera velta mér upp úr þessu á meðan svekkelsið var sem mest.  Menn hafa verið að meina að þetta hafi verið með svakalegri endir á ensku deildinni, sem þetta var en ég fór svo að rifja upp síðasta leikinn á tímabilinu 1988-1989.  Það var líka rosalegt, Liverpool-Arsenal í lokaleik á Anfield og Liverpool mátti tapa með einu en samt verða meistari.  Arsenal komst í 0:1 í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn virtust vera að sigla þessu heim þegar Michael Thomas komst í gegn í uppbótartíma og setti markið sem Arsenal þurfti til að "stela" titlinum.  Man að ég horfði á þennan leik í Sæbólinu og hitti svo einhverja Púllara síðar um daginn á vídeóleigunni hjá Stínu Odds þar sem þeir voru frekar svekktir.  Skil það núna.

Jæja, það er alltaf næsta ár.  Verst að mínir menn ætla að fara leika í einhverjum köflóttum viskustykkjum sem ég er ekki alveg að kaupa.  Þeir munu kannski líta betur út með eigin augum en svona af mynd.  En hvort sem er hefur það víst ekki mikil áhrif á ást mína á þessu breska fótboltaliði.

fimmtudagur, maí 17, 2012

Fimleikadrengurinn

Logi Snær er búinn að vera í fimleikum hjá Ármanni síðan í haust.  Svona það litla sem maður hefur séð glitta í á æfingum þá virðist hann vera nokkuð öflugur í þessu og hefur yfirleitt gaman af þessu.  Svo var það í dag að það var sýning fyrir forelda og aðstandendur.  Ég var nokkuð spenntur bara en vissi nú ekki alveg hvað ég væri að fara út í, ef við hefðum verið að tala um eitthvað boltamót þá væri ég meira á heimavelli.  Það var búinn að vera talsverður undirbúningur hjá drengnum fyrir þetta, æfingar fyrir luktum dyrum og generalprufa, sömuleiðis sem enginn aðstandandi mátti verða vitni af.  Við þurftum að kaupa miða og alles, þannig að allt í kringum þetta var frekar svona alvöru.
Ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið flott sýning.  Þarna voru margir hópar af öllum stærðum og gerðum.  Á öllum aldri, í allskonar búningum og mislangt komin í fimleikalegri færni.  En atriðin voru flott, ljósashow og tónlist í takt, mikið lagt í þetta.  Tæpur einn og hálfur tími var svona í það lengsta, sérstaklega þegar atriðið hjá mínu barni rann í gegn á nokkrum mínútum.  En ég skemmti mér a.m.k. nokkuð vel, þótt þetta væri boltalaus skemmtun með öllu.

miðvikudagur, maí 16, 2012

Píanóleikarinn

Ísak Máni var að taka svokallað grunnpróf í píanóleik þessa viku.  Hann tók verklega hlutann á mánudaginn og svo var það skriflegt próf í dag.  Mér skilst að hvort um sig hafi gengið ágætlega en ég held að hann fái niðurstöður úr þessu 30. maí.  Áhuginn á píanóinu er enn til staðar og hann ætlar að halda áfram næsta vetur sem er bara hið besta mál.

Hann spilaði á síðustu tónleikum vetrarins um síðustu helgi, spilaði Écossais eftir Beethoven en þann flutning má sjá hérna:


mánudagur, maí 14, 2012

Sumar?

Ljóta vitleysan hugsaði ég með mér þegar ég var búinn að nudda stírur úr augunum og pírði út um gluggann í morgun.  Mælirinn sagði -3 og ég heyrði nánast hvað rokið var kalt.  Kuldagallinn hjá leikskólaskottinu var dreginn fram innarlega úr skápnum og svo var bara rennt upp í háls áður en maður dreif sig út.

Þetta er ekki hægt en það góða er þó að maður býr ekki norður í rassgati.

sunnudagur, maí 13, 2012

Listamaðurinn í leikskólanum


Skaust niður í Mjódd um daginn ásamt þeim yngsta og þeim elsta til að pikka upp pizzu.  Á meðan við biðum skutumst við inn í göngugötuna til að finna listaverkið hans Daða Steins en venja er að leikskólarnir í hverfinu sýni verk krakkanna í Mjóddinni á vorin.  Þegar ég var að smella mynd af drengnum við verkið þá gat ég ekki annað en fengið svona nett dé-já-vu enda hafði ég verið þarna áður í þessum erindagjörðum.  Mér finnst ekki langt síðan ég var að taka mynd af Loga Snæ við sama tilefni.  Gaman að því, nema kannski að því leyti að það þýðir að maður er ekki að verða neitt yngri.

laugardagur, maí 12, 2012

Skilaboð til Afríku

Eitthvað fóru menn allt í einu að verða yfirlýsingaglaðir þarna hinumegin á kúlunni, við það eitt að versla sér eitt stykki körfuboltaspjald.  Nánar um það -HÉR-

Lokahóf yngri flokka ÍR í körfunni var í dag.  Logi Snær fékk ríkismedalíuna, enn það ungur að menn eru ekki farnir að pikka einstaklinga út en hann er að standa sig mjög vel, er öflugur strákurinn.  Ísak Máni fékk svo viðurkenningu fyrir ástundun í sínum flokk.  Að auki var svo keppt í Stinger skotkeppni á þessu lokahófi.  Ísak Máni gerði sér lítið fyrir og vann eldri flokkinn og fékk viðurkenningu fyrir það.  Logi Snær stóð sig líka frábærlega og náði 3ja sætinu í yngri flokknum en átti þar í keppni við gaura upp í 6. bekk, þ.e. allt að þremur árum eldri.

Þannig að menn vilja bara hafa það á hreinu að Stjörnuliðið í Breiðholtinu er við stífar æfingar og mun taka á móti allri mótspyrnu frá áhugamannaklúbbum af fullri hörku.  Myndir segja meira en mörg örð og í þessi tilfelli ættu videómyndir að styrkja mál okkar.  Mæli með að aðrir auki eitthvað æfingaprógrammið hjá sér til að það verði hreinlega ekki troðið yfir þá.