sunnudagur, september 09, 2018

Aftur var hlaupið 10 km

Eftir 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu þá kviknaði fljótlega sú þrá að athuga hvernig væri að taka þátt í minna hlaupi, og hver yrði árangurinn þá hjá manni.  Reykjavíkurmaraþonið var frábært, fullt af fólki, geggjað veður og mikil stemming.  Ég velti því svolítið fyrir mér hversu mikið það allt hefði að segja með árangurinn.  Ég vildi líka ekki að þetta eina hlaup yrði bara einhver endapunktur í þessu öllu, að þótt maður væri ekki með eitthvað stórt tilefni fyrir framan sig þá væri gott að stefna að einhverju öðru.

Ég tók því ákvörðun um að skrá mig í annað hlaup sem haldið var 3 vikum eftir Reykjavíkurmaraþonið.  Það var svokallað Globeathon hlaup sem er alþjóðlegt styrkarhlaup til að vekja athygli á krabbameini í kvenlíffærum.  Þar var boðið upp á 5 km og 10 km hlaup en hlaupið var frá Nauthóli og í Fossvoginum og svo til baka aftur.  Það var eitt af því sem ég óttaðist, að hlaupa fram og tilbaka en ég hef aldrei verið talsmaður þess.  Sem reyndist líka vera stærsti mínusinn við þetta hlaup, hálfglatað eitthvað en maður lét sig hafa það.  Færra fólk að hlaupa, enginn að hvetja meðfram brautinni og við snúningspunktinn var eina drykkjarstöðin í hlaupinu, með hlandvolgu vatni.  Sömuleiðis var aðeins svalara í veðri en í fyrra hlaupinu.

En allt gekk þetta mjög vel, ég náði flögutímanum 54:30 (54:40 brautartími) og var rosalega sáttur við það, planið var að reyna að bæta fyrri tímann og mögulega ná þessu undir 55 mínútum.  Sem fyrr var maður bara að keppa við sjálfan sig og sinn tíma en ég var í 54. sæti af 95 sem tóku þátt, í 40. sæti af 48 körlum.  Enda voru flestir þarna sem lúkkuðu a.m.k. fyrir að vera meiri hlauparar en ég.

En ég fór heim helsáttur.

Að hlaupi loknu