fimmtudagur, október 28, 2010

Enn fleiri andlitssérmerkingar

Eins og færslur þessarar síðu síðastliðna mánuði hafa borið með sér þá er þetta ekki fyrsti gat-á-hausinn-eða-skurður-á-einhvern-hluta-andlitsins pistillinn þegar fjallað er um ævintýri fjölskyldumeðlimana. Ég væri alveg til í að sjá að þetta væri sá síðasti en ég er ekkert rosalega bjartsýnn. Nú var það Daði Steinn sem tók upp á því að verða fullnáinn við vegg einn, á fimmtudeginum fyrir viku.


Plásturinn fokinn af og búið að losa okkur við allt efnið sem fór í sporin sjö. Mér sýnist að uppábúnar jólakortafjölskyldumyndir verði settar á ís í bili, verst að maður hefur ekki kynnt sér hinar gullnu lausnir fótósjoppsins. Minni þá sem hafa áhuga á að sjá þetta í meiri nærmynd að hægt er að smella á myndina til að sjá hana stærri. Ekki nóg með það heldur er kappinn búinn að vera lasinn í ofanálag alla þessu viku. Efnilegt.

miðvikudagur, október 27, 2010

Furðuvera

Sést hefur til veru sem hefur hreiðrar um sig í efri byggðum Breiðholts. Talið er að þetta sé tímabundið ástand en þessi vera hefur tekið upp á því að ráfa í neðri byggðir hverfisins, m.a. í ætisleit og til að ná tenginu við umheiminn.

laugardagur, október 16, 2010

Í eitt sinn er allt fyrst

Daði Steinn var klipptur í fyrsta sinn í dag. Hausinn á honum var orðinn hálflufsulegur, sítt að aftan og lufsur að auki fyrir ofan eyrun.


Eins og hjá hinum eintökunum var það móðirin sem tók þetta verk að sér. Menn voru nú ekki alveg sáttir við þessar hrókeringar og báru sig á köflum frekar illa og létu þá vanlíðan alveg í ljós.


Það var nú samt talsvert annað að sjá höfuðið á barninu eftir þetta allt saman.


Það var ekki það eina sem drengurinn prófaði í fyrsta sinn í dag. Ég lét allt krepputal sem vind um eyru þjóta og keypti eina Ben & Jerry´s ísdollu á 998 kr um daginn.

Maður lifandi hvað við vorum að fíla Fudge Brownie ísinn.

Rugl á árstíðum

„Má ég fara út í garð?“ gall í Loga Snæ núna seinni partinn. Ég svaraði því að það hlyti að vera í lagi en var að öðru leyti eitthvað annars hugar. Heyri svo þegar hurðinni er skellt aftur. Eftir smá stund fara rigningarhljóðin að vekja meiri athygli á sér og ég fer að spá hvort drengurinn hafi örugglega ekki farið í eitthvað utanyfir sig.

Mér brá smá þegar ég leit út í garð...


Samt sú staðreynd að í dag sé 16. október er nett rugl.

fimmtudagur, október 14, 2010

Dagbók fótboltabullunnar - Sumarið 2010

Ég ákvað að vera jafnklikkaður og í fyrra að halda lista yfir fjölda skipta sem ég færi á völlinn í sumar, núna til að sjá hvort ég gæti ekki toppað mig. Eins og í fyrra þá eru þetta þeir meistaraflokksleikir sem haldir voru á vegum KSÍ, þ.e. inn í þessu eru ekki þeir leikir/mót sem Ísak Máni tók þátt í. 17 leikir komu í hús í fyrra og því var sett takmark á að bæta þá tölu, reyna að taka 20+. Sérstaklega vegna þess að karlinn var með dómaraskírteinið í veskinu og labbaði því inn á alla velli á landinu án þess að borga krónu.

Svona lítur þetta út:

8. maí Varmárvöllur VISA-bikar karla
Afturelding - Grundarfjörður 3:o
- Svolítið dejavú frá árinu 2007 en samt ekki. Aðallega ekki vegna þess að ég var ekki að spila núna eins og 2007. Líka ekki vegna þess að þessi leikur var á gervigrasinu á meðan 2007 leikurinn var á aðalvellinum. Svo ekki vegna þeirra staðreyndar að í þessum leik tapaði Grundó 3:0 en ekki 10:1 eins og 2007. Enda bara 2-3 sem tóku þátt í 2007 leiknum sem tóku þátt í þessum. Sigga hafði skroppið til að knúsa rollur þannig að ég var með alla hersinguna heima. Ég gat samt ekki sleppt því að fara á þennan leik og hagræddi því aðeins svefntímanum hjá Daða þannig að hann svæfi í vagninum megnið ef leiknum og dreif Ísak og Loga með. Reyndar tókst mér að fylla öll sætin í bílnum með því að taka Daníel Dag, vin hans Ísaks með. Skiptir ekki öllu hvort barnaskarinn sem þú ert með telur 3 eða 4 stykki. Frítt inn og ég fékk því ekki að sveifla skírteininu góða.

9. maí Gróttu völlur 1. deild karla
Grótta - ÍR 1:2
- Fyrsti leikurinn í deildinni og það var ekki hægt að sleppa þessu. Konan ekki komin úr sveitinni og lítið annað að gera en að taka sama plan og deginum áður, hagræða svefntímanum hans Daða og taka Ísak og Loga með. Bongóblíða en Daði svaf ekki eins vel og í gær og þurfti því aðeins að hafa meira fyrir honum. ÍR óð í dauðafærum en nýtingin úr þeim var ömurleg. Þorsteinn markmaður hjá ÍR fékk rauða spjaldið á börunum í blálokin og nett háspenna/lífshætta þarna síðustu andartökin en þetta hafðist.

28. maí Kópavogsvöllur 1. deild karla
HK - ÍR 0:0
- Fjórði leikurinn í deildinni og eftir hann voru drengirnir úr Breiðholtinu enn ósigraðir og á toppnum í þokkabót. Þessi leikur fór nú ekki í sögubækurnar og ég man svei mér ekki eftir því að hafa farið á markalausan leik hjá ÍR, hefur yfirleitt verið frekar villt hjá strákunum.

2. júní Laugardalsvöllur VISA-bikar karla
Fram - ÍR 2:1
- Ekki gert mikið að því að fara á ÍR-leiki í bikarkeppninni, þeir hafa verið duglegir síðustu ár að detta snemma út úr keppninni einhversstaðar út á landi. Það var því ekki hægt að sleppa þessu að sjá liðið spila á þjóðarleikvangnum. Ísak Máni og Logi Snær komu með og það var fín mæting úr Breiðholtinum. Úrvalsdeildarliðið gerði það sem þurfti að gera, mark seint í fyrri hálfleiknum og annað í byrjun síðari gerði nánast út um þetta. Sárabótarmark ÍR einni mínútu fyrir leikslok kom of seint til að gera einhverja alvöru spennu.

5. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Fjarðarbyggð 4:1
- Tókum hjólatúr í flottu veðri á þetta, ég ásamt Ísaki og Loga og skelltum okkur á völlinn, fyrsti heimaleikurinn sem við náðum. Konan mætti hins vegar í hálfleik með Daða í hjólavagninum eftir að hann var búinn að taka sinn hefðbundna lúr. ÍR lenti undir en jafnaði fyrir hlé og byrjaði síðari hálfleikinn með látum og settu tvo áður en þeir kláruðu endanlega leikinn. Einhver pirringur út í dómarana hjá tapliðinu og þrjú rauð fuku á loft eftir að búið var að flauta leikinn af. 5 leikir búnir af mótinu, 4 sigrar og 1 jafntefli og toppsætið klárt.

7. júní Fylkisvöllur Pepsi-deild karla
Fylkir - FH 2:2
- Ísak Máni dró mig á völlinn, vildi reyna að næla sér í tvær ákveðnar eiginhandaráritanir á fótboltamyndirnar sínar enda enn með sambönd í gengum sjúkraþjálfara Fylkis. Önnur áritunin komst í hús en hin þurfti að bíða betri tíma. Leikurinn sjálfur frábær skemmtun, bongóblíða, víti, rauð spjöld, fullt af færum og fjögur mörk.

11. júní Fjölnisvöllur 1. deild karla
Fjölnir - ÍR 4:0
- 1. í HM en ég fórnaði báðum leikjunum vegna annarra verkefna og fór m.a. í Grafarvoginn. Fyrrverandi úrvalsdeildarliðið reyndist of stór biti fyrir Breiðholtsstrákana í þetta skiptið.

12. júní Fagrilundur 3. deild karla
Ýmir - Grundarfjörður 3:3
- Úrhelli í gangi en ég reif mig upp og Logi Snær var sá eini sem rétti upp hönd þegar ég spurði hvort einhver ætlaði með til að ná seinni hálfleik. Við græjuðum okkur í pollaföt frá toppi til táar... eða ekki alveg táar því við vorum í fótboltaskóm og tókum bolta með okkur. Staðan var 2:0 fyrir heimamenn þegar við komum og við tókum okkur stöðu á gervigrasvellinum fyrir aftan annað markið þar sem við gátum bæði leikið okkur og horft á leikinn. Ýmir bætti þriðja markinum við fljótlega og ekkert í kortunum sem sagði annað en heimasigur. Vítaspyrna handa gestunum 10 mín fyrir leikslok sem tókst að nýta gaf smá líflínu en rautt spjald í andlitið á sveitaliðinu nokkrum mínútum síðar virtist slá botninn úr þessu. En, annað víti fékkst og staðan orðin 3:2 skömmu fyrir leikslok. Í uppbótartíma, skömmu eftir að dómari leiksins gaf upp að það væri hálf mínúta eftir, fengu Grundfirðingar aukaspyrnu á vallarhelming heimamanna sem var dælt inn á vítateiginn. Eftir klafs í teignum tróð Jón Frímann blöðrunni í netið og það eina sem heimamenn gátu gert var að taka miðjuna áður en dómarinn flautaði leikinn af og fyrsta stig Grundfirðinga í ár staðreynd.

18. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Leiknir 2:1
- Ísak Máni var boltastrákur og við Logi Snær vorum í stúkunni, enda ekki hægt að missa af baráttunni um Breiðholtið. ÍR komst í 2:0 í fyrri hálfleik og gestirnir voru í raun aldrei líklegir en náðu að laga stöðuna í uppbótartíma og settu smá hroll í gang síðustu mínútuna. Jafntefli hefði samt verið algjört rán. Flott veður og fullt af fólki.

21. júní Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Skallagrímur 0:1
- Vorum í smá fríi í Grundarfirði og því kærkomið að taka einn heimaleik með Tomma og félögum. Daði Steinn svaf heima hjá ömmu á meðan restin af fjölskyldunni skellti sér á leikinn. Óverðskuldað tap í baráttuleik þar sem Skallarnir misstu mann af velli á 50. mínútu en heimamenn náðu ekki að nýta sér það. Gestirnir nýttu hinsvegar eina af fáu sóknum sínum 20 mínútum fyrir leikslok.
Tek ofan fyrir umgjörðinni, leikskrá og hátalarakerfi eru varla staðalbúnaður í 3ju deildinni.

25. júní ÍR völlur (gervigras) 3. deild karla
Léttir - Grundarfjörður 5:2
- Ég ætla nú að telja þennan leik með þrátt fyrir að hafa verið á skýrslu sem sjúkraþjálfari. Ísak Máni átti afmæli og við kíktum ásamt Loga Snæ. Gestirnir byrjuðu í tómu rugli og voru 4:0 undir í hálfleik, manni færri og annar farinn með sjúkrabílnum. Miklu betra í síðari hálfleik, hvort heimamenn urðu værukærir er ekki gott að segja. Tommi frændi stálheppinn að fá ekki tveggja fóta tæklingu í lappirnar á sér, bara gult sagði dómarinn. Þetta er ekki að detta með Grundfirðingunum.

5. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Þróttur 1:1
- Bragðdauft með afbrigðum. Ekki einu sinni til popp í sjoppunni.

16. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Grótta 2:2
- Bongóblíða á föstudagskvöldi og varla kjaftur í bænum. Ísak Máni fór í útilegu með félaga sínum en við Logi Snær kíktum á leikinn. 0:1 undir í hálfleik en heimamenn náðu að komast yfir áður en Gróttan jafnaði. Heilt yfir ekki nógu góð frammistaða gegn botnliðinu og menn fengu bara það sem þeir áttu skilið.

22. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Njarðvík 5:1
- Ætluðum að vera lögð af stað til Grundarfjarðar fyrir helgina góðu en óhapp í Árbæjarlaug hjá Ísaki Mána gerði það að verkum að brottförin færðist yfir á næsta dag. Það gerði það þó að verkum að við gátum kíkt á þennan leik, Ísak Máni með ullasokk á löppinni og forláta Hagkaupspoka yfir honum. Flottur leikur hjá okkar mönnum og nauðsynlegur sigur til að halda sér í topppakkanum.

23. júlí Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Léttir 4:4
- Var mættur í fjörðinn fyrir bæjarhátíðina Á góðri stund. Fékk símtal frá Tomma frænda tveimur tímum fyrir leik þar sem hann bað mig um að taka myndavélina með sem var lítið mál. Ég var því á rölti um hliðarlínurnar og fékk þetta beint í æð. Grundarfjörður lenti 0:2 undir en náðu að jafna 2:2 fyrir hlé. Aftur settu gestirnir tvö áður en Runni, ungur kjúklingur, kom inná. Hann náði að setja tvö kvikindi og jafna leikinn og fékk svo dauðafæri til að setja þrennuna og gera þetta að innkomu ársins en náði ekki að nýta það. Eiður, fyrrverandi þjálfarinn hans Ísaks Mána, stóð í rammanum hjá ÍR-b liðinu og í fyrsta skipti sem ég sé einhvern leikmann fá sér að éta í miðjum leik þegar hann tók upp banana snemma í síðari hálfleik.

27. júlí Leiknisvöllur (gervigras) 3. deild karla
KB - Grundarfjörður 4:0
- Mætti aftur sem konunglegur hirðljósmyndari sveitaliðsins. Erfitt hjá mínum mönnum frá fyrstu mínútu enda að etja kappi við mjög sterkt lið en samt 0:0 í hálfleik. Ísinn brotnaði hinsvegar á 47. mínútu og eftir það var þetta aldrei spurning. Það var líka greinilegt að annað liðið hafði tekið útihlaupin í mars af alvöru, hitt ekki.

4. ágúst Kópavogsvöllur Pepsi-deild karla
Breiðablik - Valur 5:0
- Sigga, Logi Snær og Daði Steinn enn að halda verslunarmannahelgina heilaga í Baulumýri og við Ísak Máni því bara einir í kotinu. Engin skipulögð dagskrá hjá okkur og því datt okkur í hug að kíkja á þennan leik, bara svona til að gera eitthvað. Ísak Máni er ánægður með þetta Blikalið, eins og svo margir aðrir þannig að við reyndum að sitja svona miðsvæðið, semi-hlutlaust eitthvað. 1:0 í hálfleik en gestirnir áttu aldrei sjéns í seinni hálfleik.

11. ágúst Laugardalsvöllur Vináttulandsleikur A-landslið karla
Ísland - Liechtenstein 1:1
- Fékk frímiða fyrir mig, Ísak Mána og Loga Snæ í gegnum ÍR, fór á vinnubílnum þannig að ekki þurfti ég að punga út bensíni heldur en samt fannst mér þetta algjör sóun. Man ekki eftir að hafa farið á svona lélegan landsleik og landsliðsþjálfarinn sagði eftir leikinn að hann gæti ekki tekið neitt jákvætt úr leiknum. Þessir 15 hausar sem studdu gestina sköpuðu meiri stemmingu heldur en hinir rúmlega 3000.

17. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Fjölnir 0:2
- Ísak Máni og Logi Snær báðir á æfingu á sama tíma þarna fyrir leikinn þannig að menn voru bara að dúlla sér niður á ÍR svæði þennan eftirmiðdag í bongóblíðu. Leikurinn var hinsvegar vonbrigði, þetta var ekki að detta með heimamönnum þrátt fyrir að leika einum fleiri nánast hálfan leikinn. Enn í fjórða sæti en með sigri hefðum við komist af alvöru í toppbaráttupakkann.

20. ágúst Leiknisvöllur 1. deild karla
Leiknir - ÍR 2:0
- Þrátt fyrir að Grundarfjörður hafi verið að spila við Augnablik í Kópavoginum í síðasta leik sumarsins, hreinan úrslitaleik um hvort liðið ræki lestina í C-riðli 3ju deildar þá ákvað ég að taka þennan leik frekar. Heimamenn í efsta sætinu en gestirnir að rembast við að halda sér í toppbaráttunni, og auðvitað heiðurinn í Breiðholtinu. Ég hafði aldrei komið á þennan völl áður en það var ljóst eftir á að sú ákvörðun að skilja Loga Snæ eftir heima var mjög sterk, ég lét Ísak Mána nægja. 0:0 í hálfleik, lítið að gerast, öllum hálfkalt eitthvað og helsta pælingin var hvort það væri hægt að kaupa kakó í sjoppunni. Það var hinsvegar engin þörf fyrir teppið í síðari hálfleik enda blóðhitinn nægur. Rautt spjald á gestina fljótlega í hálfleiknum og leikurinn farinn út um gluggann. Ræði ekki dómarann, til þess er ég alltof hlutdrægur en mínir menn misstu alveg hausinn og því fór sem fór. Efstu-deildar sætið út um gluggann og það sem verra er að Leiknir á hraðri leið upp. Ekki jukust vinsældirnar hvað mig varðar með þennan helv... klúbb, það er ljóst að hann er á svipuðum stað og KR í minni bókahillu. Almenn fúkyrði flugu á milli manna, börn öpuðu eftir foreldrunum, blys tendruð og engin ást og virðing í gangi. Og svo tapaði Grundarfjörður 4:3, þar sem sigurmarkið kom á lokamínutunni.

28. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Þór 0:3
- Ekkert nema sigur myndi duga til að halda tölfræðilegum möguleika á að fara upp í efstu deild á lífi. Það var aldrei að fara að gerast eins og þessi leikur spilaðist. Gestirnir miklu betri á flestum sviðum leiksins og allt líf virtist vanta í heimamenn. 3ji tapleikurinn í röð hjá Breiðholtsbúum og áfram næstaefsta deild að ári.

11. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - ÍA 0:3
- Síðasti heimaleikur liðsins þetta árið og mér fannst ég þurfa að mæta. Rétt náði að sjá Man Utd fá á sig tvö mörk í uppbótartíma á móti Everton og missa 1:3 niður í 3:3 áður en ég skottaðist af stað. Skaginn setti sitt hvort markið við upphaf og lok fyrri hálfleiksins og lítil gleði í þessu. Ætlaði að nýta rétt rúmlega hálfleikinn í að sækja Ísak Mána og Loga Snæ í Smárabíó en gerði mér ekki grein fyrir hversu Karate Kid var löng. Náði því ekki nema rétt síðustu 10 mínútunum á leiknum en það eina sem var búið að gerast var að Skagamenn voru búnir að auka forystuna. 5 tapleikir í röð í deildinni og botninn löngu, löngu farinn úr þessu.

18. september Valbjarnarvöllur 1. deild karla
Þróttur - ÍR 1:1
- Síðasti leikurinn í deildinni þetta sumarið. Uppskeruhátíðin hjá ÍR hafði verið fyrr um daginn en það var enginn sérstök stemming að taka þennan leik. Logi Snær fór í heimsókn til félags síns úti á Álftanesi og restin af fjölskyldunni var í hálfgerðu móki þennan eftirmiðdag. Ég reif mig upp úr sófanum og ákvað að ná síðari hálfleik. Við Ísak Máni fórum á völlinn en Sigga og Daði Steinn fóru í hina áttina af bílastæðinu og tók Húsdýragarðinn. 0:0 þegar við komum þarna í byrjun síðari hálfleiks en það helsta markverða úr fyrri hálfleiknum var að Þorsteinn, markmaður ÍR, hafði varið vítaspyrnu. Við vorum ekki búnir að vera lengi þegar okkar menn komust yfir en eftir það var frekar róleg stemming. Þangað til í uppbótartíma. Þróttararnir fengu víti sem þeir náðu núna að nýta og í kjölfarið tók einhver farsi við, 3 rauð spjöld og stemmingin á pöllunum jókst til muna. 6. sætið í deildinni staðreynd þetta árið, nokkuð sem menn hefðu tekið fegins hendi fyrir mót en varð smá svekk, í ljósi þess hvernig þetta byrjaði og hvað hefði verið hægt að gera með betri endaspretti á mótinu.

12. október Laugardalsvöllur Undankeppni EM2012 A-landslið karla
Ísland - Portúgal 1:3
- Ronaldo, Nani og félagar á svæðinu og uppselt á völlinn. Ég var á tánum og hafði ákveðið að kaupa flotta miða fyrir mig, Ísak Mána og Loga Snæ, sem ég og gerði. Gestirnir þurftu svo sem engan stjörnuleik til að klára heimamenn sem voru að tapa þriðja leiknum í röð í keppninni og sátu sem fastast á botninum með 0 stig. Útilokað að fá eiginhandaáritanir eða nokkuð slíkt en stórstjörnurnar yrtu varla á nokkurn mann á meðan á veru þeirra stóð hérna. En það var upplifun fyrir drengina að sjá þessa karla í raun og veru.


Niðurstaða sumarsins er þessi: 24 leikir (17 í fyrra) en af þeim voru bara 4 sigurleikir hjá mínum liðum (8 í fyrra), 8 jafntefli (2 í fyrra) og 12 töp (7 í fyrra). Náði 13 leikjum hjá ÍR í deildinni (12 í fyrra) og 1 í bikarnum (0 í fyrra).
Ég verð að viðurkenna að ég gerði mér ekki grein fyrir að sigurleikirnir væru svona fáir fyrr en ég tók til við að telja þetta, alls ekki nógu gott.
Spurning hvað gerist á næsta ári.

mánudagur, október 11, 2010

Sýklaútflutningur

Heyrst hefur að pestin sem ég flutti frá Reykjavík til Grundarfjarðar hafi borist frá aðila tengdum mér yfir í annað aðila algjörlega ótengdum mér. Það sem gerir þetta athyglisverða viðbót við góða sögu er að þessi ótengdi aðili var kominn til Tenerife þegar menn þurftu allt í einu að fara tefla við páfann í tíma og ótíma.

Ég skal viðurkenna það að ég er með smá móral.

sunnudagur, október 10, 2010

Fækkun valkosta

10.10.10

Enn ein svala
dagsetningin sem líður og ekkert gerist. Framundan eru 11.11.11 og 12.12.12 en síðan verður þetta hefðbundið. Gæti mögulega reddað mér á 11.12.13 ef stemming væri fyrir þeirri leið.

Hmmm...

laugardagur, október 09, 2010

Svalasta 7an

Logi Snær var að keppa í fótbolta í dag. Hann stendur sig nokkuð vel í þessum pakka þótt ég eigi enn eftir að sjá hvernig hann kemur til með að fíla/höndla æfingar 3x í viku. Úrslitin voru ekkert að detta beint með mönnum en þeir náðu að böggla inn einu marki í þremur leikjum, 15 sekúndum fyrir leikslok í síðasta leik sem dugði til 1:0 sigur á móti Val og þá eru menn bara góðir.



Þetta hittist akkúrat á einhverja körfuboltahátíð hjá ÍR í Seljaskóla svo ég gat skutlað Ísaki Mána þangað áður en haldið var upp í Egilshöll og ég rétt náði svo síðustu troðslunni hjá nýja Kananum í troðslukeppninni þegar við komum til baka en það var einmitt síðasti dagskráliðurinn hjá körfuboltadeildinni.

Daði Steinn var ótrúlega góður þarna upp í Egilshöll enda menn búnir að vinna heimavinnuna sína og komu með að heiman pakka sem innihélt m.a. kleinur, banana og vatnsbrúsa. Og auðvitað eitt stykki fótbolta.

Konan? Núna er helgi að hausti. Að smala.

föstudagur, október 08, 2010

Old boys ferilinn

Eigum við ekki halda utan um 30+ ferilinn, bara svona upp á djókið? Þetta eru vitaskuld bara þeir leikir sem ég tók þátt í, en ég missti af tveimur leikjum í sumar, einum sigri og einu tapi.

9 leikir: 3-0-6

31. maí Fífan
Breiðablik - Fylkir 5:0

3. júní Fylkisvöllur
Fylkir - Carl 2:5

8. júní Fylkisvöllur
Fylkir - KÍBV 3:4

10. júní Fylkisvöllur
Fylkir - Afturelding 0:1

14. júní Fylkisvöllur
Fylkir - Víkingur 1:5

24. ágúst Njarðvíkurvöllur
Njarðvík - Fylkir 2:5

8. september Risinn
FH - Fylkir 3:9

14. september Fylkisvöllur
Fylkir - ÍR 3:6

21. september Þróttaravöllur
Þróttur - Fylkir 2:5

Þetta fór heldur brösulega af stað en menn náðu að klára þetta með smá vott af sæmd þarna í lokin og enduðum í 8. sæti í 12 liða deild. Reyndar sá ég á netinu að búið var að þurrka út úrslitin hjá Carl og þá komum við út úr mótinu í 5. sæti af 11 liðum. Veit svo sem ekki hvað veldur, kannski er Carl ekki nógu mikið alvöru félag eða eitthvað slíkt. Niðurstaðan er frekar svipuð í báðum tilvikunum, miðjumoð.

Kjarninn voru gamlir Vatnsberar þannig að þetta voru nú engin ofboðsleg viðbrigði, nema kannski helst að spilað er 7-manna bolti á hálfum velli. Maður var fljótur að finna það að maður hefur ekkert í hitt lengur að gera, það er bara þannig. Þetta var sambærilegt Vatnsberunum að því leytinu til að við vorum ekkert að mæta með mikið af varamönnum í leiki, oftast vorum við bara nákvæmlega 7 sem mættum. Með aðeins stærri hóp hefði kannski verið hægt að snúa einhverjum af þessum tapleikjum í einhver úrslit. Það er alltaf næsta ár.

mánudagur, október 04, 2010

Alltaf gaman að fá ykkur í heimsókn

Mér finnst rétt að aðvara lesendur þessa pistils að innhald hans felur m.a. í sér lýsingar af uppköstum, niðurgangi og tengdum viðbjóði. Því vil ég benda viðkvæmum á að skella sér inn á einhverjar aðrar síður ef það treystir sér ekki í þetta.

Fórum í ferðalag þessa helgi. Forsaga málsins var sú að Sigga fór ein helgina þar á undan í réttir. Hluti af ástæðu þess að hún fór ein var að leiðindarveður var þá helgina og Loga Snæ fannst í kjölfarið hann svolítið svikinn. Þá var samið um það að ef veðrið yrði betra næstu helgina yrði málið skoðað að hann fengi að fara með mömmu sinni í eitthvað rollustúss. Þegar leið á vikuna var spáin svona allt í lagi og var stefnan tekin á þetta. Við hinir þrír sem eftir sátum veltum því fyrir okkur að kíkja til Grundarfjarðar á meðan, taka eina heimsókn svona áður en allar íþróttaæfingarnar hjá drengjunum fara á fullt og áður en menn þurfa að huga að færð á vegum o.þ.h.

En í vikunni kom smá babb í bátinn. Um kvöldmatarleytið á miðvikudeginum tók Daði Steinn upp á því að skila öllu magainnhaldi sínu sömu leið og það fór inn. Tók nokkrar spýjur eftir það, fyrst einhverju slímgummsi og svo tók græna gallið við. Hann svaf samt ágætlega um nóttina og daginn eftir var mamma hans með hann heima og strákurinn var alveg ágætur. Að því leytinu til að hann var ekki að skila neinum mat en vitaskuld var hann í hálfgerðum hægagangi. Ég var heima á föstudeginum, strákurinn þokkalegur og við ákváðum að vera ekkert að tvínóna við þetta heldur skella okkur öll af stað.

Planið var einfalt, stefnan sett á Baulumýri en þar fóru Sigga og Logi Snær úr en við hinir héldum áfram til Grundarfjarðar. Komum í fjörðinn um kvöldmatarleyti og hamborgarar á boðstólnum. Mér var búið að vera smá illt í maganum en það var fullkomlega eðlilegt þar sem eina sem ég var búinn að borða þann daginn var Cheerios í morgunmat, roast-beef samloka rúmlega 11 og svo eitthvað kex á leiðinni. Þetta var fullkomlega eðlilegt. Daði Steinn var reyndar með einhvern afturkreisting sem lýsti sér í því að ég var varla búinn að skipta á honum fyrr en ný sprengja kom með tilheyrandi mengun á samfellur og sokkabuxur. Við vorum því varla búnir að vera á svæðinu í klukkutíma þegar hann var búinn að skíta út, í bókstaflegri merkingu, flest af þeim fötum sem ég kom með fyrir hann. Svo vorum við bara að chilla fyrir framan sjónvarpið eftir matinn þegar ég fór að velta fyrir mér af hverju magaverkinn fór ekki, ég meina núna var ég búinn að borða og ætti því að vera góður.

Ég fann að þetta var ekki í lagi, svitaperlu fóru að kreistast fram úr enninu og ef það er hægt að segja að maður geti fundið fölleikann færast yfir sig þá var það þarna. Ekki var hægt að sitja við svo búið heldur skellti ég mér inn á kamarinn og settist á hann til að hafa það á hreinu. Ég man einu sinni eftir því að útvarpsmaður einn tilkynnti veikindi hjá samstarfsmanni sínum með þeim orðum að hann væri heima að „míga með rassgatinu“. Þetta lýsti vel stemmingunni. Ég staulaðist fram frekar myglaður og fór í það að koma Daða í rúmið. Notaði tækifærið og lagðist hjá honum aðeins til að slaka á en í þann mund hringdi konan. Hún heyrði að stemmingin var ekkert sérstök en hughreysti mig með þeim orðum að þetta væri þó á niðurleið en ekki uppleið. Ég var varla búinn að leggja frá mér símtólið þegar líkaminn öskraði á mig að hlutirnir væru ekki í lagi. Aftur staulast karlinn inn á náðhúsið og sest á postulínið. Rétt búinn að ganga frá málum og er í þann mund að standa upp þegar ég finn að uppleið nálgast. Næ að snúa mér við með ótrúlegri snerpu miðað við ástandið á karlinum um leið og ég sturta niður og skila kvöldmatnum í klósettið, sömu leið og hann fór inn. Það var greinilegt að salatblöð eins og voru á hamborgaranum þurfa lengri tíma en tvo til að meltast. Djöfulgangurinn var svo mikill að mér fannst réttast að henda mér í sturtu þegar öllu var lokið, þ.e. þegar ég var búinn að þrífa klósettið sjálft, gólfið, vegginn og hornið á baðkarinu sem er þarna við hliðina. Svo var lítið annað að gera en að staulast hríðskjálfandi upp í rúm þarna um hálftíu leytið, koma sér í fósturstellinguna og reyna að sofna. Verst var stöffið sem hafði þrýst sér upp í nefið og var farið að losna, lítið annað að gera en að drösla því fyrst niður í háls og svo áfram niður. Ekki hægt að segja að þetta hafi verið þægindasvefn en svo sem ekki nema tvær ferðir á klósettið, með mismiklum árangri.

Var slumpufær á laugardeginum, hélt tveimur ristuðum brauðsneiðum niðri ásamt einhverjum orkudrykkjum og kóki. Sigga hringdi svo í mig. Logi Snær hafði dottið í sama uppleiðarpakka og ég á föstudagskvöldið. Það var með einskærri lagni að hann var yfir klósettskálinni þegar gusan kom, það hefði ekki verið neitt sérstakt að fá allan pakkann yfir timburgólfið í Baulumýri. Mín megin hélt Daði Steinn áfram að gera í bleyjuna eins enginn væri morgundagurinn og þvottavélin og þurrkarinn voru langt í frá að halda við stórskotahríðinni hans, sem var í mýkri kantinum.

En sögunni er ekki lokið, ónei. Á laugardeginum vildi Ísak Máni fá að fara að kíkja á Sunderland - Man Utd. Ég var náttúrulega ekkert spes og Daði Steinn í engu ástandi til að verða skilinn eftir þannig að það var ekkert annað hægt en að senda frumburðinn á bæjarpöbbinn, Kaffi 59. Með 500 kall, nóg fyrir litlum skammti af frönskum og kók í gleri, fór hann einn á hlaupahjólinu sínu á pöbbinn. Svo, einhverju síðar, þegar ég var á leiðinni út í rusl með eina af mjúksprengjunum hans Daða mæti ég honum í dyrunum. Helfölum. Þá hafði karlgreyinu orðið illt og tekið eitt stykki uppkast á pöbbnum, kannski vel þekkt athöfn meðal gesta staðarins, en ekki ef þú ert bara 11 ára. Hann náði samt að bjarga sér, fékk Óla Sigga til að skutla sér heim og krumpaðist niður í sófann. Hann var nú orðin vel rólfær um kvöldið.

Allir svona la-la á sunnudeginum, við strákarnir fórum og sóttum Siggu og Loga Snæ og héldum áfram heim. Það var ekkert annað í stöðunni fyrir mannskapinn en að halda til sinna starfa í dag sem gekk ágætlega, Gatorade dröslaði mér í gegnum daginn. Það má því segja að við höfum gert okkar til að útbreiða pestina en samkvæmt síðustu fréttum hafa flestir komið betur út úr þessu en við.

Þetta var ljóta vitleysan.