miðvikudagur, mars 12, 2014

Bikarmeistari 2014

Ísak Máni og félagar í 9. flokki ÍR í körfuboltanum komust í bikarúrslitaleik KKÍ sem spilaður var um síðustu helgi.
Þeir slógu út Val, Þór/Grindavík og Skallagrím/Reykdælir á leið sinni í úrslitaleikinn.  Þar mættu þeir Njarðvík, sem hafði á leið sinni slegið út annars vegar Keflavík sem óumdeilanlega er með sterkasta liði í árgangnum og Fjölnir sem sömuleiðis er mjög sterkt.  Þannig að ljóst var að þetta yrði að öllum líkum alvöru leikur.
Spilað var þetta árið í Grindavík en KKÍ setur þetta upp, eins og HSÍ reyndar líka, að bikarúrslitaleikir yngri flokkanna eru spilaðir yfir helgi og allir á sama stað.  Umgjörðin var mjög flott og vel í þetta lagt, leikskrá, leikmannakynning fyrir leik og svo var splæst í þjóðsönginn.  Það má sjá -HÉR-  Svo var þetta í beinni útsendingu á netinu og gamla kempan, Guðmundur Bragason lýsti leiknum.  Eftir leikinn var verðlaunaafhending þar sem topparnir hjá KKÍ afhentu verðlaunin.
Þetta var fyrsti leikur dagsins, kl 10:00 um morguninn svo að nokkrar vekjaraklukkur á heimilinu voru stilltar og Logi og Daði fengu úthlutað næturplássi kvöldið áður þannig að þeir fengu alveg frí frá þessu.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn og fór svo að staðan var 25:25 í hálfleik.  Njarðvíkingar sigu svo fram úr í 3ja leikhluta og ég verð að viðurkenna að mér var alveg hætt að litast á blikuna, það virtist vera frekar græn stemming yfir öllu.  Bláklæddu Breiðholtsbúarnir hrukku þá í gírinn þegar á þurfti og lönduðu fimm stiga sigri, 54:59.  Fyrsti titill ÍR í yngri flokkum körfubolta síðan 2004 skilst mér. 


Ísak Máni hitti kannski ekki á leik lífs síns en djöflaðist í varnarvinnunni á þeim mínútum sem hann fékk, skítavinnan er víst nauðsynleg í þessu líka.  Og leikurinn vannst sem var vitaskuld fyrir öllu.

Gleði og hamingja...