mánudagur, júlí 27, 2015

Á góðri stund í Grundarfirði 2015


Þá er þessari helgi lokið þetta árið.  Þetta var á margan hátt frekar óvenjuleg hátíð, miðað við mörg árin á undan.

Það sem var aðallega óvenjulegt:

  • Mættum í seinna lagi, um kaffileytið á föstudeginum, bara rétt til að ná froðugamaninu.  Mig minnir að þetta sé þriðja árið sem það er froðugaman en núna var það í franska garðinum sem er bara fyrir aftan húsið hjá mömmu.  Kostur að það var mjög stutt að hlaupa heim í sturtu þegar menn voru búnir að fá nóg, ekki það að kirkjutúnið árin áður hafi verið einhver vegalengd.
  • Ísak Máni var ekki með, var bara heima.  Hann hafði fengið vinnu í Hagkaup í Smáralind þegar við komum frá Spáni og var búinn að vinna frekar grimmt og þ.a.m. alla þessa helgi.
  • Það voru tónleikar á hlaðinu hjá Óla Sigga og Sjöbbu, sem var nýjung sem heppaðist svona líka vel.  Núverandi og fyrrverandi Grundfirðingar sungu og spiluðu.
  • Jóhanna mætti með Aron Kára, þau hafa nú ekki alltaf sé sér fært að mæta og yfirleitt ekki.
  • Sigga þurfti að skjótast í sjötugsafmælisveislu hjá Helga frænda sínum sem haldið var rétt fyrir utan Borgarnes á laugardeginum.  Upphaflega ætlaði hún bara ein en þegar á reyndi vildu bæði Logi Snær og Daði Steinn fara með henni þannig að ég varð bara einn eftir í firðinum.  Sá því ekki mikið point í því að taka skemmtidagskrána þarna á laugardeginum og ákvað frekar að sleikja sólina á pallinum. 
  • Það fór ekki upp svo mikið sem ein gul skreyting þetta árið að Smiðjustíg 9, sem skrifast aðallega á hversu seint við komum á svæðið.
  • Það var ekkert sérstök stemming á Smiðjustígnum fyrir skrúðgöngunni en við létum okkur hafa það alveg undir restina og náðum að reka lestina í henni.  Frekar róleg stemming þar fannst mér, enda kannski erfitt að ætla að viðhalda sömu stemmingunni fyrir þessu ár eftir ár.
  • Fórum svo mjög snemma heim um kvöldið eftir bryggjuskemmtunina, áður en bandið sem var að spila byrjaði, Daði og Logi vildu einfaldlega fara heim.
  • Á leiðinni heim til Reykjavíkur stoppuðum við og fórum upp á Eldborg, hlutur sem Logi Snær er oft búinn að tala um ansi oft þegar við höfum keyrt framhjá.  Tók okkur tvo tíma að rölta þetta fram og til baka.
  • Síðast en ekki síðst þá var þetta væntanlega í síðasta skiptið sem við erum í gula hverfinu, en mamma er að flytja sig yfir götuna sem þýðir að ári verðum við í bláa hverfinu.  Sem verður skrítið en menn verða þá bara að skipta Cheerios bolunum út fyrir ÍR göllum.


Það sem var aðallega venjulegt:

  • Veðrið.  Þvílík bongóblíða að það hálfa hefði verið nóg en það þykja víst ekki fréttir á þessari hátið.  

Bræðurnir í froðugamaninu
Bræðurnir á Eldborg

þriðjudagur, júlí 14, 2015

Daði Steinn byrjaður í boltanum

Það kom að því, allt er þá þrennt er og svoleiðis en í dag fór Daði Steinn á sína fyrstu fótboltaæfingu hjá 8. flokki ÍR.  Hann hefur verið ansi öflugur hérna heima í stofu og einnig stundum fengið að fljóta með Loga Snæ út á völl í tuðruspark.  En allar umræður um að mæta á fótboltaæfingar fengu lítinn hljómgrunn, jafnvel þótt Markús, einn besti vinur hans úr leikskólanum, væri að æfa.  Drengurinn samt að öðru leyti mjög áhugasamur, var vel inn í hlutunum á HM 2014, átti orðið dágott safn af fótboltamyndum og -treyjum, og talaði að jafnaði digurbarkalega um eigin getu í þessari íþrótt.  En að mæta á æfingar var ekki inn í myndinni.  Við hjónakornin teljum okkur hafa séð eitt og annað í þessum fræðum, svona með þriðja drenginn, þannig að við vorum sultuslök með þetta allt saman og leyfðum honum bara að ráða þessu - hann færi einfaldlega af stað þegar og ef hann sjálfur vildi.

Búið að vera talsverður fótboltapakki í kringum Loga Snæ eftir að við komum frá Spáni, skelltum okkur nánast beint á N1 mótið á Akureyri með öllu sem því fylgdi og þar fylgdi Daði Steinn með í þeim pakka.  Svo var Logi að keppa á Íslandsmótinu á ÍR-vellinum í gær, á móti Gróttu þar sem hann skoraði annað markið í 2:0 sigri.  Við vorum að horfa, mínus Ísak Máni sem var að vinna, og Daði fer eitthvað að ræða við mömmu sína á meðan leiknum stendur.  Eitt leiðir af öðru í þeirra samtali og upp úr kemur að drengurinn vill prófa að fara á fótboltaæfingu hjá ÍR.  Það var þá lítið annað að gera en að kíkja á æfingatöfluna um kvöldið og í ljós kom að það var æfing næsta dag.  Drengurinn var grjótharður í ætla að mæta, græjaði sig í heljarinnar græjur, legghlífar og takkaskó frá Loga, innanundirföt sem voru líka frá Loga en yst var nýji Barcelona búningurinn sem keyptur var út á Spáni.  Markús mætti líka og í heildina voru þetta 13-14 strákar en aðra þekkti hann ekki.  Þetta var frekar klassískt allt saman, stórfiskaleikur í upphitun, svo einhverjar tækniæfingar áður en endað var á smá spili.  Þeim var skipt upp í tvo hópa og Daði Steinn lenti klárlega í getuminni hópnum, líklega af því að hann var nýr en hann pakkaði þessu saman, svona algjörlega kalt mat.  Fór m.a. illa með einhverja gutta þarna í einn-á-einn, stóð einnig í marki í einni æfingunni þar sem hinir drifu varla á markið.  Endað svo á "æfingaleiknum" eins og hann kallaði þetta og skoraði tvö mörk og stýrði þessu eins og herforingi, á meðan aðrir voru frekar týndir.  Ég skal alveg viðurkenna að ég var að vonast til að hann fengi nú smá meiri mótspyrnu svona aðeins til að lækka rostann, keppnisskapið var full mikið á köflum þarna fannst mér.

En alla vega, þetta er byrjað og aftur æfing á fimmtudaginn.

Helgi, varamarkmaður meistaraflokks og þjálfari

Menn brosa þegar vel gengur

Hornspyrna

Mark og þá taka menn "slædið"

Sáttur eftir fyrstu æfinguna

mánudagur, júlí 06, 2015

N1 mótið á Akureyri 2015


N1 mótið var haldið á Akureyri núna í síðustu viku og þar var Logi Snær að keppa með ÍR.  Þar sem mótið byrjaði á miðvikudegi þá var ákveðið að leggja af stað á þriðjudeginum.  Við vorum með íbúð á Akureyri þannig að þetta var ekkert spurning um að lágmarka tjaldnætur.  Ferðahópurinn minnkaði reyndar um einn á mánudeginum þegar Ísak Máni fékk, svona frekar óvænt, vinnu í Hagkaup í Smáralindinni.  Hann hafði mætt þangað með umsókn áður en við fórum út til Spánar og hafði þá fengið þau svör að líklega væri ekkert í boði fyrir hann en ef það væri eitthvað þá væri það í júlí.  Hann var fékk símtalið á mánudegi og mætti samdægurs í viðtal og var svo boðaður í kennslu á þriðjudeginum þannig að hann missti af Akureyri.

Innkast tekið og mamman og Daði á kantinum

Þokkalegt veður þegar við renndum í bæinn á þriðjudeginum en samt aðeins þungt yfir.  Á miðvikudeginum, fyrsta keppnisdegi, var aðeins farið að rigna.  Árið áður hafði verið eitt það versta veður í sögu mótsins, þá rigndi nánast öllu sem hægt var að rigna, hluta leikjanna var aflýst og vellirnir voru rústir einar, þannig að smárigning var víst ekkert til að væla yfir.  Logi Snær var á yngra ári og liðið hans var í D-liðum en þeir spiluðu einn leik þarna fyrsta daginn, öruggur sigurleikur gegn Skallagrím.  Logi tók sig til og setti eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en því miður vorum við Daði Steinn ekki mættir eftir klósettferð í hálfleik þannig að hann þurfti bara að leika þetta fyrir okkur síðar um kvöldið.

Menn létu ekkert vaða yfir sig

Daði Steinn eitthvað að spá í þetta


Á degi tvö var blautt yfir eftir gærdaginn og smá rigningarúði en ekkert alvarlegt.  Þrír leikir þann daginn, á móti Stjörnunni, Keflavík og ÍBV en þeir leikir unnust allir.  Þriðji keppnisdagurinn hófst á sigri á Breiðablik sem þýddi að síðasti leikurinn í riðlinum, við færeysku gestina í Viking, var úrslitaleikurinn í riðlinum.  Sá leikur tapaðist reyndar, 5:3, sem skipti í raun ekki höfðumáli því menn voru komnir í 8-liða úrslit.  Sá leikur var spilaður þarna á föstudagskvöldinu og þar hafðist 2:1 sigur og því ljóst að framundan var undanúrslit á laugardeginum og menn væru aldrei að enda neðar en 4 sætið.

Laugardagsmorguninn hófst því með undanúrslitaleik á móti Aftureldingu.  Þar hafðist 2:0 sigur og menn komnir í úrslitleik D-liða.  Á sama tíma á vellinum við hliðina mættust vinir okkar frá Færeyjum liði KR í hinum undanúrslitaleiknum og þar höfðu þeir færeysku betur og því ljóst að við myndum mæta þeim aftur en s.s. nú í hreinum úrslitaleik.  Það var svo fínasta umgjörð um úrslitin, þjóðsöngurinn spilaður fyrir leik og flottir dómarar sem voru að dæma.
En ekki hafðist að sigra þá færeysku í seinna skiptið, 4:3 tap var það í þetta skiptið eftir mikla baráttu.  Minn maður var nú ekkert rosalega lengi að jafna sig á þessu og var farinn að leika sér í fótbolta með litla bróður sínum örlitlu síðar á meðan við biðum eftir lokahófinu.  Það var vitaskuld ekki hægt að sleppa því og bruna beint til Reykjavíkur þar sem árangurinn var svona góður, menn þurftu jú að fá að fara upp á svið og taka á móti verðlaununum sínum.  Við tókum strauið heim eftir það, vorum ekki með íbúðina lengur og lögðum þetta á okkur.  Planið var menn myndu nú sofna á leiðinni en af einhverjum ástæðum gekk það eiginlega ekki.  Það voru því frekar lúnir ferðalangar sem skriðu heim í Kögurselið um hánóttin en þeim mun ljúfara að skríða upp í sitt eigið rúm.

Hoppað upp úr tækingu

Silfurbikarinn