sunnudagur, júlí 24, 2011

Á góðri stund 2011

Sem fyrr skelltum við okkur til Grundarfjarðar á bæjarhátíðina Á góðri stund. Annað árið í röð var spáin ekkert spes og annað árið í röð slapp þetta alveg. Fimmtudagur og föstudagur alveg flottir og laugardagurinn með sól en full vindasamur. Svo fór að rigna í dag en það var allt í góðu, við vorum á leiðinni heim. Venjulega hef ég bara verið í fríi á föstudegi þessi helgi þannig að við höfum verið að koma á fimmtudagskvöldi í bæinn. Núna komum við upp úr hádegi á fimmtudeginum og það var gaman að sjá hversu fljótt og vel það gekk að skreyta bæinn, greinilega vant fólk þar á ferð. Á örskotsstundu, að mér fannst, var búið að strengja viðeigandi litaborða á milli flestra ljósastaura í bænum. Engir aðrir gestir þetta árið á Smiðjustígnum þannig að mamma fékk „bara“ 5-manna fjölskyldu yfir sig í ár.


Meðal skemmtiatriða á föstudagskvöldinu var knattspyrnuleikur milli Grundarfjarðar og Ísbjarnarins í 3ju deildinni, atburður sem var reyndar ekkert skemmtilegur fyrr en undir lokin þegar heimamenn tryggðu sér sigurinn í leik sem þeir voru að tapa þegar skammt var eftir. Ekki er annað hægt en að hrósa þeim sem standa að liðinu, ég hef aldrei farið á leik svo ég muni eftir þar sem sushi-bitar voru seldir í sjoppunni. Einnig var uppboð í hálfleik á áritaðri Grundarfjarðartreyju sem var slegin á 30.000 kall. Sá eldheiti heiðursmaður skellti sér strax í treyjuna en var orðinn sótsvartur af pirringi þegar ekkert virðist ætla að ganga hjá liðinu. Spígsporaði fram og aftur í brekkunni og lét svo eitt gullkornið flakka: „Af hverju hlaupa þeir ekkert. Helv... maður, ég verð að komast inná. 100 þúsund kall og ég fæ að fara inná, ég er í treyju og allt.“ Það er bara einn Geiri Ragga.


Að flestu leyti var þetta bara hefðbundin hátíð, grillveislan, leiktæki, fimleikasýning, skrúðgöngur og brekkusöngur. Mér fannst reyndar færra fólk en oft áður en fyrir mitt leyti var það ekkert verra, þægilegt að rölta um hátíðarsvæðið í góðum gír án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að stíga á einhverjar tær. Kannski einhverjir aðrir sem sjá þetta með öðrum augum.

mánudagur, júlí 11, 2011

Grill í Grundó

Skelltum okkur í skottúr til Grundarfjarðar á laugardeginum, þ.e. ég og drengirnir en Sigga fór í gróðursetningar í Baulumýri eða húsmæðraorlof eins og hún kaus að kalla það. Við tókum daginn snemma, vorum mættir á Smiðjustíginn rúmlega 10 um morguninn en þar var fullt hús af fólki. Reynir og Heddý ásamt Lilju og svo var Villi og co búin að tjalda á blettinum. Létum engan vita af ferðum okkar og mamma þurfti víst að kíkja tvisvar þegar hún sá allt í einu Ísak Mána út um eldhúsgluggann.
Þvílík bongóblíða að það hálfa hefði verið nóg og þá eru fáir staðir betri en pallurinn í Grundarfirði. Við notuðum tækifærið og skelltum okkur á völlinn til að sjá toppslag í C-riðli 3ju deildar á milli Grundfirðinga og Berserkja. Villi hafði orð á því að sveitakaffið væri helmingi dýrara en upp í efra-Breiðholti en svona sýningu hefur hann ekki séð lengi á Leiknisvellinum. Heimamenn 0:2 undir í hálfleik áður en 3 rauð spjöld voru splæast á gestina á 10 mínútna kafla í síðari hálfleik og miðvörður heimamanna tók sig til og setti þrennu í 3:2 sigri, hið síðasta í blálokin og allt ætlaði um koll að keyra á pöllunum. Þvílíka öryggisgæslu þegar dómarinn gekk til búningsklefa hef ég aldrei séð í þessari deild.
Dýrindisgrillmatur um kvöldið áður en ég hélt með mína áleiðis í Baulumýri til að ná í yfirmann gróðursetningardeildarinnar og svo var stefnan tekin á Eyjabakkann. Skriðum heim um klukkan 23:30 eftir nokkuð langan dag en déskoti fínan.

mánudagur, júlí 04, 2011

Enn eitt mótið á Akureyri 2011


Áfram var haldið til móts við knattspyrnumót sumarsins. Nú var stefnan tekin á Akureyri, á N1 mótið fyrir 5. flokk karla þar sem Ísak Máni var að keppa.
Við í fimm manna fjölskyldunni tókum ferðalagið norður í tveimur pörtum, lögðum af stað um kvöldmatarleytið á þriðjudaginn síðasta og tókum stefnuna á bústað í Hrútafirði, rétt við Staðarskála, þar sem aðrir fimm ferðalangar í sömu erindagjörðum og við höfðu til ráðstöfunar og buðu okkur svefnpláss. Það var því þægilegri rúnturinn inn á Akureyri á miðvikudeginum heldur en að þurfa að taka þetta í einum rykk.


Mættum norður í hálfkuldalegt veður og það gekk á með skúrum. Sem betur fer var bara einn leikur þann daginn þannig að það var hægt að dunda sér í einhverju öðru. Við vorum búin að taka á leigu litla tveggja herbergja íbúð í miðbænum, Ísak Máni svaf í skólanum hjá liðinu. Þeir dagar sem voru í vændum urðu mjög vænlegir veðurlega séð, svo góðir að nokkur nef náðu að brenna. Hálfótrúlegt í ljósi þess að maður hafði verið hérna ansi þungur á brún þegar styttist í brottför og flestar veðurspár sáu bara blautt, þær reyndar fóru batnandi þegar nær dró. Það var ekki fyrr en á lokahófinu á laugardagskvöldinu að það fór að rigna aftur. Við vorum með kofann á leigu fram á sunnudag og reyndum að gera ferðalagið heim eins bærilegt og hægt var. Stoppuðum á Blönduósi og fórum í sund áður en haldið var áfram heim.


Boltalega gekk þetta ágætlega, tapleikirnir urðu reyndar fleiri en sigurleikirnir hjá Ísaki og félögum en C-liðið lenti í 14. sæti af 28 liðum þannig að það má segja með réttu að þetta hafi verið svona medium. Guttinn fékk heilmikinn spilatíma, enda fyrirliði liðsins og sinnti varnarskyldum sínum af prýði. Hin ÍR liðin voru svona á allskonar róli, A-liðið lenti í 23. sæti af 28 A-liðum, B-liðið í 12. sæti af 28 og F-liðið í 6. sæti af 28 F-liðum.


Heilt yfir var þetta því fínasti túr. Undirritaður er reyndar að fara til vinnu á morgun og verð í því út þá næstu en eftir hana er ráðgert að taka sér eitthvað ágætisfrí. Ekkert mikið skipulag í gangi nema að ekki erum við laus við knattspyrnumót sumarsins því í byrjun ágúst fer Ísak Máni á Selfoss en Logi Snær á Sauðárkrók ... sömu helgina. Meira um það síðar.

Aftari röð: Rökkvi, Dagur, Tristan, Snorri og Ísak
Fremri röð: Magni, Viktor, Antoníus og Ævar
Fremstur: Andri