þriðjudagur, nóvember 24, 2015

Viðtalið

Sá yngsti í einlægu einkaviðtali í jólablaði Fréttablaðsins í dag, þar sem ekkert er dregið undan og engum er hlíft.

fimmtudagur, nóvember 05, 2015

Laus úr gifsinu - 3 mánuðum seinna

Núna þremur mánuðum eftir fótbrotið er Ísak Máni loksins laus úr gifsi, hinu síðasta af þremur. Eftir rúmar 4 vikur í gifsi upp að nára tóku við einhverjar 5 vikur í gifsi sem náði upp að hné, í hvorugu þeirra var í boði að stíga í fótinn en gifsferlið endaði svo á „litlum“ þremur vikum í göngugifsi, um 13 vikur í það heila. Núna taka við einhverjar vikur í að koma sér af stað en svo er planið að taka teinana, sem settir voru í fótinn til að skorða beinin af, úr fyrir áramót. Þangað til er allt leyfilegt sem framkallar ekki sársauka og eru sundlaugaferðir og styrktaræfingar þar ofarlega á blaði.

Ef maður gerir þetta upp þá verður að segjast að byrjunin var erfiðust í þessu. Frekar óljóst í upphafi hversu langt ferli væri framundan, hlunkagifs og 1. bekkur í menntó að bresta á. Drengurinn hóf s.s. skólagönguna í Kvennó með pabba gamla oftar en ekki á kantinum og Ísak á orðið slatta af nýjum vinum sem þekkja hann ekki öðruvísi en á hækjum. Kvennó – þrjár byggingar, hver þeirra örugglega að meðaltali 100 ára gamlar og sameiginlegur fjöldi lyfta í þessum þremur byggingum er 1 kvikindi. Dreptu mig ekki. En einhvern veginn hafðist þetta af.

Málin urðu aðeins þægilegri með minna gifsinu og þegar göngugifsið kom undir þá var hann nánast búinn að losa sig við báðar hækjurnar eftir 3 daga. Göngugifsið fór s.s. af núna í morgun og eftir smá slökun þá var farið í það að leggja löppina í bleyti og framkalla hamskipti á fætinum, sem er helv... rýr á þessu stigi málsins. Kappinn stígur núna í fótinn sársaukalaust þótt menn fari ekki hratt yfir. Það var svo ekki hægt annað en að reima á sig nýju Kyrie körfuboltaskóna, bara til að prufa, þótt prufukeyrsla á þeim á fullu gasi fari nú ekki fram fyrr en eftir áramót.

Maður er ótrúlega stoltur af stráknum, oft bognaði sálin en aldrei hlaut hún sömu örlög og fóturinn. Ég trúi því að menn séu komnir upp mestu brekkuna, núna taki við ferðalagið að koma sér aftur heim.