mánudagur, júní 13, 2016

Skagamótið 2016

Í fimmta sinn hélt maður upp á Akranes með barn í 7. flokki á fótboltamót.  Ísak Máni fór þrisvar sinnum, Logi Snær einu sinni og nú var Daði Steinn að fara í fyrsta sinn.  Núna heitir þetta Norðurálsmótið og hefur víst gert í einhvern tíma.  Mótið sjálft hefur breyst talsvert síðan maður mætti þarna með Ísak 5 ára, stækkað mikið og er keyrt öðruvísi í gegn.  Núna er styttra á milli leikja yfir daginn en á móti skapast stærra tómarúm yfir daginn sem þarf að brúa með einhverjum hætti.  Til að mynda vorum við feðgar mættir á föstudagsmorguninn fyrir klukkan 10:00 til að ná skrúðgöngunni kl 11:00.  Liðið hans Daða átti svo að mæta í liðsmyndatöku kl 14:30 en fyrsti leikur var ekki fyrr en 16:30.  Þannig að augljóslega var maður orðinn frekar þreyttur á hangsinu þegar loksins var flautað til leiks.  Þessi útfærsla gerir það frekar að verkum að liðið splittaðist upp í þessum löngu eyðum þannig að þetta var ekki alveg eins mikil liðssamvera eins og hérna áður.

Allavega, ég tók föstudaginn með Daða og planið var að hann myndi sofa með liðinu en ég myndi keyra heim um kvöldið.  Það gekk ótrúlega vel enda drengurinn algjör nagli.  Við Sigga ásamt Loga tókum svo laugardaginn snemma og vorum mætt upp á Skaga eldsnemma til að ná Daða nánast í bólinu sem tókst alveg innan skekkjumarka.  Leikjadagskránni hjá honum á laugardeginum var svo lokið um hádegisbilið og því hentum við okkur strákarnir með liðinu hans í sund.  Sundferðir á svona mótum eru alltaf þannig að maður verður bara að vera gíraður í svona, allir skápar fullir, biðröð í sturturnar o.s.frv. en það er ekkert annað en að láta sig hafa það.  Eftir smá hoppukastalachill fór hluti af liðinu hans Daða í fótbolta á Langasandi.  Á þessum tímapunti var tekin sú ákvörðun um að ég fari heim með Loga en Sigga tæklaði kvöldmatinn og kvöldvökuna með Daða.  Ég keyrði svo aftur upp á Skaga um kvöldið þegar Sigga var búin að koma Daði í bælið og að hann væri sofnaður.  Aftur tókum við svo daginn snemma á sunnudagsmorgninum, bara ég og Sigga þó, vorum mætt um kl 8 leytið og Daði nývaknaður.  Þeir áttu svo tvo síðustu leikina um hádegisbilið og dagskránni bara lokið eftir það enda búið að leggja af hefðbundna verðlaunaafhendingu, sem reyndar er ákveðinn kostur.

En svona af knattspyrnulegum málum þessa helgina þá gekk þetta svona la-la.  Þeir voru settir inn sem B-lið en liðið hans Daða samanstóð aðallega af yngra árs drengjum þannig að maður bjóst alltaf við að þetta yrði smá brekka.  Í það heila unnu þeir einn leik, gerðu 3 jafntefli og töpuðum 5.  En stemmingin var samt alveg fín, Daði skoraði tvö mörk, tók einn leik í marki og var heilt yfir mjög flottur. 

Annað var nokkuð gott bara, veðrið á föstudeginum var það sem ég kallaði stanslausan úða, frekar sérstakt.  Það gerði það að verkum að það var frekar blautt yfir öllu en menn voru samt ekkert holdvotir.  Laugardagurinn og sunnudagurinn voru bara fínir, smá rok á laugardeginum og svo var blautt yfir á sunnudeginum en ekkert sem maður kvartar yfir.  Hef lent í talsvert verri málum en þetta. 

Ef allt fer sem horfir þá mun sjötta og síðasta mótið hvað börnin okkar varðar næsta sumar.  Allt líður þetta áfram á ógnarhraða.







þriðjudagur, júní 07, 2016

Ísland - Liechtenstein 4:0

Uppgangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hefur verið ótrúlegur undanfarin ár.  Töpuðum í umspili við Króatíu um sæti á HM í Brasilíu 2014 og náðu svo á tryggja sig inn á stórmót í fyrsta sinn núna á EM í Frakklandi 2016, þrátt fyrir að vera m.a. í riðli með Tékklandi, Tyrklandi og Hollandi. 

Þegar vel gengur þá fylgir stemmingin með og þá vilja allir vera með.  Og í þessu tilfelli þýddi það að ná sér í miða á heimaleiki með liðinu í undankeppninni, á 10.000 manna Laugardalsvöll, var enginn hægðarleikur.  Ég reyndi aðeins en þúsundir manna virtust bíða spenntir fyrir framan tölvurnar þegar opnað var á miðasölu og gildi þá einu hvort það var verið að spila við Holland eða Kasakstan, alltaf fékk maður bara computer-says-no.  Staðan var einfaldlega sú að t.d. hafði Daði Steinn aldrei, þegar hér var komið við sögu og orðinn 7 ára, farið á landsleik í fótbolta. 


Það var því stokkið til þegar KSÍ henti í einn æfingaleik á heimavelli, síðasti leikur fyrir EM, á móti Liechtenstein.  20.000 kall var slengt fram fyrir 5 miða fyrir alla fjölskylduna á besta stað í stúkunni til að sjá landsliðið í æfingaleik þar sem fyrirfram var vitað að ekki nokkur heilvita leikmaður myndi fórna sér í svo mikið sem eina tæklingu og að andstæðingurinn gat ekki blautan.

En veðrið var yndislegt, 4 mörk voru skoruð, Eiður Smári skoraði í mögulega sínum síðast landsleik á heimavelli og allir leikmenn komu heilir úr þessu.  Nú mátti EM fara að byrja.