mánudagur, desember 26, 2011

Hefðbundin jól

Annar í jólum að morgni til. Frumburðurinn að skófla í sig samblandi af Cheerios og Cocoa Puffs á meðan hinir tveir skipta liði, annar er inn í stofu að horfa á barnatímann en hinn er inn í herbergi að horfa á Grísina þrjá á DVD. Konan í ræktinni. Ég í náttbuxunum, með ómuldar stýrur í augunum.

Síðustu daga búnir að vera frekar hefðbundnir. Ég var að vinna á Þorláksmessu en eftir útstimplun rúllaði ég mér heim og við kíktum svo með barnaskarann niður í bæ. Vorum reyndar í fyrra fallinu þar, engir kórar farnir að syngja og þessháttar en það var samt fínt að taka röltið þarna upp og niður Laugaveginn.

Aðfangadagurinn gekk vel fyrir sig. Skítaveður reyndar þannig að ekki var hægt að bjóða upp á tímastyttingarferðir utanhúss, innanhússaðgerðir í þeim efnum þurftu að duga. Allir fengu einhverja pakka og heilt yfir var ekki hægt að merkja annað en mannskapurinn gengi sáttur frá borði. Hamborgarhryggurinn úr FK var déskoti fínn og eitthvað var maulað af konfekti í kjölfarið.

Jóladagur var hádegismatur í Mosó, hangikjöt og með því. Mannskapurinn nokkuð slakur bara, einhverjir tók spil á meðan aðrir glugguðu í bók. Maður var að velta því fyrir sér í þriðju ferð í eftirréttinn hvað í ósköpunum maður væri að leggja á líkamann. Heim aftur um miðjan dag, beint í náttfötin. Aftur velti maður fyrir sér áhrifunum á líkamann þegar maður gúffaði í sig afgöngum af aðfangadagsmatnum síðar um kvöldið, kaldur hryggur með heitri sósu. Ég held að það eigi að gera lokatilraun til að klára þetta í kvöld, líklega í tartalettuformi. Fyrsti í NBA eftir verkfall og við Ísak Máni skriðum í bælið um kl 01:00 eftir að hafa horft á magnaðar lokamínútur hjá sigri Bulls á Lakers. Það verður eitthvað að rífa sig upp í vinnuna á morgun.

Hefðbundið bara.laugardagur, desember 24, 2011

föstudagur, desember 09, 2011

Læknabrölt

Þetta eru búnir að vera hálfskrítnir dagar eða vikur. Þvílíkur skítakuldi sem hefur verið í gangi að það hálfa hefur verið yfirdrifið nóg. Ég held að ég hafi sjaldan verið jafnoft í náttbuxum og hettupeysum að kvöldi til, það er eitthvað við þessa froststemmingu sem hefur ýtt undir þessa hegðun hjá mér.

Svo hefur líka verið tóm veikindi hérna, aðallega Logi Snær og Daði Steinn. Logi fékk einhverja veirusýkingu sem fylgdu massaútbrot og greyið búinn að vera í tómu tjóni. Hvorki farið í körfubolta eða fimleika og hefur verið voðalega orkulaus. Þurfti að sleppa körfuboltamóti sem ÍR hélt um síðustu helgi en hann er nú á réttri leið. Hann fer örugglega samt ekkert að sprikla neitt fyrr en eftir áramót. Daði Steinn búinn að vera með einhvern endalausan skít í sér og fór svo í ofanálag í nefkirtlatöku í dag. Það gekk nú víst nokkuð vel bara, ætli þeir vilji svo ekki rífa hálskirtlana úr honum á næsta ári, það kemur allt í ljós.

Ég ákvað að taka þátt í þessum læknisheimsóknum fjölskyldunnar og skellti mér til tannlæknis, aðeins verið að kítta í stellið. Eins og maður hafi ekkert annað að gera við á þriðja tug þúsundir króna og í desember í ofanálag. Næsta heimsókn til hans í september en fyrir þann tíma verð ég að vera búinn að láta rífa út úr mér einhverja endajaxla sem hefur verið á to-do-listanum síðan nítjánhundruðnítíuogeitthvað. Búinn að lofa sjálfum mér því að þetta verði framkvæmt eigi síðar en í janúar, tími kominn að klára þetta helv...

Sigga er ekkert í þessu, mætir bara í ræktina um miðjar nætur til að hressa sig við. Maður ætti kannski að fara að dusta rykið af ræktardressinu.

laugardagur, desember 03, 2011

Bakaradrengurinn

Ísak Máni gerði köku fyrir skólann um daginn, einhver bökunardagur sem bekkurinn hans hélt í fyrra þar sem allir bökuðu köku og aftur var þetta haldið í ár. Í fyrra gerði hann og félagi hans eldfjallaköku sem sló í gegn. Núna var drengurinn sóló, reyndar með mömmuna sem sína hægri hönd, en aftur sló hann í gegn:

þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Viðey

Maður hefur þessa eyju sem næsta útsýni út um gluggann í vinnunni en ég held ég hafi aldrei komið út í Viðey fyrr en í gær. Gæti reyndar verið að fara með rangt mál en það verður þá bara leiðrétt síðar. Í gærkvöldi var sem sagt skipulögð bekkjarferð hjá bekknum hans Ísaks Mána út í Viðey og ég fór með honum sem fullorðinn fulltrúi.
Það var frekar kalt, það verður að segjast en maður var nú þokkalega útbúinn. Kíkt á þessa friðarsúlu hennar Yokoar og var farið yfir með okkur yfir helstu staðreyndir þessa listaverks. 12 km uppí loftið sem ljósið nær, það verður að teljast magnað. Heilt yfir mjög flott, annað verður ekki sagt. Stutt stopp í kirkjunni ásamt helstu staðreyndum þar áður en lokastoppið var tekið í Viðeyjarstofu. Þar fengum við kakó og möffins á túristataxta, þ.e. fyrir allan peninginn. Aðeins farið að hvessa með dallinum á leiðinni í land aftur en það var bara hressandi, það örlaði fyrir smá sjómennskufíling frá því í gamla daga en það var nú reyndar djúpt á því.

Það virðist oftar en ekki þurfa eitthvað svona hópskipulag til að maður framkvæmi eitthvað sem er venjulega fyrir framan nefið á manni.

þriðjudagur, nóvember 22, 2011

London, England

Skellti mér í helgarferð til Englands um síðustu helgi. Fótboltaferð með nokkrum vinnufélögum, svipaður hópur sem hefur farið í nokkrar ferðirnar, bætist heldur í hann en hitt enda gleðin í fyrirrúmi. Ég er reyndar búinn að setja mér það takmark að telja saman þessar ferðir og leiki svona áður en um langt líður. Skemmtilegra að vera með þetta á hreinu. Við skulum bara lofa þeirri bloggfærslu eigi síðar en í janúarlok 2012.

Flugum út á föstudagsmorgni og gistum á hótelinu á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, ekki í fyrsta skipti en hópurinn telur m.a. tvo grjótharða Chelsea aðdáendur sem þekkja þetta eins og handarbakið á sér. Dagskráin var að taka Reading - Cardiff á laugardeginum en Chelsea - Liverpool á sunnudeginum. Menn verða að taka tvo leiki í svona ferð, til að réttlæta kostnaðinn viljum við meina. Við höfðum gælt við það að ná úrvalsdeildarleik á laugardeginum en þegar sú athugun fór í gang kom í ljós að það var ekkert að gerast í London á þeim degi. Reyndar voru uppi hugmyndir að fara á Millwall - Bristol City, bara til að geta sagt hafa farið á leik með Millwall en þeir eru þeir snarvitlausustu á Bretlandseyjum og þótt víðar væri leitað. Sá leikur var svo færður yfir á sunnudaginn, kannski sem betur fer, svo það féll um sjálft sig. Þannig að Reading var fyrir valinu, annað skipti sem við förum þangað enda einn úr hópnum með góða tengingu við Brynjar Björn, leikmann Reading sem reyndar var ekki í leikmannahópnum vegna meiðsla. Svo var Aron Einar Gunnarsson að spila með Cardiff þannig að þetta hljómaði ágætlega.

Klukkutíma rúntur frá Chelsea yfir til Reading á laugardeginum og við vorum komnir þar í tíma. Fengum okkur eins og einn kaldann og spjölluðum við gesti og gangandi á stuðningsmannabarnum, þægileg fjölskyldustemming þarna og flestum finnst mjög gaman að tala um hvernig standi á því að Ísland eigi svona marga góða fótboltamenn. Svo fengum við að fara til þarna bakatil í players lounge-ið, sem var nú óttarlega dapurt miðað við hvað ég hefði getað ímyndað mér. Fínn leikur, reyndar 1:2 tap heimamanna en stuðningur gestanna sem sátu rétt hjá okkur var með því flottara sem ég hef séð, sungu megnið af leiknum og stuðningsmenn heimamanna áttu ekki roð í þá. Það er hægt að sjá sýnishorn af því -HÉR-. Sáum einhverja leikmenn þarna inn á lounge-inu eftir leikinn. Íslendingarnir tveir voru þarna og svo voru einhverjir karlar þarna, markmaðurinn Adam Federici, fyrirliðinn Jobi McAnuff og Noel Hunt. Ekki stærstu nöfnin í boltanum enda var lítið að kveikja í mér í leikmannalistinn. Sáum reyndar svo skoska framherjann Kenny Miller sem spilar með Cardiff.


Styttra ferðalag á sunnudeginum, nokkur skref frá hótelinu yfir á völlinn. Búið að loka hinum margfræga So Bar sem bullurnar stunduðu þannig að við röltum yfir á Imperial sem er á Kings Rd, þar sem stemmingin er. Ekki alveg eins sveitt eins og gamli So en slapp alveg, maður er farinn að kannast við nokkra Chelsea söngvana. Vorum í fínum sætum á vellinum og leikurinn alveg ágætur, aftur fengum við 1:2 útisigur þannig að stemmingin varð kannski ekki eins og hún hefði geta orðið. Chelsea-menn mega nú eiga það að það er flott að hafa hótel svona á vellinum, skapar líf í kringum þetta eins og eftir leikinn. Það var stemming fyrir því að safna fleiri myndum af okkur með celebs en við náðum að smygla okkur niður í bílakjallarann og sáum á eftir Didier Drogba setjast inn í bílinn sinn en gengum í flasið á Jose Bosingwa og Raul Meireles þannig að það slapp áður en okkur var vinsamlegast bent á að hypja okkur sömu leið til baka af öryggisvörðunum.
Mánudagurinn var svo heimfarardagur þar sem það helsta gerðist að bílstjórinn sem starfsmaður hótelsins pantaði fyrir okkur til að keyra okkur upp á flugvöll hélt að við værum að fara í einhverja skoðunarferð á heimavöll Arsenal. Þetta kom í ljós eftir ða ferðin hófst en einn ferðafélaginn áttaði sig á því að við vorum að fara í vitlausa átt og þá kom þetta í ljós. Það þýddi bara U-beygju á staðnum, blót í sand og ösku frá bílstjóranum en allt hafðist þetta í tíma.

Utanlandsferðalistinn tæmdur í bili, þetta hefur verið ansi hressilegt með 4 ferðir á einhverju 6 vikna tímabili. Ég held að ég hafi sagt þetta síðast en nú segi ég það aftur, næsta fótboltaferð mun innihalda leik á Old Trafford, segi og skrifa það.

sunnudagur, nóvember 13, 2011

Flúðir, Ísland

Enn eitt dæmið um að karlinn kanni áður ókomna staði á Íslandi, þökk sé íþróttaiðkun barnanna. Ég þurfti sem sagt að rífa mig upp daginn eftir Írlandsferðalagið og vera mættur með frumburðinn á Flúðir fyrir hádegið. 8. flokkurinn hjá ÍR í körfunni var að spila tvo leiki þar, við Grindavík og Hrunamenn. Menn náðu að vígja nýju búningana með tveimur sigrum. Hafði sem sagt ekki komið þangað áður, örugglega margt vitlausara en að eiga bústað þarna í grendinni, ekki það að ég sé að fara fjárfesta í svoleiðis.


Annars að frétta af Loga Snæ að hann tilkynnti fyrir helgina að hann væri hættur (í bili a.m.k.) í handboltanum. Hann hefði átt að spila í sínu fyrsta móti í dag en það varð eðlilega ekkert úr því, ekki fyrst menn eru hættir. Hann er þá í fimleikum og körfubolta og það er í sjálfu sér alveg fínt, minnkar aðeins skutlið sem er aðallega á verkefnalista mömmu hans.

laugardagur, nóvember 12, 2011

Dublin, Írland

Þurfti að bregða mér til Dublin í vikunni sem er að líða. Samnorrænn sveskjufundur, ekki orð nánar um það.

Aldrei komið til Írlands áður.

Ég held það sé sama hvar þú býrð þá séu væntanlega alltaf ákveðnir kostir en á móti ákveðnir gallar. Mér fannst svolítið fúlt að fyrir einn dag í Dublin þurfti ég vera mættur upp í flugvél klukkan 09:00 daginn fyrir þennan eina dag og lenda svo í Keflavík kl 17:00 daginn eftir þennan eina dag.

3 dagar fyrir 1.

Þegar ég vissi að þetta stæði til þá hafði ég smá von að ég gæti flogið beint með einhverju kvenfólki á leið í "power-shopping-ferð" frá Íslandi en komst svo að því að þetta er víst ekki eins vinsæll viðkomustaður eins og hérna fyrir einhverjum árum. Það þýddi bara Keflavík-London-Dublin fyrir mig og sama leið til baka.

Ferðalagið út eftir gekk svona stórslysalaust fyrir sig. Gleymdi reyndar að láta taka einhverja mynd af mér í London sem kom ekki í ljós fyrr en ég var á leiðinni út að hliðinu. Þurfti þá að taka þennan þvílíka sprett einhverja bakleið og hlaupa svo aftur í gegnum allt öryggisdraslið eftir að búið var að smella mynd af karlinum og mætti svona líka pungsveittur þegar verið var að boarda í vélina. Sem betur fer var frekar raðalítið í þessari seinni umferð minni. Ég fékk ekki nafnið mitt kallað upp í hátalakerfinu sem hefði náttúrulega bara verið kúl. Get brosað að þessu núna en mér var enginn hlátur í huga þegar ég hljóp þarna dimman bakgang og fann hvernig svitaperlurnar fóru að spretta fram úr enninu.

Get ekki sagt að ég hafi séð nokkuð af Dublin svo heitið getur. Fór út að borða fyrra kvöldið, á lítinn stað við sjóinn og það var ekki hægt annað en að taka sjávarréttina á þetta. Hörpuskel í forrétt en ég hef ekki hugmynd hvað ég át í aðalrétt enda fiskienska mín ekki alveg sú besta. Enda kannski aukaatriði, þetta bragaðist nokkuð vel.

Að öðru leyti hef ég ekki úr miklu að moða. Ég veit reyndar ekki alveg með þessa skólabúninga þarna..., ...eða ég veit svo sem alveg hvað mér finnst um þetta en ég held að ég haldi þeirri skoðun bara fyrir mig. Svo tókst mér að bjarga deginum hjá einhverri ungri dömu sem flissaði þessi lifandi ósköp þegar ég, eins og algjör hálfviti, stóð á gatnamótum og beið eftir græna karlinum. "Just go over" lét hún mig heyra þegar hún valhoppaði á milli bílanna. Ég veitti því svo athygli það sem eftir lifði ferðar að það beið ekki kjaftur á gatnamótum, menn létu sig bara hafa það. Ég reyndi bara að muna að líta til vinstri.

Heimferðin í gær gekk ágætlega. Þurfti reyndar að vakna kl 04:15 enda átti vélin að fara 07:05 en þegar á reyndi þurftum við að chilla út í vél í einn og hálfan tíma áður en hægt var að leggja af stað sökum þoku í London. Skipti ekki öllu máli, það stytti bara tímann sem ég þurfti að hanga á flugvellinum í London. En þar var ég sem sagt þann 11.11.11 kl 11:11. Hluti af U-21 fótboltalandsliðinu var svo á leiðinni heim eftir 5:0 tap á móti Englandi. Þeir voru samt hressir.

Nú fer utanlandsferðunum að ljúka í bili.

Ekki alveg strax samt.

sunnudagur, nóvember 06, 2011

Logi Snær í körfunni

Hér sé líf og hér sé fjör. Helgin að líða undir lok og það hlýtur m.a. að þýða íþróttabrölt barnanna ef við höfum ekki verið svikin, jújú mikið rétt. Í þetta sinn var Logi Snær í aðalhlutverki en drengurinn sá var að keppa í körfubolta í fyrsta sinn. Slær eldri bróðir sínum við svo munar einu ári ef reikniskunnáttan er ekki að bregðast mér en Ísak Máni tók þátt í sínu fyrsta körfuboltamóti þegar hann var 8 ára á meðan Logi er „bara“ 7 ára. Á móti kom reyndar að Ísak Máni hafði verið í handbolta árinu áður, á meðan Logi Snær byrjaði í handboltanum, eins og körfuboltanum, núna í haust. Nóg komið að tilgangslausum samanburði sem eru reyndar tölfræðiupplýsingar sem vonandi gaman er að vita seinna meira, þó það sé bara fyrir drengina sjálfa.


Logi Snær var að taka þátt í Sambíómótinu hjá Fjölni, hét áður Hópbílamótið held ég og spilaði Logi í Rimaskóla. ÍR sendi aldrei lið í þetta þegar Ísak Máni var á þessum aldri þannig að við vorum að fara í fyrsta sinn á þetta mót. Fullmikið prógramm fyrir minn smekk, 5 leikir sem voru teygðir yfir laugardag og sunnudag með bíóferð og kvöldvöku. Við fjölskyldan reyndum svona að skipta þessu á milli okkar, Sigga tók aðallega laugardaginn og fékk þá bíóferð og kvöldvöku í kaupbæti. Við Daði Steinn fylgdum Ísaki Mána á tónleika í Seljakirkju á laugardeginum áður en við kíktum upp í Grafarvoginn. Ég tók svo sunnudaginn. Þetta prógramm hefur væntanlega allt verið gert til að geta réttlætt að rukka hvern iðkanda meira en ella. Meira að segja var liðunum boðið að gista í skólanum, sem ÍR þáði sem betur fer ekki. Strákurinn stóð sig vel, smellti niður einhverjum körfum og var voða ánægður með þetta sem hlýtur að vera mergur málsins. Nýju ÍR búningarnir komu í hús rétt fyrir lokun á föstudeginum hjá Braga í Leiksport þannig að menn tóku sig vel út á velli. Númer 5 eins og stóri bróðir fékk sér.

föstudagur, nóvember 04, 2011

Lestrarstundir

Daða Steini finnst ekki leiðinlegt að láta lesa fyrir sig. Mér finnst ekki leiðinlegt að lesa fyrir hann, svona yfirleitt. Það er nú samt þannig að mér finnst bókakosturinn sem er í boði misskemmtilegur, eins og kannski eðlilegt er. Og ég og Daði Steinn höfum ekki alltaf sömu skoðun hvað þetta varðar.

Tökum sem dæmi ritröðina Skemmtilegu smábarnabækurnar sem eitthvað er til af hérna heima, mér fyndist réttara að nefna þær Misskemmtilegu smábarnabækurnar. Daða er nefnilega ekki sama hvaða bækur verða fyrir valinu þegar hann er í lestrarhlustunargírnum, sumum vill hann ekki gefa svo mikið sem eitt tækifæri á meðan aðrar eru heilagar. Og þær þarf að lesa aftur og aftur og aftur... Sem er svo sem í lagi, á meðan efni bókarinnar er í lagi en þegar það er ekki í lagi þá er það ekki í lagi.

Bláa kannan er déskoti fín finnst Daða, get ekki sagt að ég deili þeirri skoðun. Saga sem gengur út á að aðalsöguhetjan hittir mismundandi persónur og spyr þær sömu spurningarinnar og fær alltaf sama svarið, þangað til í lokin. Græni hatturinn og Svarta kisan ganga út á það sama, get ekki sagt að ég sé einskær aðdáandi Alice Williamsson sem er skráð fyrir þessum þremur sögum en geri mér jafnframt grein fyrir að hún hefur væntanlega verið stödd á öðru tímaskeiði en ég blessunin. Þá er skárra að lesa um Grísina þrjá eða Úlfinn og kiðlingana sjö sem eru sem betur fer líka ofarlega á vinsældarlistanum hjá þeim yngsta.

föstudagur, október 28, 2011

3ja stiga skotið góða um árið

Fjallaði um það hérna þegar Ísak Máni smellti niður 3ja stiga körfu í leikhléi á leik Hauka og ÍR, fyrir tæplega ári síðan. Pistilinn má lesa með því að smella -HÉR-. Ég man að ég var að reyna að taka mynd af þessu á símann minn þegar á þessu stóð, nokkuð sem virkaði engan veginn.

En félagi Ísaks Mána fann svo link af atburðinum inn á YouTube ekki alls fyrir löngu. Þið getið séð það með því að smella -HÉR-. Endursýning í slow-motion og alles, greinilega toppmenn hjá Haukar TV. Helv... vel gert hjá stráknum, það var ekkert að þvælast fyrir honum að vera í úlpunni og með húfuna á hausnum. Hann hefði reyndar þurft að gera eitthvað í fagninu. Það er alltaf næst.

fimmtudagur, október 27, 2011

893-9538

Í dag brutum við odd af oflæti okkar og leyfðum frumburðinum að versla sér GSM síma og höfum þá væntanlega aðeins skriðið upp vinsældarlistann. Erum ekki alveg eins vond eins og venjulega. Greyið er búinn að berjast fyrir þessu í einhvern tíma og loksins hafði hann þetta í gegn. Til samanburðar má geta þess að allir nemendurnir í bekknum sem Sigga kennir eiga GSM síma, hver einn og einasti. Sigga kennir 3. bekk. Ísak Máni er í 7. bekk.

Logi Snær? Fyrst Ísak Máni fékk að kaupa sér síma þá fékk Logi handbolta sem pabbi borgaði. Handbolta með geðveikt góðu gripi. Spurning hvort hann þarf að bíða eftir símanum fram í 7. bekk.

Daði Steinn kom óneitanlega verst út úr þessum degi.

miðvikudagur, október 26, 2011

Í fyrsta sinn heill en ekki hálfur

Það færist til bókar að í dag var fyrsti fótboltaleikurinn hjá Ísaki Mána á velli í fullri stærð. Drengurinn kominn upp í 4. flokk en hefur ekki getað mætt mjög skipulega á æfingar sökum þess að hluti þeirra skarast á við önnur verkefni, körfubolta og píanó. Hann spilaði sem miðvörður, bara hann og markmaðurinn sem spiluðu allan tímann en ég held að þjálfarinn, sem var búinn að gefa það út fyrir leik að allir myndu hvíla eitthvað, hafi bara gleymt honum. Skemmtilegt tilviljun að mótherjarnir í þessum leik, sem spilaður var á gervigrasinu hjá ÍR, var Valur. Áhorfendurnir fengu eitthvað fyrir allan peninginn, 11-3 heimasigur. Ekki slæmt í fyrsta heilavellisleik.

mánudagur, október 24, 2011

NYC

New York City. Þá er það komið í reynslubankann. Við Sigga skelltum okkur í borgina sem aldrei sefur, tókum góða helgi á þetta fyrst við gátum komið drengjastóðinu í fóstur upp í Mosó. Flugum út síðdegis á fimmtudegi og vorum að lenda um kl. 19:00 að staðartíma. Planið hafði verið að drífa sig út á hótel og losa okkur við töskurnar áður en við myndum kíkja eitthvað á borgina. Reiknuðum ekki með að þurfa að dúsa í tvo tíma í biðröð dauðans í loftlausri flugstöðvarbyggingunni áður en við komumst inn í landið. Svo tók nú taxaferðin upp á hótel smá tíma. Við létum það nú samt ekki stoppa okkur þótt við værum á eftir áætlun, röltum niður á Times Square, sem var drjúgur spotti, svona aðeins til að átta okkur á aðstæðum.
Byrjuðum föstudaginn snemma, eftir samdóma álit hjá okkar helstu álitsgjöfum og reynsluboltum í New York-ferðum og tókum Empire State Building á þetta. Fyrir þá sem til þekkja þá létum við okkur ekki nægja 86 hæðirnar sem er svona hefðbundni túrinn heldur fórum alveg upp á nr 102, en hærra komast menn víst ekki. Magnað að horfa yfir borgina í allar áttir. Eyddum svo deginum í rölt þarna í kringum 34. stræti í að skoða búðir og mannlíf. Byggingarnar þarna eru náttúrulega bara rugl. Enduðum svo inn á Hard Rock.

Tókum laugardaginn líka snemma enda var móttóið að eyða sem minnstum tíma í svefn. Tókum Subwayið niður þar sem tvíburaturnarnir stóðu eitt sinn. Lítið svo sem að sjá þar, við nenntum ekki að taka túristaskoðunarferðina á það, létum okkur nægja að sjá svæðið þarna í kring. Röltum þaðan í gegnum fjármálahverfið upp í Kínahverfið, þaðan í gegnum það sem þeir kalla Little Italy og upp í Soho. Tekinn svona búða/mannlífs úttekt á því hverfi. Skelltum okkur upp á hótel áður en við fundum okkur veitingastað í nágrenninu til að slútta deginum.
Lokadagurinn var svo tekin í að klára það sem eftir stóð á innkaupalistanum og frekari mannlífsúttektir með tilheyrandi kaffihúsastoppi, stungum m.a. tánni inni í Central Park bara svona til að hafa gert það. Svo var ekkert annað en að koma sér upp á flugvöll, áttum flug 20:35 og lentum um kl 06:30 í morgun að íslenskum tíma. Maður náði að sofa þokkalega í vélinni, eins þokkalega og hægt er að sofa í flugvél. Komum heim og pústuðum aðeins áður en farið var að sækja drengina. Dagurinn í dag er því búinn að vera nokkuð stífur og augnlokin þung eftir því. Þýðir ekkert að væla það, vinna á morgun og hversdagsleikinn tekur við á ný. Sem er bara fínt.

Skemmtileg ferð, að hugsa sér að þegar við vorum að spá í að fara eitthvað út í heim þessa helgi þá fékk ég í alvöru þá flugu í höfuðið að reyna að plata konuna til Manchester í verslunarferð og nota tækifærið og sjá borgarslaginn United - City. Það hefði nú verið sorglega stemmingin að þurfa að upplifa þessa 1:6 flengingu á staðnum. Þá var nú betra að vera bara staddur á Times Square þar sem ekki nokkur maður hafði áhuga á soccer.

þriðjudagur, október 18, 2011

Myndabeiðni

Ég fékk póst fyrir nokkru, fyrirspurn um að fá að nota eina mynd af drengjum í körfubolta sem er á þessari síðu í kynningarefni hjá menntastofnun einni. Það var svo sem auðsótt mál, ég sá a.m.k. enga ástæðu til að neita bara til þess að neita.

Gaman að þessu, en ég sé reyndar enga jákvæða breytingu í heimabankanum mínum. Karlinn eitthvað linur í þessum samningamálum.

mánudagur, október 17, 2011

Karfa á Króknum

Körfuboltatímabilið er hafið. Kostaði mig rúnt á Sauðárkrók þessa helgi sem var að líða. Vekjaraklukkan hringdi 07:00 á laugardagsmorguninn og við Ísak Máni vorum mættir upp í íþróttahús Seljaskóla kl. 08:15. Gekk allt vel bara, 3 bílar voru notaðir til að ferja liðið norður eftir og vorum við komnir klukkan rúmlega 12. Þetta var 8. flokkur sem var að berjast þarna en Ísak Máni er formlega í 7. flokki. ÍR ákvað að senda inn 8. flokk líka (ári eldri drengir) þrátt fyrir að það sé bara einn drengur á því ári að æfa hjá ÍR. 7. flokks strákarnir fá því að hljóta góðs af því, spila sem sagt bæði sem 7. og 8. flokkur í vetur. Allt hlýtur þetta að fara í reynslubankann.

Þeir spiluðu svo tvo leiki á laugardeginum, við Tindastól og Fjölni B en síðan var leikin önnur umferð á sunnudeginum. Þeir unnu bæði liðin og töpuðum líka fyrir báðum þannig að þetta var allt í járnum. Menn fengu framlengingu, flautukörfutilraunir, vafasama dóma á ögurstundum svo það má segja að menn hafi fengið eitthvað fyrir allan peninginn. Ég verð að viðurkenna að mér finnst erfiðara að horfa á körfuna heldur en fótboltann, veit ekki hvað veldur en stressfaktorinn virðist vera meira í körfunni.

Mættir í höfðuborgina um kaffileytið á sunnudeginum og rétt náðum að anda áður en farið var á fyrsta heimaleikinn í körfunni hjá meistaraflokknum. Tap gegn nýliðunum frá Þorlákshöfn staðreynd. Verður að segjast að það var ljúft að leggjast á koddann um kvöldið.

föstudagur, október 14, 2011

Drengjafréttir

Heilt yfir fín stemming. Daði Steinn er í góðum gír í leikskólanum og verður meiri gaur með hverri vikunni. Logi Snær er í fimleikum og finnst það rosalega fínt. Hann byrjaði svo í körfuboltanum í haust og finnst það gaman þannig að það er komið á fullt. Eins og það væri ekki nóg þá datt hann svo inn á handboltaæfingu með félaga sínum og mér heyrist að þeir séu æstir í að halda honum enda örvhentur og að öðru leyti nokkuð fínn getulega. Einhversstaðar verður að draga mörkin og ég held að við slökum á með hann í fótboltanum a.m.k. fram að áramótum. Þetta er náttúrulega komið út fyrir öll skynsemismörk. Ísak Máni er í körfunni og mun í vetur keppa með tveimur flokkum þannig að það eykst um helming mót og keppnisferðir frá því síðasta vetur. Sú fyrsta er einmitt núna um helgina á Sauðárkróki. Hann er áfram í píanóinu en þarf eitthvað að minnka fótboltann a.m.k. fram að áramótum, það eru of mikið af árekstrum með æfingar. Maður finnur að þetta verður stífara með hverju árinu hjá honum en sjáum hvernig fer.

fimmtudagur, október 13, 2011

Erlendis

Karlinn kominn heim frá Þýskalandi. Skaust á matvælasýningu í Köln á vegum vinnunnar laugardaginn síðasta og heim aftur á þriðjudaginn. Það var nokkuð gott bara, reyndar alveg botnlaus vinna og keyrsla yfir daginn en þetta var víst jú vinnuferð. Gistum í Dusseldorf og keyrðum á milli sem var nú ekki langur spotti en gat verið drjúgur tímalega séð þegar traffíkin var sem mest. Gat ekki annað en brosað að því að nokkur hundruð metrum frá hótelinu var H&M staðsett en ekki hafði maður tök á því að kíkja þangað inn, kannski sem betur fer, maður slapp þá við að fylla töskuna af sokkabuxum og nærfötum úr barnadeildinni. Það detta kannski inn fleiri utanlandsferðir á næstunni, hver veit.

mánudagur, október 03, 2011

Dagbók fótboltabullunnar - Sumarið 2011

Ég var eiginlega búinn að ákveða að halda ekki dagbók fótboltabullunnar þetta sumarið eins og ég gerði tvö síðustu sumur en þar sem sigurhlutfallið var ömurlegt í fyrra þá fannst mér ekki hægt að enda svoleiðis, 4 sigurleikir af 24 leikjum verður að teljast hálfdapurt. Ekki fékk ég framlengingu á dómaraskírteinið góða þannig að nú þurftu menn að vera með veskið á lofti og borga við innganginn. Til upprifjunar þá eru þetta meistaraflokksleikir sem haldir voru á vegum KSÍ. 17 leikir náðust 2009 og 24 árið eftir, spurning hvernig þetta fór.

Svona lítur þetta út:

1. maí Egilshöll Valitor-bikar karla
Elliði - Grundarfjörður 5:2
- Gamli VISA-bikarinn og sveitaliðið í borginni. Átti reyndar að vera spilað á Fylkisvelli en sökum snjólags var ekki hægt að spila þar svo leikurinn átti að fara fram í Reykjanesbæ áður en menn fengu inn í Egilshöllinni með stuttum fyrirvara. Sunnudagur og ég með Daða Stein og Loga Snæ á meðan hin tvö voru í sveitinni. Ég náði nú ekki að mæta fyrr en þegar síðari hálfleikur var að hefjast og mínir menn komnir 3:1 undir eftir að hafa komist í 0:1.

21. maí Víkinni 3. deild karla
Berserkir - Grundarfjörður 0:2
- Fyrsti leikurinn í deildinni hjá strákunum og ég ákvað að kíkja aðeins á svæðið. Bongóblíða en þar sem ég var búinn að láta plata mig í eitthvað firmamót upp í Kórnum þá náði ég nú ekki nema rétt tæplega fyrri hálfleik. Ég hef líklega verið kominn upp að ljósum við Bústaðaveg þegar Grundarfjörður tók 0:1 forystu undir blálok fyrri hálfleiks. Þeir bættu við öðru í síðari hálfleik og sigldu þessu heim, voru þar með búnir að jafna fjölda sigurleikja frá sumrinu áður. Flott byrjun og frekar óvænt þar sem Víkings B-liðinu var búið að spá góðu gengi þetta sumarið en strákunum úr firðinum ekkert spes.

25. maí ÍR völlur Valitor-bikar karla
ÍR - Þróttur 1:1 (1:3 e. framlengingu)
- Við Ísak Máni kíktum á þetta. Nettur vorbragur á þessu en ÍR tók forystuna í lok fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikurinn rúllaði nokkuð þægilega í gegn þangað til heimamenn misstu mann af velli með rautt spjald á 83. mínútu. Þetta var nánast komið í hús þegar Þróttarar jöfnuðu leikinn í uppbótartíma og framlengingin reyndist ÍR-ingum erfið. Bikarkeppnisdraumar úti þetta árið. Ég færi þetta til bókar sem tap.

28. maí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Haukar 1:3
- Fyrsti heimaleikurinn í deildinni. Ég var með Ísak Mána í körfuboltabúðum KKÍ í Frostaskjólinu en þaðan tókum við beint stefnuna á ÍR völlinn. Í síðari hálfleik fór að rigna, bæði úr lofti og mörkum. Heimamenn komust yfir en gestirnir svöruðu jafnharðan. 2 mörk til viðbótar frá þeim á síðustu þremur mínútunum gerði lítið fyrir bláklædda stuðningsmenn.

2. júní Kórinn gervigras 3. deild karla
Ísbjörninn - Grundarfjörður 1:3
- Við Ísak Máni náðum í tæka tíð fyrir fyrsta mark leiksins sem gestirnir skoruðu. Heimaliðið, sem var utandeildarlið árinu áður, jafnaði þó í byrjun þess síðari en Grundarfjörður náði að setja tvo mörk undir lok leiksins og kláraði þetta en ekki er hægt að segja að það hafi verið glæsibragur á þessu. Þar með höfðu allir þrír fyrstu leikir Grundfirðinga unnist og menn strax búnir að margbæta árangurinn frá því í fyrra.

2. júní Fjölnisvöllur 1. deild karla
Fjölnir - ÍR 2:3
- Seinni leikur dagsins, man hreinlega ekki eftir því að hafa tekið tvo leiki sama daginn. Ekki sama snilldartímasetning á mér og Ísaki Mána eins og á fyrri leik dagsins, mættum þegar 4 mínútur voru búnar en þá voru liðnar 3 mínútur og 15 sekúndur síðan ÍR komst yfir. Þegar við vorum að labba að stúkunni skoruðu okkar menn aftur og við sáum það eiginlega ekki því auglýsingaskiltið fyrir aftan markið var einfaldlega fyrir okkur, 0:2 eftir 5 mínútur. 1:3 í hálfleik og við eyddum hálfleiknum í að virða fyrir okkur Fjölniskrakka á aldrinum 12-14 ára henda flöskum og grjóti í lukkudýrið sitt, mjög þroskaheft allt saman. Heimamenn náðu að klóra í bakkann á 90. mínútu, mark sem við sáum ekki almennilega því þetta sama blessaða auglýsingaskilti var aftur fyrir okkur þar sem við vorum að rölta út á bílastæðið. Lærdómur kvöldis var að mæta alltaf fyrir kick-off, fara ekki fyrr en dómarinn flautar leikinn af og það þýðir ekki að vera með lukkudýr nema að öryggisgæslan sé af dýrari taginu.

7. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Grótta 0:0
- Steindautt. Ég hefði alveg eins getað hent þúsundkalli í ruslið og setið heima á rúminu og horft á fataskápinn minn.

11. júní Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Afríka 8:1
- Við kíktum í sveitina yfir hvítasunnuna og það var ekki hægt annað en að skella sér á völlinn. Lítið um þetta að segja þegar maður skilur ekki alveg hvernig þetta gestalið getur haldið úti liði í þessari deild ár eftir ár. Grundfirðingar með fullt hús stiga eftir 4 leiki.

16. júní ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Leiknir 3:2
- Maður lætur sig ekki vanta í svona alvöru derby leiki. Ég fór með Ísak Mána og Loga Snæ og fyrir tilviljun fékk Logi að fylgja leikmönnunum inn á völlinn. Þetta er nú ekki gert nema endrum og eins og jafnan 6. flokks guttar en það var hægt að bæta fleirum við og Logi fékk að fljóta með. Í nýju ÍR búningunum með nr 8 á bakinu, leiddi reyndar Leiknismann en það var nú allt í lagi. Villi og Rúnar komu hjólandi úr efra en sátu gestamegin, Leiknir-for-life og allt það. Leikurinn sjálfur var stórfurðulegur, heimamenn voru alveg á hælunum til að byrja með en náðu að setja tvo mörk í seinni hluta fyrri hálfleiks og leiddu með þeirri forystu í hálfleik. Beint rautt spjald á gestina þegar tæpur hálftími lifði leiks hefði nú átt að gera gæfumuninn en ekki fyrir strákana úr neðra Breiðholtinu sem leiðist ekki að gera hlutina spennandi. Leiknir minnkaði muninn korteri fyrir leikslok og allt upp í loft. Það var ekki fyrr en á 86. mínútu að ÍR skoraði þriðja markið og aftur leið manni vel. Víti á 90. mínútu fyrir gestina gerði það hins vegar að verkum að aftur myndaðist hnútur og uppbótartíminn var óskaplega lengi að líða.
Með þessum sigri var ég búinn að vera vitni af fleiri sigrum minna liða heldur en allt sumarið í fyrra.

24. júní Kópavogsvöllur 1. deild karla
HK - ÍR 1:1
- Fengum slatta af ættingjum í síðbúið síðdegiskaffi eða kvöldmat í fyrra fallinu svona til að heiðra afmælisbarn morgundagsins. Að því loknu fórum við Ísak Máni og Logi Snær á völlinn. Óttarlega þunnt eitthvað, okkar menn voru yfir 0:1 í hálfleik en duttu svo í þann pytt að ætla að halda fengnum hlut. 7 mínútum fyrir leikslok jöfnuðu heimamenn og náðu þar með að tvöfalda stigafjölda sinn á botni deildarinnar. Sonur dömunnar á símanum niðri í vinnu var í vinstri bak hjá heimamönnum.

9. júlí Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Berserkir 3:2
- Strákahluti stórfjölskyldunnar tóku skottúr í Grundarfjörðinn án þess að láta nokkurn mann vita en heyrst hafði að grillveisla yrði um kvöldið í Smiðjustígnum þannig að við buðum okkur sjálfir í það á meðan Sigga fór með foreldrum sínum að gróðursetja í Baulumýri. Við Villi kíktum á völlinn með Ísak, Loga, Daða og Rúnar. Ókeypis inn en búið að setja upp rándýra sjoppu þar sem kaffibollinn kostaði helmingi meira en á fyrstudeildarvöllunum í Breiðholti en það var allt í lagi því menn fengu sannarlega eitthvað fyrir peninginn. Gestirnir sanngjarnt 0:2 yfir í hálfleik og heimamenn stálheppnir að fara ekki einum færri inn í síðari hálfleikinn. En svo fór að færast fjör í þetta. Á 10. mínúta kafli í upphafi síðari hálfleiks, frá 57. - 67. mínútu fengu þrír gestanna að kenna á rauða spjaldinu og hlutfall rauðra treyja vs. blárra var orðið helskakkt. Heimamenn minnkuðu muninn á 60. mínútu og náðu að jafna 12 mínútum fyrir leikslok. Gestirnir voru farnir að spila leikkerfið 5-3-0 sem skiljanlega var hálferfitt gegn fullskipuðum Grundfirðingum. En það var ekk fyrr en á lokamínútum leiksins að sigurmark heimamanna kom og allt ætlaði um koll að keyra, miðvörður liðsins með öll þrjú mörkin. Þegar lokaflautið kom þótti svo ekki annað hægt enn að senda nokkra fílelfda karlmenn í hlutverki öryggisvarða til að fylgja dómaratríóinu til búningsklefa. Geysilega mikilvæg þrjú stig í toppbaráttu C-riðils og draumurinn um úrslitakeppnina færðist nær.

12. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Víkingur Ólafsvík 1:0
- Við Ísak og Logi stungum af í fyrra fallinu úr matarboði í Mosó en misstum af fyrsta korterinu. Misstum samt ekki af neinu og restin af leiknum var ekkert til að setja á harða diskinn. Heimamenn skoruðu í lok fyrri hálfleiks og það dugði til.

16. júlí ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - BÍ/Bolungarvík 2:3
- Settur í smávesen því bæði hverfisklúbburinn og uppáhaldssveitaliðið mitt að spila í borginni á sama tíma. Tók hverfisklúbbinn framyfir, Ísak Máni var búinn að tilkynna sig sem boltastrák og auðveldara að fara með alla stóðina niður á ÍR heldur en eitthvert upp í Grafarvog. Sigga hafði ákveðið að fara með Guðrúnu systur sinni að rölta yfir fjallgarðinn á milli Grundó og Baulumýri þannig að ég var on-my-own.
ÍR voru ekki með í fyrri hálfleik og voru í raun stálheppnir að fara bara með 0:2 á bakinu í hálfleiksteið. Eitthvað öflugt var hinsvegar í teinu og staðan orðin 2:2 eftir 60 mínútur. En útlendingahersveitin frá Vestfjarðarkjálkanum hnoðaði inn sigurmarkinu einhverjum 12 mínútum fyrir leikslok og þar við sat. Menn eru ekkert að fara að gera meira en að hanga bara í deildinni með þessu áframhaldi. Frétti svo að sveitaliðið hafi unnið 0:1 en þar er blússandi sigling í gangi.

17. júlí KR völlur Pepsi-deild karla
KR - Valur 1:1
- Villi tók það upp að fara á þennan leik og við Ísak og Logi skelltum okkur með honum og Rúnari Atla. Frábært veður, 2.911 áhorfendur skráðir á svæðinu og ágætis stemming Valsmegin en leikurinn lítið fyrir augað. Hlutirnir fóru ekki að gerast fyrr en undir lokin. Valsmenn komu blöðrunni í sitt eigið net á 87. mínútu og ég sver að ég fékk óbragð í munninn. En sem betur fer kom jöfnunarmarkið á 90. mínútu og manni leið aðeins betur enda áttu gestirnir eitthvað skilið úr þessum leik. KR-ingar enn ósigraðir í toppsætinu en Valsarar í 2. sæti.

22. júlí Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Ísbjörninn 3:2
- Föstudagskvöld bæjarhátíðarinnar Á góðri stund. Toppliðið fékk botnliðið í heimsókn en það er víst ekki alltaf einfalt mál. 1:0 í hálfleik í hálfgerðum leiðindum en gestirnir jöfnuðu fljótlega í síðari hálfleik og komust í 1:2 þegar þeir fengu vítaspyrnu. Allt stefndi í algjöran skandall en á einhvern ótrúlegan hátt náðu heimamenn að snúa tapi í sigur á lokamínútunum þar sem sigurmarkið kom eftir hornspyrnu og reyndist vera síðasta spyrna leiksins, ótrúlegur andskoti. Enn og aftur var það leikmaður ársins á síðasta tímabili, Aron Baldursson, sem kom Grundó til bjargar og miðvörðurinn er með markahæstu mönnum riðilsins þegar hér er komið við sögu. Alvöru umgjörð í sveitinni, sushi selt í sjoppunni og árituð liðstreyja seld á uppboði í hálfleik, 30.000 kall takk fyrir.

27. júlí Ásvellir 1. deild karla
Haukar - ÍR 3:2
- Við Ísak Máni kíktum á þetta. Okkar menn stálheppnir að vera með 1:1 stöðu í hálfleik en í stöðunni 2:2 var maður farinn að gæla við að menn fengju eitthvað út úr þessu en það hafðist ekki. Heilt yfir hálfdapurt, saga sumarsins, og ekkert nema kjallarabarátta framundan. Síðasta kvöld Villa og co á landinu fyrir brottförina til Malaví og hann og Rúnar Atli fóru á Leiknisvöll og sáu sína menn kjöldraga Þrótt, 5:1. Þriðji sigurleikur Efra-Breiðholtsins í röð eftir sigurlaust sumar og sá fyrsti á heimavelli þannig að þeir feðgar fengu fína kveðjugjöf frá klúbbnum. Nú munar aðeins einu stigi á Breiðholtsklúbbunum þarna við botninn þannig að þetta verður eitthvað.

28. júlí Leiknisvöllur (gervigras) 3. deild karla
Afríka - Grundarfjörður 0:2
- Við Ísak Máni tókum leik annan daginn í röð. Frekar tíðindalítið, 0:0 í hálfleik en undir lok fyrri hálfleiksins fékk liðsmaður Afríku beint rautt spjald. Tommi í hóp og lét mig taka myndavélavaktina í síðari hálfleik, svona aðallega ef hann kæmi inná held ég. Tvö mörk í upphafi síðari hálfleiksins og gestirnir sigldu þessu heim. Tommi fékk nokkrar mínútur og ég klíndi mér upp við kantinn hans og skaut nokkrar af kappanum.

11. ágúst Gróttuvöllur 1. deild karla
Grótta - ÍR 4:1
- Þar sem vængmaðurinn minn í þessu fótboltaleikjabrölti var farinn í sleep-over partí og Logi Snær vildi ekki fara þá þýddi ekkert annað en taka sólóið á þetta. Staðan orðin 1:0 þegar ég kom á 3ju mínútu en gestirnir náðu að jafna mjög fljótlega. Ekki dugði það það til neins því staðan var orðin 3:1 eftir 23 mínútur. Eitt í síðari hálfleik og andleysið og stemmingsleysið var algjört hjá mínum mönnum. Til að strá salti í sárin var sami leikmaðurinn sem gerði öll mörk Gróttu uppalinn ÍR-ingur og hafði farið til Gróttu síðasta vetur til að fá meiri spilatíma. Þetta er víst það sem krakkarnir kalla "FACE". Eina ástæðan fyrir því að við lentum ekki í fallsæti eftir kvöldið var bara sú að Leiknir fékk á sig tvö mörk á lokamínútunum í sínum leik og tapaði með einu. Mér líst ekkert á þetta, 3ji tapleikurinn í röð, fjögur stig í seinustu átta leikjum og erfitt prógramm framundan. Lenny Kravitz söng It aint over til it´s over í útvarpinu á leiðinni heim. Ég trúi ekki að menn ætli að fara aftur niður í 2. deild en þetta er ekki búið fyrr en það er búið.

13. ágúst Bessastaðavöllur 3. deild karla
Álftanes - Grundarfjörður 0:2
- Toppslagur í C-riðli í næstsíðustu umferð og það var ekki hægt að sleppa þessu. Logi Snær fékk að fara í heimsókn til Óðins Arnar á Álftanesinu en restin af fjölskyldunni skelltum okkur á völlinn í flottu veðri, svolítið rok reyndar. Ekki stórkostlegasti knattspyrnuleikur sem maður hefur farið á en úrslitin þvílík sæt. Eitt mark í hvorum hálfleik, seinna alveg í blálokin en maður leiksins markvörður Grundfirðinga með þvílíkan leik að unun var að horfa. Tommi var á sjúkrabílavaktinni og því fastur í sveitinni. Ég var með myndavél fyrir karlinn og á sms-inu til hans á meðan hann nagðaði handarbakið á sér og bruddi sprengjutöflur. Uppáhaldssveitaliðið komið í úrslitakeppnina, hver hefði trúað því fyrir tímabilið?

16. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - ÍA 1:1
- Skagamenn töpuðu fyrsta leik sínum á sumrinu í leiknum á undan og þurftu stig í Breiðholtinu til að vera búnir að tryggja sig upp í efstu deild. Stúkan var heiðgul þetta kvöld og ég þurfti að gera mér að góðu að standa fyrir aftan, það sem er venjulega, gestahluta stúkunnar. Reyndar voru mínir menn bara ágætir, 1:0 yfir í hálfleik og markmaðurinn búinn að verja vítaspyrnu. Þeir gulu náðu að jafna fljótlega í þeim seinni og þannig endaði þetta. Skagamenn fögnuðu í stúkunni en ég dreif mig bara heim. Spurning hvenær ÍR-ÍA spila næst í sömu deild? Við tökum þetta stig alveg fegins hendi, baráttan um Breiðholtið framundan á föstudag og vægið enn meira þar sem það er botnbaráttuslagur af dýrari gerðinni.

19. ágúst Leiknisvöllur 1. deild karla
Leiknir - ÍR 1:2
- Tvöfalt vægi á þessum leik því ekki var þetta bara baráttan um Breiðholtið heldur nú voru þessi bæði lið í bullandi botnbaráttu. Það fór um mig smáhrollur þegar við Ísak Máni mættum, minnugur tapsins hérna í fyrra og þá ónotatilfinningu sem því fylgdi. Stemmingin var betri ÍR-megin, andstætt leiknum frá árinu áður og allt gekk þetta betur. 0:2 yfir í hálfleik og allt leit mjög vel út. Heldur duttu menn niður í síðari hálfleik, heimamenn minnkuðu muninn og gerðu það að verkum að það hélst góður hnútur í maganum það sem eftir lifði leiks. En það hafðist og í stað þess að Leiknir jafnaði ÍR að stigum þá skildi 6 stig liðin eftir kvöldið og menn fengu smá andrými.

25. ágúst ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - HK 0:3
- Leikur sem gat gulltryggt áframhaldandi sæti í 1. deild að ári hjá mínum mönnum. Það virtist ekki vera nóg til að hvetja menn og sigur botnliðsins staðreynd.

30. ágúst Grundarfjarðarvöllur 3. deild karla
Grundarfjörður - Magni 1:1
- Seinni leikurinn í 8-liða úrslitum 3ju deildar. Spilaður á þriðjudegi kl 17:30 og úr varð eitt svaðalegasta ævintýri sumarsins. Nánar um það ef þið smellið -HÉR-

1. september Valbjarnarvöllur 1. deild karla
Þróttur - ÍR 1:3
- Var í einhverju vinnustússi en ákvað að kíkja á seinni hálfleik svona á leiðinni heim. Var mættur í hálfleik í stöðunni 1:1. Tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks kláraði þetta fyrir mína menn og menn nánast búnir að tryggja sæti sitt í deildinni, ekki alveg þó.

10. september ÍR völlur 1. deild karla
ÍR - Selfoss 1:3
- Síðasti heimaleikurinn í sumar og síðasti ÍR leikurinn hjá mér, sá ekki fram á að taka síðasta leikinn í Ólafsvík helgina eftir. Ísak Máni í bíó í Smáralindinni en kom beint á völlinn fyrir leik en ég tók Daða Stein með mér. Öll mörkin í fyrri hálfleik og í annað skiptið í sumar fögnuðu gestir sæti í efstu deild eftir leik á ÍR velli. Önnur úrslit þýddu að ÍR var endanlega sloppið við fall.


Niðurstaða sumarsins er þessi: 25 leikir (24 árið 2010 - 17 árið 2009) en af þeim voru 12 sigurleikir hjá mínum liðum (4 - 8), 5 jafntefli (8 - 2) og 8 töp (12 - 7). Náði 14 leikjum hjá ÍR í deildinni (13 - 12) og 1 í bikarnum (1 - 0).
Það voru einhverjir leikir sérstaklega þarna í lokin hjá Val sem ég hafði tekið stefnuna á en duttu uppfyrir. Síðasti leikur þeirra var heima á móti KR, síðasti leikur Sigurbjarnar Hreiðarssonar í Valstreyju, og maður hefur reynt að kíkja á a.m.k. einn leik á Hlíðarenda þótt það hafi ekki alltaf tekist og ekki tókst það í ár. Sem betur fer voru KR-ingar búnir að tryggja sér titilinn í leiknum á undan þannig að ekki þurfti dollan að fara svört-hvít á loft á Hlíðarenda á 100 ára afmæli Vals. Tvöfalt KR ár á afmælinu hjá Val en til upprifjunar má minna á það að á 100 ára afmæli KR þá féll Valur í fyrsta skipti í sögunni...
Jæja, sigurhlutfallið var bara nokkuð gott þetta sumarið, uppáhaldssveitaliðið átti nú sinn skerf af því og talsvert skemmtilegra að fylgjast með þeim frá því í fyrra. Held að við látum þetta duga í liðnum Dagbók fótboltabullunnar, höfum þetta bara sem þríleik.

sunnudagur, október 02, 2011

Íslandsmótið hið fyrsta

ÍR-ingar tóku sig til og héldu Íslandsmót í Stinger í gær. Hið fyrsta sinnar tegundar héldu þeir fram og ég hef ekkert undir höndum sem hrekur það. Án þess að ætla að fara djúpt í framgang leiksins þá er stinger körfuboltaskotleikur þar sem spilað er þangað til aðeins einn maður stendur eftir. Við Ísak og Logi mættum í Seljaskólann til að verða vitni af þessu en það fór nú þannig að Ísak Máni tók þátt í þessu fyrsta Íslandsmóti en mótið var öllum opið en Logi Snær var ekki alveg nógu kröftugur í þetta, þrátt fyrir að vera ágætlega öflugur í körfunni. Að kasta fullvaxta körfubolta í körfuna frá 3ja stiga línunni var fullmikið af því góða fyrir hann, hæfileiki sem var nauðsynlegur ef menn ætluðu að taka þátt. Ég ákvað að láta ekki reyna á mína hæfileika í þessum fræðum og sat frekar upp í stúku á meðan á þessu stóð.
Ísak Máni hékk nú eitthvað inni í þessu en varð að játa sig sigraðan á einhverjum tímapunkti þegar á keppnina var liðið. Ég tek nú ofan fyrir mönnum að hafa látið sér detta það í hug í fyrsta lagi að halda svona mót og svo að hafa hrundið þessu í framkvæmd. En það vantaði óneitanlega einhver alvöru fallbyssunöfn úr íslenska körfuboltanum, gömul og ný. Þarna voru nokkrir meistaraflokksmenn hjá ÍR en þær 2-3 þriggjastigaskyttur, aðallega frá Suðurnesjunum, sem maður var búinn að heyra að myndu mæta létu ekki sjá sig.
Kannski verður þetta meira á næsta ári, Ísak Máni ætlar a.m.k. að mæta og kannski verður Logi Snær farinn að drífa.

mánudagur, september 26, 2011

Réttarlaus

Sigga fór í sveitina um helgina sem var að líða. Réttarhelgi. Við höfum nú yfirleitt fylgt með í gegnum tíðina eins og ég held að ég hafi komið inn á hér á þessum vettvangi. En kella fór ein í þetta sinnið, hafði þar aðallega leiðinleg veðurspá mest að segja en rigning og rok hefur aldrei kallað neitt sérstaklega á mig fyrir þetta tilefni. Ég get alveg nagað strá, andað að mér sveitalofti og virt fyrir mér rollur í bunkum en þá verður að vera þolanlegt veður, það er bara þannig. Held reyndar að veðrið hafi svo verið skárra en upphaflega stefndi í. Það er alltaf næsta ár, Daði Steinn verður kannski orðinn aðeins meiri maður í rolluglímu.
Við strákarnir reyndum bara að taka slökun á þetta í höfuðborginni. Ísak Máni var reyndar að keppa í skólamóti í fótbolta í Egilshöllinni á laugardeginum, hinu árlega 7. bekkjarmóti. Svo var bara Megavika og Yoyo ís.

Búinn að spýta

Ljóta ruglið.

Tannsaferðin í dag gekk nú reyndar þokkalega en ég fékk staðfestingu á því sem ég vissi. Nú verður maður að fara að klára að láta rífa úr sér þessa endajaxla.

Fjárinn sjálfur.

Ekki nóg með að framkvæmdin sjálf verði örugglega hell, tómir blóðpeningar í ofanálag og svo verður maður örugglega þrefaldur í framan í góðan tíma á eftir.

Díses kræst.

Fleiri, fleiri ár síðan maður ætlaði að klára þennan pakka. En dómur læknisins var að annað hvort fara menn í það að gera eitthvað við þetta eða rífa þetta úr.

Skrambinn.

sunnudagur, september 25, 2011

Tímabil tvö í 30+ boltanum

Varla vottur af stemmingu frá minni hendi, mætti ekki á eina einustu æfingu og bara í þá leiki sem ég gat ekki logið mig úr. Svipaður kjarni og í fyrra, nokkrir gamlir Vatnsberar en þetta fer að verða spurning um að hætta þessu bara. Missti af fjórum leikjum, einum sigri og þremur tapleikjum. 8. sæti í 10 liða deild, unnum bæði liðin fyrir neðan okkur en töpuðum rest.

5 leikir: 1-0-4

27. júní Þróttaravöllur
Þróttur - Fylkir 6:4

18. ágúst Fylkisvöllur
Fylkir - FH 2:6

31. ágúst Fylkisvöllur
Fylkir - Reynir S 9:2

13. september Fylkisvöllur
Fylkir - Afturelding 1:7

21. september Þróttarvöllur
Þróttur 2 - Fylkir 5:1

Heildarferillinn:
14 leikir: 4-0-10

laugardagur, september 17, 2011

„og svo spýta“

10 dagar í það að ég verði búinn að uppfylla eitt af áramótaheitum síðustu tveggja ára. Heiti sem hefur hingað til gengið illa að uppfylla.

Get ekki sagt að ég hlakki til.

fimmtudagur, september 15, 2011

Drukkið í miðbænum

Haustbragur yfir flestu þessa daga finnst mér. Tréin í garðinum eru orðin haustlituð, nettur hrollur í manni á morgnana og sá yngsti fer í sokkabuxum í leikskólann. Skil samt ekki hvað maður er að væla, ekki enn þurft að skafa bílinn eða vaða slabb.
Ekki að haustið sé eitthvað alsæmt en þá var sumarið var fínt.

fimmtudagur, september 01, 2011

Ekkert grillaður

September genginn í garð og þá finnst manni alltaf eins og sumarið sé formlega búið þótt sambærileg stemming komi líka alltaf þarna seinnipartinn í ágúst þegar skólarnir byrja og sú rútína hefst.
Þetta sumar fer þó í sögubækurnar sem sumarið sem við áttum ekkert grill. Gamli garmurinn hafði farið niður í geymslu þegar svalirnar voru teknar í gegn í utanhússframkvæmdunum hérna á blokkinni og ég var búinn að heita því að sá haugur færi ekki á "nýju" svalirnar. Svo tók ég mig til undir lok síðasta veturs, þegar ég var orðinn hundleiður á að hafa það niðri í geymslu, og henti því á haugana. Alltaf var ég svo á leiðinni að kaupa mér nýtt grill en kom því, af einhverjum ástæðum, aldrei í verk. Saknaði þess minna en ég hefði haldið en menn hljóta að girða sig í brók fyrir næsta sumar. Eða hvað?

miðvikudagur, ágúst 31, 2011

Ekki öll skemmtilega vitleysan eins

Stundum fær maður fjarstæðukenndar hugmyndir en er samt það klikkaður að oft þarf lítið til að ýta þeim í framkvæmd. Meistaraflokkur Grundarfjarðar komst í 8-liða úrslit í 3ju deildinni í fótbolta og lentu þar gegn Magna frá Grenivík. Fyrri leikurinn fór fram á Grenivík um helgina, þegar ég var á Egilsstöðum, og náðu Magnamenn að knýja fram 1:0 sigur í uppbótartíma. Seinni leikurinn var svo í gær, kl. 17:30 á Grundarfjarðarvelli. Það eru nú ekki á hverjum degi sem liðið hefur leikið svona alvöru úrslitaleiki, enda bara á öðru ári eftir endurvakningu. Hvað um það, mig drullulangaði til að fara en leiktíminn ekkert sérstakur verður að segjast. Maður fékk líka pepp af netinu:Eftir að hafa viðrað þessa hugmynd við Ísak Mána og hann var meira en klár í að taka skottúr til Grundó í miðri viku þá var eiginlega ekki aftur snúið. Hálfum sumarfrísdegi fórnað í verkið og Logi Snær einnig spurður hvort hann myndi vilja koma með. Venjulega segist hann vera klár en bakkar svo út úr hlutunum þegar á hólminn er komið, a.m.k. hvað svona vitleysu varðar. Enda eru menn jú bara 7 ára gamlir. Hann sagðist vera klár og þegar á hólminn var komið þá bakkaði hann ekki og var því ekkert annað en að taka hann með. Eftir að skólinn var búinn hjá þeim bræðrum þá var bara gripin með sér ein væn hrúga af utanyfirfötum og haldið af stað. Mig minnti að spáin gæfi til kynna að það gæti verið einhver smá bleyta en þó ekkert til að æsa sig yfir. Eitthvað var það byggt á misskilningi.

Þegar við nálguðumst fjörðinn fagra þá var bara þokudrulla yfir öllu og rúðuþurrkurnar á bílnum í fullri vinnu. Mömmu leist ekkert á þetta brölt allt saman þegar við mættum á Smiðjustíginn og það voru farnar að renna á mig tvær grímur 20 mínútum fyrir leik og veðrið úti ekkert spes skulum við segja. Hitastigið var reyndar fínt, einhverjar 14-15 gráður en annað var ekki eins gott. Drengirnir voru með utanyfirföt, hlífðarbuxur o.þ.h. en ég með minna. Tók ég á það ráð að hendast inn í bílskúr og dró þar fram forláta Kraft-galla af Varða sem ég smellti mér einfaldlega í. Þannig þokkalega græjaðir fórum við gangandi út á völl enda völlurinn í göngufæri.

Allt var þokkalegt til að byrja með en Logi Snær gafst upp líklega um miðjan fyrri hálfleik og tilkynnti mér, þegar hann var búinn að fá nammi og kók, að hann vildi fara til ömmu sinnar sem hann fékk að gera. Áfram létum við Ísak Máni okkur hafa þetta og stóðum þarna hálfflissandi að vitleysunni í okkur í hálfleik þar sem rigningin sem kom með hliðarvindinum barði á okkur, heimamenn 0:1 undir, báðir orðnir hundblautir til fótanna og eitthvað að vatni farið að finna sér leiðir í gegnum utanyfirfötin. Heimamenn hresstust þó í síðari hálfleik og náðu að jafna leikinn en það vantaði herslumuninn til að setja þessi tvö mörk sem þurfti til að komast áfram í undanúrslitin.

Eftir leik skriðum við heim og það var ekkert annað í boði en að rífa af sér fötin inní bílskúr. Logi Snær var í góðu yfirlæti en við Ísak Máni í aðeins verri málum. Það var bara hent í sig smánæringu og síðan þurftu menn að koma sér í eitthvað svo hægt væri að bruna aftur í bæinn. Öllu blauta draslinu var troðið í poka og ég var með gamla gervigrasskó staðsetta á Smiðjustígnum sem ég gat farið í, sokkalaus reyndar, í hálfrökum gallabuxum og flíspeysan bjargaði mér frá því að þurfa að vera á kassanum. Svona útbúinn keyrði maður aftur heim en það gekk samt rosavel, drengirnir lásu bara Syrpurnar sínar og við vorum mættir heim kl rúmlega 22. Allir frekar krumpaðir í morgun en ég get hlegið að þessu núna.

Maður lifir bara einu sinni, um að gera að nota þann tíma sem maður hefur í eitthvað sniðugt.

mánudagur, ágúst 29, 2011

Annað árið í röð var dollan í sjónmáli

Við Ísak Máni lögðum land undir fót ef svo er hægt að segja og skruppum til Egilsstaða um helgina. Úrslitariðill 5. flokks ÍR, Þórs, FH og Hattar í Íslandsmótinu var spilaður þar. Flugum á laugardagsmorgni, spilaðir tveir leikir þann daginn og einn leikur á sunnudegi áður en flogið var aftur heim. Ég hafði aldrei komið til Egilsstaða áður og get ekki sagt að ég hafi séð mikið af bænum. Þetta er væntanlega eitthvað svipað og þegar stóru fótboltahetjurnar úti í heimi sem hafa komið til margra landa en sjá eiginlega ekkert nema hótelherbergi og fótboltavelli. Við gistum í Fellabæ, Fellaskóla nánar tiltekið og vorum með Fellavöll á sama blettinum. Einu skiptin sem við fórum inn í bæinn var þegar okkur var skutlað í sund og svo þegar við keyptum okkur ís í Bónus.

Þrír úrslitariðlar í gangi og efstu liðin komust í undanúrslit, ásamt því liði með bestan árangur af liðunum þremur í öðru sæti. Þór í fyrsta leik en norðanmenn eru sterkir í þessum flokki. Það dugði þeim ekki því ÍR sigraði 2:1 með mikilli baráttu og hjálp lukkudísanna. FH voru næstir en svo skemmtilega vill til að þjálfari þeirra, Árni Freyr, er einn af betri mönnum meistaraflokks ÍR. FH hafði 2:1 sigur og efsta sætið að renna mönnum úr greipum. Sigur Hafnfirðinganna var þó sanngjarn ef menn eiga að vera alveg heiðarlegir. Það var því ekkert annað en sigur á móti heimamönnum í Hetti sem kom til greina ef menn ætluðu sér annað sætið og smá líkur á sæti í undanúrslitum. Öruggur 5:0 sigur hafðist þar og Ísak Máni tók sig til og setti tvö mörk, með mínútu millibili. Fyrstu mörkin hjá honum í sumar og gaman hjá honum að klára 5. flokks ferillinn og þar með hinn eiginlega 7-manna pakka á að skora tvö mörk í lokaleiknum. Ekki nóg með það heldur var honum hent inná síðustu mínúturnar í framlínuna, sem hefur ekki gerst síðan ég veit ekki hvenær. Ég sagði síðasti leikurinn því það fór svo að öll liðin í öðru sæti í öllum riðlunum þremur fengu sex stig og þar sem ekki er notast við markatölu þurftu forvígismenn KSÍ einfaldlega að draga hvort það væri ÍR, Valur eða Haukar sem fengu síðasta sætið í undanúrslitum. Það var gert í dag og það voru Valsarar sem duttu í lukkupottinn.

Í heild skemmtileg ferð og heimamenn fá mikinn plús fyrir að hafa hugsað vel um gestina sína og vildu allt fyrir okkur gera. Boltanum að ljúka þetta sumarið en þá koma víst ný verkefni í staðinn.

föstudagur, ágúst 26, 2011

Að kasta perlum fyrir svín

Karlinn steig aðeins út fyrir þekkingarkassann í vikunni og fór í laxveiði í fyrsta sinn. Eitthvað vinnudæmi sem kom upp og ekki annað en að láta sjá sig í það. Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og farið í Norðurá í Borgarfirðinum. Ég þurfti að leita til nokkra reynslubolta með hvernig best væri að snúa sér í þessu og einn þeirra fór í það að lána karlinum græjur enda algjörlega tómur kofi heima hjá mér hvað þetta varðar. Hnussaði nú flestum þessum boltum og létu í það skína að þetta væri nú hálfgerð sóun á árbakkaplássi að skella svona grænjaxli eins og mér þangað. Ég hef nú líks ekki verið þekktur á þessu sviði, einhvern tímann dorgaði maður í Grundarfjarðarhöfn og fór nokkrum sinnum að veiða í einhverjum sprænum þarna í sveitinni, varla samt hægt að kalla það veiði. Ég hef líka haft mínar efasemdir um þetta, standandi út í læk í fleiri tíma með einhverja stöng, var ekki alveg að sjá pointið við þetta.

Þetta reyndist nú, þegar á hólminn var komið, alveg fínt. Bara svo við höfum það strax upp á borði þá veiddi ég ekki neitt enda heilt yfir frekar dauft í þeim efnum í ánni um þessar stundir. Í þessum 20 manna hóp veiddust 4 fiskar seinnipart miðvikudagsins og heilir 3 fyrripart fimmtudags þannig að tölfræðin var nú ekki með mér. Við vorum nú með einhvern guide sem leiddi okkur í gegnum þetta, sá sem var með mér á stöng var ekki mikið reyndari en ég en eitthvað þó. Þetta var nú samt ekki nóg til að ég sé kominn með einhverja bakteríu á háu stigi, maður þyrfti að vera aðeins öflugari í að kasta flugunni og þessháttar. Veit að ég fékk ekki mikið fyrir stíl í þeim efnum, þetta var meira svona stílbrot. Maður skynjaði þó kick-ið á þeim stundum þegar maður hélt að eitthvað væri búið að bíta á agnið, og að því leyti skil ég þetta alveg. Mér fannst svo ótrúlegt hvað tíminn flaug áfram í þessu öllu sem hlýtur að þýða að maður hafi nú ekki verið að drepast úr leiðindum.

Þegar ég kom heim þá var Logi Snær ekki heima, hafði skotist með afa sínum og ömmu í Reynisvatn. Og hann, annað en ég, hafði eitthvað til að sýna við heimkomuna.

fimmtudagur, ágúst 25, 2011

Unglingurinn - Fyrsti hluti að hefjast í alveg hreint mögnuðum þríleik

„Pabbi, ég á svo lítið af buxum. Ég er að spá í einar sem ég ætla að skoða aðeins betur.“
Þögn.
„En þær kosta reyndar 18.000 kr.“

Pabbinn reynir að halda kúlinu og spyr í gamansömum tón: „18.000 kr, það hlýtur þá að vera gott í þeim.“ En í raun var karlinn nánast að falla í yfirlið.

Fyrsti parturinn af þremur, ég festi bara beltin og reyni að skauta í gegnum þetta.

sunnudagur, ágúst 21, 2011

Menningarhelgin

Hér er búið að vera hið þokkalegasta prógramm um helgina. Sigga tók þátt í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu og tókst áætlunarverkið sem var að vera undir 60 mínútumarkinu, 56:42 min svona til að hafa þetta nákvæmt. Ég tók Loga Snæ og Daða Stein með mér niður í bæ og við sáum kellu taka síðustu metrana. Það er eins og mig minni að ég hafi einhvern tímann farið 10 km í einhverju skólahlaupi í Grundarfirði hérna í den og sama minning er líka sú að það hafi verið drulluerfitt. Að öðru leyti hef ég ekki komið nálægt svona skipulögðum viðburðum en einhverntímann var ég nú að hugsa um að taka þátt í þessu Reykjavíkurmaraþoni en ekki hefur það enn komist lengra en að vera bara hugmynd. Röltum aðeins í gegnum bæinn að hlaupi loknu, enda ekki hægt að fá bílastæði þarna alveg við markið. Flott veður og fín stemming.

Ísak Máni gat ekki komið með því hann var bæði á laugardaginn og sunnudaginn í úrvalsbúðum KKÍ, seinni helgin þetta sumarið en þetta er annað árið í röð sem hann fékk boð um að taka þátt í þessu. Styttist í að körfuboltatímabilið hefjist og menn ætla sér mikla hluti, það er vonandi að það verði gleði í vetur hvað það varðar. Annars fékk hann þau góðu tíðindi að hann komst í B-liðs hópinn fyrir úrslitakeppninna hjá 5. flokk í fótboltanum, nokkuð sem ég talaði um hérna fyrir nokkrum pistlum að væri alls ekki víst. Strákurinn var mjög sáttur en þessi úrslit verða um næsta helgi. Á Egilsstöðum...

Ég fór svo með Loga Snæ og Ísak Mána um kvöldið niður í bæ, kíktum á einhverja tónleika og tókum svo þessa margumtöluðu tendrun Hörpunnar eða hvað sem þetta var kallað og svo líka flugeldasýninguna. Skriðum heim um rúmlega miðnætti, alveg ágætlega sáttir með þetta allt saman.

Ekki fór sunnudagsmorgunninn í mikla Joe Boxer náttbuxnanánd því Logi Snær var að keppa á Bónusmóti Fylkis í Árbænum, mæting þar 08:40. Mamman tók að sér að vera mætt með drenginn á réttum tíma, við Daði Steinn létum okkur nægja að mæta rétt fyrir fyrsta leik sem var 09:30. Ísak Máni var á fyrrnefndum úrvalsbúðum. Það gekk hálferfiðlega fyrir veðurguðina að ákveða hvernig þær ætluðu að hafa þetta og eftir að hafa verið að mestu leyti í sól tók þeir rigninguna á þetta þannig að við Daði Steinn beiluðum á síðasta leiknum. Úrslitin frekar niðurdrepandi enda voru þeir að spila við ári eldri drengi en sem fyrr var Logi Snær ekkert að velta því mikið fyrir sér.

Ég er ekki enn búinn að endurnýja áskriftina á Stöð2 Sport2, þ.e. enska boltanum. Get ekki sagt að ég sé hreinlega mikið að taka eftir því.

Valur - Ármann

Skólinn hjá drengjunum að hefjast eftir helgi og þá fer síðasti hluti vetrarrútínunar af stað. Tala nú ekki um fyrst að fyrirhuguðu leikskólaverkfalli var svo afstýrt en það hefði klárlega haft eitthvað að segja varðandi rútínuna hjá þeim yngsta. Ísak Máni og Logi Snær hafa verið á námskeiðum í síðustu viku, ólíkum þó.
Ísak Máni átti að vera á körfuboltanámskeiði hjá ÍR en það var blásið af með einhverjum 12 tíma fyrirvara og því þurftu við að gúggla eitthvað körfuboltanámskeið á höfuðborgarsvæðinu á mettíma. Enduðum við á því að „treida“ honum yfir til Vals og sótti hann því körfuboltanámskeið á Hlíðarenda í vikunni, eins og hann reyndar gerði hérna um árið. Hann var mjög sáttur við það enda aðstaðan öll til fyrirmyndar og þjálfarateymið þar virðist vera að gera gott mót, það skemmdi ekki fyrir að yfirþjálfarinn mundi eftir honum frá því síðast.
Logi Snær fór hinsvegar í Laugardalinn í Ármann, á fimleikanámskeið. Það var allan daginn og skiptist þannig að fyrir hádegi var hann í fimleikum en eftir hádegið var Húsdýragarðurinn, sund, TBR-húsið eða eitthvað annað í þeim dúr. Hann var alveg að fíla þetta og ég held að lendingin verði sú að hann fari í fimleika í haust með fótboltanum ef dagskránnar smella allar saman og mamman sé opin fyrir því að skutla fram og tilbaka.
Það færi nú þá aldrei þannig að maður færi að hoppast og skoppast í kringum fimleikamót líka, svona í dauða tímanum. Alltaf gaman að setja eitthvað nýtt í reynslubankann en fimleikar voru aldrei inn í myndinni með Ísak Mána enda líkamlega aðeins önnur týpa en Logi Snær. Það væri nú líka ekkert gaman ef þeir væru allir eins.

laugardagur, ágúst 20, 2011

Setið á hakanum

Breiðholtið er blátt og hvítt - lalalalala

Stórslagur í Breiðholtinu í gær, Leiknir-ÍR, aka Baráttan um Breiðholt og menn láta nú ekki svoleiðis viðburð fram hjá sér fara. Leikurinn á sama stað í fyrra var enn í bakhöfðinu en þá töpuðum við og Leiknir var hársbreidd frá því að fara upp í efstu deild. Núna var raunveruleikinn annar, bæði lið í bullandi botnbaráttu og með sigri gat ÍR komið sér í þægilegri stöðu og nánast sent nágranna niður. Á móti myndi sigur Leiknis þýða að þessi „systrafélög“ sætu saman með jafnmörg stig og allt upp í loft. Ef ÍR-ingar hefðu átt í einhverjum vandræðum með að peppa sig upp fyrir leikinn þá hefði ein leið að vera fara inn á heimasíðu Leiknis og lesa pistilinn fyrir leik:

Þegar kvölda tekur koma ÍR ingar í heimsókn í miklum botnsslag í 1.deild karla. Leiknismenn mæta galvaskir til leiks gegn ÍR sem hefur átt mjög slöku gengi að fagna undanfarnar vikur og lent í ströglinu.Við aftur á mótum erum einnig búnir að tapa síðustu 3 leikjum og er sannlega þörf fyrir að snúa því gengi við í kvöld.

Leiknismenn verða án Eggerts Rafns Einarssonar sem er meiddur en aðrir leikmenn ættu að vera tiltækir í leiknum. Það er því nokkuð stærri hópur sem mætir í þennan leik en þann síðasta. Kristján Páll snýr til baka úr leikbanni og Brynjar Hlöðversson og Þorgeir Leó koma til baka úr veikindum.

Hjá ÍR eru að mér skilst flestir leikfærir en þeirra langbestu leikmenn Árni Freyr Guðnason sem hefur nú veitt okkur margar skráveifurnar um tíðina og markvörðurinn Róbert Örn verða báðir með.

Leikurinn í kvöld er vissulega mikilvægur uppá framhaldið. Með sigri okkar manna komumst við úr botnsæti en tapi liðið má segja að kraftaverk þurfi til að halda okkur í deild þeirra næstubestu. Sama hvernig fer þá er Leiknir og verður stolt Breiðholtsins. Meðan áhangendur ÍR virðast skjótast úr skúmaskotum þegar leikið er gegn Leikni mætir alltaf sami góði kjarninn af Leiknisfólki. Þegar ÍR ingar brýna raust sína tvívegis yfir árið og þá bara gegn Leikni, þá hvetjum við okkar menn í hverjum leik. Ef við sigrum í dag þá gleðjumst við en ef við töpum og jafnvel föllum í haust þá berjumst við saman að því að byggja áfram upp fallegt félag. Þess vegna mun enginn einn leikur breyta því sem allir vita að við erum um ókomna tíð, Leiknir stolt Breiðholts!


Hroki.is? Skiptir engu máli því þetta fór nú á besta veg, a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð. 0:2 í hálfleik og allt í góðum málum en Leiknir minnkaði muninn í síðari hálfleik sem hleypti fullmikilli spennu í þetta en ÍR náði að landa þessu.
Stemming í stúkunni og var hún meiri gestamegin heldur en hjá heimaliðinu, ólíkt árinu áður. Leiknir á enn tölfræðilega möguleika á að bjarga sér en virðast vera á leið niður í 2. deild eða eins og ein pillan sem flaug úr gestastúkunni í gær: „Leiknir er alveg að falla fyrir okkur...“ Ég væri nú svo sem alveg til í að sjá þessi grey uppi kannski á kostnað Gróttu því leikir þessara Breiðholtsliða eru alltaf extraspes, en ég missi engan svefn yfir þessu. Á meðan ÍR endar ekki í öðruhvoru fallsætinu þá er mér sléttsama.

þriðjudagur, ágúst 16, 2011

Bleyjukaupandinn

Ég byrjaði að kaupa bleyjur á því herrans ári 1999 og hef gert það hlélaust síðan. Auðvitað hafa kaupin verið misör á þessu tímabili en þetta gekk þannig til að byrja með að þegar nr. 1 var að hætta að sofa með bleyju þá mætti nr. 2 á svæðið og þegar hann var að hætta að sofa með svona græju þá mætti nr. 3 og áfram hélt maður að kaupa bleyjur.
Nr. 3 er hættur að nota bleyjur á daginn, hætti núna í sumar, og gengur það bara mjög vel. Svo fórum við að taka eftir því að bleyjurnar sem við settum á hann á kvöldin voru yfirleitt þurrar á morgnana. Það var því bara eitt að gera, prófa að láta hann sofa bleyjulausan og núna er hann búinn að sofa 4-5 nætur, slysalaus. Kannski er ég að storka örlögunum með því að birta þennan pistil.
Ég er ekki farinn að kæla kampavínið ennþá, vitandi það að bakslögin eru líkleg til að mæta á svæðið. En ég væri alveg til í að þetta myndi í framhaldinu ganga eins og í sögu. Lygasögu þess vegna.

mánudagur, ágúst 15, 2011

Uppáhaldssveitaliðið

Að elta hverfisklúbbinn minn í sumar hefur verið takmörkuð stemming en ég hef nú samt látið mig hafa það. Aðra sögu er hinsvegar að segja af meistaraflokki Grundarfjarðar í 3ju deildinni. Fjölskyldan skellti sér í bíltúr út á Álftanes á laugardaginn, til að sjá uppáhaldssveitaliðið spila fótbolta. Logi Snær fór í heimsókn til Óðins, gamla leikskólafélagans, sem flutti þarna út eftir fyrir þó nokkru. Restin af genginu horfði á Grundarfjörð sigra Álftnesinga 0:2 og tryggja sér þar með sæti í úrslitakeppninni í 3ju deildinni þrátt fyrir að ein umferð sé eftir. Tommi frændi fastur á sjúkrabílavaktinni í sveitinni og bruddi sprengitöflur á meðan ég sendi honum sms um gang leiksins. Ég tók að mér að vera með myndavélina á kantinum, bara gaman að því. Enn verður maður að hrósa þessu strákum sem halda utan um þetta, Tomma og co. Fyrsta árið eftir endurvakningu klúbbsins var ekkert sérstakur svona stigalega séð en þetta hefur smollið flott núna á ári tvö. Heyrst hefur að líklegastir mótherjar Grundarfjarðar á fyrsta stigi úrslitakeppninnar sé Magni frá Grenivík. Fjandinn sjálfur, hvað er maður lengi að keyra á Grenivík? Þetta er alvöru stemming.

sunnudagur, ágúst 14, 2011

Ísak Máni á Íslandsmóti

Það færist hér til bókar á ÍR vann Leikni 4:0 í B-riðli B-liða á Íslandsmótinu hjá 5. flokk karla á núna á föstudag. Ísak Máni er nú ekki mikið í því að skora mörk og ekki komu þau hjá honum núna en mikið langaði honum. Fékk tvö fín færi, sem gerist heldur ekki oft, en það hafðist ekki. Átti þó stoðsendingu í einu markinu og sendingu á þann sem gaf stoðsendinguna í tveimur (er þetta ekki einhver tölfræði sem menn í henni Ameríku halda utan um?). Strákurinn er því væntanlega að ljúka 7-manna boltaferlinum án þess að hafa tapað fyrir Leikni og það er ágætt fyrir sálartetrið, a.m.k. ef þú heldur með ÍR. Annars hefur Ísak Máni fengið smá smjörþef af B-liðinu en er venjulega í C-liðinu. Vitaskuld vilja menn vera í efri hluta goggunarraðarinnar og ég tala nú ekki um þegar B-liði er í toppbaráttu í sínum riðli á meðan C-liðið siglir lygnan sjó. Reyndar fór nú svo að hann var færður aftur í C-liðið í lokaleik riðlakeppninnar sem fór fram í dag á Hlíðarenda. B-liðið er komið í úrslitakeppnina á meðan C-liðið hefur lokið leik og það verður að teljst ólíklegt að hann nái inn í B-liðs hópinn. Hann hefði væntanlega alveg verið til í að spila í úrslitum núna eins og í fyrra. Kemur í ljós síðar.

sunnudagur, ágúst 07, 2011

2ja fótboltamótahelgin

Þá er helginni, sem við höfðum svona semi-andvarpað yfir, að ljúka. Semi-andvarpað aðallega vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því fyrir nokkru að eitthvað þyrftu menn að skipta liði. Logi Snær að keppa á Króksmótinu á Sauðárkróki en Ísak Máni á Olísmótinu á Selfossi. Fór það svo þannig að Sigga hélt á Krókinn, seinnipart föstudagsins með Loga Snæ, á meðan ég sá um Ísak Mána og Daða Stein. Gekk þetta ágætlega með Loga Snæ, úrslitin voru ekkert spes því aðeins einn sigur komst í hús á meðan rest tapaðist en Logi virðist ekki vera að velta sér upp úr því. Ekki að heyra annað en að hann hafi skemmt sér vel og mamman virðist hafa komið heil út úr þessu að mér sýnist, en þau voru að detta í hús. Engin bongóblíða þarna fyrir norðan en þurrt og það er nú oft fyrir öllu.

Olísmótið byrjaði hinsvegar á föstudeginum þannig að við Ísak Máni vorum mættir á Selfoss um hádegisbil. Spáin var ekkert sérstök fyrir þann daginn en árinu áður lentum við í einhverju því versta veðri sem ég hef upplifað á svona mótum og er búinn að fara á þau nokkur. Rifjum aðeins upp stemminguna í fyrra:Þetta var ekki alveg svona slæmt í ár en við fengum samt ágætlega hressilega rigningu á köflum þarna á degi eitt. Úrslitin voru ekki alveg að detta í hús hjá Ísaki og félögum, töpuðu fyrstu tveimur áður en sigur hafðist í síðasta leik. Eftir þennan dag röðuðust liðin í riðla og hið eiginlega mót fór svo fram á laugardegi og sunnudegi. Ég brunaði í bæinn þarna á föstudagskvöldinu og sótti Daða Stein upp í Bröttuhlíð þar sem hann hafði verið í pössun að leikskóladegi loknum. Hann kom svo með mér á laugardeginum, enda miklu skárra veður og ekki skemmdi árangurinn inn á vellinum fyrir, þrír sigrar í þremur leikjum. Svo var bara brunað heim um kvöldið og svo aftur til höfuðborg hnakkanna á sunnudeginum.


Á lokadeginum var þvílík blíða og gleði í gangi. Báðir leikir dagsins unnust og því efsta sætið í riðli 2 hjá C-liðum og dolla í hús. Guttinn stóð sig bara vel, lék sem fyrr mest í vörninni en fékk einnig nokkur tækifæri á kantinum. Ákveðnum kafla lokið hjá honum en þetta var hans síðasta mót í þessum hefðbundu gistimótaseríum sem einkenna 8.-5. flokk og gaman því að ljúka þeim kafla með bikar. Í haust verður það 4. flokkur sem tekur við og þá dettum við í hefðbundinn 11-mannabolta og annars konar mót. Það verður öðruvísi en vonandi líka gaman, öðruvísi gaman.


Aftari röð:
Viktor Snær, Hákon Örn, Ísak Máni, Tristan og Berti þjálfari.
Fremri röð: Kjartan, Haraldur og Viktor Ingi.
Fremstur: Pálmi.

miðvikudagur, ágúst 03, 2011

Daði Steinn leikskóladrengur

Daði Steinn byrjaði í leikskóla í dag, á Fálkaborg. Ísak Máni og Logi Snær voru báðir á Arnarborg en við ákváðum að prufa nýja stað með þann minnsta. Reyndar voru þessar stofnanir sameinaðar eða yfirstjórn þeirra a.m.k. þannig að það er hægt að segja að þetta sé sama tóbakið en í raun er það ekki. Sigga sér um aðlögunina í þetta skiptið, hún fær að leika sér með litlu börnunum fram á föstudag en frá og með mánudeginum er drengurinn á eigin vegum.

Endum þessa videóviku með broti af leikskóladrengnum um helgina, í boltaleik. Hvað annað?

þriðjudagur, ágúst 02, 2011

Listin að halda bolta á lofti

Ísak Máni er alltaf í boltanum eins og hefur margoft komið fram hérna á þessari síðu. Um daginn var sett upp ákveðið takmark fyrir strákana í fótboltanum, þ.e. hjá 5. flokknum, en snérist það um að halda bolta á lofti og telja hversu oft þeir geta haldið honum á lofti með öllum líkamanum nema höndum án þess að tuðran snerti jörðu. Í grófum dráttum er þetta sett upp þannig að þeir hafa tíma fram að lokahófi í haust til að ná ákveðnum fjölda í þessari iðju. Fyrir 50 skipti fá þeir brons, 100 skipti veitir þeim silfur og 150+ skipti er gull viðurkenning. Sönnunarbirgði drengjanna er talsverð í þessu, annað hvort verða þeir að framkvæma þennan fjölda fyrir framan þjálfarana eða leggja fram myndbandsupptöku af gjörningnum. Almenn vitni út í bæ teljast sem sagt ekki með og skiptir þá engu máli hvort þau eru blóðskyld eður ei, ung eða gömul, eða jafnvel með 5 háskólapróf.
Ég vissi ekki alveg hvað mér átti að finnast um þetta, vitandi það að þetta var nú ekki alveg sterkasta hliðin hjá frumburðinum en hann hafði víst náð rétt rúmum 30 skiptum fyrir þetta. En þá er víst ekkert annað að gera en að æfa sig og æfa sig svo aðeins meira. Þolinmæðin er ekki alltaf okkar sterkasta hlið og oft vilja menn að hlutirnir gerist strax.

En litlir sigrar hafa unnist og hann er búinn að vera nokkuð grimmur að gera eitthvað á hverjum degi og er yfirleitt að ná kringum 50 skiptum ef hann tekur sig til í smátíma. Stór sigur náðist um helgina í Baulumýri þegar 68 kvikindi náðust og svo heppilega vildi til að undirritaður var með vélina á lofti þannig að það er til skjalfest og bronsið því væntanlega í húsi.Drengurinn toppaði sig þó allrækilega í dag og náði 96 skiptum en reyndar bara í vitna viðurvist, þ.e. úti á velli með félögunum. Stefnan á silfrið er því freistandi en við verðum að sjá hvernig það tekst til. Ég smitaðist nú aðeins um helgina og tók smá skorpu í þessu. Í minningunni átti ég lengi vel 80 skipti sem náðust á blettinum í Sæbólinu áður en mér tókst að brjóta 100 skipta múrinn með 120 og eitthvað minnir mig en reyndar var ég ekki nógu duglegur í að æfa mig í þessu hérna í gamla daga. En um helgina náði ég 137 skiptum og það verður því að teljast persónulegt met á meðan ég man ekki meir.

Það náðist reyndar ekki á teip og ekki kjaftur til að staðfesta þá sögu.

mánudagur, ágúst 01, 2011

Verslunarmannahelgin 2011

Það stefndi nú ekki í mikla ferðamennsku þegar nær dró verslunarmannahelginni, rigningarspá um flest allt land og ég var ekki að sjá mig keyra til Egilsstaða eða eitthvað álíka til að komast í sól. Okkur stóð til boða að kíkja til Ingu og co í Úthlíð en það yrði nú aldrei nema dagstúr þannig að við tókum hinn kostinn, að fá bústaðinn í Baulumýri lánaðan. Þriðji kosturinn var vitaskuld að taka bara höfuðborgina á þetta en við ákváðum samt að taka sénsinn á sveitinni.
Pökkuðum nóg af pollafötum og engum stuttbuxum (nema sundfötum) og héldum af stað á laugardagsmorgni. Þegar í sveitina var komið var brostið á með þvílíkri blíðu. Laugardagurinn var því bara notaður í léttklætt pallachill og lækjasull, misgáfulegt þó eins og okkar er von.

Eins og hendi væri veifað skall svo á með rigningu um kvöldmatarleytið bara svona rétt til að bleyta upp í sveitinni því það hætti aftur mjög fljótlega, stóð yfir rétt áður en farið var að grilla. Sunnudagurinn fór í berjatínsluferð og almenna afslöppun, hlýtt veður en aðeins vindur með því.
Héldum heim á leið fyrir hádegið í dag því við ákváðum að nota tækifærið og uppfylla eina ósk hjá drengjunum sem var að fara í sund í Borgarnesi. Eftir sundferðina hentum við í okkur sveittum vegasjoppuborgurum í Hyrnunni áður en lagt var svo af stað heim með fulla tösku af ónotuðum stígvélum og pollafötum.

Karlinn að fara að vinna á morgun og Daði Steinn að byrja í leikskóla á miðvikudag þannig að það styttist í hefðubundnu rútínuna.

sunnudagur, júlí 24, 2011

Á góðri stund 2011

Sem fyrr skelltum við okkur til Grundarfjarðar á bæjarhátíðina Á góðri stund. Annað árið í röð var spáin ekkert spes og annað árið í röð slapp þetta alveg. Fimmtudagur og föstudagur alveg flottir og laugardagurinn með sól en full vindasamur. Svo fór að rigna í dag en það var allt í góðu, við vorum á leiðinni heim. Venjulega hef ég bara verið í fríi á föstudegi þessi helgi þannig að við höfum verið að koma á fimmtudagskvöldi í bæinn. Núna komum við upp úr hádegi á fimmtudeginum og það var gaman að sjá hversu fljótt og vel það gekk að skreyta bæinn, greinilega vant fólk þar á ferð. Á örskotsstundu, að mér fannst, var búið að strengja viðeigandi litaborða á milli flestra ljósastaura í bænum. Engir aðrir gestir þetta árið á Smiðjustígnum þannig að mamma fékk „bara“ 5-manna fjölskyldu yfir sig í ár.


Meðal skemmtiatriða á föstudagskvöldinu var knattspyrnuleikur milli Grundarfjarðar og Ísbjarnarins í 3ju deildinni, atburður sem var reyndar ekkert skemmtilegur fyrr en undir lokin þegar heimamenn tryggðu sér sigurinn í leik sem þeir voru að tapa þegar skammt var eftir. Ekki er annað hægt en að hrósa þeim sem standa að liðinu, ég hef aldrei farið á leik svo ég muni eftir þar sem sushi-bitar voru seldir í sjoppunni. Einnig var uppboð í hálfleik á áritaðri Grundarfjarðartreyju sem var slegin á 30.000 kall. Sá eldheiti heiðursmaður skellti sér strax í treyjuna en var orðinn sótsvartur af pirringi þegar ekkert virðist ætla að ganga hjá liðinu. Spígsporaði fram og aftur í brekkunni og lét svo eitt gullkornið flakka: „Af hverju hlaupa þeir ekkert. Helv... maður, ég verð að komast inná. 100 þúsund kall og ég fæ að fara inná, ég er í treyju og allt.“ Það er bara einn Geiri Ragga.


Að flestu leyti var þetta bara hefðbundin hátíð, grillveislan, leiktæki, fimleikasýning, skrúðgöngur og brekkusöngur. Mér fannst reyndar færra fólk en oft áður en fyrir mitt leyti var það ekkert verra, þægilegt að rölta um hátíðarsvæðið í góðum gír án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að stíga á einhverjar tær. Kannski einhverjir aðrir sem sjá þetta með öðrum augum.