miðvikudagur, desember 27, 2006

Feðgar munu berjast

Maður reynir að ala syni sína rétt upp í einu og öllu. Vitaskuld hefur maður reynt að miðla áfram ást sinni á hinum ýmsu knattspyrnuliðum til drengjanna. Felur þetta í sér tilheyrandi treyjukaup og annar heilaþvottur. Hefur þetta gengið vonum framar held ég, Logi Snær er svona enn að meðtaka hlutina en Ísak Máni er lengra á veg kominn enda haft meiri tíma til að meðtaka hin heilögu orð.

En einhversstaðar á leiðinni klikkaði eitthvað hjá mér með frumburðinn. Vitaskuld fékk hann Manchester United strax með móðurmjólkinni, það mátti ekkert klikka með það og ítalska stórveldið AS Roma fylgdi svo fljótlega. Reyndar ætlaði mamma hans að vera voða sniðug einu sinni og fékk hann til að segja að hann héldi með Inter Milan, bara til að stríða mér og tók hann þetta einum of alvarlega því ég var lengri tíma að leiðrétta þá vitleysu. Enn í dag held ég að hann beri einhverjar taugar til Inter.

En eitthvað var ég of lengi að taka við mér með að innprenta gæði Barcelona frá Spáni inn í kollinn á honum því ég vaknaði við þá staðreynd einn dag að hann sýndi helstu keppinautunum, Real Madrid, mikinn áhuga. Var svo komið að því meira sem ég tautaði og raulaði þá varð hann staðfastari í ást sinni á Real Madrid, enda getur drengurinn verið nautþrjóskur þegar þannig liggur við. Eftir mikla rannsóknarvinnu af minni hálfu um ástæðu þessa feilspors þá grunar mig að aðalástæðan sé meistari David Beckham. Ísak Máni horfði stundum á videóspólur af honum í Manchesterbúning þegar hann var ca. 4 ára, eða um það leyti þegar Beckham var seldur til Real og þannig held ég að tengingin sé til komin.

Fór svo að ég gafst upp og gaf honum Real Madrid búning í jólagjöf, jólin 2004. Á vissan hátt hef ég smá gaman af þessu, við höfum átt nokkrar umræðurnar um Victor Valdes vs. Iker Casillas, Puyol vs. Cannavaro o.s.frv.

Svo skemmtilega vildi til að ég keypti nýja treyju handa honum í jólagjöf en fékk sjálfur frá þeim bræðrum Barca treyju. Hér sé fjör.

þriðjudagur, desember 26, 2006

Líf óskast

Eftirfarandi póstur kom á spjallsíðu knattspyrnufélgasins Vals núna um hátíðirnar:

Upplýsingar um liðið
gusti | 24. des. 2006 17:35
Jaja árið að líða og nýtt tímabil að hefjast. Langt síðan hópurinn hefur verið svona stór og ætla mætti sterkur. Hef mikla trú á að næsta ár geti liðið náð lengra en undanfarið. Hvernig er annars ástandið á liðinu? Er ekki einhver sem getur tjáð sig um stöðu mála hjá meistaraflokknum reglulega svo hægt sé að fylgjast með því hvað er að gerast. Myndi bara skapa verulega skemmtilega stemmningu fyrir áhugamenn. T.d. liðsuppstillingar, hverjir eru að æfa, meiðsl ofl. Annars bara jólakveðjur

Jú, jú, gott þegar menn hafa áhuga á liðinu sínu en öllu má nú ofgera. Það var aðallega dagsetning póstsins sem ég staldraði við, og tímasetninguna. Eru þetta pælingarnar sem eru efst í kollinum á manni 25 mínútur áður en jólin skella formlega á? Sr. Friðrik heitinn yrði kannski ánægður, kannski ekki.

Get a life.

mánudagur, desember 25, 2006

Jólin þetta árið

Þá er hátindi jólanna lokið. Það var nú aðeins jólalegra að kíkja út í morgun heldur en í gær.Aðdragandi aðfangadagskvölds var nú alveg furðulega þægilegur og fljótur að líða. Ísak Máni fór ekki að ókyrrast verulega fyrr en um 5 leytið og Logi Snær fór bara og lagði sig rúmlega 4 og svaf til hálf 6. Hamborgarhryggur í matinn, a.m.k. hjá 75% af fjölskyldunni en Logi lét sér nægja þrjár skeiðar af skyri enda hálfkrumpaður enn eftir lúrinn.

Framkvæmd pakkaopnunnarinnar var tekin fastari tökum enn í fyrra, enda var búið að strengja þess heit að mistök ársins áður skyldu ekki endurtaka sig. Þá misstu stjórnendurnir öll tök á málunum tiltölulega snemma og ástandið á stofunni eftir þann pakkagjörning var svona:


Reynið að finna tvö börn á myndinni.

Núna var skipulagið meira, þó ekki á kostnað gleðinnar og ástandið eftir opnun var talsvert betra:Í dag fórum við síðan upp í Mosó eins og venjan er og fengum hangikjöt í hádeginu. Þar var borðað, spilað, borðað, horft á sjónvarpið, borðað, spilað aðeins meira og svo var borðað. Ísak Máni hélt svo litla tónleika á blokkflautuna sína en hann er að verða ansi fær á hana enda duglegur að æfa sig. Ég held að hann og Jökull frændi hans ætli að halda saman tónleika í fjölskylduboðinu um áramótin, það verður þó að koma í ljós.

Eitthvað af myndum frá aðfangadag komnar inn á myndasíðuna.

sunnudagur, desember 24, 2006

Jólin koma

Sjónvarpsdagskráin, stemmingin í útvarpinu, lyktin sem er að færast yfir húsið, spenningur meðal drengjanna, það er allt sem bendir til þess að jólin séu að koma. Eða næstum allt...

fimmtudagur, desember 21, 2006

"Die Video, Die"

Ég er nú yfirleitt mjög opinn fyrir öllum tækninýjungum og þessháttar hlutum. En mikið lifandi skelfing er þetta DVD dæmi farið að fara í mínar fínustu. Þegar að þessi tækni hóf innreið sína var maður bara ágætlega sáttur og ég verslaði nokkra gullmola á DVD en ég hef aldrei dottið inn í þennan pakka að þurfa að kaupa allar mögulegar og ómögulegar myndir á DVD bara svona til að eiga heima í hillunni. Enda svo sem ekkert fanatískur kvikmyndaáhugamaður þótt ég sé yfirleitt opinn fyrir því að kíkja á góða mynd. Gæðin úr imbakassanum eru miklu betri á DVD-inu heldur en gamla VHS-ið, ég veit það en það er aðallega úr hverju tæknin er gerð sem fer svona í mig.

Heima hjá mér er það þannig að börnunum finnst spennandi að gera ýmislegt sjálf, t.d. að setja videóspólu í tækið og DVD-ið er þar engin undantekning. Vandamálið er það að sá sem hannaði geisladiskinn átti engin börn, staðreynd sem ég ætla að halda fram því börn og geisladiskar eiga ENGA samleið. Þegar Ísak Máni var lítill gat hann hnoðað Bubbi byggir videóspólunni í tækið alveg einn, þótt hann missti spóluna einu sinni í gólfið í leiðinni þá skipti það engu máli, alltaf hélt Bubbi áfram að lenda í sömu ævintýrum á skjánum. Sami heiðurssmiður í DVD formi í höndum Loga Snæs er ekki að eiga eins langa lífdaga þótt Logi Snær sé nú ekkert harðhentari en Ísak Máni var á sínum tíma. Endalaus barnagrátur þegar Bubbi höktir alltaf á sömu stöðunum, hvernig á maður að skilja þetta þegar maður er bara 2ja ára? Nei takk, ég held ég haldi í þessi gömlu VHS barnamyndbönd á meðan ég hef einhvern kost á því. Og svo þegar Star Wars gullið mitt er farið að hökta, þá er mér öllum lokið.

sunnudagur, desember 17, 2006

Þetta er bara rugl

Kæri Jóli.

Ég er að gera mitt besta til að anda rólega yfir hátíðirnar en þetta er bara rugl. Ákvað í gær að reyna að tækla eitthvað af þessum fáu jólagjöfum sem ég þarf að redda. Fór fyrst í litla sérverslun niðri í miðbæ. Fékk ekki stæði nema einshversstaðar lengst í rassgati og svo þurfti ég nánast að bakka inn í þessi litlu búllu því það var svo stappað þarna inni. Barðist með straumnum í smástund þangað til ég sá útganginn aftur og náði að klóra mér aftur leið út.

Tók stefnuna niður í Skeifu, bara til að lenda í umferðarteppu þar. Komast þar í þessa einu búð sem ég þurfti að fara í þar, bara til að komast að því að það sem ég var að leita að var uppselt. Ætlaði svo aldrei að komast út úr þessari umferðarmenningarleysu sem er þarna.

En Jóli, ég var samt enn bjartsýnn og gerði heiðarlega tilraun til að fara í Kringlunna. Eftir að hafa leitað af stæði í 20 mínútur innan um alla hina bílana sem voru þarna í sömu erindagjörðum þá nennti ég því ekki lengur og ákvað að snúa heim á leið. Stoppaði á einum stað þó og náði að versla einn hlut, svona til að klára a.m.k. einn hlut í þessari verslunarferð.

Vaknaði svo í morgun og fór að endurhugsa hvernig best væri að versla þær gjafir sem ég á eftir. Var að fletta blaðinu á eldhúsborðinu og sá þá þennan eina hlut sem ég verslaði í gær auglýstan á tilboði í sömu búð og ég keypti þetta í, tilboð sem var ekki byrjað í gær. Frábært.

Gleðileg jól kæri Jóli.

Þinn Davíð.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Jólaandi

Kæri Jóli.

Ég er í smávægilegum vanda. Núna styttist í jólin og ég er eiginlega ekki að nenna þessu. Ekki misskilja mig, stemmingin kemur án efa til með að batna þegar nær hámarkinu dregur og ég verð án efa í fínum gír á aðfangadag þegar steikin er komin í ofninn og verð ekki í verri málum þegar börnin mín fara að opna pakkana o.s.frv. En núna er ég bara eiginlega ekki að nenna þessu. Allar búðir kjaftfullar af fólki sem verða að kaupa allt sem í boði er, hvort Diddi móðurbróðir hennar Fíu frænku vilji þennan geisladisk eða hvort eigi frekar að kaupa handa honum bók...

Núna hamast allir að segja mér að það sé líka nauðsynlegt að kaupa sér flatskjá eða fá sér nýja eldhúsinnréttingu, allt til að klukkan 18 á aðfangadag verði heimilið eins og klippt út úr einhverju tískublaði og allt verði fullkomið. Það er nefnilega málið, þetta á allt að vera svo fullkomið að ég gæti kastað upp.

Þú verður bara að fyrirgefa kæri Jóli að núna tæpum tveimur vikum fyrir jól er ég ekki að fíla stútfullar verslunarmiðstöðvar og endalausa auglýsingabæklinga með hinu og þessu hégómadrasli sem gerir það að verkum að ef maður dansar með þá fer Visa reikningurinn í febrúar með allt til fjandans og maður upplifir timburmenn dauðans. Til hvers? Til að upplifa einhverja fullkomnun þegar maður er að skera hamborgarahrygginn á aðfangadag?

Æi Jóli, ég reyni samt bara að draga andann djúpt og chilla þessa daga fram að jólum, ég neita að taka þátt í allri þessari hlaup-kaup vitleysu. En núna verð ég samt að fara að huga að jólakortunum.

Þinn Davíð.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Hve glötuð er vor æska?

Fór í ræktina í dag eftir vinnu. Ekkert stórvægilegt við það svo sem, fór svo í sturtu eins og gengur og gerist. Það er vitaskuld þverskurður af þjóðfélaginu í ræktinni og maður hefur séð margan furðufuglinn en þetta sem ég varð vitni af í dag í sturtunni var too much.

Þrír félagar saman í ræktinni í sturtu, svona ca 17 ára og allir með útlitið á hreinu og umræðan, sem var á háværari nótunum, frekar meinlaus. Þeir voru í vandræðum með að mæla sér mót á sama stað á morgun því einn af þeim sá ekki fram á að geta vaknað klukkan 1 eftir hádegi eins og hinir vildu. Svo var rætt um próteindrykki o.s.frv. en síðan fór þetta á hálan ís.

"Varstu að raka þig í gær?" heyrðist í einum.
"Já, ég er að fá einhverjar djö... bólur eftir það, þoli þetta ekki." svaraði annar.
"Af hverju notar þú ekki háreyðingarkrem?" heyrðist þá í þeim þriðja.

Mér til mikillar skelfingar voru þeir ekki að tala um þessi týpísku andlitshár heldur svæðið í kringum félagann, enda kom á daginn að piltarnir voru allir frumskógarlausir á því svæði.

Þegar ég yfirgaf búningsklefann þá ætlaði ég varla að komast út því þeir voru allir að klæða sig fyrir framan spegilinn.

Kannski er þetta bara ég en það er eitthvað við þetta sem mér fannst too much.

sunnudagur, desember 10, 2006

Tölvuvæðing heimilisins komin út fyrir alla skynsemi

Ástandið hérna á heimilinu er hálffurðulegt. Það eitt og sér telst kannski ekki til tíðinda en maður veit ekki alveg hvernig maður á að taka þessu öllu.

Fyrr á þessu ári sem er að líða hrundi fartölvan mín, eina tölvan á heimilinu og því var lítið annað hægt en að fjárfesta í nýrri því ekki gengur að hafa engan svoleiðis grip á heimilinu. Mig minnir að ég verði löggiltur eigandi gripsins um mitt næsta ár.

Hvað um það, svo gerist það í vinnunni hjá mér að ég fékk nýja tölvu, gamli borðhlunkurinn var fjarlægður og ég fékk fartölvu í staðinn. Þannig að nú var kominn möguleikinn á að vera með tvær fartölvur á heimilinu, þótt reyndar ég nenni nú alls ekki alltaf að dröslast með vinnutölvuna heim. Rosa gaman að við hjónaleysin gætum núna verið á netinu á kvöldin í sitt hvorri tölvunni svona á meðan maður horfði á sjónvarpið með öðru auganu. Klikkað.

Ef þetta var ekki nóg fyrir heimilisfólkið þá dúkkaði 3ja gripnum upp núna fyrir helgi. Málið var þannig að fyrir fáránlega löngum tíma fjárfestu atvinnurekendurnir hennar Siggu í einhverjum fjölda af fartölvum sem átti að útdeila meðal vissra starfsmanna. Eitthvað stóð á útdeilingunni en þetta hafðist nú loksins og Sigga var meðal hinna heppnu.Ástandið í stofunni getur því núna verið ansi athyglisvert, 3 fartölvur, allar með sitt hleðslutæki og mismunandi gögn í hverri. Maður ráfar því stundum á milli græjanna eins og geðsjúklingur því í vinnutölvupósturinn er í einni en myndaalbúm fjölskyldunnar er í annarri. Svo var alltaf spurning í hvaða grip þetta eða hitt skjalið var.

Það eru mismunandi vandamálin í heiminum.

mánudagur, desember 04, 2006

Sögur af sjúklingnum

Logi Snær búinn að vera lasinn, hefur ekki mætt á leikskólann í viku og sama sem ekkert farið út úr þessum 90 fermetrum sem við höfum til umráða á þeim tíma. Spennandi. Fyrst einhver kvefpest með hita og þurrum lungnahósta sem leiddi síðan út í eyrnabólgu. Kannski ekki skrítið að það sé svona almenn la-la stemming hérna. Þetta horfir nú allt til betri vegar, hann verður sendur út í umheiminn á miðvikudaginn ef allt gengur upp.

Þetta er harðákveðinn ungur maður og að nota smekk er ekki ofarlega á vinsældarlista þessa dagana. "Nei pabbi, ég borða bara yfir" sem þýðir að hann vilji frekar borða yfir disknum en nota smekk.

sunnudagur, desember 03, 2006

Ekki gera ekki neitt

Ísak Máni er búinn að taka þátt í tveimur viðburðum núna á stuttum tíma, annars vegar fótboltamót og hins vegar sundsýning. Á þessum viðburðum var sami styrktaraðili, ákveðið innheimtufyrirtæki hérna í bæ. Núna á Ísak Máni sem sagt verðlaunapening og vatnsbrúsa með lógói þessa fyrirtækis og hefur sagt við mig eftir þessa viðburði: "Pabbi, manstu eftir þessu?" þegar við rekumst á auglýsingar þessu tengt í fjölmiðlum eða á förnum vegi.

Spurning hvort verið er að hamra á skilaboðum í þessum stíl sem eiga að rata til foreldranna sem eru að sköltast með gríslingana á þessa viðburði eða hvort verið sé að undirbúa gríslingana sjálfa þegar þeir komast á þann aldur að þeir verði í áhættuhópi um að ráða ekki lengur við gemsareikninginn. Þá er gott að þau þekki lógóið og viti fyrir hvað það standi.

Á meðan ekki kemur umslag með þessu lógói úr póstkassanum stílaðan á einhvern á heimilinu þá ætla ég ekkert að hafa þetta framarlega í minniskubbnum.