mánudagur, september 30, 2013

Öðruvísi áður mér brá

Það verður bara að segjast.  Af því fótboltatengdi dóti sem ég hef verið að dunda mér við á sumrin var þetta sumar talsvert frábrugnara en síðustu ár.

Af Old boys Fylkir:  Ekki fékk ég símtalið þetta vorið með beiðni um að standa á milli stanganna hjá Fylki eins og ég hafði gert þrjú síðustu sumur.  Maður bjóst s.s. við því enda undirritaður ekki að kafna úr áhuga þarna undir lokin og ég held að það hafi nú alveg komið fram.  Ég er með smámóral yfir því hversu lítið (lesist: ekkert) ég sakna þess að vera sjálfur í tuðrusparkinu.  Maður hefur líklega alveg óverdósað með Vatnsberunum hérna um árið.  Þetta er bara orðið ágætt.

Af Pepsídeildinni:  KR-ingar voru að lyfta dollunni um síðustu helgi, alveg hreint frábært eða þannig.  Ég hef reynt að hafa það að reglu að taka einn leik á Hlíðarenda á sumri, eða a.m.k. einn leik með Val, svona for old times sake.  En það verður að segjast að það klikkaði algjörlega, ekki fór ég á svo mikið sem einn leik með Valsmönnum þetta sumarið.  Ég tók hinsvegar einn leik í Ólafsvík, þegar Víkingarnir tóku á móti Stjörnunni og gerðu 1:1 jafntefli.  Það var nú alveg must fyrst að Snæfellsnesið átti fulltrúa í efstu deild.  Verst að þeir fóru aftur niður en það var nú víst viðbúið.

Af ÍR:  2. deildin í fótbolta var að klárast fyrir einhverjum tveimur vikum en þangað féll ÍR síðasta haust.  Þeim gekk í sjálfu sér nokkuð vel í 2. deildinni, fóru inn í þetta með mikið breytt og mjög ungt lið og lentu í 4. sæti, tveimur stigum frá því að komast upp en einungis 2 stig skildu fyrsta sætið frá því fimmta.  Við Ísak Máni sáum einn hálfleik í sumar, síðari hálfleik á móti Gróttu út á Seltjarnarnesi en þá var það upptalið þannig að maður mætti ekki á svo mikið sem einn heimaleik.  Það hefur örugglega ekki gerst í 7-8 ár og verður að teljast skandall.  Ég ætlaði að taka síðasta leikinn en Stingermótið í Seljaskóla kom í veg fyrir það, kennir manni það að aldrei treysta á síðasta sjéns, í þessu sem öðru.

Af Grundarfirði:  Nýja 3ja deildin kláraðist um miðjan september með Grundarfjörð innanborðs.  Hérna verður að segjast að þetta var eini liðurinn sem flokkast innan míns áhugasviðs hvað tuðruspark varðar sem ég var að standa mig í sumar.  Maður fylgdist nokkuð vel með uppáhaldssveitaliðinu mínu, tók slatta af heimaleikjunum þeirra en þetta var óttarleg sveitadeild og því ekki mikið hægt að elta þá.  Tók nú samt leik með þeim í Hafnarfirði á móti ÍH og Augnablik í Kópavogi - þar sem n.b. ég var rukkaður um þúsundkall fyrir að fá að horfa á, sem mér fannst alveg magnað.  Tók svo eitt tvist þar sem sumir fjölskyldumeðlimir voru búnir að væla um að prufa sundlaugina á Hellu.  Hvað gera menn þá?  Jú, velja laugardaginn þegar Grundarfjörður átti að spila við KFR á Hvolsvelli og gera piknik ferð úr öllu saman. 

Ég ætla að gera betur næsta sumar...

sunnudagur, september 22, 2013

Íslandsmeistaratitill og sverðagleypir, annars hefðbundið bara...

Haustið að koma og það þýðir að konan á það til að detta í rollurassaeltingaleik upp um sveitir.  Sú var reyndin þessa helgina og það var því eingöngu boðið upp á karlhormón á þessu heimili.

Laugardagurinn hófst með fimleikaæfingu hjá Daða Steini.  Honum finnst voða gaman þegar á hólminn er komið en hann hefur verið með smá mótþróa fyrir æfingarnar og tilkynnir okkur að hann sé hættur að æfa.  Veit ekki hvort barnatíminn í sjónvarpinu hefur þar eitthvað að segja en við verðum að halda áfram.  Af fenginni reynslu í gegnum tíðina eru þó morguntímar kl 10:00 svo margfalt betra en kl 09:00, það er alveg ótrúlegt hvað þessi eini klukkutími breytir þessu miklu.

Síðdegis tók við næsti dagskráliður, Íslandsmótið í svokölluðum Stinger í íþróttahúsinu í Seljaskóla.  Þetta er þriðja árið sem ÍR og Karfan.is heldur þetta mót og ég hef nú fjallað um þetta hérna áður en Ísak Máni hefur alltaf tekið þátt.  Núna var boðið upp á það að hafa þetta mót tvískipt í fyrsta skipti, þ.e. fullorðinsflokkur (12 ára +) og minniboltaflokkur (11 ára og yngri).  Enn hafa menn ekki náð að rífa upp mætinguna mikið út fyrir hverfið þó sáust þarna m.a. KR-ingar þetta árið.  Logi Snær tók þátt í yngri flokknum og gerði sér lítið fyrir og sigraði það.  Hlaut í sigurverðlaun myndarlega medalíu, kassa af Gatorate, karfan.is svitaband, inneign á Nings og gjafabréf á einhvert 6 vikna stökkkraftsæfingaprógram sem verður mjög athyglisvert að sjá hvernig virkar.  Menn verða þá kannski farnir að troða körfuboltanum fyrir fermingu.  En kannski var fyrst og fremst heiðurinn að vera fyrsti Íslandsmeistarinn í Stinger í þessum flokki, það verður ekki tekið af honum.  Verst finnst mér þó að drengurinn er ekki að mæta á æfingar það sem af er hausti, æfingarnar eru á sömu dögum og fimleikarnir og það er einhvern veginn ekki að virka.  Veit ekki hvernig við leysum það.  Ísak Máni keppti svo í fullorðinsflokknum og þar var myndarlegur hópur sem tók þátt, m.a. framtíðar, fyrrverandi og núverandi meistaraflokksmenn hjá ÍR ásamt einhverjum sem ég kann engin deili á.  Ísak Máni náði að hanga inni í baráttunni lengi vel og var sá fjórði síðasti sem datt út og hafnaði því í 4. sæti sem verður að teljast mjög flottur árangur.  Svo skemmtilega vildi til að sá sem lenti í öðru sæti og var á eftir Ísaki Mána í röðinni var með Go-Pro vél á bringunni og vitaskuld er það komið á netið.  Það er því hægt að sjá hvernig svona leikur virkar og Ísak Máni græddi heilmikið á því að vera á undan honum í röðunni því vitaskuld var hann sjálfur mikið í mynd.  Glittir meira að segja í undirritaðan undir lokin þegar hann var gripinn í aðstoðarhlutverk við medalíudreifingar.  Myndbandið má sjá - HÉR -

Silfur og gull í minniboltaflokknum
Ekki var hægt að slóra lengi eftir það því Ísak var að fara í afmæli og við Logi Snær áttum miða í Háskólabíó á svokallaðan Heimsmetadag Ripleys sem þýddi að koma þurfti Daða einhversstaðar fyrir en Guðrún og co tók það að sér.  Þessi Heimsmetadagur var eitthvað dæmi sem sett var upp til að slá heimsmet í hinum furðulegustu athöfnum, einhver met voru til fyrir en svo var sumt sem hafði víst aldrei verið formlega reynt áður og því hægur vandi að setja heimsmet í því.  Það var búið að koma einhverju nafni í þessum fræðum, Dan Meyer, til landsins en hann er víst hluti af þessum Ripleys Believe-it-or-not heimi og er sverðgleypir og sýndi listir sínar á sviði.  Hann tók m.a. þátt í America´s got talent 2009.  Heilt yfir ágætis atriði en svolítið langt prógramm fyrir minn smekk, mikið af börnum í salnum og þetta var alveg á nippinu að menn héldu þetta út.

https://fbcdn-sphotos-a-a.akamaihd.net/hphotos-ak-prn2/1264507_589240454451563_1144534696_o.jpg

Sunnudagurinn átti að fara í meiri afslöppun, a.m.k. skipulagslaust dundur, horfa á fótbolta í kassanum og svoleiðis.  Boltagláp er reyndar ekki alltaf afslöppun og svo var það ekki í dag.  Man City flengdu Man Utd 4:1, skipti svo yfir á Valur-KR þar sem Vesturbæingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn á Hlíðarenda og fylgdist jafnframt með á netinu þegar Ólafsvíkingar féllu aftur niður í 1. deild.  Sá að lokum svo líka restina af Giants - Carolina í NFL sem fór 0:38, ekki gott.  Einu flottu fréttirnar af boltanum í dag var 2:0 sigur Roma á Lazio, annað var meira bara rusl.

föstudagur, september 20, 2013

Uppfærsla

Fyrir nokkru datt mér í hug að nördast svolítið og versla mér eitt stykki myndavél í svona aðeins öflugari flokknum en þessar hefðbundu vasamyndavélar.  Var samt ekki alveg 100% hvert ég ætlaði með þetta, Ísak Máni var í boltanum og mig langaði að prófa að vera gaurinn með græjurnar á hliðarlínunni, en sá mig samt engan veginn vera að brölta upp einhverja fjallshlíðar til að mynda einhverja fossa.  Ekki misskilja mig, ég get orðið alveg kjaftstopp af fegurð fjalla- og fossaljósmynda en ekki endilega mitt áhugasvið í framkvæmd.  Þróunin hefur líka verið líka sú að mér finnst langskemmtilegast að mynda sport, íþrótta- og actionmyndir en velheppnaðar svoleiðis myndir eru alveg priceless.  Mitt mat.

OK, ég var s.s. búinn að bröltast með mína Canon 400D (fyrir þá sem það segir eitthvað) og ódýru 75-300mm linsuna fyrir útimyndatöku en smellti 85mm 1.8 linsu á trýnið þegar Ísak Máni og Logi Snær í körfubolta voru myndefnið.  Karlinn var ekki alveg sáttur, of oft sem möguleiki á priceless stöffi varð ekki í fókus af því að fókussystemið á græjunni réð ekki alveg við þennan hraða.  Þá er því orðið svolítið síðan að ég vissi hvað ég vildi gera, eftir að hafa lesið mér til og rætt við fróðari menn.  Mig langaði að uppfæra græjuna upp í alvöru fallbyssu sem réði við hraða og læti.  Og ég bara gerði það.

Seldi gamla dótið, nema 85mm linsuna, til að redda fjármagni upp í gamlan ás, Canon 1D - Mark II (fyrir þá sem það segir eitthvað) og 17-40mm linsu.  Ég ætla að testa þetta í vetur og sjá hvað kemur út úr þessu, í versta falli selur maður þetta aftur og notar bara Samsung símann í myndatökur eins og allir aðrir.  Kannski dettur manni í hug að fara brölta á fjöll.


þriðjudagur, september 03, 2013

Facebook

Það færist hér til bókar að undirritaður er formlega kominn á feisbúkk, frá og með 1. september sl.  Svo sem ekkert eitt sem ýtti karlinu yfir í þetta með seinni skipum, frekar svona margir litlir.  Fullmargir vinnufundir sem hafa komið upp þar sem ræddir eru möguleikar á að nýta facebook til að auka sölu eða koma ákveðnum vörumerkjum í meira top-of-mind o.s.frv þar sem menn voru ekki alltaf umræðuhæfir.  Svo var ekki orðið hægt annað en að fylgjast með nánustu fjölskyldumeðlimum í gegnum þennan miðil.  Það verður að koma í ljós hversu aktívur maður verður þarna og hvað áhrif þetta hefur á þessa síðu.  Feisbúkk eður ei, þá er alltaf planið að halda lífi í þessari bloggsíðu þó eitthvað hafi hægst á pistlunum.