þriðjudagur, september 30, 2008

Fátt er svo með öllu illt

Þegar allt virðist vera að fara til fjandans á klakanum er erfitt að sjá eitthvað jákvætt. Eða hvað? Ég var að lesa núna í gær:

„If they think a show is really poor, they can hit a red button to indicate they´d turn it off at home. U.S. networks such as CBS and Fox pay as much as $20.000 per two-hour session to find their shows´ weak points.“

Hvert er ég að fara? Jú, núna gat ég bara umreiknað dollarann með því að smella tveimur núllum fyrir aftan til að fá út verðmætið í íslenskum krónum. Rosa þægilegt.

Í öllu svartnætti verða menn að reyna að sjá ljósið.

fimmtudagur, september 25, 2008

Fótboltaferðin til London

Fór í sannkallaða fótboltaferð um síðustu helgi. Vorum fimm úr vinnunni sem keyptum okkur pakka frá Iceland Express á West Ham - Newcastle á laugardeginum og höfðum náð að útvega okkur miðum á Chelsea - Manchester United á sunnudeginum.

Flugum út á föstudeginum og eyddum þeim degi í almennt chill, aðallega á Chelsea hótelinu enda tveir gallharðir Chelsea menn í hópnum. Leikurinn á laugardeginum á Upton Park og tókum við leigubíl á svæðið. Þetta var eins og alvöru heimsreisa, tómir indverjar í því hverfi. Við fundum bullubarinn þeirra West Ham manna og þar voru menn hressir. Gríðarleg stemming og fljúgandi bjór út um allt. Leikurinn var flottur, Gianfranco Zola að stýra West Ham í sínum fyrsta leik og landi hans Di Michele að byrja sinn fyrsta leik. Hann setti tvö í 3:1 sigri þar sem við sáum Michael Owen laga stöðuna fyrir Newcastle. Stemmingin fín á vellinum og allir sáttir.



Það var búið að segja okkur að koma okkur út úr þessu hverfi hið fyrsta og skella okkur aftur í miðbæ London. Eftir leikinn var svo rosalegur fjöldi að fara í undergroundið að við ákváðum að rölta aðeins og athuga hvort við gætum ekki fundið leigubíl. Ákvörðun sem var eftir að hyggja frekar slæm. Eftir talsvert þramm í einhverja átt í þessu vafasama hverfi fundum við litla, subbulega „leigubílastöð“. Enginn bíll á staðnum en okkur var lofað bíl. Eftir að hafa hangið þarna í góðan klukkutíma inn í sóðalegri setustofu að horfa á Americans funniest homevideos á milli þess að rölta út til indverjans á horninu að kaupa öl þá kom loksins bíll. Við settumst inn og tiltókum hótelið okkar. Eitthvað varð indverskættaði bílstjórinn skrítinn á svipinn og upp kom úr kafinu að hann rataði ekki þangað. Ok, við sættum okkur við að hann myndi bara skutla okkur á Piccadilly eða bara eitthvað down-town London. Sorry, bílstjórinn hafði ekki hugmynd um hvað við vorum að tala um. Nýr bíll var boðaður á svæðið og öðrum klukkutíma seinna kom hann á svæðið. Sá bílstjóri vissi nú ekki mikið meira en hinn fyrri en var með svona GPS tæki eða hvað þetta heitir og eftir að við stöfuðum fyrir hann Oxford Street þá gátum við haldið af stað. Óskaplega var gott að komast út úr þessu hverfi.

Tókum sunnudaginn snemma og komum okkur bara út á Stamford Bridge. Ruud Gullit á svæðinu þegar við komum og vakti talsverða lukku. Fórum vitaskuld á So bar, bullubar Chelsea manna, sem er hluti af stemmingunni. Flottur leikur sem við fengum, ég var að gæla við það að Berbatov myndi setja sitt fyrsta mark fyrir United en það hafðist nú ekki. Við komumst yfir með marki frá Park en Chelsea menn jöfnuðu einhverjum 11 mínútum fyrir leikslok, 1:1 lokastaðan. Það gátu allir gengið þokkalega sáttir frá því held ég. Höfðum ekki mikinn tíma eftir leikinn, rétt klukkutíma áður en bíll sótti okkur til að skutla okkur út á flugvöll. Náðum að sjá einhverjar hetjur þarna á hótelinu, Deco, Ballack, Malouda ásamt því að Marcel Desailly var að þvælast þarna. Tókum svo í spaðann á gömlu Chelsea hetjunni Kerry Dixon á leiðinni út af hótelinu. Fyndið svo í lokinn að þegar bíllinn kom að sækja okkur sem var flottur Benz, þá lentum við á eftir bílnum hans Ashley Cole. Að bílnum hans hópaðist talsvert af fólki og hann stoppaði í smá stund. Okkur leið eins og kjánar þarna stopp á eftir honum, algjörir treflar.

Í heild bara flott ferð, flottir leikir og mikil gleði. Bara alveg eins og þetta á að vera.

miðvikudagur, september 17, 2008

Rúta óskast

Óska eftir nýlegri rútu til að ferja fimm manna fjölskyldu á milli staða með góðu móti.

Á sama stað óskast 3ja hæða koja, helst í skiptum fyrir eina 2ja hæða.

Afhending miðast við miðjan mars 2009.

Nýtt hlutverk

Magnað hvað það getur verið spennandi að fá svona gamlar gardínur að gjöf. Reyndar tók mamman sig til og umbreytti þeim aðeins og fá þær því nýtt hlutverk. Nátthúfa í kaupbæti!

fimmtudagur, september 11, 2008

Dr. Lárus, I presume?

Hef rætt um það hérna áður held ég hversu rosalega ómannglöggur ég get verið og hversu slæmt það getur verið í vinnunni þar sem ég hitti talsvert af fólki. Sem og í hinu daglega lífi svo sem.

Var að versla í Nettó á dögunum, rétt fyrir lokun. Sá þar mann sem ég kannaðist svo rosalega við en gat bara ekki áttað mig á því hver þetta var. Sá hann svo aftur í biðröðinni við afgreiðslukassa og ákvað að fara í einhverja aðra biðröð bara svona til öryggis ef hann myndi nú þekkja mig og þetta yrði eitthvað vandræðalegt. Sat svo heima í sófanum síðar um kvöldið og þá kom þetta allt í einu upp í kollinn á mér hver þetta var. Þetta var sko heimilislæknirinn minn.

Ég ætla að telja mér trú um að þetta sé hraustleikamerki að þekkja ekki alveg í svipinn heimilislæknirinn sinn.

miðvikudagur, september 10, 2008

Logi Snær á landsleik en pabbinn úti á túni

Áhorfendametið á knattspyrnuleik á Íslandi er 20.204. Laugardalsvöllurinn 18. ágúst 2004 þegar Ísland spilaði vináttuleik við Ítali. Við Ísak Máni vorum þar þann dag og eigum því hlut í því meti og sáum Eið Smára og Gylfa Einarsson skora mörkin í 2:0 sigri. Þetta var fyrsti alvöru leikurinn sem Ísak Máni fór á, rétt rúmlega 5 ára og ég man að mér kveið svolítið fyrir þessu því ég var ekki viss hvort hann myndi endast í sætinu sínu allan tímann. Það var ekki vandamál þegar á reyndi.

Nú var komið að Loga Snæ. Vantar nú einhverja 5 mánuði í 5 ára aldurinn en nú átti að láta verða af því að fara með drenginn á landsleik. Ísland - Skotland sem var í kvöld. Ég keypti 4 miða á netinu, fjölskyldustund skiljiði... Áttaði mig svo á því þegar ég sat fastur í umferðarsultu á leiðinni í vinnuna á mánudagsmorguninn að ég var fastur í öðru verkefni þetta kvöld, nokkuð sem ég hefði átt að kveikja á þegar ég verslaði miðana. Svona er ég stundum.

Það var því ekki annað hægt að gera en að fá staðgengil í mitt sæti og tók Guðrún það að sér. Logi Snær komst í gegnum þetta þrátt fyrir að vera vanur því á ÍR vellinum að horfa í smástund og fara svo afsíðis í smá boltaleik sjálfur, nokkuð sem er víst ekki alveg í boði á þjóðarleikvangnum. 1:2 tap fyrir Skotum og tæplega 10.000 manns, fullur völlur eins og hann er í dag.

Ég hinsvegar var staddur í húsakynnum HR í fyrsta tímanum í námskeiðinu sem ég skráði mig í á þessari önn. Mögulega meira um það síðar.

þriðjudagur, september 09, 2008

Á erlendri grundu

Ég er búinn að vera reyna að leika fyrirmyndarföðurinn þessa síðustu daga. Sigga fór í einhverja skólaskoðunarferð á miðvikudaginn síðasta en ferðinni var heitið til Svíþjóðar með viðkomu í Köben, hún kom svo heim núna síðastliðin sunnudag. Held að allir og allt hafi sloppið án teljandi skaða þrátt fyrir móðurleysið. Pizza kannski fulloft í kvöldmatinn en hey, þetta voru nú einu sinni strákadagar.

En annars af utanlandsferðum í fjölskyldunni. Hvað eiga þessir tveir knattspyrnuleikir sem háðir verða í Lúndúnum sameiginlegt?

Tími: Laugardagur 20. september 2008
Staðsetning: Upton Park
Viðburður: West Ham United - Newcastle United

Tími: Sunnudagur 21. september 2008
Staðsetning: Stamford Bridge
Viðburður: Chelsea - Manchester United

Jú, ég verð þar...

mánudagur, september 08, 2008

Markakóngur

Það er alltaf gaman þegar manni er komið ánægjulegt á óvart. Tala nú ekki um þegar börnin manns eiga í hlut.

Ísak Máni var að keppa á fótboltamóti í dag, eitthvað haustmót á vegum KSÍ í Egilshöll. Fyrir fyrsta leik tók hann á sig rögg og bað þjálfarann um að setja sig í fremstu víglínu, staða sem hann hefur afar sjaldan fengið að spila en hann hefur meira verið í vörn og marki. Það varð úr, fremsti maður í leik á móti Val. Byrjaði á því að fá þetta líka úrvalsfæri en hitti ekki rammann. Hausinn seig svolítið og pabbinn bað æðri máttarvöld um þó ekki væri nema eitt mark handa stráknum svo þetta yrði nú ekki bara böl. Einhver hefur verið að hlusta og strákurinn náði að setja eitt, úr talsvert erfiðara færi en því sem misfórst og hausinn reis upp. Valur jafnaði áður en Ísak Máni smellti inn sigurmarkinu. Skoraði svo eitt mark í næsta leik líka en var svo í marki í leik nr. 3, í þeim eina sem tapaðist. Fékk að fara fram í síðasta leikunum og sagði við pabba sinn að hann ætlaði að skora þrennu en karlinn reyndi nú að halda sínum niðri á jörðinni. Iss, 4:1 sigur á móti Þrótti og Ísak Máni með öll kvikindin. 7 mörk í þremur leikjum sem útispilari og hann snerti varla jörðina á leiðinni út úr höllinni.

Ég er ekki að sjá að hann fáist til að spila einhverja stöðu á sínum eigin vallarhelming í bráð.

sunnudagur, september 07, 2008

Skilgreining á unglingum

Pabbi hans Loga: „Er Ísak Máni orðinn unglingur?“
Logi Snær: „Já.“
Pabbi hans Loga: „Hvað eru unglingar?“
Logi Snær: „Það eru svona fótboltamenn og handboltamenn. Og Skagamenn.“

Þar hafi þið það.

föstudagur, september 05, 2008

Skilningsleysi

Oft er mér alveg fyrirmunað að skilja Kanann. Sá á netinu að NBA körfuboltaliðið Seattle Supersonics hefur verið flutt til Oklahoma og heitir núna Oklahoma City Thunder. Stutta útgáfan af forsögunni var að kaupsýslumaður, Clay Bennett, kaupir Supersonics liðið árið 2006 og náði ekki samningum við Seattle borg um nýtt svæði fyrir félagið. Hvað gera bændur, eða öllu heldur kaupsýslumenn, þá? Jú, þeir fara bara með liðið eitthvað annað...

Þetta hefur svo sem gerst áður og ég held fast í Vancouver Grizzlies búninginn sem ég á inn í skáp og áskotnaðist þegar Villi bróðir bjó þarna úti og tel mér trú um að búningurinn hafi söfnunarlegt gildi. Ég er líka alltaf að spá í að fara setja til hliðar Vancouver Grizzlies glösin sem ég á upp í skáp, svona í söfnunarlegum tilgangi líka. Fyrir þá sem þekkja ekki Grizzlies-söguna þá var þetta NBA lið stofnað í Kanada 1995 en flutti svo til Memphis 2001 og varð þá Memphis Grizzlies.

Ekki það að þetta hafi eitthvað tilfinningalegt gildi fyrir mig en mér finnst þetta bara alltaf óheyrilega asnalegt þegar þetta gerist. Í tilfelli Sonics fékk Seattle borg greiddar einhverjar bætur fyrir sinn „missi“ en hvað með íbúana og stuðningsmennina? Manni finnst furðulegt að í landinu þar sem það eitt að missa saltstauk á tánna á þér á McDonalds getur tryggt þér fjárhagslegt öryggi það sem eftir er, að einhver sæki ekki einhvern til saka í þessu máli. Menn sitja kannski uppi með fullan fataskáp af merktum liðsfötum af einhverju liði sem ekki er lengur til. Að ég tali nú ekki um þann tilfinningarússibana sem getur fylgt því að það er bara ýtt á „EYÐA“ takkann varðandi liðið þitt.

Eða hvað?

The SuperSonics nickname, logo and color scheme will be made available to any future NBA team in Seattle. According to the team's new owners, the Sonics' franchise history will be "shared" between the Thunder and any future Seattle team.

Afsakið, en ef einhverjum dettur í hug að koma með nýtt lið til Seattle er það þá nýtt lið eða ekki? Hvernig getur saga íþróttafélags verið „shared“ milli tveggja félaga? Eru bæði liðin sama liðið en samt ekki? Hversu fáránlegt er það? Með hvaða liði eiga gömlu stuðningsmennirnar að halda?

Nei, mér er bara fyrirmunað að skilja þetta.